Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Kansellí

Kansellí var æðsta stjórnarskrifstofa Danakonungs. Fyrir siðaskipti (í Danmörku árið 1536) spruttu þar upp ýmsir kansellískrifarar, sem önnuðust hver um sig málefni einstakra ríkishluta. Kanslarinn (yfirmaður kansellísins) fór með utanríkismál. Svonefnt þýska kansellí myndaðist við hliðina á danska kansellí á stjórnartíma Friðriks I (1523-1533). Fór það einkum með málefni Danakonungs í Slesvík og Holstein. Starfsmenn í þýska kansellíi töluðu þýsku og tóku því smám saman yfir bréfaskipti við önnur ríki. Þróaðist þýska kansellí yfir í það að verða utanríkisráðuneyti.

Danska kansellí sá um bréfagerðir vegna konungdæmisins í Danmörku (norðan Kongeåen), Noregi, Íslandi og Færeyjar. Send bréf voru færð í tvenns konar bréfabækur. Bréf til almennings voru færð í svonefnd „registre“ og kölluðust opin bréf. Bréfabók slíkrar gerðar hófst árið 1513. Bréf til embættismanna og annarra slíkra kölluðust lokuð bréf eða missiver og færð í svonefndar „tegnelser“. Framan af voru lokuðu bréfin aðeins færð í útdrætti, en frá árinu 1535 var farið að færa lokuðu bréfin meir kerfisbundið í bréfabækur og þá í heild sinni. Þessir bréfabókaflokkar, þ.e. fyrir bréf sem konungur undirritaði, héldust til 1800. Bréfabókabindin kölluðust „Registre over alle lande“ eða „Tegnelser over alle lande“ en innan hvers bindis flokkuðust bréfin eftir landshlutum.

Elstu skjöl í kansellí, sem varða Ísland, eru frá 1514, en íslensk mál voru frá árinu 1572 talin hluti af málefnum Noregs.

Eftir einveldistöku árið 1661 spruttu upp fleiri skrifstofur og danska kansellí hafði þá einkum eftirlit með réttarfari, ömtum, kaupstöðum, kirkju- og fræðslumálum. Árið 1685 komst á sú skipan að kansellíið afgreiddi á eigin vegum en í nafni konungs vanabundin mál, sem kölluðust „kancelliekspeditioner“ (kansellíafgreiðslur). Störf í kansellíinu snerust mjög um afgreiðslur á umsóknum um ívilnanir. Umsóknirnar voru grófflokkaðar í 1) embættisumsóknir sem voru skráðar sem „gratialsager“ og 2) beiðnir um fjárveitingar og málarekstur, skráðar sem „suppliksager“. Umsóknirnar gátu snúið að fleiri þáttum, en annað, sem ekki féll undir þessa flokka, var mun minna.

Árin 1770-1772 stjórnaði í Danmörku Johann Friedrich Struensee líflæknir Kristjáns VIII konungs, sem var geðveikur. Struensee skipti kansellíinu í fjórar skrifstofur á stjórnartíma sínum en horfið var til fyrra horfs við fall hans. Á Struenseetímanum fóru íslensk mál undir svonefnda nýlendudeild.

Árið 1800 var kansellíinu skipt upp í deildir (departement) og komið á bréfadagbókarkerfi („journalisering“) fyrir hverja þeirra. Eftir það voru skjöl flokkuð eftir efni eða málum, jafnvel sendendum og hvert mál fékk sitt númer eða bókstaf. Hvert mál fékk sína síðu eða hluta úr síðu í bréfadagbók. Væri rýmið ekki nóg, var málið fært á nýja, auða síðu eða á autt númer. (Mál gat því haldið áfram undir ýmsum númerum í sömu bók og síðan í annrri bók, „eilífðarmál“). Bréfaskráningarkerfi þetta hefur kallast „kansellíkerfi“.

Kansellíð hélt stöðu sinni sem æðsta eftirlitsvald réttarfars- og kirkjumála en öll skólamál töldust kirkjumál frá fornu fari. Íslensk mál heyrðu þá undir deild norskra mála en fóru árið 1814 aftur til kansellísdeilda eins og sambærileg dönsk mál.

Danska kansellí var lagt niður með konungsúrskurði 24. mars 1848. Mál 1. deildar (kirkju og skóla) fóru til Kultusministeriet, 2. og 5.deildar (dóms- og lögreglumál) til Justitsministeriet, en mörg málefni kaupstaða og sveitarstjórna féllu undir Indenrigsministeriet.

Sjá Einar Laxness, Íslands saga i-r. Reykjavík 1995, bls. 32-33; Frank Jørgensen og Morten Westrup, Dansk centraladministration i tiden indtil 1848. Dansk historisk fællesforening 1982, bls. 42-44, 61-76;1Þessi bók er ekki í Þjóðskjalasafni Íslands, en er á vef Ríkisskjalasafnsins danska, https://www.sa.dk/ao-soegesider/da/billedviser?epid=17288084#215000,40599940. Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I. Redigeret af Wilhelm von Rosen. Rigsarkivet 1983, bls. 169-171; Harald Jörgensen, Nordiske arkiver. Köbenhavn 1968, bls. 11-13.

Þjóðskjalasafn Íslands fékk með dönsku sendingunni 1928 skjöl um Ísland og Íslendinga úr kansellíi frá árunum 1548-1848.

Eitthvað af skjölum úr skjalasafni kansellís liggur í skjalasafni íslensku stjórnardeildarinnar vegna afgreiðslu mála þar.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Þessi bók er ekki í Þjóðskjalasafni Íslands, en er á vef Ríkisskjalasafnsins danska, https://www.sa.dk/ao-soegesider/da/billedviser?epid=17288084#215000,40599940.