Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Hundaskattur

Árið 1890 voru sett lög um hundaskatt og fleira nr. 18/1890, 22. maí. Hver heimilisráðandi átti á sínu hreppaskilaþingi að telja fram, fyrir hreppstjóra eða bæjarfógeta, alla heimilishunda sína, sem eldri væru en fjögurra mánaða í fardögum. Skyldi það ritað í sveitarbókina. Hreppstjóri átti að senda sýslumanni hundaskýrslur með öðrum framtalsskýrslum. Hver heimilisráðandi, sem bjó á einu hundraði úr jörðu utan kaupstaða, átti að greiða af hverjum heimilishundi, eldri en fjögurra mánaða, 2 krónur á ári en aðrir 10 krónur. Skattinn átti að innheimta á manntalsþingum og hann að renna í sveitar- eða bæjarsjóð. Jafnframt voru gefin út fyrirmæli um meðferð á slátri úr skepnum sem sullir fundust í. 1Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 74–77. Hundaskattur var þó í raun eldri, því að í tilskipun 25. júní 1869 var boðið, að hver húsbóndi skyldi árlega  telja fram alla hunda á heimilinu, hvort sem hann ætti þá eða ekki. (Í kaupstöðum um fardaga, í sveitum á hreppaskilaþingi á vorin). Á hreppaskilaþingum á vorin skyldu lögreglustjórar í kaupstöðum og hreppstjórar í sveitum, ásamt allt að 4 mönnum, sem til þess væru kosnir, áætla hundaþörf hvers húsbónda til þess að hirða búfénað sinn og til þess að verja tún og engi. Fyrir hvern hund, fram yfir ákveðna tölu, skyldi gjalda 2 ríkisdali á ári. 2Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II 1864–1869. Kaupmannahöfn 1870, bls. 775–782. Voru þessar ráðstafanir gerðar vegna þess, hve sullaveiki var algeng á Íslandi, en hundar eru hýslar fyrir bandorminn, sem veldur sullaveiki. Hundafjöldi var mikill á Íslandi fyrrum. Er heimilda frá síðustu áratugum 19. aldar og síðan að leita í hundahaldsbókum hreppstjóra og lögreglustjóra og skýrslum þeirra til sýslumanna. Um hundahald fyrrum vitnar vísa eftir Bólu-Hjálmar: „Ólafur mér í augum vex / illa hjá þjóðar vegi settur, / hefir á búi hunda sex, / hver þeirra er gestadjöfull réttur; / rífa þeir hesta, fólk og fé, / freyðir grimmdin úr opnum ginum. / Eigandinn þó er sagt að sé / sjöfalt skæðari öllum hinum.“ 3Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ljóðmæli síðara bindi. Reykjavík 1949, bls. 195.

            Í Stjórnartíðindum (B-deild) má finna reglugerðir margra sveitarfélaga um hreinsun hunda vegna bandorma og um hundahald.

            Næstu lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki voru nr. 7/1953, 3. febrúar. Skyldi hver skattgreiðandi á skattframtali sínu gera grein fyrir þeim hundum, sem hann ætti um áramót eða aðrir á hans framfæri. Hreppstjóri í hverjum hreppi, en skattstjóri eða skattanefnd í hverjum kaupstað, skyldu gera skrá yfir þá hunda, sem væru í sveitarfélaginu, og afhenda sýslumanni eða bæjarfógeta (í Reykjavík tollstjóra) í aprílmánuði hvert ár. Af hundum búenda og annarra, sem búfé ættu, skyldi greiða 15 króna skatt árlega en af öðrum hundum 150 króna skatt árlega. Skatturinn rann í bæjar- eða sýslusjóð og var innheimtur á manntalsþingum. 4Stjórnartíðindi 1953 A, bls. 82–83. Upphæð skattsins breyttist með lögum nr. 41/1965, 12. maí. 5Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 91.

            Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 109/1984, 14. nóvember, segir í 22. grein, að sveitarfélög geti sett sér eigin heilbrigðissamþykktir um þætti, sem ekki væri fjallað um í heilbrigðisreglugerð. Meðal þess, sem heimilt var að setja í slíkar samþykktir, voru ákvæði um bann eða takmörkun hundahalds. Jafnframt voru í 36. grein felld úr gildi ósamrímanleg ákvæði laga nr. 7/1953 um hundahald og varnir gegn sullaveiki. 6Stjórnartíðindi 1984 A, bls. 271, 275. Má því ætla, að hundaskatturinn, sem slíkur hafi, þá fallið úr gildi, en hundahald og gjöld byggst á samþykktum sveitarfélaga.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 74–77.
2 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II 1864–1869. Kaupmannahöfn 1870, bls. 775–782.
3 Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ljóðmæli síðara bindi. Reykjavík 1949, bls. 195.
4 Stjórnartíðindi 1953 A, bls. 82–83.
5 Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 91.
6 Stjórnartíðindi 1984 A, bls. 271, 275.