„umboð, jarðeignir sem konungur hafði hlotið í sakeyri og ennfremur eignast um og eftir siðaskiptin 1550 þegar hann gerði upptækar um 100 jarðir í eigu klaustra og síðustu kaþólsku biskupanna. Oft voru þessi umboð nefnd lénsjarðir.“ 1Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 518.
Skilgreining þessi er heldur þröng. Biskupsstólarnir áttu miklar jarðeignir. Þeim var skipt í umboð til þess að auðvelda umsjón með jörðum og ítökum og innheimta landskuldir og kúgildaleigur. Spítalajarðir má einnig telja með umboðum, sem og jarðir, sem ýmsir gjafasjóðir / legöt áttu. Yfirleitt voru stakar jarðir eign slíkra sjóða, en auðugir voru Thorkillisjóður (Legat Jóns Þorkelssonar) stofnaður árið 17592Lovsamling for Island III, bls. 356–359. og „Jóns Sigurðssonar legat til þurfamanna innan Eyjafjarðarsýslu“ eða Böggvisstaðalegat. Það stofnaði Jón Sigurðsson á Böggvisstöðum í Svarfaðardal árið 1831. 3Lovsamling for Island IX, bls. 798–804. Jafnvel mætti fella Kristfjárjarðir / Kristfé undir umboð.
Skjalasöfn konungsjarðaumboðanna eru illa varðveitt. Um varðveisluna sagði Jón Þorkelsson í upphafi 20. aldar, þegar hann fjallaði um skjöl sýslumanna, hreppa og sveitarfélaga:
Skjalasöfn umboðanna gætu einnig verið gömul, ef ekki hefði verið í þau farið og úr þeim rúið. Þau eru framhald af skjalasöfnum klaustranna, og voru þau sum gömul. 4Jón Þorkelsson: Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík III, bls. XXIV.
Í Þjóðskjalasafni er sérstakt umboðsskjalasafn. Eru það skjöl frá eftirtöldum umboðum, sem flest urðu til við sameiningar eldri umboða: Skriðuklaustri (Múlasýsluumboð), Kirkjubæjarklaustri, Þykkvabæjarklaustri og Flögujörðum (skjöl þessara þriggja umboða dregin saman), Arnarstapa- og Skógarstrandarumboðum, Þingeyraklaustri (Þingeyra-, Miðfjarðar- og Vatnsdalsjörðum), Reynistaðarklaustri, Böggvisstaðaumboði (áðurnefnd gjöf Jóns Sigurðssonar á Böggvisstöðum frá 1831), Möðrufellsspítalaumboði (skjöl þess spítala og Hörgslands-, Kaldaðarness- og Hallbjarnareyrarspítala eru annars í skjalasöfnum Skálholts- og Hólabiskupa og biskups yfir Íslandi), Möðruvallaklaustri (Möðruvalla- og Eyjafjarðarjörðum), Munkaþverárklaustri, Norðursýsluumboði (þ.e. konungsjörðum í Þingeyjarsýslu). Ruglingur mun vera nokkur á skjölum þriggja síðasttöldu umboðanna vegna þess, að þarna gátu verið ýmsir umboðshlutar með mismunandi uppskiptum og sameiningu. Í skjalasafni sýslumanns í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru skjöl vegna umboðs konungsjarða í Gullbringusýslu (Viðeyjarklausturs-, Bessastaða- og Nesjajarða), en sá sýslumaður tók við jarðaumboðinu af landfógeta árið 1806. 5Lovsamling for Island VII, bls. 20–23. Þar eru ýmis skjöl frá 18. öld, m.a brotakenndar skuldaskrár allt frá árinu 1706 og gjaldabækur samfelldar frá árinu 1751, auk annarra skjala.
Veitingabréf fyrir klaustrum, umboðsjörðum og sýslum ásamt ýmsum skjölum, sem tengjast þessum þáttum, eru meðal svonefndra „Steinklefaskjala“ í Þjóðskjalasafni. (Eru nr. XVI í skrá yfir þessi skjöl. Þau eru úr „dönsku sendingunni“ svonefndu frá árinu 1928.
Í skjalasafni umboðslegrar endurskoðunar eru reikningar umboða og þá munu umboðagögn leynast í skjalasöfnum stiftamtmanns og amtmanna. Skjöl vegna Böggvistaðaumboðs geta verið í skjalasafni sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu og gagna vegna kristfjárjarða og legata verður að leita í skjalasöfnum sýslumanna og raunar víðar. Thorkillisjóðsskjöl er að finna í skjalasöfnum stiftamtmanns, stiftsyfirvalda og síðar fyrstu skrifstofu Stjórnarráðsins og síðan menntamálaráðuneytis.
Tilvísanir
↑1 | Einar Laxness, Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 518. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island III, bls. 356–359. |
↑3 | Lovsamling for Island IX, bls. 798–804. |
↑4 | Jón Þorkelsson: Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík III, bls. XXIV. |
↑5 | Lovsamling for Island VII, bls. 20–23. |