Dómshlutverk konungsvaldsins var stofnanavætt á 15. öld og varð þá í höndum tveggja ólíkra dómstóla, sem saman mynduðu réttarþing (Retterting) konungs. Konungur og ríkisráðið fóru í sameiningu með hin eiginlegu hæstaréttarmálefni, þ.e. dómsúrskurði í málum, sem var áfrýjað frá landsþingunum og, sem fyrsta og eina dómsstig, í málum um líf og æru aðalborins fólks. Annar sértækari dómstóll tengdist meðferð á eignaréttar- og veðskuldamálum. Þau mál voru dæmd af ríkiskanslaranum (Rigens kansler) í nafni konungs. Þeim dómum mátti áfrýja til konungs og ríkisráðs. Ríkiskanslarinn var tengiliður þessara dómstóla beggja.
Ekkert er varðveitt af þeim skjalasöfnum, sem þessir dómstólar hafa myndað á miðöldum. Starfsemi réttarþingsins frá þeim tíma verður að kanna út frá dómum og skjölum, sem þingið sendi frá sér og finnast í söfnum viðtakenda, eða yngri afritum. Starfsemi dómstólanna var gerð kerfisbundin með tilskipunum á fyrstu árum Kristjáns III. (konungur 1534–1559). Skjalabækur réttarþingsins, þær miðlægu, eru að mestu leyti varðveittar allt frá árinu 1537. 1Michael H. Gelting, „Domstole i øverste instans“, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til det benyttelse I. Odense 1983, bls. 153–155.
Ríkisráðið danska lagðist niður við upphaf einveldis í Danmörku og því nauðsynlegt að móta æðsta dómstól ríkisins að nýju. Hæstiréttur í Danmörku varð til samkvæmt tilskipun frá 14. febrúar 1661 og kom í stað réttarþingsins. Mikil líkindi við réttarþingið héldust þó áfram. Konungur var formlega forseti og dómarar (assessorar) voru æðstu embættismenn og ráðgjafar konungs. Hæstiréttur var áfram varnarþing aðalsins. Á næstu öldum tóku tengsl milli leyndarráðs konungs og Hæstaréttar að rofna, löglærðir menn önnuðust æ meir dagleg störf í Hæstarétti. Frá árinu 1748 var forseti Hæstaréttar ekki lengur í leyndarráði konungs. Kallaðist forseti (præsidenten) til ársins 1758 en eftir það dómstjóri (justitiarius). Fjöldi dómara var ákveðinn með tilskipun 7. janúar 1771 og embættispróf í lögfræði varð skilyrði fyrir dómaraembætti. Sjálfstæði það, sem Hæstiréttur hafði náð, var staðfest í stjórnarskrá 1849 (grundloven), en engar breytingar urðu þá á starfsemi réttarins.
Í skjalasafni Hæstaréttar Danmerkur er mikið af málsskjölum frá 17. og 19. öld en meginhlutinn af skjalabókum og málsskjölum frá 18. öld fór í brunum Kristjánsborgarhallar í Kaupmannahöfn árin 1794 og 1884. 2Michael H. Gelting, „Domstole i øverste instans“, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til det benyttelse I, bls. 155–158.
Hæstiréttur Danmerkur dæmdi í íslenskum málum allt til ársloka 1919. Í dansk-íslenskum sambandslögum árið 1918 segir, að Hæstiréttur Danmerkur hefði æðsta dómsvald í íslenskum málum, uns Ísland kynni að ákveða að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu. Þangað til skyldi skipa Íslending í eitt dómarasæti í hæstarétti og kæmi það til framkvæmda, þegar næst losnaði sæti í dómnum. 3Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 77, 10. grein, lög nr. 39/1918, 30. nóvember. Hæstiréttur Íslands tók til starfa 16. febrúar 1920 og ákvæðið um setu íslensks dómara í Hæstarétti Danmerkur varð marklaust.
Skjöl Hæstaréttar Danmerkur í íslenskum málum voru afhent Þjóðskjalasafni Íslands árið 1928. Ekki mun hafa verið kannað sérstaklega, hvaða upplýsingar um íslensk mál kunna að leynast í skjalasafni Hæstaréttar Danmerkur í Ríkisskjalasafninu danska. Í því sambandi er rétt að huga að skjalabókum frá 17.–20. öld, sem ekki voru afhentar.
Hæstaréttarskjöl Íslendinga frá því fyrir 1920 geta leynst í ýmsum skjalasöfnum. Í því sambandi má nefna að í einkaskjölum í Þjóðskjalasafni eru hæstaréttardómur árið 1716 í málum Páls Vídalíns og Odds Sigurðssonar (E. 9) og innlegg Árna Magnússonar og Páls Vídalíns í arfamáli Páls Ámundasonar (E. 273/21)
Dómar Hæstaréttar Danmerkur í íslenskum málum voru gefnir út í tveimur ritröðum: Landsyfirrjettardómar og hæstarjettardómar í íslenzkum málum 1802–1874 I–XI Reykjavík 1925–1986 og Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum 1875–1919 I–X. Reykjavík 1882–1920.
(Heimild: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 213–214.)
Tilvísanir
↑1 | Michael H. Gelting, „Domstole i øverste instans“, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til det benyttelse I. Odense 1983, bls. 153–155. |
---|---|
↑2 | Michael H. Gelting, „Domstole i øverste instans“, Rigsarkivet og hjælpemidlerne til det benyttelse I, bls. 155–158. |
↑3 | Stjórnartíðindi 1918 A, bls. 77, 10. grein, lög nr. 39/1918, 30. nóvember. |