Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Leyfisbréf og lýsingar til hjónabands

Hjónabandsartikúlar Friðriks II. frá 2. júní 1587 mæla svo fyrir, að eftir trúlofun skyldi lýsa með hjónaefnum af prédikunarstólnum í kirkjunni þrjá sunnudaga í röð áður en þau gengju í hjónaband. (Sjá: Lýsing). Var það gert til þess, að hægt væri að lýsa meinbugum löglega fyrir giftingu. Skyldleiki í fyrsta, annan og þriðja lið kom í veg fyrir hjónaband, þ.e. systkini, systkinabörn og þremenningar. Ekkjur og ekklar máttu ekki velja sér nýja maka, sem voru í slíkum sifjum við hina látnu maka, og sama gilti um fólk, sem átt hafði börn í lausaleik.1Lovsamling for Island I, bls. 113–124, sjá einkum bls. 114–116. Biskupum á Íslandi var boðið að kynna hina forboðnu liði með auglýsingu 18. janúar 1737.2Lovsamling for Island II, bls. 271–273, sjá og bls. 296–297. Tilskipun um eitt og annað í hjónabandsmálum og gegn lauslæti var gefin út 2. júní 1746. Þar var m.a. kveðið á um kristindóms- og lestrarkunnáttu hjónaefna. Annað þeirra, að minnsta kosti, varð að vera lesandi.3Lovsamling for Island II, bls. 600–605.

Konungur veitti stundum undanþágur frá ákvæðum um vensl og stiftamtmaður fékk um það fyrirmæli 12. október 1764, að fátækir bændur og aðrir snauðir mættu giftast, ef þeir sýndu sóknarpresti sínum kvittun fyrir greiðslu til næsta spítala fyrir biskupsleyfi.4Lovsamling for Island III, bls. 518–519. Reglurnar voru rýmkaðar með tilskipunum 27. desember 1770 og 3. apríl 1771.5Lovsamling for Island III, bls. 692–693, 703–704.

Ný tilskipun um óheimil vensl vegna hjúskapar var gefin út 14. desember 1775. Þar var jafnframt tekið fram, að undanþágur fengjust frá ákveðnum venslum, veittar af konungi, en sótt skyldi um slíkt í kansellíi.6Lovsamling for Island IV, bls. 185–188. Stiftamtmaður gat veitt leyfi til hjónavígslu í heimahúsum.7Lovsamling for Island IV, bls. 391–393; Lovsamling for Island V, bls. 377–378. Hjónabönd, sem verið höfðu leyfisskyld vegna vensla, voru heimiluð án takmarkana með tilskipun 23. maí 1800. Þar var tekið fram, að stiftamtmaður og amtmenn veittu leyfi til giftingar í heimahúsum og að óviðkomandi prestur (ekki sóknarprestur) mætti framkvæma hjónavígsluna.8Lovsamling for Island VI, bls. 434–438, sjá einkum I. og III. kafla (afdeling). Kansellí tók við leyfisveitingum í stað konungs eftir konungsúrskurðum frá 31. janúar og 10. júlí 1813.9Lovsamling for Island VII, bls. 454, 480.

Lög um utanþjóðkirkjumenn nr. 4/1886, 19. febrúar, kváðu svo á í 3. grein, að væri bæjarfógeti eða sýslumaður beðinn að gefa saman hjón, skyldi hann láta birta það á kirkjufundi í prestakallinu, þar sem brúður ætti heima, þremur vikum fyrir giftingu. Í kaupstöðum færi um slíka birtingu eins og venja væri um auglýsingar, sem almenning varðaði.10Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23, sjá fyrst og fremst bls. 16–17. Undanþágu mátti fá með konunglegu leyfisbréfi samkvæmt lögum nr. 42/1909, 30. júlí.11Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 212–213.

Með lögum nr. 19/1899, 22. september, var ákveðið, að hjúskaparáformum hjónaefna skyldi lýst af prédikunarstóli við hámessu á sunnudegi í sóknarkirkju brúðarinnar, að minnsta kosti þremur vikum fyrir vígsludag. Undanþágu frá hjúskaparlýsingu mátti fá með konunglegu leyfisbréfi.12Stjórnartíðindi 1899 A, bls. 86–87. Þegar embætti amtmanna, stiftsyfirvalda og landfógeta voru lögð niður árið 1904, var ákveðið með tilskipun nr. 12/1904, 23. ágúst, að sýslumenn og bæjarfógetar létu af hendi hjónavígslubréf (þ.e. leyfisbréf til giftingar).13Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–39, sjá einkum I. kafla, 1. grein, j-lið.

Í lögum um stofnun og slit hjúskapar nr. 39/1921, 27. júní, sagði í 19. grein, að hjónavígsla mætti ekki fara fram nema áður hefði verið lýst með hjónaefnum, sbr. þó 25. grein. Lýsing færi, samkvæmt 22. grein, fram með auglýsingu á almannafæri, þar sem brúður og brúðgumi ættu heima. Stæði prestur fyrir lýsingu, skyldi hengja auglýsingu upp á kirkju. Stæði valdsmaður fyrir lýsingu, færi með birtingu í kaupstöðum eins og með auglýsingar, sem almenning varðaði. En í sveitum léti sýslumaður hreppstjóra hengja auglýsinguna upp á þingstað hrepps, þar sem brúður og brúðgumi væru til heimilis eða dvalar. Undanþágu frá hjúskaparlýsingu mátti fá með konunglegu leyfisbréfi eftir 25. grein. Undanþágu þurfti ekki ef annað hjónaefna væri hættulega veikt.14Stjónartíðindi 1921 A, bls. 118 og 119.

Ákvæði um lýsingar og leyfisbréf í stað þeirra hurfu með lögum um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972, 29. maí. Þó máttu hjónaefni yngri en 18 ára ekki stofna til hjúskapar nema með leyfi dómsmálaráðuneytis (1. grein), og væri annað hjónaefna yngra en 20 ára, mátti ekki vígja það án samþykkis foreldra, nema það hefði verið gift áður (2. grein). Maður, sem sviptur hafði verið lögræði, þurfti samþykki lögráðamanns (3. grein). Synjaði foreldri eða lögráðamaður samþykkis, gat dómsmálaráðuneytið leyft vígsluna (4. grein). Þá gat ráðuneytið leyft geðveikum manni eða „hálfvita“ að stofna til hjúskapar (5. grein). Löggildir hjónavígslumenn skyldu kanna hjónavígsluskilyrði (11.–13. grein).15Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 85–86.

Nú (2021) eru í gildi hjúskaparlög nr. 31/1993, 14. apríl, með áorðnum breytingum. Leyfisákvæði eru áþekk þeim, sem voru í lögunum frá árinu 1972.16Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 130–131, 7.–12. grein.

Hér er stiklað á stóru og ekki fjallað um ýmsar takmarkanir, sem settar voru við hjónaböndum, og breytingar á þeim, svo sem um aldursmörk hjónaefna, fátækt, sjúkdóma (t.d. holdsveiki) og þeginn sveitarstyrkur var ekki endurgreiddur.

Heimilda um útgáfu hjónabandsleyfisbréfa er að leita í opinberum skjalasöfnum, þ.e. kansellís, stiftamtmanna, amtmanna, landshöfðingja, sýslumanna og bæjarfógeta. Þar eiga leyfisbréfin sjálf ekki að vera, þau fengu brúðhjónin (oftast brúðguminn) í hendur. Þeirra er því að leita í einkaskjalasöfnum, hugsanlega stundum hjá þeim, sem hjónavígsluna framkvæmdi. Þau gætu jafnvel legið í skiptaskjölum vegna andláts eða hjónaskilnaðar.

Heimildir

  • Einar Arnórsson: Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 128–147.
  • Gunnar F. Guðmundsson: Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II, Reykjavík 2000, bls. 257–264
  • Loftur Guttormsson: Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 256–261
  • Þórunn Valdimarsdóttir: Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 178–184).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island I, bls. 113–124, sjá einkum bls. 114–116.
2 Lovsamling for Island II, bls. 271–273, sjá og bls. 296–297.
3 Lovsamling for Island II, bls. 600–605.
4 Lovsamling for Island III, bls. 518–519.
5 Lovsamling for Island III, bls. 692–693, 703–704.
6 Lovsamling for Island IV, bls. 185–188.
7 Lovsamling for Island IV, bls. 391–393; Lovsamling for Island V, bls. 377–378.
8 Lovsamling for Island VI, bls. 434–438, sjá einkum I. og III. kafla (afdeling).
9 Lovsamling for Island VII, bls. 454, 480.
10 Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23, sjá fyrst og fremst bls. 16–17.
11 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 212–213.
12 Stjórnartíðindi 1899 A, bls. 86–87.
13 Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–39, sjá einkum I. kafla, 1. grein, j-lið.
14 Stjónartíðindi 1921 A, bls. 118 og 119.
15 Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 85–86.
16 Stjórnartíðindi 1993 A, bls. 130–131, 7.–12. grein.