Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

alin

alin, íslensk: Forn íslensk alin hefur verið ætluð 47–49 sm, en er óviss. Magnús Már Lárusson nefnir bæði 47,7 sm og 55,6 sm.1Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, bls. 242. — Svonefnd Hamborgaralin mun almennt hafa verið notuð á Íslandi á 17. og 18. öld, jafnan kölluð íslensk alin, 57,1 sm. Nánar: 57,064 sm eða 219/11 þumlungur danskur. Sjá t.d. rentukammerbréf 25. apríl 1761.2Lovsamling for Island III, bls. 438–439. Ellefu Hamborgarálnir voru jafngildar 10 dönskum álnum. Hamborgaralin var bönnuð á Íslandi með verslunartaxta árið 1776 en bannið ekki birt á alþingi fyrr en árið 1786.3Lovsamling for Island IV, bls. 333–353; Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 286–293. Íslendingar notuðu samt íslensku alinina samhliða þeirri dönsku fram eftir 19. öld. Styttri álnir, 54–55 sm langar, virðast einnig hafa tíðkast. — Íslenskur faðmur telst 3 álnir eða 167,20 sm. Þar er alinin 55,73 sm.4Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland, bls. 921; Gísli Gestsson, „Álnir og kvarðar“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1968, bls. 63–78; Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, bls. 242; Ólafur Stefánsson, Stutt undirvísun, bls. 65.. Sjá nánar í Mál og vog.

alin, dönsk (sjálensk) = 2 fet = 4 kvartil = 24 þumlungar = 288 línur (strá). Danska alinin var 62,814 sm á árunum 1683–1819, 62,75 sm á árunum 1820–1835 en 62,77 sm frá árinu 1835. Breytingin árið 1835 var gerð til samræmingar við prússnesk mál. Fyrrum voru danskar álnir mismunandi eftir landshlutum í Danmörku. Danska alinin var lögboðin á Íslandi í verslunartaxta árið 1776 en það ekki birt á alþingi fyrr en 1786, sbr. alin, íslensk. Dönsk alin skipist í 2 fet, sem hvert var 12 þumlungar / tommur, hver þumlungur deildist síðan í 12 línur eða strá. Alin skiptist einnig í fjögur kvartil. Faðmur var 3 álnir og mælistika (rode) 5 álnir.5Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland, bls. 921; Poul Thestrup, Pund og alen, bls. 15.

Íhugandi er það, sem Gísli Gestsson segir um álnarmál:

„Í ljós hefir komið að táknið 1 alin gat um aldamótin 1800 þýtt 62,77 sm (dönsk alin), 57 sm (íslenzk eða Hamborgaralin), 54 sm („Jónsalin“ [kennd við Jón Árnason Skálholtsbiskup]) og ef til vill 59 sm („Halldórsalin“ [kennd við Halldór Árnason, lyfsalasvein í Nesi á Seltjarnarnesi]). Hér þarf því vissulega aðgæzlu við.“6Gísli Gestsson, „Álnir og kvarðar“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1968, bls. 76.. Sjá nánar í Mál og vog.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, bls. 242.
2 Lovsamling for Island III, bls. 438–439.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 333–353; Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 286–293.
4 Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland, bls. 921; Gísli Gestsson, „Álnir og kvarðar“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1968, bls. 63–78; Magnús Már Lárusson, „Íslenzkar mælieiningar“, bls. 242; Ólafur Stefánsson, Stutt undirvísun, bls. 65.
5 Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland, bls. 921; Poul Thestrup, Pund og alen, bls. 15.
6 Gísli Gestsson, „Álnir og kvarðar“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1968, bls. 76.