Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Sáttanefndir

Í skjalasöfnum presta hefur mátt finna skjöl vegna sáttanefndastarfa. Sáttanefndagögn eru annars varðveitt sem sérstakur flokkur í Þjóðskjalasafni, og þar hafna umrædd skjöl, þau sem komin eru frá sáttanefndarmönnum, eða þeim er skilað til héraðsskjalasafna samkvæmt reglugerð um þau.

Hlutverk sáttanefnda er að koma á sáttum milli deiluaðila til þess að koma í veg fyrir óþörf og kostnaðarsöm málaferli. Elstu ákvæði um sáttanefndir eru í tilskipun um stofnun sáttanefnda í Danmörku og kaupstöðum í Noregi 10. júlí 1795 og kansellíbréfi til stiftamtmanns og amtmanna á Íslandi um nauðsynlegar breytingar vegna Íslands 19. september s.á.1Lovsamling for Island VI, bls. bls. 209–221, 224; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 277.

Þátttaka presta í sáttastörfum kemur fram í tilskipun um „sættastiftanir á landinu í Noregi“ 20. janúar 1797, en þar segir í sjötta lið I. kafla, að í sáttanefnd skuli sitja tveir menn, embættismaður, prestur eða annar ábyrgur maður utan bændastéttar, og gegn bóndi. Þessi tilskipun mun hafa gilt á Íslandi.2Lovsamling for Island VI, bls. 264; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 341 (2. liður).

Þá skal bent á nokkur bréf og auglýsingar, sem þetta varða, svo sem kansellíbréf 25. ágúst 1798 um sáttanefndafyrirkomulag, auglýsingu stiftamtmanns 7. október 1806 um sáttanefndir í Suðuramti og kansellíbréf 6. október 1807, þar sem fallist er á þá skoðun stiftamtmanns, að óviðeigandi sé, að sýslumenn, sem dómarar, séu sáttanefndarmenn.3Lovsamling for Island VI, bls. 339–340; VII, bls. 93–96, 144–145.

Senda átti amtmönnum, síðar sýslumönnum, skýrslur um mál, sem komu fyrir sáttanefnd.4Lovsamling for Island VI, bls. 219 (51. liður), 271 (37. liður). Við afnám amta árið 1904, tók sýslumenn að skipa sáttanefndir, Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–35. Hefur slíkt væntanlega komið í hlut prestanna. Í lögum um meðferð einkamála í héraði nr. 85/1936, 23. júní, 4. grein, var ákvæðum um sáttanefndamenn breytt á þann veg, að hverjum, sem uppfyllti ákveðin skilyrði, væri skylt að taka sæti í sáttanefnd.5Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 216. Þar með voru úr sögunni þau lagaákvæði, sem ýttu sérstaklega undir setu presta í sáttanefndum. Sáttanefndir voru síðan felldar niður með lögum nr. 28/1981, 26. maí.6Stjórnartíðindi 1981 A, bls. 58. Skyldi héraðsdómari leita sátta í einkamálum (2. grein).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VI, bls. bls. 209–221, 224; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 277.
2 Lovsamling for Island VI, bls. 264; Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 341 (2. liður).
3 Lovsamling for Island VI, bls. 339–340; VII, bls. 93–96, 144–145.
4 Lovsamling for Island VI, bls. 219 (51. liður), 271 (37. liður). Við afnám amta árið 1904, tók sýslumenn að skipa sáttanefndir, Stjórnartíðindi 1904 A, bls. 34–35.
5 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 216.
6 Stjórnartíðindi 1981 A, bls. 58.