Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Kjörbækur, kjörskrár

Veiting prestsembætta var framan af öldum í höndum biskups, nema í kaþólskum sið höfðu eigendur bændakirkna lengi köllunarrétt til kirkna sinna.1Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 19–20.

Eftir kirkjuskipun Kristjáns III, sem samþykkt var árin 1541 og 1551, áttu biskupar að missa veitingarvald á prestsembættum. Samkvæmt henni áttu helstu menn safnaðar, með ráði prófasts, að velja mann, sem þeir töldu hæfan til prestsembættis, en biskup síðan reyna hann í lærdómi. Samþykkti biskup kosninguna, átti að biðja lénsmann konungs um veitingarbréf. Prestsembætti við kirkjur undir forræði verndarmanna, sem höfðu fornan rétt til þess að kjósa presta, voru skilin undan veitingarvaldi lénsmanna. Þar, sem svo var farið, átti söfnuður að biðja verndarmann kirkju um prest.2Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 36–37; Lovsamling for Island I, 45–46.

Biskupar veittu þó um sinn prestsembætti einir, eða fram til ársins 1563, þegar strengilegar var boðið með konungsbréfi, að farið yrði eftir kirkjuskipuninni. Á þessu var skerpt með bréfi árið 1595. Eftir það voru lénsbrauð (beneficium) og klausturbrauð veitt af höfuðsmanni eða umboðsmanni hans eða með samþykki höfuðsmanns, ef biskupar veittu þau.3Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 37; Lovsamling for Island I, bls. 81–82, 131–133.

Talið er, að köllunarréttur kirkjubænda hafi ekki verið nýttur og prestsembætti við bændakirkjur veitt af biskupum án íhlutunar höfuðsmanns fram á 17. öld. Þó virðist til eitt dæmi undantekningar eða frá Vestmanneyjum árið 1674.4Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 37–38, 41; ÞÍ. Bps. A. VII, 17. Skjöl um prestaköll og kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi m.m. 1639–1796, bls. 161. Einnig notfærðu biskupar sér fornan verndarmannsrétt yfir kirkjum, þar sem dómkirkjur áttu staðina.5Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 40–41.

Í kirkjuskipun Kristjáns IV, sem lögleidd var á Íslandi 29. nóvember 1622, var mælt svo fyrir, að söfnuðir skyldu velja sjö menn, sem síðan áttu að kjósa sóknarprest með ráði prófasts og senda fyrir biskup til yfirheyrslu. Þá skyldi prestsefnið vígt og sent til höfuðsmanns til staðfestingar veitingunni.6Lovsamling for Island I, bls. 153–154; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 38. Sjá má, að eftir þessari skipan hefur verið farið um nokkurt skeið á 17. öld.7Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 38–40. Í tilskipuninni, sem lögleiddi kirkjuskipun Kristjáns IV, var gert ráð fyrir, að biskupar hefðu veitingarvald á minnstu brauðum. Á þeim grundvelli munu biskupar hafa veitt brauð fram á síðustu áratugi 17. aldar.8Lovsamling for Island I, bls. 206–207; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 41; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 148–150.

Fastar reglur um veitingu brauða voru settar með konungsbréfum 10. maí 1737 og 29. janúar 1740. Samkvæmt síðara bréfinu var prestaköllum skipt í 3 flokka: 1) Brauð með tekjur yfir 100 dali, 2) brauð með tekjur 50–100 dali, 3) brauð með tekjur undir 50 dölum. Konungsveiting var á brauðum, sem voru metin hærra en á 100 dali. Um þau skyldi sækja beint til konungs. Amtmaður átti að veita brauð, sem ekki voru metin hærra en á 100 dali, en veitingarbréf fyrir brauðum, sem metin voru á 40 dali eða meir, skyldi leggja fyrir konung til staðfestingar og greiðslu staðfestingargjalds.9Lovsamling for Island II, bls. 282–288, 310–312; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 41–42.

Með konungsbréfi 11. maí 1787 og kansellíbréfi 12. janúar 1788 voru settar nánari reglur um veitingu brauða. Þegar veita skyldi brauð, sem ekki var undir konungsveitingu, átti biskup að stinga upp á þremur umsækjendum og stiftamtmaður að veita brauðið einhverjum þeirra. Væru umsækjendur færri en þrír, átti að veita brauðið eftir tillögu biskups.10Lovsamling for Island V, bls. 397–399, 507–508; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 59.

Í konungsbréfi 2. desember 1791 var biskupum boðið að gefa öllum umsækjendum um brauð skriflegar umsagnir til stiftamtmanns.11Lovsamling for Island V, bls. 760–761. Þessi skipan stóð til ársins 1850, en ákveðið var með konungsúrskurði 14. maí það ár, að stiftamtmaður og biskup skyldu í sameiningu veita öll brauð, sem ekki var konungsveiting á, eftir tillögu biskups. Kirkju- og kennslumálaráðuneytið í Kaupmannahöfn hafði úrskurðarvald í ágreiningsmálum.12Lovsamling for Island XIV, bls. 448–454.

Aftur var breyting gerð með tilskipun 15. desember 1865, sem byggð var á brauðamati frá árinu 1853 og staðfest sama dag. Konungur átti að veita prestaköll með 700 ríkisdala árstekjur eða meira. Stiftsyfirvöld (stiftamtmaður og biskup) áttu að veita brauð með 350–700 ríkisdala árstekjur að áskilinni staðfestingu konungs en brauð með árstekjum fyrir neðan 350 dali án konunglegrar staðfestingar.13Lovsamling for Island XIX, bls. 355–356 (1.–2. grein).

Landshöfðingja var með erindisbréfi 29. júní 1872 falin staðfesting á brauðaveitingu stiftsyfirvalda, sem var áskilin konungi í tilskipuninni 1865.14Lovsamling for Island XXI, bls. 425 (20. grein). Þá var landshöfðingja fengið veitingarvald á öllum brauðum, sem konungsveiting var ekki á, með auglýsingu um verksvið landshöfðingja 22. febrúar 1875, 16. grein. Skyldi hann fara eftir tillögum biskups við veitingarnar.15Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 8–9. Þetta veitingarvald var rýmkað með auglýsingu 15. október 1884.16Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 78–79.

Lög um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda nr. 5/1880, 27. febrúar, kváðu á um, að hlutaðeigandi sóknarnefnd hefði rétt til þess að mæla með einum umsækjanda, þegar prestakall væri undir veitingu (7. grein).17Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29. Söfnuðir fengu rétt til hluttöku í veitingu prestakalla samkvæmt lögum nr. 1/1886, 8. janúar. Skyldu prestar kosnir í almennum kosningum, þar sem kosningarrétt höfðu meðlimir þjóðkirkjunnar, sem búsettir voru í prestakallinu, með óspilltu mannorði og orðnir fullra 25 ára, þegar kosning færi fram, og hefðu atkvæðisrétt á safnaðarfundum. Valið var háð þeim takmörkunum, að sæktu fleiri en þrír um embættið, sem fullnægðu skilyrðum fyrir því að geta haft á hendi prestsembætti í þjóðkirkjunni, skyldi landshöfðingi velja þrjá umsækjendur til kosningar með ráði biskups. Ef þrír sóttu, mátti velja tvo til kosningar á sama hátt. Kosning var lögmæt, ef helmingur safnaðar greiddi atkvæði og einhver umsækjenda hlaut helming greiddra atkvæða. Prófastur skyldi vera formaður kjörstjórnar, og sóknarnefnd átti að semja skrá yfir þá sóknarmenn, sem kosningarrétt höfðu.18Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 2–7. Kosningarréttur safnaða var rýmkaður með lögum um veitingu prestakalla nr. 28/1907, 16. nóvember. Samkvæmt þeim átti söfnuður að kjósa um alla umsækjendur, sem landsstjórn taldi hæfa til prestsembættis að fenginni skýrslu prófasts. Kosning var lögmæt, ef einhver umsækjenda fékk meirihluta greiddra atkvæða.19Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 168–177 (2., 6., 17. og 18. grein); Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 123–128; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“. Til móts við nútímannn. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 78–81.

Aftur voru sett lög um veitingu prestakalla, nr. 32/1915, 3. nóvember. Ákvæði um kosningu voru með svipuðu móti og í lögunum 1907, nema tilskilið var, að helmingur kjósenda tæki þátt í kosningu og einhver umsækjenda hlyti meirihluta greiddra atkvæða til þess, að kosning teldist lögmæt og landsstjórn væri bundin af atkvæðagreiðslunni. Kjörstjórn var eingöngu skipuð sóknarnefndarmönnum og prófastur ekki lengur sjálfkjörinn formaður.20Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 125–128. (Sjá einkum 6. og 17. grein).

Lög um veitingu prestakalla nr. 44/1987, 30. mars, færðu kosningu presta úr höndum safnaðar í hendur kjörmanna, sem voru sóknarnefndarmenn og varamenn þeirra. Ef minnst 25 af hundraði atkvæðisbærra sóknarbarna í prestakalli óskuðu eftir því innan sjö daga frá því, að niðurstöður kjörmannafunda voru kynntar, að almennar prestskosningar færu fram, var skylt að verða við því. Einnig var kjörmönnum heimilt að kalla prest til prestakalls; þurftu þá 3/4 kjörmanna að vera einhuga um köllunina.21Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 68–71. Sjá einkum 2., 3., 5. og 7. grein.

Með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí, 39. og 59. grein, skyldi biskup Íslands auglýsa embætti, þegar prestakall eða prestsstaða losnaði eða nýtt prestakall væri stofnað, en Kirkjuþingi lagt í hendur að setja reglur um val á sóknarpresti og presti.22Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 248, 251. Kirkjuþing árið 1998 samþykkti drög að starfsreglum um val á sóknarpresti og presti.23Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/1998/7, sótt 20.nóvember 2017. Á kirkjuþingi árið 2011 voru samþykktar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.24Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/14, sótt 20.nóvember 2017. Kirkjuþing setti nýjar reglur haustið 2015, en þeim var breytt nokkuð á framhaldsþingi vorið 2016.25Vef. , Gerðir kirkjuþings 2015, bls. 96–104. Þær urðu nr. 144/2016.26Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-val-og-veitingu-prestsembaetta-nr-1442016/, sótt 20. nóvember 2017. Kirkjuþing gerði enn breytingar vorið 2017.27Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 125–128. Sjá einkum 6. og 17. grein.

Skjöl þau, sem lúta að prestskosningum og varðveitt eru í Þjóðskjalasafni, eru fyrst og fremst kjörskrár og kjörbækur.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 19–20.
2 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 36–37; Lovsamling for Island I, 45–46.
3 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 37; Lovsamling for Island I, bls. 81–82, 131–133.
4 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 37–38, 41; ÞÍ. Bps. A. VII, 17. Skjöl um prestaköll og kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi m.m. 1639–1796, bls. 161.
5 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 40–41.
6 Lovsamling for Island I, bls. 153–154; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 38.
7 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 38–40.
8 Lovsamling for Island I, bls. 206–207; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 41; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 148–150.
9 Lovsamling for Island II, bls. 282–288, 310–312; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 41–42.
10 Lovsamling for Island V, bls. 397–399, 507–508; Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, bls. 59.
11 Lovsamling for Island V, bls. 760–761.
12 Lovsamling for Island XIV, bls. 448–454.
13 Lovsamling for Island XIX, bls. 355–356 (1.–2. grein).
14 Lovsamling for Island XXI, bls. 425 (20. grein).
15 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 8–9.
16 Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 78–79.
17 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29.
18 Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 2–7.
19 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 168–177 (2., 6., 17. og 18. grein); Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 123–128; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“. Til móts við nútímannn. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 78–81.
20 Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 125–128. (Sjá einkum 6. og 17. grein).
21 Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 68–71. Sjá einkum 2., 3., 5. og 7. grein.
22 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 248, 251.
23 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/1998/7, sótt 20.nóvember 2017.
24 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/14, sótt 20.nóvember 2017.
25 Vef. , Gerðir kirkjuþings 2015, bls. 96–104.
26 Vef. http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-val-og-veitingu-prestsembaetta-nr-1442016/, sótt 20. nóvember 2017.
27 Stjórnartíðindi 1915 A, bls. 125–128. Sjá einkum 6. og 17. grein.