Bæjarfógetaembættinu í Reykjavík var skipt í tvennt, bæjarfógeta- og lögreglustjóraembætti þann 1. apríl 1918 samkvæmt lögum nr. 26/1917, 26. október. Jafnframt skyldi stofna sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavíkurkaupstað, svo fljótt sem því yrði við komið, og forstjórn falin lögreglustjóra. 1Stjórnartíðindi Íslands 1917 A, bls. 34–35.
Bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættunum í Reykjavík var síðan skipt í þrennt 1. janúar 1929 eftir lögum nr. 67/1928, 7. maí. Urðu þá til: Lögmannsembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 2Stjórnartíðindi Íslands 1928 A, bls. 219–220.
Í hlut lögmanns komu: Dómsmál, önnur en sakamál og almenn lögreglumál, skiptamál, fógetagerðir, uppboð, þinglýsingar, nótaríalgerðir, yfirfjárráð ólögráða, borgaraleg hjónavígsla, hjónaskilnaðarmál, dómkvaðning manna og skipun þeirra opinberra starfsmanna, sem hingað til hefðu verið skipaðir af bæjarfógeta, afgreiðsla leyfisbréfa til að sitja í óskiptu búi, kosningar til Alþingis.
Lögreglustjóri annaðist: Lögreglustjórn, meðferð sakamála og almennra lögreglumála og að leggja dóm á þau, strandmál, lögskráning skipshafna, mæling og skrásetning skipa, heilbrigðismál, firmaskrásetning, vegabréf, úrskurðun fátækramála, umsjón hegningarhússins í Reykjavík, útnefning matsmanna og skoðunarmanna utan réttar, afgreiðslu vottorða um uppruna vöru, hlunninda- og aflaskýrslur og manntal í Reykjavík.
Tollstjóri hefði forstjórn tollgæslu, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóða, ellistyrktarsjóðsgjöldum, gjöldum til Slysatryggingarinnar, afgreiðslu skipa og innheimtu skipagjalda, svo og innheimtu annarra gjalda, sem lögreglustjóri hefði innheimt hingað til og ekki væru falin lögreglustjóra með þessum lögum.
Aftur voru gerðar breytingar með lögum nr. 67/1939, 31. desember, sem tóku gildi 1. janúar 1940. Skyldu í Reykjavík vera: Lögmannsembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 3Stjórnartíðindi Íslands 1939 A, bls. 214–215.
Lögmaður færi með dómsmál, önnur en barnsfaðernismál og opinber mál, skiptamál, fógetagerðir, uppboð, þinglýsingar, skráning firma, samvinnufélaga og hlutafélaga, notarialgerðir, yfirfjárráð, borgaralega hjónavígslu, hjónaskilnaðarmál, kvaðning matmanna og skoðunar í dómi og utan dóms, skipun opinberra starfsmanna, sem hingað til hefðu verið skipaðir af lögmanni, afgreiðslu leyfisbréfa til setu í óskiptu búi, mælingu og skrásetningu skipa, úrskurðun fátækramála og alþingiskosningar.
Sakadómari færi með opinber mál og barnsfaðernismál, rannsókn þeirra fyrir dómi og utan dóms og dómsuppsögn, uppkvaðning meðlagsúrskurða, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og umsjón hegningarhússins.
Lögreglustjóri færi með lögreglustjórn, strandmál, útlendingaeftirlit, heilbrigðismál og útgáfu vegabréfa.
Tollstjóri hefði forstjórn tollgæslu, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóðs, ellistyrktarsjóðsgjöldum, gjöldum til Tryggingastofnunar ríkisins, þ. á m. slysatryggingargjöldum sjómanna, afgreiðslu skipa og innheimtu skipagjalda, lögskráning skipshafna, afgreiðslu vottorða um uppruna vöru, svo og þeirra gjalda, sem hann nú annaðist eða ráðherra fæli honum.
Ákveðið var með lögum nr. 65/1943, 16. desember, sem tóku gildi 1. janúar 1944, að í Reykjavík skyldu vera: Borgardómaraembætti, borgarfógetaembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 4Stjórnartíðindi Íslands 1943 A, bls. 136–137.
Borgardómari færi með einkamál, þar á meðal formennsku dóma í fasteignamálum, borgarlega hjónavígslu, hjónaskilnaðarmál, kvaðning matsmanna og skoðunar í dómi og utan dóms, skipun opinberra starfsmanna, sem hingað til hefðu verið skipaðir af lögmanni, og úrskurðun fátækramála.
Borgarfógeti færi með fógetagerðir, uppboð, skiptamál, veðmálabókahald, skráning firma og félaga, mælingu og skráningu skipa, notarialgerðir, yfirfjárráð, afgreiðslu leyfisbréfa til setu í óskiptu búi og alþingiskosningar. Þinglýsing og aflýsing, sem getið væri í 7. og 13. grein laga nr. 30/1928, væru afnumdar. Gera skyldi vikulega skrá um öll innrituð og aflýst skjöl, sem skyldi liggja frammi á skrifstofu borgarfógeta næstu viku.
Sakadómari færi með opinber mál og barnsfaðernismál, rannsókn þeirra fyrir dómi og utan dóms og dómsuppsögn, uppkvaðning meðlagsúrskurða, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og umsjón hegningarhúss.
Lögreglustjóri færi með lögreglustjórn, strandmál, útlendingaeftirlit, heilbrigðismál og útgáfu vegabréfa.
Tollstjóri hefði forstjórn tollgæslu, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóðs, ellistyrktarsjóðsgjöldum, gjöldum til Tryggingarstofnunar ríkisins, þar á meðal slysatryggingargjöldum sjómanna, afgreiðslu skipa og innheimtu skipagjalda, lögskráning skipshafna, afgreiðslu vottorða um uppruna vöru, svo og þeirra gjalda, er hann annaðist þá eða ráðherra fæli honum.
Skjalasöfn þessara embætta eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.