Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Veðurbækur

Á fundi Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags 6. október 1840 stakk Jónas Hallgrímsson upp á, að fengnir yrðu prestar eða aðrir í ýmsum héruðum til þess að „adgiæta stödugliga vedurattufar“. Tóku félagsmenn vel undir tillöguna og Jóni Þorsteinssyni (Thorstensen), landlækni, Birni Gunnlaugssyni, skólakennara, og Jónasi Hallgrímssyni, candidat philosophie, falið að yfirvega, hvernig slíkar veðurbækur skyldu lagast.

Mál þetta var aftur tekið fyrir á fundi deildarinnar 18. janúar 1841. Þar lögðu nefndarmenn fram álit um, hvernig þeir héldu, að þessu yrði best komið í verk, svo til nokkurrar upplýsingar gæti orðið. Urðu fundarmenn á það sáttir að skrifa prestum og öðrum, sem valdir væru af nefndinni, og deildin færi þess á leit við Vísindafélagið danska að fá hjálp til þess, að prestarnir gætu fengið hitamæla.

Vísindafélagið brást svo við málaleitaninni, að Bókmenntafélagið fékk 45 hitamæla og reglur um notkun þeirra, eins og fram kemur í fundargerð frá 2. ágúst 1841. Bókmenntafélagið lét ekki upp á sig standa og 20. ágúst sama ár gaf það út reglur um notkun hitamælanna.1Fundabók Hins íslenska bókmenntafélags í Reykjavík 1816-1879. Handritadeild Landsbókasafns-Háskólabókasafns; Bréf Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags 20. ágúst 1841. (Liggur með veðurbók frá Melum í Melasveit), ÞÍ. Kirknasafn. Melar I/1. Veðurbók Melaprestakalls 1841-1858.

Nokkrar veðurbækur finnast í skjalasöfnum presta, svo sem frá Odda á Rangárvöllum og Melum í Melasveit. Í skjölum Hins íslenska bókmenntafélags eru veðurfarsskýrslur, sem veðurathugunarmenn hafa sent félaginu.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Fundabók Hins íslenska bókmenntafélags í Reykjavík 1816-1879. Handritadeild Landsbókasafns-Háskólabókasafns; Bréf Reykjavíkurdeildar Hins íslenska bókmenntafélags 20. ágúst 1841. (Liggur með veðurbók frá Melum í Melasveit), ÞÍ. Kirknasafn. Melar I/1. Veðurbók Melaprestakalls 1841-1858.