Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Lögreglueftirlit presta

Orðið passi getur merkt leyfi til þess að ferðast milli landa, þ.e. vegabréf, og haft að auki ýmsar fleiri merkingar.1Vef. http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=363249&s=448052&l=passi, sótt 20. nóvember 2017. Fyrrum, á ófriðartímum, voru passar einkum gefnir þeim, sem ekki voru aðalbornir, og opinberum sendimönnum. Æðsta stjórnvald hvers lands eða umboðsmenn þess gáfu passana út. Elsta, norska dæmið um passaskyldu útlendinga er í tilskipun Hákonar V 29. maí 1303.2Norges gamle Love indtil 1387 III. Christiania 1849, bls. 58–59. Sjá og bls. 137–138. Í Íslenzku fornbréfasafni má finna ýmsa passa, sem biskupar gáfu prestum, sem fóru utan til náms eða í erindum biskupsstólanna.3Herluf Nielsen, „Pas“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkur 124. — Herluf Nielsen fjallar almennt um passa undir fyrrnefndri tilvitnun, dálkum 122–125. Sjá og Herluf Nielsen og Lars Hamre, „Lejde“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkar 467–469. — Einnig má nefna verndarbréf, sem konungarnir Kristján I og Hans gáfu Gottskálki Kenekssyni og Ólafi Rögnvaldssyni, Hólabiskupum, árin 1450 og 1483, Kongelige allernaadigste forordninger og aabne breve som til Island ere udgivne af de høist-priselige konger af den Oldenborgiske stamme 1. bindi. Hrappsey 1776, bls. 35–36, 66–68. Í konungsbréfi (missivi, þ.e. lokuðu bréfi) 10. júlí 1563 til embættismanna við ferjustaðina í Danmörku var boðið, að enginn mætti fara úr landi án vegabréfs frá konungi eða ráðinu í Kaupmannahöfn, nema vera þekktir og eiga heima í ríkinu. Var það gert af ótta við njósnara.4Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660. Udgivet ved V.A. Secher. København 1887–1918. 1. bindi, bls. 224 (151. liður). Árið 1626 sendi Danakonungur Kristen Friis kanslara lokað bréf um að skrá í bók vegabréf, sem gefin væru út vegna flutninga (ökukarla), og að bæjarfógeti í Kaupmannhöfn og gildisformaður flutningamanna skyldu halda bók og „kontrarulle“ yfir þau.5Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 4. bindi, bls. 353–354. Og árið 1659 gaf konungur út fyrirmæli um, að enginn færi úr Kaupmannahöfn eða kæmi þangað, nema framvísa konunglegu vegabréfi.6Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 6. bindi, bls. 409 (378. liður). Ekki skipti máli, þótt farið væri milli landa innan ríkisins. Þannig fékk Jón lögmaður Jónsson vegabréf vegna Danmerkurferðar hjá Niels Kaas kanslara árið 1592.7Alþingisbækur Íslands II, bls. 303–304. Árið 1674 bannaði konungur Íslendingum utanför, nema þeir hefðu áður fengið vegabréf hjá amtmanni eða umboðsmanni hans og landfógeta.8Alþingisbækur Íslands VII, bls. 315–317 (sjá einkum neðst á bls. 316). Var þetta iðulega ítrekað, t.d. á síðari hluta 18. aldar.9Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 184 (2. liður), 393, 555 (14. liður). Íslendingar munu hafa þurft vegabréf til þess að ferðast innan Danaveldis allt til ársins 1846, þegar ákvæði um innanríkisvegabréf var afnumið (tók til siglinga milli hluta ríkisins).10Lovsamling for Island XIII, 478. Sjá einnig Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II. bindi 1864–1869. Kaupmannahöfn 1870, bls. 233–235 (einkum bls. 234).

Nokkuð má finna í skjalasöfnum presta af svonefndum sýslupössum og vottorðum, sem prestar skyldu gefa þeim, sem flyttust milli sókna.11Við orðaleit í skrá yfir skjalasöfn presta má finna passa/vegabréf í a.m.k. skjalasöfnum þessara prestakalla: ÞÍ. Kirknasafn. Nesþing BD/1. Vottorð, prestsseðlar og vegabréf 1834–1871; ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Hvammssveit BD/1. Passar og prestsseðlar 1857–1882; ÞÍ. Kirknasafn. Hvanneyri í Siglufirði BD/1. Passar og prestsseðlar 1786–1886; ÞÍ. Kirknasafn. Möðruvallaklaustur í Hörgárdal BD/1. Prestsseðlar, passar og bóluvottorð 1837–1866. Hér á eftir verða rakin allnokkur fyrirmæli um vottorðagjöf ýmiss konar og vottorðaskoðun presta, sem kalla mætti lögreglueftirlit þeirra.

Í réttarbót (recess) Friðriks II frá 27. desember 1587 eru fyrirmæli vegna kaupstaðanna, að borgmeistarar og ráðsmenn, ásamt sóknarprestum, skrái fátæklinga í bæjum þeirra, sem þurfi að biðja um ölmusu, þeim skuli gefa tákn, svo að þeir þekkist og hvar þeim skuli gefin ölmusa.12Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 499. Einnig var gert ráð fyrir, að borgmeistarar og ráðsmenn hefðu eftirlit með fólki, sem flytti í bæina, og athuguðu, hvaða vitnisburði og sannanir það hefði.13Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 501. Hins vegar skyldu héraðsprófastar úti um landið skipa sóknarprestum að skrá alla fátæka og þurfandi í sóknum sínum, sem ölmusu þyrftu við.14Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 503. Lögrétta og lögmenn staðfestu á alþingi árið 1591 konungsbréf, sem Heinrich Kragh höfuðsmaður lagði fram. Mælti það fyrir um, að sýslumenn byðu próföstum, prestum og hreppstjórum að velja, hver í sínum hreppi, það fólk, sem þeir teldu vera sannar ölmususkepnur, og gefa þeim bréf eða víst teikn til vitnisburðar, þar sem þau kæmu fram sem umferðarfólk. Öðrum, sem komnir væru til aldurs, heilir og ósjúkir og flökkuðu, skyldi refsað.15Alþingisbækur Íslands II, bls. 223. Á prestastefnu í Vallanesi árið 1641 var samþykkt:

Enginn ókenndur takist til sacramentis án seðils þess prests úr hvörri sókn hann seinast veik.16Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 70.

Þetta var einnig tekið fyrir á prestastefnu í Otrardal árið 1647.17Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 132. Í prestastefnubók Brynjólfs biskups Sveinssonar eru nokkrum sinnum nefndir sakramentisseðlar eða seðlar fólks, einnig vegaseðill og fríheitaseðill.18Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 110, 269, 332, 340, 350, 353 (vegaseðill), 359 (kynningar- eða fríheitaseðill), 414. Þá er á ýmsum stöðum í þeirri bók og sömuleiðis prestastefnubók Þórðar Þorlákssonar talað um kynningu manna og vitnisburði.19Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 156, 165–166, 179, 255, 348, 378; Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 88, 104, 152, 217, 242, 252. Virðist þar einkum átt við vitnisburði frá prestum, hreppstjórum og bændum, en hvergi er minnst á sýslumenn í því sambandi.

Í alþingissamþykkt um utansveitarfólk og umhleypinga árið 1679 segir, að engu utanhéraðsfólki skuli umferð leyfast í framandi sveitum og því sé almennilega fyrirboðið að ferðast kynningarlaust um sýslur. Þar er einnig talað um óráðvanda drengi, sem komi kynningarlausir í héruðin.20Alþingisbækur Íslands VII, bls. 472–473. Þarna gæti verið vísað til passa/vegabréfa. Í Norsku lögum Kristjáns V frá árinu 1687 er kveðið á um refsingu skipherra eða ferjumanns, sem flytji betlara úr einum stað á annan, nema hann hafi passa og skírteini, sem leyfi för milli staða.21Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 334 (6. liður).

Árið 1685 voru svonefndir Bessastaðapóstar samþykktir á alþingi, þ.e. tillögur landfógeta, Skálholtsbiskups, lögmanna beggja, tveggja sýslumanna og tveggja lögréttumanna um framfærslu- og löggæslumál. Þar segir meðal annars, að þeir, sem veikir séu og félausir og leiti sér ölmusu innan héraðs, skuli hafa sinn skriflegan vitnisburð með áþrykktu signeti sóknarprests síns og tveggja hreppstjóra, að þeir séu réttir ölmusulimir eftir alþingissamþykkt árið 1679. Sá vitnisburður væri tekinn árlega.22Lovsamling for Island I, bls. 432 (5. liður). Þar segir einnig, að vinnufólk, sem fari úr vistinni, skuli hafa skriflegan vitnisburð síðasta húsbónda síns, en sé hann ekki skrifandi, þá með hendi prestsins.23Lovsamling for Island I, bls. 433 (8. liður). Í Bessastaðapóstunum er einnig talað um vegaseðla sendimanna úr annarlegum fjórðungum, svo að þeir aktist ekki fyrir landgangara og takist undir rannsak.24Lovsamling for Island I, bls. 436 (15. liður). Alþingissamþykktin árið 1679 og Bessastaðapóstarnir eiga e.t.v. rætur sínar í réttarbót Kristjáns IV frá 31. mars 1615, tilskipun hins sama 16. nóvember 1619 og réttarbót hans 27. febrúar 1643, þar sem talað er um vinnumenn og flakkara.25Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 3. bindi, bls. 450–451 (44. liður), 594–595 (4. liður); 5. bindi, bls. 317–319.

Eftirfarandi ákvæði eru í áðurnefndum Norsku lögum (frá árinu 1687) um eftirlitsskyldur presta:

Nær nokkur framandi kemur í sóknirnar, skulu bændurnir strax gefa það prestinum til kynna, sem skal lesa þeirra passa og vitnisburði, sem þeir meðferðis hafa, og yfirheyra þá. Og ef nokkur misgrunur kann um þá að vera, skal presturinn það yfirvaldinu eður þess fullmektugum tilkynna. Og skulu prestarnir kostgæfilega uppteikna þeirra nöfn og fæðingarstað, sem uppihalda sér í þeirra sóknum, hvort heldur eru húsmenn, vinnumenn, drengir eður lausgangarar, so menn, nær þörf gjörist, kunni hér um að fá hjá þeim fullkomna undirvísun.
[…]
Nær eitt vinnuhjú, karlmaður eða kona, hefur löglega uppsagt vist sinni, sérdeilis ef það ætlar burt úr sókninni, þá skal sóknarpresturinn vera skyldugur til að gefa því vitnisburð, nær það hans óskar, að það sé laust og liðugt frá herraþjónustu til lands og vatns, so vel sem frá bóndans þjónustu, og hjónabandi, sé það öngvum gift eður trúlofað, og skal enginn prestur, undir tilbærilegt straff, synja því þessa vitnisburðar eður halda honum fyrir því yfir hálfan dag. Og skulu prestarnir gefa alla vitnisburði skrifaða undir sinni hendi og signeti, sem þeir vilja svara til og meðkennast. Og skulu þeir þar fyrir njóta af sérhvörjum vinnumanni, dreng eður kvinnu fjögra skildinga danskra.26Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 420–422 (8. og 10. liður).

Árið 1720 gerðu lögmenn og sýslumenn uppkast að lögreglutilskipun fyrir Ísland. Þar segir meðal annars, að sá reiknist strokinn úr vist, sem ekki hafi vitnisburð prests síns og húsbónda.27Alþingisbækur Íslands X, bls. 565. Fólk, sem ekki gæti unnið sér fæði hjá bændum, skyldi gefa sig fram við sýslumann á manntalsþingum og hann, með hreppstjóra ráði og vitni þingmanna, gefa þeim seðil, sem ölmusumenn væru álitnir. Þeim, sem ekki hefði þann seðil með hendi sýslumanns og vottorði sóknarprests um, að hann væri sannur ölmusumaður, skyldi engin ölmusubeiðni eða betlaraumferð leyfast.28Alþingisbækur Íslands X, bls. 569. Sama ár, 1720, neitaði Hannes Halldórsson, prestur í Reykholti, að taka konu til altaris, sem ekki hafði komið á vinnuhjúaskildaga í sóknina og án vitnisburðar húsbænda og sakramentisseðils. Vísaði prestur henni aftur til átthaga sinna og bannaði bónda í sveitinni að hýsa hana lengur, kynningarlausa og án sinna sáluhjálparfríheita. Gaf prestur henni vegaseðil, þar sem þetta kom fram.29ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2. Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1737. Endurrita- og bréfabók Finns Jónssonar 1746–1748, bl. 239v–240r. Annan vegaseðil gaf Hannes konu árið 1729 og taldi hana óhæfa til hjónabands vegna fáfræði í hennar kristindómi og sáluhjálparlærdómi.30ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi. AC/2, bl. 340r–v.

Johan Pingel amtmaður lét árið 1745 lesa á alþingi skjal, þar sem m.a. sýslumönnum var strengilega boðið að láta hreppstjóra sína og sýslubúa ekki taka á móti eða hýsa flakkara og vinnufólk, sem hlypi milli sýslna án passa og vitnisburðar (skudsmål), heldur vísa þeim aftur þangað, sem þau komu, skilyrðislaust. Var vitnað til ótilgreindra laga og tilskipana.31Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 253–254.

Húsagatilskipunin 3. júní 1746, 26. grein, kveður svo á, að hjú skuli fá vitnisburð húsbónda síns við vistaskipti. Flyttist hjúið milli sókna, skyldi vitnisburðurinn skriflegur og staðfestur af sóknarpresti.32Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 573 (26. liður); Lovsamling for Island II, bls. 615–616. Ekki er víst, að þessu ákvæði hafi verið fylgt staðfastlega, og í tilskipun um vinnuhjú 26. janúar 1866 er hvergi vikið að slíkum vitnisburðum, enda ekki gert ráð fyrir, að húsaga væri beitt við hjú, sem orðin væru 16 ára (20. grein).33Lovsamling for Island XIX, bls. 383–395 (einkum bls. 391). Raunar kemur fram í bréfi konungs til Alþingis árið 1853, að þingið hefði sent bænarskrá um endurskoðun húsagatilskipunarinnar m.a. og yfirvöld á Íslandi látið í ljósi, að húsagaákvarðanir ættu ekki við þennan tíma. En dönskum stjórnvöldum þótti óþarfi að eyða miklu fé í slíka lagagerð.34Alþingistíðindi 1853, bls. 15–16. Hins vegar hafði Alþingi fullan hug á að halda húsaga að fullu, en stjórnvöldin dönsku tóku þar af skarið.35Guðmundur Jónsson, Vinnuhjú á 19. öld. Reykjavík 1981, bls. 15, 18–20.

Þá er í tilskipun um skriftir og altarisgöngur, 27. maí 1746, gert ráð fyrir, að menn hafi passa og vitnisburð um fermingu, sem prestar séu skyldugir að gefa. Er þar einkum átt við fólk úr öðrum sóknum. Fermingarseðil skyldu prestar gefa fólki strax eftir fermingu eða þegar þess væri óskað, og áttu ungir og óþekktir að framvísa slíkum seðlum, þegar þeir vildu vera skráðir til altarisgöngu eða kæmu í aðrar sóknir. Þá var prestum bannað að gefa út betlibréf eða árita þau. Slíkt mátti aðeins sýslumaður gera. En betlarar skyldu hafa vitnisburði um kristindómsþekkingu og framferði frá presti, sem síðast tók þá til altaris.36Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–542 (1., 2. og 5. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–580.

Húsagatilskipunin frá árinu 1746 leggur bann við betli, nema menn geti ekki unnið sér brauð vegna elli, veikinda, þróttleysis og annars þekkjanlegs vanmáttar. Þeir máttu ekki fara milli hreppa, enn síður úr sýslunni, nema þeir hefðu vottorð hreppstjóranna eða sýslumannsins um þetta ástand sitt (34. grein).37Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 576; Lovsamling for Island II, bls. 618–619. Þessu ákvæði var breytt í konunglegum fyrirmælum 10. mars 1784, þannig að hreppstjórar máttu ekki gefa út passa eða vitnisburði heldur aðeins sýslumaður og prestur. Þá var sýslumönnum ekki heimilt að gefa betlurum passa út úr sýslunni og því aðeins innan sýslu, að sókn eða hreppur betlarans gæti ekki alið önn fyrir honum vegna fátæktar sinnar. Yrði sýslumaður þó að kanna slíkt nákvæmlega áður.38Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198.

Magnús Gíslason amtmaður birti á alþingi árið 1758 bréf til lögmanna og sýslumanna. Í því bauð hann m.a., að allur almúgi skyldi hafa með sér passa frá sýslumanni, þegar hann færi erinda sinna í aðrar sýslur eða héruð, þar sem hann væri ókunnur. Sýslumaður skyldi gefa passana út án tafar og án greiðslu og þeim skilað til hans að ferðinni lokinni. Kveikjan að þessari passagjöf var landflótti morðingjans Jóns Helgasonar.39Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 310–312.

Tólf sýslumenn skrifuðu konungi 22. júlí 1779 og báru sig upp undan misnotkun á vitnisburðum og umsögnum (skudsmål), sem einstaklingar gæfu. Það væri orðin viðtekin regla, að menn neituðu ekki öðrum um skriflega vitnisburði, sem viðkomandi hefði jafnvel sjálfur samið, og það án þess að gjafarinn þekkti mikið til viðtakandans. Gæti slíkt skapað vandræði, einkum í sakamálum, þegar menn teldu slíkan vitnisburð binda hendur sínar við eiðtöku. Báðu þeir konung að ráða á þessu bót. Stiftamtmaður lagði til, að einungis andlegir og veraldlegir embættismenn mættu gefa út umsagnir og það til þeirra, sem á þyrftu að halda.40ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0027. Bréf árið 1779 (örk 43). Stiftamtmaður áritaði bréf sýslumannanna 1. september 1779. Árið eftir var bréf konungs frá 7. apríl 1780 birt á alþingi. Þar var bannað að gefa fólki vitnisburði um hegðun þess og aðstæður. Slíkt máttu aðeins gera andlegir og veraldlegir embættismenn, sem hefðu til þess rétt samkvæmt lögum og tilskipunum. Húsbændur máttu gefa hjúum sínum skriflega vitnisburði og þá í návist hreppstjóra eða sóknarfógeta (prests), sem vottuðu þá eða semdu, ef húsbændurnir væru óskrifandi.41Alþingisbækur Íslands XV, bls. 629–630; Lovsamling for Island IV, bls. 526–527.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu, sem var einn af þessum tólf sýslumönnum, lét ekki þar við sitja heldur skrifaði generaltollkammerinu (rentukammeri) bréf 18. ágúst 1779 og kvartaði yfir sjálfræði vinnufólks og lausamanna. Bar hann sig einkum upp undan einum manni, sem engu vildi hlýða og stefndi sýslumannsdómi frá rétti til æðri réttar og myndi enda í hæstarétti. Beiddi Magnús úrbóta í lögregluréttarmálum. Guðmundur Pétursson, settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu, skrifaði einnig generaltollkammerinu, 14. september 1779, og kvartaði yfir því, að bæði búfast fólk og flakkarar færu milli sýslna án þess að fá passa (pasbord) hjá sýslumanni en létu sér nægja vottorð prests, sem auðfengið væri (altarisgönguvottorð). Þetta fólk gæti skuldað skatta, önnur opinber gjöld, legorðsbrotasektir og tugthústoll. Þetta yrði til þess, að sýslumenn næðu ekki skuldum, yrðu stundum að greiða legorðsbrotasektir úr eigin vasa, og að auki yrðu kaupmenn iðulega fyrir skaða. Ásakaði hann presta fyrir vottorðagjöf, án þess að veraldleg yfirvöld vissu af því. Benti Guðmundur á lagastaði, sem hann taldi vísa til þess, að þeir, sem flyttu úr sýslu, þyrftu passa frá sýslumanni eða yfirvöldum á staðnum. Generaltollkammerið framsendi kansellíi útdrátt úr bréfi Magnúsar og bréf Guðmundar, 27. nóvember 1779, og taldi þörf úrbóta, sem kansellíið yrði að ráða bót á.42ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0028. Bréf árin 1779–1780 (örk 5).

Kansellíið skrifaði stiftamtmanni og biskupum báðum 18. desember 1779, sendi þeim afrit af bréfi generaltollkammersins og af gögnunum frá Magnúsi og Guðmundi og beiddist álits þeirra. Ludvig Thodal, stiftamtmaður, svaraði með ítarlegu bréfi 26. september 1780.43ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0028. Bréf árin 1779–1780 (örk 51). Svar stiftamtmanns liggur með bréfi Finns Jónssonar, Skálholtsbiskups, 14. ágúst 1780, sem er einkum svar við fyrrnefndu bréfi Guðmundar Péturssonar. Biskup taldi heppilegt, að þeir, sem flyttu milli héraða, hefðu vottorð sýslumanns um skilvísi og heiðarleika. Einnig er þar bréf frá Lýði Guðmundssyni, sýslumanni í Vestur-Skaftafellssýslu, 24. apríl 1780, þar sem hann mælti með pössum og fann vottorðum presta (altarisgönguseðlum) allt til foráttu og vísaði til bréfs til rentukammers 11. ágúst 1778. Tillögur hans um sýslumannapassa og vitnisburði presta voru teknar upp í konungleg fyrirmæli til stiftamtmanns og biskupa 11. apríl 1781, en þar var boðið, að prestar mættu ekki gefa mönnum vitnisburði, nema sýslumaður hefði fengið þeim passa og jafnframt beðið prestinn skriflega að gefa þeim vitnisburð. Í vegabréfi skyldi vera leyfi sýslumanns fyrir flutningi milli sýslna, orsök og tilgangur flutnings og beiðni til sóknarprests um vitnisburð. Vitnisburðinn skyldi prestur rita á vegabréfið. Bæði vegabréf og vitnisburður skyldu staðfest með undirritun og innsigli sýslumanns og prests. Þegar menn flyttu í aðrar sóknir, skyldu þeir óðara sýna presti bréf sín, en prestur tilkynna sýslumanni og hreppstjórum, þætti honum eitthvað athugavert.44Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198. Þetta var ítrekað í konungsbréfi 10. mars 1784, sem áður hefur verið nefnt.45Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198.

Í tilskipun um lausamenn, 19. febrúar 1783, var tekið fram, að hjáleigumenn, tómthúsmenn eða þurrabúðarmenn við sjávarsíðuna, sem lifðu af sjávarafla, mættu vinna hjá bændum utan vertíðar. Sama gilti um vermenn, sem ynnu hjá þessum mönnum, en allir skyldu hafa vottorð frá sýslumanni. Ákvæðið náði einnig til handverksmanna, svo sem járn-, kopar- og trésmiða og þeirra, sem ynnu við ullariðnað.46Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 184 (8. og 9. grein); Lovsamling for Island IV, bls. 685.

Húsbændur áttu að gefa hjúum sínum vitnisburð, þegar þau fóru úr vistinni, samkvæmt húsagatilskipuninni eins og áður hefur verið nefnt. Hreppstjórar áttu að skrifa slíka vitnisburði fyrir óskrifandi almúgafólk en skrifa upp á þá alla og einnig krefja aðkomandi og langferðamenn um passa og árita, hvenær þeir voru sýndir samkvæmt hreppstjórainstrúxinu frá 1809. Þeir máttu alls ekki gefa passa eða vitnisburði öðrum en hjúum, sem færu úr vistum, einkum ef húsbændurnir reyndu að synja þeim vitnisburða.47Lovsamling for Island VII, bls. 328–329 (44. grein).

Tilskipun um embættisskyldur presta vegna hjónavígslna 30. apríl 1824 kveður á um, að fyrir lýsingar til hjónabands skuli prestar kanna, hvort hjónaefni séu fermd og hafi gengið til altaris.48Lovsamling for Island VIII, bls. 538 (3. grein, 2. liður).

Aukatekjureglugerð fyrir réttarins þjóna var sett árið 1830, en ekki höfðu verið til neinar fastar reglur um greiðslur fyrir embættisverk slíkra manna. Þar voru ákvæði um greiðslur fyrir passa: 1) Greiða átti 16 skildinga fyrir útgáfu ferðapassa en 24 skildinga, ef það var vegna ferðar úr landi. Átti það við hvern einstakling. Húsmenn, tómthúsmenn, daglaunamenn og vinnufólk og aðrir, sem álitust þeirra jafnar, skyldu greiða helmingi minna. Allir sannanlega snauðir, sem hefðu rétt á að fá passa, skyldu fá hann ókeypis. 2) Fyrir áritun á passa skyldi borga 4 skildinga, án tillits til þess fyrir hve marga passinn hljóðaði. Þeir, sem undanþegnir voru greiðslu fyrir ferðapassa, og þeir, sem aðeins greiddu hálft gjald fyrir ferðapassa, þurftu ekki að borga fyrir áritun.49Lovsamling for Island IX, bls. 585 (58. og 59. grein). Finna má passa- og vegabréfabækur frá 19. öld í skjalasöfnum fáeinna sýslumanna.50Skjalasafn bæjarfógetans í Reykjavík, skjalasöfn sýslumanna í Snæfellsness-, Dala-, Barðastrandar- og Strandasýslum.

Sýslumenn áttu að gefa fólki, sem flutt var fátækraflutningi, fylgiseðil samkvæmt 8. grein fátækrareglugerðar frá 8. janúar 1834.51Lovsamling for Island X, bls. 426–427.

Dómsmálaráðuneytið sendi stiftamtmanni og amtmönnum á Íslandi dönsk lög frá 12. febrúar 1862 um breytingar á gildandi lögum á vegabréfum með bréfi 12. mars 1863, en taldi lögin ekki hæf til yfirfærslu til Íslands. Spurði þó, hvort ekki væri ástæða til þess að breyta gildandi, íslenskum lagaákvæðum. Bæði settur amtmaður í Vesturamti (bréf 27. maí 1863) og settur stiftamtmaður (bréf 4. júní 1863) töldu dönsku lögin óhæf til yfirfærslu og stiftamtmaður áleit að halda ætti íslensku reglunum óbreyttum. Á þetta féllst Alþingi (stiftamtmannsbréf 15. september 1863).52ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin , 28. 1863. Islands Journal 10, nr. 1619 (örk 3). Meðfylgjandi skjöl, Isl. Journ. 10, nr. 852, 1321 og 1322, eru meðal þeirra, sem vitnað er til.

Pétur Havstein, amtmaður í Norður- og Austuramti, svaraði með bréfi 20. febrúar 1864. Taldi hann íslensku ákvæðin að mörgu leyti úrelt og óhagkvæm. Sagði sjaldgæft, að þeir tækju passa, sem færu milli sýslna í lengri eða skemmri ferðir. Undantekningar væru kaupamenn, sem færu úr sjávarbyggðum á Suðurlandi í sveitir til þess að vinna að heyskap, og vermenn, sem færu í verstöðvar á vetrum. Hins vegar væri nær alltaf krafist passa, þegar fólk færi búferlum eða vistferlum í annað lögsagnarumdæmi. Raunar væri algengt, að passinn væri fenginn eftir flutning, stundum ári síðar. Oftast væri hann áritaður af presti, sem vottaði um altarisgöngu, en engar upplýsingar fylgdu um aldur viðkomandi eða hve lengi hann hefði dvalið í sýslunni. Aldrei væri spurt um passa, þegar flutt væri milli hreppa innan sýslu. Í mesta lagi væri komið með prestsvottorð um altarisgöngu og siðferði. Núgildandi ákvæði, a.m.k. eins og þeim væri beitt, væru nær gagnslaus til þess að aftra flakki og betli. Lagði Pétur til, að hverjum manni yrði við fermingu fengið skjal eða kver, löggilt af sóknarpresti, og í það ritað, hvenær viðkomandi væri fæddur, skírður, fermdur og jafnvel bólusettur. Væri hver skyldur til þess, þegar hann flytti úr einum hreppi í annan, að fá hlutaðeigandi hreppstjóra til þess að skrifa í bókina vitnisburð um, hversu lengi og í hvaða stöðu hann hefði verið í hreppnum, sem hann færi úr, og hvenær hann komi í hreppinn, sem hann flytti í. Þannig gerðu menn viðhlítandi grein fyrir sér. Einnig sæist, hvort þeir hefðu uppfyllt vistarskylduna, og loks hefði slíkt skjal mikla þýðingu í úrskurðum um sveitfesti. Vísaði Pétur til ákvæða um vitnisburðarbækur (skudsmålsbøger) í dönskum hjúalögum, en því hefði nefnd, sem átti að semja ný hjúalög fyrir Ísland, lagst á móti.53ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).

Dómsmálaráðuneytið íhugaði málið og leitaði álits stiftamtmanns og amtmanns í Vesturamti með bréfi 15. júlí 1864. Þórður Jónasson, settur stiftamtmaður, andæfði mjög hugmyndum Péturs í bréfi 1. september 1864. Hins vegar sagði Bogi Thorarensen, settur amtmaður í Vesturamti, í bréfi 21. desember 1864 alla viðurkenna, að passalög á Íslandi væru úrelt og óhagkvæm og ómögulegt að fara eftir fyrirmælunum frá 11. apríl 1781, en leist nokkuð vel á hugmynd Péturs Havstein.54ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).

Í bréfi dómsmálastjórnarinnar til stiftamtmannsins á Íslandi, 12. október 1865, um breyting á lögum þeim um vegabréf, sem þá giltu á Íslandi, segir m.a. þar, sem fjallað er um vegabréf til og frá Íslandi, að ætla megi, að menn séu að mestu leyti hættir að fá sér vegabréf, þegar þeir fari frá Íslandi. Síðan segir:

Þegar þessu næst er að ræða um vegabréf á Íslandi sjálfu, þá hefir aldrei verið til nein almenn lagaákvörðun um það, að menn þurfi á vegabréfi að halda, þegar menn ferðast eitthvað innanlands; aptur á móti er skipað fyrir, að hafa vegabréf einasta í tveim tilfellum, í fyrsta lagi, þegar maður fer úr einni sýslu í aðra, og ætlar sér að setjast þar að, annað hvort fyrir fullt og allt eða um tíma, smbr. konungsbréf 11. aprílmán. 1781, í öðru lagi þegar svo er ástatt, sem konungsbréf 10. marzmán. 1784 og reglugjörð 8. janúarmán. 1834 22. grein gjörir ráð fyrir.55Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands. II, bls. 233–235. (Tilvitnuð klausa er á bls. 234); ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).

Taldi dómsmálastjórnin þýðingarlaust að fara að lögfesta á Íslandi dönsku vegabréfalögin frá 12. febrúar 1862. Um væri að ræða, hvort ástæða væri til þess að nema úr lögum skylduna til þess að hafa vegabréf, sem nefnd væru í konungsbréfinu frá árinu 1781, því að ekki gæti verið umtalsmál að leysa menn undan því að hafa vegabréf í tilfellinu, sem reglugerð 8. janúar 1834, 22. grein, ræddi um.56Þar er átt við ákvæðið: „Allt flakk og betlaraskapur, að svo miklu leyti slíkt með konungsbréfi af 10. mars 1784 ekki er leyft í ýtrustu nauð, skal héreptir, eins og fyrr vera strengilega fyrirboðið og álítast samkvæmt nýnefndu kóngsbréfi, samanbornu við kóngsbréfin af 11. apríl 1784 og 25. júlí 1808.“ Lovsamling for Island X, bls. 434 (22. grein). Þá sagði, að þar sem ákvörðunin í konungsbréfinu 1781 hefði verið skilin svo, að krafist hefði verið vegabréfa af þeim, sem ferðuðust í aðra sýslu til þess að dvelja þar stuttan, ákveðinn tíma, þá virtist það ekki vera samkvæmt tilgangi þeim, sem tekinn væri fram í konungsbréfinu sjálfu. Tilgangurinn væri að stemma stigu fyrir, að menn, með því að fara burt úr sýslunni og setjast að langt þaðan, kæmu sér undan skuldbindingum, sem þeir hefðu tekist þar á hendur, eða hegningu fyrir lagabrot, er þeir hefðu framið þar. Þetta virtist ekki eiga við þá, sem ferðuðust burt og ætluðu að hverfa aftur til heimila sinna að stuttum tíma liðnum, og öldungis óþarft að gera slíka takmörkun á frelsi þeirra. Var stiftamtmaður beðinn (svo og hinir amtmennirnir) að láta alla sýslumenn í umdæmi sínu skýra frá áliti þeirra, hvort þeim fyndist ástæða til þess að nema konungsbréfið frá 11. apríl 1781 úr gildi, og um álit þeirra á uppástungu Péturs Havstein.

Hilmar Finsen, stiftamtmaður, sendi dómsmálaráðuneytinu svör sýslumanna í Suðuramti og bæjarfógeta í Reykjavík með bréfum 24. september 1866 og 2. mars 1867. Lagðist hann, flestir sýslumennirnir og bæjarfógetinn gegn því, að tilskipunin frá árinu 1781 yrði numin úr gildi. Var hann þeirrar skoðunar, að passarnir hentuðu vel, hvort sem menn flyttu eða hyggðu á skemmri dvöl. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu (H. H. E. Clausen) hallaði sér hins vegar að Pétri Havstein.57ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo]). Sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu var Dani. Bergur Thorberg, amtmaður í Vesturamtinu, svaraði 18. júlí 1866. Hann og fjórir sýslumenn af sex vildu afnema fyrirmælin frá árinu 1781. Fimm sýslumenn vildu taka upp skráningarbækur, en sá sjötti var bæði móti afnáminu og upptöku skráningarbóka. Amtmaður taldi aftur á móti slíkar bækur vera brot á persónufrelsi.58ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]). Auk bréfs amtmanns er eftirtektarvert langt og ítarlegt bréf Gunnlaugs Blöndal, sýslumanns í Barðastrandarsýslu, 6. apríl 1866, þar sem meðal annars segir (ofarlega á þriðju síðu): „Men maa det saaledes erkjendes, at de nugjældende lovbestemmelser om pasvæsenet i Island i alfald ikke længere have nogen grund i den blandt folket herskende retsbevidsthed.“ Pétur Havstein, amtmaður, svaraði 27. september 1866 og taldi tilskipunina frá árinu 1781 ónýta og hélt sig við tillögu sína frá árinu 1864, en sýslumenn í amti hans hölluðust flestir að tilskipuninni frá árinu 1781 og voru mótfallnir skráningarbókum. Eftirtektarvert er viðhorf Stefáns Thorarensen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, 15. janúar 1866, sem taldi passaskylduna binda einstaklingsfrelsi og ætti að afnema sem úrelta og skráningarbækurnar íþyngja fólki meira en passaskyldan. O. Smith, sýslumaður í Norður-Múlasýslu, 14. ágúst 1866, vísaði til bréfs til Norður- og Austuramtsins 31. desember 1863, þar sem hann lagði til, að passaákvæðið væri afnumið en skráningarbækur teknar upp.59ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]. Ekki verður séð, að stjórnvöld hafi gert neitt frekar í passamálum. Kom þó fram hjá ýmsum sýslumönnum í áðurnefndum bréfum, að passaskyldunni hafi þar lítt eða ekki verið sinnt, t.d. pössum verið framvísað einu eða tveimur árum eftir búferlaflutninga.

Alþingi samþykkti árið 1887 lög um þurrabúðarmenn. Þau voru staðfest sem lög nr. 1/1888, 12. janúar.60Stjórnartíðindi 1888 A, bls. 2–5. Í fyrstu grein segir, að enginn megi gerast þurrabúðarmaður, nema hann m.a. fullnægði því skilyrði að sanna fyrir hreppsnefndinni í hreppnum, þar sem hann vildi setjast að, með vottorðum tveggja skilríkra manna, að hann væri reglumaður og ráðdeildarsamur. Í annarri grein var kveðið á um, að viðkomandi skyldi skriflega beiðast byggðarleyfis hjá hreppsnefnd, þar sem hann vildi setjast að. Skyldi hreppsnefndin athuga vandlega öll skjöl og skilríki beiðanda. Ekki var minnst á passaskyldu í lögunum og ekki heldur í umræðum á Alþingi.61Alþingistíðindi 1887 A, dálkar 544–547, 583–587, 615–622; B, dálkar 558, 787–805, 1010–1019, 1247–1253; C, bls. 164–166, 319–320, 369, 372–373, 395, 406–407, 409, 424–425, 449–450.

Væntanlega hafa lög nr. 3/1894, um breyting á 2., 4. og 15. grein í tilskipun um lausamenn og húsmenn á Íslandi 26. maí 1863 og viðauka við hana, losað verulega um passakröfuna. Þá varð hverjum manni, 22 ára að aldri, heimilt að leysa sig undan vistarskyldu með því að taka leyfisbréf hjá lögreglustjóra, en var jafnframt skylt að hafa fast ársheimili og tilkynna það á hverju vori.62Stjórnartíðindi 1894 A, bls. 32–35. — Miklar umræður um frumvarpið urðu á Alþingi árið 1893, sem einkum lutu að vistarbandinu. Komu þar fram mjög andstæðar skoðanir, en ekki var minnst á passaskylduna. Alþingistíðindi 1893 A, dálkar 490–519, 630–631, 645–674, 707; B, dálkar 23–53, 655–662, 711–788, 933–943, 1966–1973.

Einar Arnórsson, lagaprófessor, áleit árið 1912, að passaákvæðið hefði fallið úr gildi með lögum um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn, nr. 60/1907, 22. desember, enda orðin úrelt með öllu og hvergi fylgt.63Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 154–155. Raunar er það svo, að hvergi er minnst á passaskyldu í þeim lögum. Einar hefur e.t.v. byggt álit sitt á ákvæði í 2. grein laganna, en hverjum manni, 20 ára að aldri eða að fullu fjár síns ráðandi, þótt yngri væri, var heimilt að leysa sig undan vistarskyldu með því að taka leyfisbréf hjá lögreglustjóra. Hugsanlega á ákvæði 4. greinar um vottorð frá húsráðanda um heimlisfestu. Eða á 10. grein um húsmenn og þurrabúðarmenn, en þeir, sem vildu setjast að í húsmennsku eða þurrabúð, skyldu tilkynna það lögreglustjóra eða hreppstjóra a.m.k. fjórum vikum áður en þeir settust að og um leið sanna, að þeir ættu vísan samastað í eitt ár að minnsta kosti. Lögreglustjóri eða hreppstjóri gæfu vottorð um tilkynninguna og vottorðið væri að skoða sem byggðarleyfi. Engin vísun til afnáms passaákvæðisins frá árinu 1781 er þó í 20. grein laganna, þar sem talin eru upp tilskipanir og lög, sem falla úr gildi við lagasetninguna.64Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 398–405. Það kemur fram í nefndaráliti efri deildar Alþingis árið 1907, að virðing fyrir ýmsum ákvæðum um vistarband, lausamennsku og þurrabúðarmenn væri lítil.65Alþingistíðindi 1907 A, bls. 490–492. Og í nefndaráliti neðri deildar sagði, að vistarbandið hefði í rauninni mjög litla þýðingu.66Alþingistíðindi 1907 A, bls. 1051.

Fyrirmæli um almennt afnám altarisgönguvottorða hafa ekki heldur fundist. Trúfrelsi varð á Íslandi með stjórnarskránni árið 1874.67Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III. bindi 1870–1875. Kaupmannahöfn 1875, bls. 708 (45.–47. grein). Átta árum síðar voru staðfest lög um leysing á sóknarbandi, nr. 9/1882. Þar segir í 7. grein, að vilji ófermdur maður, fullra 18 ára að aldri, ráða sig í vist, skuli hann fá til þess samþykki prestsins, sem ætlast væri til að fermdi hann. Presturinn mátti ekki veita samþykki sitt til vistarráða, nema það væri í prestakalli hans. Í 10. grein segir m.a., að sóknarleysingja sé rétt að láta kjörprest sinn fremja altarisgöngu (eins og önnur prestsverk).68Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 68–69. Ekki var þar minnst á útgáfu eða gildi altarisgönguvottorða. Tveimur árum síðar komu lög um utanþjóðkirkjumenn, nr. 4/1886.69Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23. Í 4. grein segir, að valdsmaður skuli gæta alls hins sama um meinbugi, sem þjóðkirkjuprestar eigi að gæta að lögum, þó séu ferming og altarisganga ekki hjúskaparskilyrði fyrir þá, sem eigi hefðu þjóðkirkjutrú.

Viðhorf til altarisgöngu breyttust mjög, þegar kom fram á síðari áratugi nítjándu aldar. Í skjalasafni biskups yfir Íslandi eru skýrslur um messugerðir, sem hefjast árið 1881. Þar má víða finna upplýsingar um fjölda fermdra íbúa í hverri sókn og þeirra, sem gengu til altaris. Þá hefur verið farið að draga mjög úr altarisgöngum sums staðar á landinu, ekki síst á þéttbýlisstöðum og sjávarplássum. Þannig var árið 1882 í Dvergasteinssókn 501 fermdur við árslok, en 35 gengu til altaris (þar af þrír tvisvar), á Akureyri 62 af 502 fermdum. Þó eru þess ýmis dæmi, að í sumum sóknum hafi allir fermdir gengið þá til altaris, svo sem í Eydalakalli og sókn, Kvíabekkjarkalli og sókn og Sauðanesprestakalli og sókn. Þá má benda á Hítarnesþing með fjórum sóknum, þar sem allir fermdir fóru til altaris í tveimur sóknum, einn vantaði í þeirri þriðju og þrjá í þeirri fjórðu.70ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. VI. 279A. Messuskýrslur árin 1881–1882. Um 1890 gengu aðeins 37 af hundraði fermdra manna til altaris á ári að meðaltali. Meðaltalið fór niður í 30 af hundraði á næstu árum.71Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“. Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 151. Árið 1900 voru 766 fermdir í Dvergasteinssókn, 37 gengu til altaris, 44 af 273 voru til altaris í Eydalasókn. Hítarnesþing voru úr sögunni og tvær sóknir höfðu verið sameinaðar öðrum sóknum, í Akrasókn (áður Akra- og Hjörseyjarsóknir) voru þá 156 fermdir og enginn var til altaris. Í Kvíabekkjarsókn voru 46 til altaris af 200 fermdum í sókninni, ókunnugt um fjölda altarisgöngufólks á Akureyri (sagt nokkuð fyrir utan fermingarbörn), 14 af 224 fermdum gengu til altaris í Sauðanessókn.72ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. VI. 284B. Messuskýrslur árið 1900.

Einar Arnórsson taldi árið 1912, að krafa um altarisgönguvottorð hefði fallið úr gildi með lögum um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn, nr. 60/1907. Hann áleit þó, að altarisgönguvottorð gætu enn haft þýðingu, því að þjóðkirkjupresti þyrfti að sýna altarisgönguseðil vegna hjónavígslu.73Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 154–155. Á bls. 143, 8. lið, í sama riti vísar Einar til tilskipunar um skriftastólinn og altarisgöngu frá 27. maí 1746 um skyldu til framvísunar á altarisgönguvottorðum við hjónavígslu. Slíkt er ekki nefnt sérstaklega í tilskipuninni, Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–544; Lovsamling for Island II, bls. 578–580. Sjá áðurnefnda hjónavígslutilskipun frá 30. apríl 1824.74Lovsamling for Island VIII, bls. 538 (3. grein, 2. liður). Tölurnar um altarisgesti sýna þó, að prestar hljóta að hafa lítt sinnt þeirri kröfu. Fermingar- og altarisgönguákvæðin voru afnumin með lögum um hjónaband nr. 30/1917.75Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 41 (8. grein).

Skjöl þau, sem hér hefur verið fjallað um, nefndust venjulega prestsseðlar eða passar. Sjá einnig Prestsseðlar, vottorð og tilkynningar.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Vef. http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=363249&s=448052&l=passi, sótt 20. nóvember 2017.
2 Norges gamle Love indtil 1387 III. Christiania 1849, bls. 58–59. Sjá og bls. 137–138.
3 Herluf Nielsen, „Pas“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkur 124. — Herluf Nielsen fjallar almennt um passa undir fyrrnefndri tilvitnun, dálkum 122–125. Sjá og Herluf Nielsen og Lars Hamre, „Lejde“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkar 467–469. — Einnig má nefna verndarbréf, sem konungarnir Kristján I og Hans gáfu Gottskálki Kenekssyni og Ólafi Rögnvaldssyni, Hólabiskupum, árin 1450 og 1483, Kongelige allernaadigste forordninger og aabne breve som til Island ere udgivne af de høist-priselige konger af den Oldenborgiske stamme 1. bindi. Hrappsey 1776, bls. 35–36, 66–68.
4 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660. Udgivet ved V.A. Secher. København 1887–1918. 1. bindi, bls. 224 (151. liður).
5 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 4. bindi, bls. 353–354.
6 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 6. bindi, bls. 409 (378. liður).
7 Alþingisbækur Íslands II, bls. 303–304.
8 Alþingisbækur Íslands VII, bls. 315–317 (sjá einkum neðst á bls. 316).
9 Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 184 (2. liður), 393, 555 (14. liður).
10 Lovsamling for Island XIII, 478. Sjá einnig Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II. bindi 1864–1869. Kaupmannahöfn 1870, bls. 233–235 (einkum bls. 234).
11 Við orðaleit í skrá yfir skjalasöfn presta má finna passa/vegabréf í a.m.k. skjalasöfnum þessara prestakalla: ÞÍ. Kirknasafn. Nesþing BD/1. Vottorð, prestsseðlar og vegabréf 1834–1871; ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Hvammssveit BD/1. Passar og prestsseðlar 1857–1882; ÞÍ. Kirknasafn. Hvanneyri í Siglufirði BD/1. Passar og prestsseðlar 1786–1886; ÞÍ. Kirknasafn. Möðruvallaklaustur í Hörgárdal BD/1. Prestsseðlar, passar og bóluvottorð 1837–1866.
12 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 499.
13 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 501.
14 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 2. bindi, bls. 503.
15 Alþingisbækur Íslands II, bls. 223.
16 Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 70.
17 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 132.
18 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 110, 269, 332, 340, 350, 353 (vegaseðill), 359 (kynningar- eða fríheitaseðill), 414.
19 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 156, 165–166, 179, 255, 348, 378; Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 88, 104, 152, 217, 242, 252.
20 Alþingisbækur Íslands VII, bls. 472–473.
21 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 334 (6. liður).
22 Lovsamling for Island I, bls. 432 (5. liður).
23 Lovsamling for Island I, bls. 433 (8. liður).
24 Lovsamling for Island I, bls. 436 (15. liður).
25 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660, 3. bindi, bls. 450–451 (44. liður), 594–595 (4. liður); 5. bindi, bls. 317–319.
26 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 420–422 (8. og 10. liður).
27 Alþingisbækur Íslands X, bls. 565.
28 Alþingisbækur Íslands X, bls. 569.
29 ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/2. Héraðsbók Hannesar Halldórssonar í Reykholti 1704–1737. Endurrita- og bréfabók Finns Jónssonar 1746–1748, bl. 239v–240r.
30 ÞÍ. Kirknasafn. Borgarfjarðarprófastsdæmi. AC/2, bl. 340r–v.
31 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 253–254.
32 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 573 (26. liður); Lovsamling for Island II, bls. 615–616.
33 Lovsamling for Island XIX, bls. 383–395 (einkum bls. 391).
34 Alþingistíðindi 1853, bls. 15–16.
35 Guðmundur Jónsson, Vinnuhjú á 19. öld. Reykjavík 1981, bls. 15, 18–20.
36 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–542 (1., 2. og 5. grein); Lovsamling for Island II, bls. 578–580.
37 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 576; Lovsamling for Island II, bls. 618–619.
38 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198.
39 Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 310–312.
40 ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0027. Bréf árið 1779 (örk 43). Stiftamtmaður áritaði bréf sýslumannanna 1. september 1779.
41 Alþingisbækur Íslands XV, bls. 629–630; Lovsamling for Island IV, bls. 526–527.
42 ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0028. Bréf árin 1779–1780 (örk 5).
43 ÞÍ. Hið danska kansellí 1928-KA/0028. Bréf árin 1779–1780 (örk 51). Svar stiftamtmanns liggur með bréfi Finns Jónssonar, Skálholtsbiskups, 14. ágúst 1780, sem er einkum svar við fyrrnefndu bréfi Guðmundar Péturssonar. Biskup taldi heppilegt, að þeir, sem flyttu milli héraða, hefðu vottorð sýslumanns um skilvísi og heiðarleika. Einnig er þar bréf frá Lýði Guðmundssyni, sýslumanni í Vestur-Skaftafellssýslu, 24. apríl 1780, þar sem hann mælti með pössum og fann vottorðum presta (altarisgönguseðlum) allt til foráttu og vísaði til bréfs til rentukammers 11. ágúst 1778.
44 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198.
45 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 196–198.
46 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 184 (8. og 9. grein); Lovsamling for Island IV, bls. 685.
47 Lovsamling for Island VII, bls. 328–329 (44. grein).
48 Lovsamling for Island VIII, bls. 538 (3. grein, 2. liður).
49 Lovsamling for Island IX, bls. 585 (58. og 59. grein).
50 Skjalasafn bæjarfógetans í Reykjavík, skjalasöfn sýslumanna í Snæfellsness-, Dala-, Barðastrandar- og Strandasýslum.
51 Lovsamling for Island X, bls. 426–427.
52 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin , 28. 1863. Islands Journal 10, nr. 1619 (örk 3). Meðfylgjandi skjöl, Isl. Journ. 10, nr. 852, 1321 og 1322, eru meðal þeirra, sem vitnað er til.
53 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).
54 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).
55 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands. II, bls. 233–235. (Tilvitnuð klausa er á bls. 234); ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]).
56 Þar er átt við ákvæðið: „Allt flakk og betlaraskapur, að svo miklu leyti slíkt með konungsbréfi af 10. mars 1784 ekki er leyft í ýtrustu nauð, skal héreptir, eins og fyrr vera strengilega fyrirboðið og álítast samkvæmt nýnefndu kóngsbréfi, samanbornu við kóngsbréfin af 11. apríl 1784 og 25. júlí 1808.“ Lovsamling for Island X, bls. 434 (22. grein).
57 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo]). Sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu var Dani.
58 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!]). Auk bréfs amtmanns er eftirtektarvert langt og ítarlegt bréf Gunnlaugs Blöndal, sýslumanns í Barðastrandarsýslu, 6. apríl 1866, þar sem meðal annars segir (ofarlega á þriðju síðu): „Men maa det saaledes erkjendes, at de nugjældende lovbestemmelser om pasvæsenet i Island i alfald ikke længere have nogen grund i den blandt folket herskende retsbevidsthed.“
59 ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XI, 5. 1864. Islands Journal 11, nr. 173 (örk 1 [svo!].
60 Stjórnartíðindi 1888 A, bls. 2–5.
61 Alþingistíðindi 1887 A, dálkar 544–547, 583–587, 615–622; B, dálkar 558, 787–805, 1010–1019, 1247–1253; C, bls. 164–166, 319–320, 369, 372–373, 395, 406–407, 409, 424–425, 449–450.
62 Stjórnartíðindi 1894 A, bls. 32–35. — Miklar umræður um frumvarpið urðu á Alþingi árið 1893, sem einkum lutu að vistarbandinu. Komu þar fram mjög andstæðar skoðanir, en ekki var minnst á passaskylduna. Alþingistíðindi 1893 A, dálkar 490–519, 630–631, 645–674, 707; B, dálkar 23–53, 655–662, 711–788, 933–943, 1966–1973.
63 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 154–155.
64 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 398–405.
65 Alþingistíðindi 1907 A, bls. 490–492.
66 Alþingistíðindi 1907 A, bls. 1051.
67 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III. bindi 1870–1875. Kaupmannahöfn 1875, bls. 708 (45.–47. grein).
68 Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 68–69.
69 Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23.
70 ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. VI. 279A. Messuskýrslur árin 1881–1882.
71 Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“. Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 151.
72 ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. VI. 284B. Messuskýrslur árið 1900.
73 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 154–155. Á bls. 143, 8. lið, í sama riti vísar Einar til tilskipunar um skriftastólinn og altarisgöngu frá 27. maí 1746 um skyldu til framvísunar á altarisgönguvottorðum við hjónavígslu. Slíkt er ekki nefnt sérstaklega í tilskipuninni, Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 541–544; Lovsamling for Island II, bls. 578–580.
74 Lovsamling for Island VIII, bls. 538 (3. grein, 2. liður).
75 Stjórnartíðindi 1917 A, bls. 41 (8. grein).