Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Skipagjöld (Útflutningsgjald)

Verslunarfrelsi á Íslandi var aukið með konunglegri tilskipun frá 11. september 1816. Mátti þá ákveðinn fjöldi verslunarskipa sigla til Íslands úr öðrum ríkjum en Danaveldi. Gaf rentukammer út vegabréf til Íslandssiglingar og þurftu menn að greiða 50 ríkisdali í reiðu silfri fyrir hverja stórlest (kommercelæst = 2600 kg) í stað inn- og útflutningstolla og skipagjalds. Af timburfarmi var gjaldið 20 ríkisdalir í reiðu silfri fyrir hverja vörulest. Kaupmenn, búsettir á Íslandi, sem vildu senda skip til annarra landa en hefðu ekki sjóvegabréf, sem rentukammer hefði gefið út, þurftu að sækja um sjóvegabréf til stiftamtmanns. Giltu þau aðeins fyrir eina ferð fram og til baka, og skyldi greiða 36 ríkisdali silfurs fyrir hverja stórlest, miðað við burðargetu skipsins. Það gjald átti að renna í Jarðabókarsjóð. Hver, sem sendi verslunarskip til annarra ríkja, skyldi borga 5 ríkisdali reiðu silfurs fyrir hverja vörulest, miðað við burðargetu skipsins. Gjaldið skyldi greitt bæjarfógeta í Reykjavík eða sýslumönnum og þeir koma því síðan strax í Jarðabókarsjóð eða með ávísun á ábyrgt verslunarfyrirtæki í Kaupmannahöfn (í þremur eintökum).1Lovsamling for Island VII, bls. 614–620, sjá t.d. 3., 14., 15. og 17. lið.

Skattur á skip, sem sigldu frá Íslandi til annarra ríkja, 5 ríkisdalir reiðu silfurs fyrir hverja stórlest, var afnuminn í 5 ár með konungsúrskurði 2. apríl 1825.2Lovsamling for Island VIII, bls. 621–622. Sú upphæð var lækkuð frá ársbyrjun 1837 að telja samkvæmt opnu bréfi um íslenska kauphöndlun og skipaferðir 28. desember 1836.3Lovsamling for Island X, bls. 840–841. 13. liður. Ekki verður frekar fjallað um vörutolla og skipagjöld í þessum pistli.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island VII, bls. 614–620, sjá t.d. 3., 14., 15. og 17. lið.
2 Lovsamling for Island VIII, bls. 621–622.
3 Lovsamling for Island X, bls. 840–841. 13. liður.