Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Teiknistofa landbúnaðarins

Aðdragandi allnokkur virðist hafa verið að stofnun Teiknistofu landbúnaðarins. Árið 1912 hefur Búnaðarfélag Íslands skrifað Alþingi um styrk handa manni til þess að leiðbeina við húsagerð í sveitum, með steinsteypu í huga. Árið eftir, 9. júlí, ítrekaði Búnaðarfélagið þetta og nefndi Jóhann Franklín Kristjánsson sem hæfan mann til verksins. Jafnframt sótti Jóhann Franklín um styrk til Alþingis, sem brást við með „Styrkur til manns til leiðbeiningar um húsagerð til sveita“ í fjárlögum fyrir árin 1914 og 1915.1ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. skrifstofa 011 B/202, örk 6, Db. 5, nr. 809; Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 87. Sá styrkur hélst síðan á fjárlögum með mismunandi útfærslum, síðast á fjárlögum ársins 1928.2Stjórnartíðindi 1927A, bls. 101. Jóhann Franklín starfaði lengi að slíkum leiðbeiningarmálum og mun hafa verið í fyrstu stjórn Byggingar- og landnámssjóðs, sem varð til árið 1929 og síðar vikið að.3Jón Guðnason, Íslenzkar æviskrár VI. Reykjavík 1976, bls. 249. Einnig má nefna, að Jóhann Fr. Kristjánsson fékk utanfararstyrk og dýrtíðaruppbót á fjáraukalögum fyrir árin 1920 og 1921.4Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 167..

Árið 1924 voru sett lög um stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbanka Íslands, nr. 38/1924.5Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 73–74. Tilgangurinn var m.a. að veita lán til stofnunar nýbýla og til varanlegra húsabóta í sveitum. Í 5. grein segir, að umsókn til húsabótaláns skyldi fylgja áætlun um kostnað frá byggingarfróðum manni og byggingarnar skyldu framkvæmdar eftir fyrirsögn og undir eftirliti slíks manns.

Í 18. grein laga nr. 35/19286Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 94. um Byggingar- og landnámssjóð segir:

Stjórn sjóðsins má, ef þörf krefur, ráða sjer til aðstoðar sjerstakan húsameistara, er þá kemur að öllu leyti í stað leiðbeinanda um húsagerð til sveita.

Byggingar- og landnámssjóður varð deild í Búnaðarbanka Íslands, einni af sex, við stofnun bankans samkvæmt lögum nr. 31/1929.7Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 62. grein.

            Ákvæði um fjárveitingu til leiðbeiningar um húsagerð til sveita, á móti Byggingar- og landnámssjóði „enda greiðist engin borgun fyrir leiðbeiningarnar“, voru inni á fjárlögum áranna 1930, 1931 og 1932 8Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 142; Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 200, Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 137. Árið 1932 var hins vegar á fjárlögum ársins 1933 „Tillag til teiknistofu og leiðbeininga um húsagerð til sveita“, 4.000 krónur, meðal framlaga til Búnaðarbankans.9Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 223. Það var sama upphæð og áður hafði verið veitt vegna húsagerðar til sveita.

Árið 1936 voru sett lög um nýbýli og samvinnubyggðir, nr. 25/1936.10Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 52–59. Sama ár var staðfest reglugerð um nýbýli. Skyldi nýbýlastjórn ráða byggingarfræðing í þjónustu sína, byggingarráðunaut nýbýlastjórnar, sem gerði uppdrætti að íbúðarhúsum á nýbýlum og uppdrætti eða tillögur um fyrirkomulag og gerð peningshúsa eða annarra bygginga á nýbýlum og færi um landið til eftirlits. 11Stjórnartíðindi 1936 B, bls. 369–380, sjá einkum VI. kafla, bls. 376–377.

            Frumvarp um teiknistofu landbúnaðarins var lagt fram á Alþingi árið 1937. Sagði annar flutningsmaður svo:

Undanfarin ár hefir verið starfrækt teiknistofa Búnaðarbankans, og hefir hún látið í té leiðbeiningar og gert teikningar að byggingum, sem fé hefir verið lánað til úr Búnaðarbankanum.12https://www.althingi.is/altext/52/r_txt/1874.txt, sótt 21. nóvember 2023.

Þetta hefur væntanlega orðið til þess, að í V. kafla laga um Byggingar- og landnámssjóð nr. 76/193813Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118. sagði að stofna skyldi sérstaka teiknistofu, er nefndist Teiknistofa landbúnaðarins. Verkefni hennar væri að gera uppdrætti að húsum, sem lán eða styrkir væru veittir til úr Byggingar- og landnámssjóði, Nýbýlasjóði, Ræktunarsjóði eða öðrum opinberum sjóðum, sem veittu lán eða styrki til húsagerðar í sveitum. Það yrði skilyrði fyrir lán- eða styrkveitingum, að Teiknistofan hefði gert eða samþykkt uppdrætti að húsunum. Teiknistofan skyldi láta gera uppdrætti að einföldum og ódýrum húsgögnum, hentugum fyrir alþýðu til sveita og við sjó. Hún skyldi veita bændum leiðbeiningar um byggingarkostnað, efnisval og annað, er við kæmi húsagerð. Landbúnaðarráðherra skipaði forstöðumann, sem annaðist stjórn Teiknistofunnar í samráði við stjórn Búnaðarbanka Íslands og nýbýlastjórn. Þessi kafli var endurtekinn í lögum um Byggingar og landnámssjóð nr, 108/1941.14Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 236.

            Teiknistofa landbúnaðarins fór undir Búnaðarbanka Íslands eftir VIII. kafla laga nr. 35/1946 um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum.15Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 68. Kaflinn var að mestu samhljóða lögunum nr. 76/1938 og nr. 108/1941, nema nú kom nýr Byggingarsjóður, myndaður af Byggingarsjóði, Nýbýlasjóði og Smábýladeild Búnaðarbanka Íslands samkvæmt 12. grein laganna.16Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 62.

            Sérstakur kafli er um Teiknistofu landbúnaðarins í lögum nr. 75/1962 um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum.17Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 158–159. Teiknistofan skyldi starfa á vegum Búnaðarbanka Íslands. Landbúnaðarráðherra skipaði 5 manna nefnd, er hefði það verkefni í samvinnu við Teiknistofuna að gefa sem ákveðnastar leiðbeiningar um hagkvæmustu gerð bygginga á sveitabýlum og þá sérstaklega peningshúsa. Heimilt var að ráða sérfræðing til nauðsynlegra rannsókna og eftirlits. Verkefni Teiknistofunnar væri að gera uppdrætti að húsum, sem lán væru veitt til úr Stofnlánadeild landbúnaðarins og öðrum opinberum sjóðum. Haldið var ínni ýmsum þáttum laganna frá árinu 1938.

            Teiknistofa landbúnaðarins varð að Byggingastofnun landbúnaðarins, sem starfaði á vegum Búnaðarbanka Íslands, samkvæmt XII. kafla laga nr. 45/1971 um Stofnlánadeild landbúnaðarins.18Stjórnartíðindi 1971 A, bls. 113–114. Verkefnin eru skilgreind þar mun nákvæmar en fyrr.

            Þessi XII. kafli laganna um Stofnlánadeild landbúnaðarins féll niður með lögum nr. 41/1990 um Búnaðarmálasjóð, sem tóku gildi 1. september 1990.19Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 69–71. Þjónustuverkefni færðust til Búnaðarfélags Íslands en rannsóknaverkefni til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eftir því, sem við gat átt. Þar með lauk hlutverki Teiknistofu landbúnaðarins / Byggingastofnunar landbúnaðarins. — Arkitektar, sem störfuðu sjálfstætt, önnuðust íbúðahúsateikningar, en útihúsateikningar urðu á vegum Búnaðarfélags Íslands.

Gunnar M. Jónasson, forstöðumaður Byggingastofnunar landbúnaðarins, rakti stuttlega sögu Teiknistofu landbúnaðarins, þegar Byggingastofnunin var lögð niður árið 1990:

Teiknistofa Byggingar- og landnámssjóðs varð til samkvæmt lögum nr. 35/1928, tók til starfa árið 1929. Teiknistofa nýbýlastjórnar varð til árið 1936, sem ásamt Teiknistofu Búnaðarbanka Íslands, sem starfað hafði í eitt ár, varð að Teiknistofu landbúnaðasins árið 1938. Byggingastofnun landbúnaðarinskom til sögunnar árið 1972, en hélt hlutverki Teiknistofu landbúnaðarins og gekk gjarnan undir því heiti.20Gunnar M. Jónasson, „Byggingastofnun landbúnaðarins hættir störfum“, Freyr 86. árgangur 1990, 12. tbl., bls. 488, https://timarit.is/page/5579968#page/n23/mode/2up, sótt 23. nóvember 2023.

Gögn Teiknistofu landbúnaðarins / Byggingastofnunar landbúnaðarins eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Um er að ræða eitt stærsta og heildstæðasta teikningasafn í Þjóðskjalasafni og árlega berast safninu fjöldi fyrirspurna um afrit teikninga af íbúðar- eða útihúsum, sem reist voru til sveita á starfstíma Teiknistofunnar. Í teikningasafninu er að finna um 4000 teikningar af íbúðarhúsum og tæplega 5700 teikningar af útihúsum frá árunum 1929-1990. Þá er allstóran flokk burðarþolsteikninga þar að finna auk ýmissa sérteikninga.

(Heimild: Árni Daníel Júlíusson, Pétur H. Ármannsson, Ólafur J. Engilbertsson ritstjóri, Jóhannes Þórðarson, Ólafur Mathiesen, Þórir Baldvinsson arkitekt. Reykjavík 2021.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 ÞÍ. Stjórnarráð Íslands II. skrifstofa 011 B/202, örk 6, Db. 5, nr. 809; Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 87.
2 Stjórnartíðindi 1927A, bls. 101.
3 Jón Guðnason, Íslenzkar æviskrár VI. Reykjavík 1976, bls. 249.
4 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 167.
5 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 73–74.
6 Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 94.
7 Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 64–80, sjá einkum 2., 3. og 62. grein.
8 Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 142; Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 200, Stjórnartíðindi 1931 A, bls. 137.
9 Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 223.
10 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 52–59.
11 Stjórnartíðindi 1936 B, bls. 369–380, sjá einkum VI. kafla, bls. 376–377.
12 https://www.althingi.is/altext/52/r_txt/1874.txt, sótt 21. nóvember 2023.
13 Stjórnartíðindi 1938 A, bls. 109–118.
14 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 236.
15 Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 68.
16 Stjórnartíðindi 1946 A, bls. 62.
17 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 158–159.
18 Stjórnartíðindi 1971 A, bls. 113–114.
19 Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 69–71.
20 Gunnar M. Jónasson, „Byggingastofnun landbúnaðarins hættir störfum“, Freyr 86. árgangur 1990, 12. tbl., bls. 488, https://timarit.is/page/5579968#page/n23/mode/2up, sótt 23. nóvember 2023.