Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Vogrek

fjörureki, sem mannaverk sáust á. Vogrek gat fjörueigandi ekki tekið til sín, það var eign konungs. Því spurðu sýslumenn eftir vogrekum á manntalsþingum. Í Jónsbók segir um vogrek:

Það heitir vogrek er rekur á land manns lík eður vara og allt það er fémætt er og menn hafa átt, þó að það sé viðir tegldir, hvort sem því kastar á land með líkum eða öðruvíss. Landeigandi skal vogrek varðveita hver sem reka á. 1Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 207.

Magnús Stephensen yfirdómari (síðar landshöfðingi) skilgreindi vogrek þannig um 1880:

Vogrek. Opið bréf 4. maí 1778, 1. gr., og lög um skipströnd 14. janúar 1876, 22.–25. gr., sbr. opið bréf 2. apríl 1853. Andvirði strandaðra skipa og fjármuna — hvort heldur er heil skip eða brotin, skipsbátar, akkeri, kaðlar, siglutré eða annar skipsreiði eða áhöld, eða það er heilar tunnur eða annað góss eða varningur, sem skip kann að hafa haft innanborðs — rennur í landssjóð, ef enginn eigandi né umráðamaður er með og enginn helgar sér það innan árs og 6 vikna frá því, að það hefur verið auglýst á þann hátt sem segir í 22. grein skipstrandalaganna. Þó eignast landeigandi smá, einstök brot af skipum og bátum, sem ekki eru 30 kr. virði, sbr. opið bréf 4. maí 1778, 2. gr. , kansbr. [kansellíbréf] 26. ágúst 1808 og rhbr. [ráðherrabréf] 27. júní 1864. Hafi vogrekið fundist á sjó og verið flutt til lands, ber finnendum þriðjungur andvirðisins, ef það hefur fundist á hafi úti, en fimmtungur, ef það hefur fundist á fjörðum, víkum eða skammt frá landi.

Ennfremur eignast landssjóður hálfan skotmannshlut (fjórða part) í hvölum þeim, sem reka á land bændaeigna með mörkuðu skoti í, ef skotmaður eigi leiðir sig að skoti sínu og hlut innan árs og sex vikna, sbr. opið bréf 4. maí 1778, 5. gr., konungsbréf 25. júlí 1808 og konungsúrskurði 29. apríl 1840 og 31. október 1873. 2Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags I. árgangur 1880, bls. 204–205.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 207.
2 Magnús Stephensen: „Skattar og gjöld til landssjóðs“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags I. árgangur 1880, bls. 204–205.