Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Óðal, óðalsréttur

Íslensk orðabók skilgreinir óðal sem: „eign, jarðeign sem gengur að erfðum (í karllegg, einkum til elsta sonar), sjálfseignarjörð.“ Óðalsjörð er sögð: „jörð sem er ættaróðal, jörð sem ábúandinn á.“ Óðalsréttur = „réttur til að erfa ættaróðal.“1Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík 2002, bls. 1099. Ættaróðal er: „jörð sem erfist innan ættar, jörð sem fullnægir tilteknum lagaskilyrðum um stærð og er skráð sérstaklega.“2Íslensk orðabók, bls. 1861.

 Þegar talað er um óðal í Jónsbók, virðist fyrst og fremst átt við mikilsmetnar jarðir, orðið óðalsjörð geti vísað til ættaróðals, jarðar sem gengið hefur að erfðum og ábúð innan ættar.

Ýmis dæmi má finna í Alþingisbókum Íslands um jarðakaup og jarðakaupabrigði vegna þess að jarðirnar töldust óðul, þ.e. hafa verið eign einhverra í ættinni en verið seldar eða gefnar úrættis. Hér hefur ekki verið gerð könnun á því, hvort menn hafi metið óðul sérstaklega út frá ættarábúð.

Í Norsku lögum Kristjáns V.3Kongs Christians þess fimmta norsku lög. Hrappsey 1779. eru ýmis ákvæði um óðul. Ókannað er, hvort Íslendingar hafi dæmt um rétt til óðala á grundvelli þeirra laga. Norsk lög þóttu ekki nógu skýr varðandi óðalsrétt og rétt ábúenda. Því var 14. janúar 1771 gefin út tilskipun um óðalsrétt í Noregi og hún færð til Íslands með fyrirmælum 28. mars 1776.4Lovsamling III, bls. 694–699; Lovsamling IV, bls. 211. Norsku lög Kristjáns V. kváðu það vera óðalsjörð, sem legið hefði undir sama ættlið í 20 ár eða meira. Tilskipunin sagði, að jörð yrði óðalsjörð, hefði sami maður eða ætt búið á jörðinni í 10 ár eða lengur sem eigandi. Óðalsbornir teldust aðeins afkomendur þeirra, sem búið hefðu á jörðinni, í beinni línu. Hefði óðal verið utan ættar í 15 ár eða meir, féll óðalsrétturinn niður. Einnig voru ýmis ákvæði um innlausn og sölu óðalsjarða og verðmat þeirra. Þá var fjallað um rétt þeirra, sem búið hefðu á óðalsjörð, þegar óðalsréttarhafi vildi leysa til sín jörðina.

Tilskipun um óðalsréttinn á Íslandi var gefin út 17. apríl 1833.5Lovsamling X, bls. 291–298, íslenskur texti bls. 295–298. Þá skyldi réttur til óðals, sem væri í eigu vandalausra eða fjarskyldra, miðast við 5 ár í stað 15 ára áður. Hefði einhver náð 10 ára óðalshefð á jörð, skyldi það vera undir honum komið, hvort hann vildi binda hana við einhvern lausnarrétt, þegar hann afhenti jörðina. Vildi hann áskilja sér og ætt sinni innlausnarrétt, átti að taka það fram í afsalsbréfi eða öðru þinglesnu skjali. Vildi einhver, að óðalsréttur hvíldi á jörð, átti að þinglýsa því. Einnig var fjallað um íþyngingu óðalsréttar vegna veðsetningar og erfða. Óðalshafi gat við sölu afsalað sér og afkomendum sínum óðalsréttinum, en aðrir í ættinni héldu innlausnarrétti.

Þessi tilskipun var í gildi til ársins 1936, þegar lög um erfðaábúð og óðalsrétt nr. 8/1936 öðluðust gildi.6Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 16–23. Tilgangur laganna var samkvæmt greinargerð með frumvarpinu árið 1935: Að koma því til leiðar, að jarðir héldust í sjálfsábúð og sjálfseignarbændum fjölgaði, komið yrði í veg fyrir, að óbærilegar veðskuldir söfnuðust á jarðir. Ætlunin var að takmarka fjárstraum úr sveitunum, meðal annars með því, að sjálfseignarbændur þyrftu ekki að kaupa ábýlisjarðir sínar af meðerfingjum og stofnað þannig til stórskulda, að spornað yrði við því, að bóndi gæti með óreiðu eða ónytjungshætti eyðilagt staðfestu barns síns eða ættingja og „glæða og þroska heilbrigðan ættarmetnað og tryggð bænda við föðurleifð sína og íslenskan landbúnað.“ Litu flutningsmenn til stórhækkandi verðs á jörðum og mikilla veðskulda á þeim, sem sumir risu ekki undir, einkum á krepputímum.7Alþingistíðindi 1935 A, bls. 176–178. Samkvæmt þessum lögum var sérhverjum jarðeiganda heimilt að gera jörð sína að ættaróðali, ef tiltekin skilyrði væru fyrir hendi. Vottfesta yfirlýsingu með tilteknum gögnum átti að afhenda sýslumanni, sem skyldi færa jörðina inn í sérstaka skrá yfir ættaróðul, ef öllum lagaskilyrðum hefði verið fullnægt, og gerningurinn síðan lesinn á næsta manntalsþingi (10. grein). Gerði bóndi jörð að ættaróðali, áttu erfingjar hans í fyrsta lið kröfu til þess, að óðalserfinginn greiddi þeim árlega, meðan hann lifði, þó ekki lengur en 25 ár, 3% af land- og húsaverði jarðarinnar, samkvæmt þáverandi fasteignamati, af þeirra hluta í skuldlausri eign fasteignarinnar, ef jörðin hefði komið til skipta. (11. grein). Ýmsar reglur giltu um arf á óðalsrétti (24. grein) svo sem: Foreldrar skyldu koma sér saman um, hvert af börnum þeirra (kjörbörn meðtalin) skyldi erfa óðalsréttinn og tilkynna sýslumanni. Yrðu hjónin ekki ásátt um, hver skyldi hljóta réttinn, áttu börnin eða forráðamenn þeirra að leita samkomulags að viðstöddum sýslumanni. Næðist ekki samkomulag, skyldi elsta barnið erfa réttinn, hafnaði það, erfðu önnur börn eftir aldri. Dæi óðalsefingi ókvæntur og barnlaus, erfðu systkini hans óðalsréttinn í réttri aldursröð. Heimilt var óðalsbónda og konu hans að gefa óðalið, ef enginn með erfðarétti væri tiltækur, og yrði  það ættaróðal þiggjanda. — Með þessum lögum var í raun á vissan hátt gengið á móti stjórnarskrárbundnum erfðarétti.

Mun ítarlegri lög, nr. 116/1943, tóku gildi 30. desember 1943. Var þar m.a. vikið að framfærslumöguleikum á verðandi óðalsjörð, landstærð og veðskuldum. Samþykki barna jarðeiganda, 16 ára og eldri, þurfti að liggja fyrir. Sýslumaður skyldi halda sérstaka bók um ættaróðul og jafnframt senda Búnaðarfélagi Íslands skýrslu um ættaróðul. Gerningi um ættaróðal skyldi þinglýst á næsta manntalsþingi. Við erfðir skyldi óðalserfingi greiða fráfaranda eða búi hans helming af þáverandi fasteignamati jarðarinnar. Erfðafjárskattur greiddist ekki af ættaróðali og fylgifé. Nákvæm ákvæði voru um ráðstöfun ættaróðals og erfðir. Gengi jörðin úrættis, varð hún ættaróðal nýs eiganda. — Í þessum lögum eru einnig ákvæði um ættarjarðir, þ.e. 1) jarðir, sem ekki væru óðalsjarðir en hefðu verið samfellt í ábúð eða eign sömu ættar í 100 ár eða lengur eða 2) verið ráðstafað til erfingja ættmenna eða annarra með sérstökum gerningi.8Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 227–237.

            Fáeinar breytingar voru gerðar með lögum nr. 4/1955, 14. mars. Þar segir m.a., að yrðu hjón ekki ásátt um, hvert barnanna erfði óðalsréttinn, skyldi það hjónanna, sem erfði óðalið, ráða viðtakanda.9Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 7–8. Árið 1962 var gerð breyting vegna erfða, nr. 11/1962, 15. mars, og loks gefin út lög um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða, nr. 102/1962, 21. desember. Þar var engin umtalsverð breyting frá fyrrri lögum um ættaróðul.10Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 291–303. Heimilt varð með lögum nr. 18/1968, 5. apríl, að leysa óðal frá óðalsákvæðum, ef óðalseigandi varð að bregða búi og enginn ættingi með rétt til óðalsins vildi taka við.11Stjórnartíðindi 1968 A, bls. 44–45.

Árið 1976 færðust ákvæði um óðalsjarðir inn í jarðalög nr. 65/1974, 31. maí, og urðu þar VI. kafli. Breytingar voru ekki teljandi.12Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 161–172, sjá einkum bls. 168–172.

Verulegar breytingar urðu á óðalsréttarákvæðum með jarðalögum nr. 81/2004, 9. júní). Fjallar VIII. kafli um ættaróðul. Þar var bannað að stofna ný ættaróðul og við andlát þáverandi óðalseiganda skyldi ættaróðalið falla úr óðalsböndum. Maki hélt þó réttindum, meðan hann lifði. Óðalseigandi, sem búið hafði á ættaróðali skemur en 20 ár, gat óskað eftir leyfi landbúnaðarráðherra til þess að leysa óðalið úr óðalsböndum, ef óðalsrétthafar samþykktu og óskuðu ekki eftir að taka óðalið til ábúðar. Ef óðalsbóndi hafði búið á og haft vörslur ættaróðals samfleytt í 20 ár eða lengur, gat hann að fenginni umsögn sveitarstjórnar óskað eftir leyfi landbúnaðarráðherra til þess að jörðin yrði leyst úr óðalsböndum án samþykkis óðalsrétthafa.13https://www.althingi.is/altext/stjt/2004.081.html, sótt 26. apríl 2023.

Öll bönd á meðferð og ráðstöfun jarða, sem töldust hafa verið ættaróðul eða töldust enn til þeirra, féllu úr gildi 1. júlí 2021 samkvæmt lögum nr. 53/2021, 27. maí.14https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.053.html, sótt 4. maí 2023.

Heimilda um óðalsrétt á jörðum er fyrst og fremst að leita í skjalasöfnum sýslumanna, þ.e. afsals- og veðmálabókum og ættaróðalabókum, sem sýslumenn áttu að halda, en óvíst hvort þeir gerðu. Sömuleiðis má finna slík skjöl í skjalasafni Landbúnaðarráðuneytisins, einkum um afléttingu óðalsréttar á jörðum. Einnig eiga skjöl um óðalsrétt að liggja í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands, sem komið er til Þjóðskjalasafns.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík 2002, bls. 1099.
2 Íslensk orðabók, bls. 1861.
3 Kongs Christians þess fimmta norsku lög. Hrappsey 1779.
4 Lovsamling III, bls. 694–699; Lovsamling IV, bls. 211.
5 Lovsamling X, bls. 291–298, íslenskur texti bls. 295–298.
6 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 16–23.
7 Alþingistíðindi 1935 A, bls. 176–178.
8 Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 227–237.
9 Stjórnartíðindi 1955 A, bls. 7–8.
10 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 291–303.
11 Stjórnartíðindi 1968 A, bls. 44–45.
12 Stjórnartíðindi 1976 A, bls. 161–172, sjá einkum bls. 168–172.
13 https://www.althingi.is/altext/stjt/2004.081.html, sótt 26. apríl 2023.
14 https://www.althingi.is/altext/stjt/2021.053.html, sótt 4. maí 2023.