Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Brauðamat

Brauðamat var virðing á tekjum prestakalla til þess að finna út laun presta og koma á launasamræmingu. Undir tekjuhliðina fóru tekjur af jörðum, sem fylgdu prestakallinu, þ.e. prestssetrið með hjáleigum og kirkjujarðir, tekjur af ískyldum [sjá Orðskýringar], ítökum og hlunnindum, tekjur af útkirkjum og bænhúsum, leigur af innstæðu í Jarðabókarsjóði, tekjur af sóknunum, þ.e. fasteignatíund, lausafjártíund, dagsverk, lambafóður, offur og borgun fyrir aukaverk, einnig gátu verið aðrar tekjur.

Útgjöld voru m.a. tillög til uppgjafapresta og prestaekkna. Brauðamat var gert árið 1853 og nýtt brauðamat tók gildi árið 1867.1Ólafur Pálsson, „Brauðamat á Íslandi 1854“, Skýrslur um landshagi á Íslandi II. Kaupmannahöfn 1859–1861, bls. 431–436; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II. Kaupmannahöfn 1870, bls. 243–255. Eldri brauðamöt voru frá árinu 1737 fyrir Skálholtsbiskupsdæmi og 1748 fyrir Hólabiskupsdæmi. Endurskoðun fór fram nokkrum sinnum á 19. öld. Árið 1907 voru sett lög um laun sóknarpresta, nr. 46/1907, 16. nóvember, og upp úr því fóru prestar á föst laun.2Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–301; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 105–113, 187–188. Sjá umfjöllun um Tekjur kirkna og presta í Hugtakasafni.

Árið 1838, 18. desember, sendi biskup út bréf, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum frá öllum prestum, jafnt þeim sem sátu á prestssetrum og þingaprestum, um tekjur og gjöld af embættunum.3ÞÍ. Bps. C. III, 26. Bréfabók 1838–1839, bls. 393–395. Svör bárust árið eftir, en ekki virðist hafa verið gert mikið með þau, a.m.k. liggja þau í bréfasafni biskups sem bréf úr einstökum prófastsdæmum.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Ólafur Pálsson, „Brauðamat á Íslandi 1854“, Skýrslur um landshagi á Íslandi II. Kaupmannahöfn 1859–1861, bls. 431–436; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II. Kaupmannahöfn 1870, bls. 243–255.
2 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–301; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 105–113, 187–188.
3 ÞÍ. Bps. C. III, 26. Bréfabók 1838–1839, bls. 393–395.