Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Rentukammer

Á stjórnarárum Kristjáns II (1513-1523) varð til sérstök deild í kansellíinu, sem fór með fjármálin, rentukammer. Stjórnandinn kallaðist rentumeistari og starfsmennirnir rentuskrifarar. Það taldist ekki sjálfstæð stjórnsýslueining, hafði ekki eigin bréfagerð, allar afgreiðslur fóru í gegnum danska kansellí.

Árið 1660 varð rentukammerið að „Skatkammerkollegium“ eða „Skatkammeret“ og skyldi fara með öll fjármál ríkisins og hafa eigin bréfagerð. Náði það til Danmerkur, Noregs og hjálendna og konungshlutanna í Slésvík og Holstein. Málefnum var skipt milli fjögurra sjóða, sem stýrt var af rentumeistar. Skatkammerkollegíið hafði dómsvald sem „kammerréttur“ í málum vegna innstæðna ríkinsins og innheimtustarfa embættismanna. Rétturinn starfaði til 1771. Árið 1677 urðu allir sjóðirnir að einum, „Zahlkassen“ og 1679 varð „Skatkammeret“ að Rentukammeri. Árin 1680-1699 var aðeins ein aðalskrifstofa, „Kammercancelliet“ með 8 undirskrifstofum („renteskriverkontorer“) , ein af þeim fyrir norðurhluta Noregs með Íslandi og Færeyjum. Rentuiskrifararnir skyldu halda bréfabækur, bæði yfir konunglegar afgreiðslur, skipanir og úrskurði og eigin bréf, og sömuleiðis bókhaldsbækur. Um 1700 urðu til dansk-norsk skrifstofa og þýsk skrifstofa. Breyting varð á æðstu stjórninni árið 1700. Þrír „deputerede for finanserne“ tóku við af „overrentemesteren“ og mynduðu „rentekammerkollegiet“ (rentukammerskrifstofuna) ásamt þeim „kommitterede“ (skipuðum starfsmönnum).

Árið 1719 var tekið upp bréfaskráningarkerfi (bréfadagbók/“journalisering“ (raunverulega árið 1720)) sem haldið var áfram í ráðuneytum sem tóku við af rentukammerinu „rentekammersystemet“, rentukammerkerfið. Þar voru bréf færð inn í þeirri röð sem þau bárust, án tillits til efnis. Hvert bréf fékk sitt númer og í bókina skráð dagsetning bréfs, sendandi, efnisútdráttur, komudagur bréf og afgreiðsla þess. Skjölum í einstökum málum var svo safnað saman undir síðasta númer málsins í bréfadagbókinni. Árið 1740 var öllum rentuskrifaraskrifstofunum boðið að halda bréfadagbækur hver fyrir sig.

Ný skrifstofa varð til árið 1735 „General-Landets-Ökonomi- og Commercecollegium“ jafnan nefnd „Kommercecollegiet“. Átti það að taka yfir mjög stóran hluta af atvinnulífsmálum rentukammersins og útfæra þau. Rentukammerið hélt þó landbúnaðarmálunum. Árin 1770-1772 stjórnaði í Danmörku Johann Friedrich Struensee líflæknir Kristjáns VIII konungs, sem var geðveikur. Struensee breytti skipulaginu og árið 1770 varð til „Rente-og generaltoldkammer“. Árið 1771 varð til „Finanskollegium“ sem fór með yfirstjórn í þeim málum sem heyrðu undir „Rente-og generaltoldkammer“ sem skiptist í þrjár skrifstofur og fór norska skrifstofan með málefni Íslands.1Lovsamling for Island III, bls. 710-711. Eftir fall Struensee árið 1772 færðust málin í fyrra horf.

Árið 1773 skyldi verða aftur til skrifstofa fyrir Þrándheim og Ísland en hún hafði verið sameinuð Björgvinjarskrifstofunni árið 1765.2Lovsamling for Island IV, bls. 1-2. Sama ár, 1773, voru íslensk, færeysk og grænlensk mál lögð til „Det vestindiske og guineiske rente- samt generaltoldkammer“ („Generaltoldkammeret“) og ákveðið að mynda sérstaka skrifstofu fyrir íslensku, færeysku og grænlensku málin.3Lovsamling for Island IV, bls. 13-14, 18-20, 23-25. Árið 1781 voru málefni Íslands, Grænlands, Finnmerkur og Færeyja færð til rentukammers og þrándheimsku rentuskrifaraskrifstofunnar.4Lovsamling for Island IV, bls. 590, 593-594, 595-596. Hún kallaðist einnig „nordenfjeldske comptoir“. Árið 1784 varð til nýtt „Finantskollegium“ en skrifstofurnar héldust.5Lovsamling for Island V, bls. 95-97. Verkaskipting milli kansellís og rentukammers var endurskoðuð árið 1801.6Lovsamling for Island VI, bls. 506-509. Íslensk og borgundarhólmsk skrifstofa í rentukammeri varð til í ársbyrjun 1815. Þangað færðust íslensk, færeysk og grænlensk mál.7Lovsamling for Island VII, bls. 509-510. Rentukammerinu var skipt í þrjár deildir árið 1840. Íslensk, grænlensk og færeysk mál fóru í aðra deild, áttundu skrifstofu.8Lovsamling for Island XI, bls. 704.

Þrátt fyrir þessa færslu milli skrifstofa urðu ekki breytingar á skjalahaldinu. Skjölin eru í skjalasafni rentukammers.

Við afnám einveldis 1848 fór meginhluti málefna rentukammers til fjármála- („Finansministeriet“) og innanríkisráðuneyta („Indenrigsministeriet“). Sérstök skrifstofa Íslandsmála „íslenska stjórnardeildin“ varð til í innanríkisráðuneytinu árið 1848.9Lovsamling for Island XIV, bls. 204-206, 209-211. Því liggur allnokkuð af skjölum úr rentukammeri í skjalasafni íslensku stjórnardeildarinnar vegna afgreiðslu mála þar. Stjórnardeildin hélt bréfaskráningarkerfi rentukammers, rentukammerkerfinu.

Þjóðskjalasafn Íslands fékk með dönsku sendingunni 1928 skjöl um Ísland og Íslendinga úr rentukammeri frá árunum 1573-1848.

Sjá Einar Laxness, Íslands saga i-r. Reykjavík 1995, bls. 199-200; Frank Jørgensen og Morten Westrup, Dansk centraladministration i tiden indtil 1848. Dansk historisk fællesforening 1982, bls. 95-178; Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I. Redigeret af Wilhelm von Rosen. Rigsarkivet 1983, bls. 317-322, 329, 337, 339; Harald Jörgensen, Nordiske arkiver. Köbenhavn 1968, bls. 12.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island III, bls. 710-711.
2 Lovsamling for Island IV, bls. 1-2.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 13-14, 18-20, 23-25.
4 Lovsamling for Island IV, bls. 590, 593-594, 595-596.
5 Lovsamling for Island V, bls. 95-97.
6 Lovsamling for Island VI, bls. 506-509.
7 Lovsamling for Island VII, bls. 509-510.
8 Lovsamling for Island XI, bls. 704.
9 Lovsamling for Island XIV, bls. 204-206, 209-211.