Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Fógeti

Embættisheitið fógeti á við þegar rætt er um fulltrúa eða umboðsmenn lénsmanna sem voru skipaðir af lénsmanni en ekki konungi, stundum nefndir fógetar lénsmanna eða umboðsmenn til aðgreiningar frá konunglegum fógeta enda stjórnsýsluleg staða þeirra önnur. Lénsmenn báru ábyrgð á störfum þeirra. Fógetinn sá um konungsútgerðina og þar með búinn á Bessastöðum og Viðey auk umsjónar með Arnarstapa. Hann var oft einnig sýslumaður í Gullbringusýslu og hefur því innheimt sakeyri og önnur gjöld þar. Í fjarveru lénsmanns þurftu þeir að ferðast milli þinga og svara landsmálum og safna vörum á skip fyrir lénsmann. Fógetar höfðu ekki rétt til að setja menn í embætti, veita giftingarleyfi í þriðja lið eða festa konungsjarðir. Landfógetaemhætti var tekið upp árið 1683 og kallaðist landfógetinn oft einungis fógeti. (Sjá: landfógeti).

Heimild

Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 19, 55.