Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Acta synodalia

Samkomur embættismanna kirkjunnar til þess að fjalla um málefni hennar voru kallaðar prestastefnur eða synodus. Þær munu hafa verið haldnar nokkuð reglulega í kaþólskum sið frá því á 15. öld. Skálholtsbiskupar virðast hafa haldið prestastefnur nokkuð reglulega eftir siðaskipti, en í Hólabiskupsdæmi virðast þær óreglulegri þangað til á 17. öld. Prestastefnur greindust í almennar prestastefnur, sem voru tvær, önnur fyrir Skálholtsbiskupsdæmi, hin fyrir Hólabiskupsdæmi, og sérstakar prestastefnur, héraðsstefnur, en þær voru haldnar fyrir ákveðin héruð eða landshluta, oft á visitasíuferðum biskups. Þegar Ísland varð eitt biskupsdæmi, árið 1801, varð prestastefna ein, haldin í Reykjavík. Á prestastefnu voru rædd málefni kirkjunnar, gerðar samþykktir og birt opinber bréf og tilskipanir, sem vörðuðu kirkjuna.1Einar Laxness, Íslandssaga i-r. Reykjavík 1995, bls. 185-186; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 18-19, 29-34; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 83-84; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 67-68.

Acta synodalia eru fundargerðir prestastefna, sem safnað hefur verið saman af einstökum prestum eða próföstum, en prestum bar að færa slíkar fundargerðir inn í endurritabækur.

Núgildandi (2017) ákvæði um prestastefnur eru í 28. grein laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí:

Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar.
Á prestastefnu eiga setu og atkvæðisrétt vígslubiskupar og allir starfandi þjóðkirkjuprestar skv. 33. gr., svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands með guðfræðimenntun og guðfræðingar sem gegna föstum störfum á vegum þjóðkirkjunnar. Aðrir prestar og guðfræðingar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti enda séu þeir innan safnaða er starfa á játningargrundvelli evangelísk-lúterskrar kirkju.
Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr. 10., 11. og 20. gr.2Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 28. september 2017.

Á síðari kirkjuþingum hefur verið rætt um endurskoðun þessara laga.

Gagna frá prestastefnum er fyrst og fremst að leita í skjalasöfnum Skálholts- og Hólabiskupa og síðar biskups yfir Íslandi.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Einar Laxness, Íslandssaga i-r. Reykjavík 1995, bls. 185-186; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 18-19, 29-34; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 83-84; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 67-68.
2 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html, sótt 28. september 2017.