Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Prestsmata

Eftir siðaskipti leystust margir kirkjubændur undan prestshaldi, sem á þeim hafði hvílt samkvæmt máldögum kirknanna. Prestar gátu haft takmarkaðar tekjur, en sumir bændur voru leystir undan prestshaldskvöðinni, sem gat verið þung. Þótti sanngjarnt, að þeir leggðu nokkuð af mörkum til þess að halda uppi presti sínum. Var dæmt á alþingi 1. júlí 1629, að kirkjubændur skyldu greiða til sóknarprests síns hálfar leigur af innistæðukúgildum þeim, sem kirkjur þeirra ættu, en eiga hálfar leigurnar fyrir ábyrgð á kúgildunum.1Alþingisbækur Íslands V, bls. 182–183.

Afgjaldsskyldan fylgdi jörðunum sjálfum, þótt þær væru seldar og teldust ekki lengur kirkjueign. Þurfti konungsúrskurð, síðar staðfestingu Stjórnarráðs, svo að jarðeigendur gætu leyst þessa afgjaldskvöð af jörðum sínum. Leigan var þá metin til peninga og kaupandi greiddi þá upphæð í eitt skipti fyrir öll, sem gefa mundi þá leigu af sér.2Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 184–185.

Lög um sölu á prestsmötu, nr. 54/1921, 27. júní, tóku gildi 1. janúar 1922 og gilda enn árið 2017 með áorðnum breytingum.3Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 177–178; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1921054.html, sótt 24. október 2017.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Alþingisbækur Íslands V, bls. 182–183.
2 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 184–185.
3 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 177–178; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1921054.html, sótt 24. október 2017.