Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Eftirlaun úr opinberum sjóðum, ríkissjóði og landssjóði / Styrkir – eftirlaun embættismanna

Klaustur, sýslur, jarðir og aðrar fasteignir konungs voru leigðar ævilangt samkvæmt tilskipun frá 1607.1Lovsamling I, bls. 149–150. Því var ekki um nein eftirlaun sýslumanna að ræða og lengi mun ekki hafa verið gert ráð fyrir eftirlaunum ekkna þeirra eða styrkjum til barna þeirra á ómagaaldri.

Fyrirmæli um náðarár lögmannsekkna voru gefin út 8. maí 1729.2Lovsamling II, bls. 97–98. Alexander Smith, lögmaður norðan og vestan, sem sagði af sér árið 1735, fékk að njóta náðarárs.3Lovsamling II, bls. 280–281. Ekki hefur verið kannað, hvernig slíku var háttað með aðra lögmenn.

Árið 1842 var gefinn út konungsúrskurður, þar sem samþykkt voru áform um framfærslu- og lífsábyrgðarstofnun með ábyrgð ríkisins. Ísland var þar ekki inn í myndinni, en úrskurðurinn gilti síðar fyrir Ísland í sumum atriðum.4Lovsamling XII, bls. 261–263, 271–298. Á næstu árum voru gefin út ýmis bréf, sem síðar höfðu gildi fyrir Ísland og má finna í Lovsamling for Island (finnast undir Embeder í efnisyfirliti), en ekki er tekið tillit til þeirra hér. Þó skal nefnt, að í ársbyrjun 1848 varð Lífsábyrgðarstofnunin (Livrente- og forsörgelsesanstalten) að ríkisstofnun.5Lovsamling XIII, bls. 777.

Eftirlaunalög og lög um skyldu embættismanna til þess að tryggja ekkjum sínum lífeyri voru sett árið 1851.6Lovsamling XV, bls. 3, 125–132. Þau voru lögleidd fyrir Ísland 31. maí 1855. Skyldu allir þeir, sem konungur hefði skipað embættismenn og fengið hefðu laun úr ríkissjóði, eiga rétt á eftirlaunum við lausn frá embætti vegna aldurs eða heilsubrests eða vegna annarra ósjálfráðra orsaka. Tímabundin setning í embætti veitti ekki slíkan rétt. Sveitarfélög réðu, hvort embættismenn þeirra fengju eftirlaun. Eftirlaunin yrðu greidd úr ríkissjóði, að svo miklu leyti sem þau yrðu ekki greidd samkvæmt reglum, sem hingað til hefðu gilt. Í lögunum voru einnig ákvæði um eftirlaun ekkna og munaðarlausra barna embættismanna. Setja átti sérstök lög um eftirlaun presta og prestsekkna, en þangað til máttu þau vænta sömu eftirlauna og áður. Um leið var gefið út opið bréf um skyldu embættismanna til þess að sjá ekkjum sínum fyrir lífeyri.7Lovsamling XVI, bls. 203–220, íslenskur texti bls. 209–214 og 218–220. Nánari skýring á reglunum fyrir Íslendinga var gefin út árið 1862.8Lovsamling XVIII, bls. 436–438.

Eftirlaunareikningar lífsábyrgðar- og framfærslustofnunarinnar fyrir árin 1864–1904 eru í skjalasafni landfógeta í Þjóðskjalasafni (ÞÍ. Landf. XIX).

Lífsábyrgðar- og framfærslustofnunin frá 1842 hætti að taka við innborgunum í árslok 1870. Í staðinn kom samnefnd stofnun með ríkisábyrgð, sem átti að hafa eigið fé, sem ekki blandaðist saman við ríkissjóð. Stofnunin var hugsuð fyrir alla íbúa ríkisins, þar með hjálendur og nýlendur. Sú stofnun hefði eftirlit með því, að ákvæði um skyldu embættismanna og skólakennara að tryggja ekkjum sínum framfærslu kæmu til framkvæmda.9Lovsamling XX bls. 530–543.

Árið 1904 voru sett lög um eftirlaun manna, sem fengið hefðu konungsveitingu fyrir embætti og þegið laun úr landssjóði. Eftirlaunin áttu að vera 1/5 launa við lausn frá embætti og 20 krónur fyrir hvert ár í embætti með eftirlaunarétti, þó ekki meira en 35 embættisár. Eftirlaun ekkna átti að reikna sem 1/10 af launum eiginmannsins, þó ekki meira en 600 krónur á ári. Ekkjurnar gátu, þegar ástæður voru til, fengið til viðbótar 20–100 krónur árlega fyrir hvert barn á framfæri þeirra, þangað til hvert barn væri 16 ára. Munaðarlausum börnum embættismanna var hægt að veita 40–200 króna styrk árlega til 16 ára aldurs hvers barns. Þeir, sem voru í embættum, þegar lögin öðluðust gildi, og höfðu rétt til eftirlauna samkvæmt áðurnefndri tilskipun frá 31. maí 1855, héldu eftirlaunarétti samkvæmt henni, svo og ekkjur þeirra.10Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 10–15. Sama ár voru sett lög um skyldu embættismanna til þess að safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymslulífeyri. Skyldu  embættismenn verja árlega 2% af launum sínum til þess að safna sér ellistyrk, en 11/3% til að kaupa geymdan lífeyri, sem þó tapaðist, við andlát kaupandans, áður en til lífeyrisins var tekið. Þessi síðarnefndu lög náðu ekki til þeirra, sem voru í embætti, þegar lögin tóku gildi.11Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 16–19.

Árið eftir, 1905, var embættismönnum heimilað að fullnægja skyldu sinni um eftirlaun ekkna sinna samkvæmt fyrirmælunum frá 1855 með því að kaupa sér lífsábyrgð í lífsábyrgðarstofnun ríkisins, sem væri a.m.k. 15 sinnum hærri en lífféð, sem embættismaðurinn væri skyldur til þess að tryggja eiginkonu sinni.12Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 192–193.

Árið 1919 voru sett lög nr. 71/1919 um laun embættismanna, sem tóku gildi í ársbyrjun 1920.13Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226. Jafnframt voru sett lög um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn og um skyldur þeirra til þess að kaupa sér geymdan lífeyri, nr. 72/1919, og önnur lög um ekkjutryggingu embættismanna, nr. 73/1919. Stofna skyldi sérstakan sjóð til þess að tryggja embættismönnum, sem létu af embætti sökum elli og vanheilsu, geymdan lífeyri. Til kaupa á lífeyri skyldi embættismaður verja 5% af árslaunum sínum. Við lausn vegna elli eða vanheilsu fengi embættismaðurinn lífeyri úr sjóðnum, sem næmi 270/00 af þeim launum samanlögðum, sem hann hefði greitt iðgjöld af í sjóðinn. Lífeyririnn greiddist út með 1/12 af árlegum lífeyri fyrirfram á hverjum mánuði. Hverjum embættismanni, sem tæki laun eftir almennum launalögum og kvænst hefði yngri en 50 ára, var skylt að tryggja ekkju sinni lífeyri, sem væri ekki minni en 1/5 af byrjunarlaunum þess embættis, er hann hefði á hverjum tíma, eða kaupa lífsábyrgð, er væri jafnhá og þreföld árslaunin. Embættimannsekkja, sem lífeyris nyti, fengi ennfremur úr ríkissjóð árlega 1/10 af föstum lágmarkslaunum embættisins, sem maður hennar hafði, þegar hann lést. Auk þess mátti veita ekkjunum uppeldisstyrk vegna barna og munaðarlausum börnum mátti veita styrk.14Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–230.

Lög um Lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra voru sett árið 1921 og reglugerð sama ár.15Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 172–175; Stjórnartíðindi 1921 B, bls. 287–290. Sjóðnum var breytt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins með lögum nr. 101/1943, sem tóku gildi 1. júlí 1944.16Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 183–187.

Stundum voru embættismönnum veitt eftirlaunaviðbætur eða eftirlaun með sérstökum lögum. Má þar t.d. nefna Árna Helgason, stiftsprófast í Görðum á Álftanesi, og Björn Gunnlaugsson, kennara við Lærða skólann.17Lovsamling XVIII, bls. 39–40, 299–300.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling I, bls. 149–150.
2 Lovsamling II, bls. 97–98.
3 Lovsamling II, bls. 280–281.
4 Lovsamling XII, bls. 261–263, 271–298.
5 Lovsamling XIII, bls. 777.
6 Lovsamling XV, bls. 3, 125–132.
7 Lovsamling XVI, bls. 203–220, íslenskur texti bls. 209–214 og 218–220.
8 Lovsamling XVIII, bls. 436–438.
9 Lovsamling XX bls. 530–543.
10 Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 10–15.
11 Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 16–19.
12 Stjórnartíðindi 1905 A, bls. 192–193.
13 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226.
14 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–230.
15 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 172–175; Stjórnartíðindi 1921 B, bls. 287–290.
16 Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 183–187.
17 Lovsamling XVIII, bls. 39–40, 299–300.