Tekjur kirkna og presta

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 13 mín

Tekjur kirkna

Kirknatekjur voru í fyrstu gjafir af ýmsu tæi og tekjur af jarðeignum, sem leggja skyldi til kirkna. Með tímanum eignuðust kirkjur allmikið af jörðum, hlunnindum, ítökum og lausafé að gjöf, ekki síst sem sálugjafir og sektagjöld. Á Íslandi var tíund lögtekin á árunum 1096–1097. Ekki átti að tíunda það fé, sem áður væri til guðsþakka lagt, hvort sem það væri til kirkna eða brúa eða annarrar sálubótar, hvort sem féð væri í löndum eða lausum aurum. Hér á landi var tíund eignarskattur en erlendis tekjuskattur. Í Vestmannaeyjum var þó fisktíund. Kirkjur fengu fjórða hluta tíundar, kirkjutíund, sem kirkjueigandi átti að gera reikning fyrir, en þurfti ekki að standa skil á ýmsum aukatekjum. Tíundarfrelsi kirkna ýtti undir höfðingja að leggja stóreignir til kirkna sinna, sem þeir réðu yfir. Þá kappkostuðu kirkjueigendur og kirkjuhaldarar að ávaxta fé kirkna með kaupum á jörðum, ítökum og afnotarétti í öðrum jörðum eða á annan hátt og með leigupeningi (innstæðukúgildum/leigukúgildum). Sóknarmenn voru skyldugir til þess að vinna að kirkjubyggingu kauplaust og halda við kirkjugarði. Kirkjur fengu að auki ýmsa tolla, suma staðbundna svo sem vertolla, osttolla, málsmjólk, skæðatolla og fiskatolla, sem voru greiddir af vermönnum í sumum verstöðvum. Almennir tollar voru: a) Legkaup var gjald, sem greiða skyldi kirkjuhaldara, 12 álnir fyrir fullorðna en 6 álnir fyrir tannlaus börn. Í staðinn var kirkjuhaldara skylt að halda við graftólum kirkjunnar og hýsa og fæða líkmenn yfir nótt. b) Ljóstollur (lýsitollur) var greiddur af öllum tíundarskyldum mönnum til sóknarkirkju.1Magnús Már Lárusson, „Donasjon, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder III, dálkur 233; Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Magnús Már Lárusson, „Kirkegård, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VIII, dálkar 399–402; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Magnús Stefánsson, „Tiend, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291; Björn Þorsteinsson, „Tollr“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454; Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 143 (2. liður); Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 193–208; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 181–184; Lovsamling for Island I, bls. 90–92; IV, bls. 451–452, 664–670. Lausamenn skyldu gjalda 24 skildinga árlega til kirkju, kallað lausamannsgjald, samkvæmt konungsbréfi frá 17. júlí 1782 um tekjur presta og kirkna, sem birt var á alþingi árið eftir.2Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140 (13. grein). Síðar bættust við tekjur af húsaskatti (ákveðnum með lögum nr. 13/1879, 19. september, um kirkjugjald af húsum).3Stjórnartíðindi 1879 A, bls. 32–33. — Sjá umfjöllun um lausamannsgjald.

Sérstakt fiskagjald var til Ingjaldshólskirkju samkvæmt vígslubréfi Árna Helgasonar biskups árið 1317.4Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 410–411. Allir búðsetu- og útróðrarmenn í Einarslóni og Dritvík skyldu gjalda nýrri kirkju í Einarslóni einn fisk árlega samkvæmt skipun Páls Stígssonar hirðstjóra um kirkjur og sóknir á Snæfellsnesi árið 1563.5Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá einkum bls. 153). Þá mun konungur hafa verið búinn að slá eign sinni á fiskagjald Ingjaldshólskirkju vegna yfirtöku á eignum Helgafellsklausturs. Árið 1646 dæmdu níu prestar að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar, að hálfkirkjan í Þorlákshöfn skyldi vera sóknarkirkja vertíðarfólks þar um vertíðartímann og ætti rétt á einum gildum fiski af hverjum mannshlut henni til uppihalds og vegna kostnaðar við vín og bakstur.6Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 108–109. — Sjá umfjöllun um fiskagjald.

Fornir tekjustofnar kirkjunnar voru afnumdir með lögum um sóknargjöld, nr. 40/1909, 30. júlí. Í staðinn kom gjald (kirkjugjald), sem lagt var á alla sóknarmenn, 15 ára og eldri, og skyldi það standa undir rekstri kirknanna, en heimild var fyrir álagningu aukagjalds.7Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 204–207 (II. kafli). Nú (2017) eru í gildi lög nr. 91/1987, 29. desember, um sóknargjöld með áorðnum breytingum.8Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 683–685; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html, sótt 2. október 2017.

Upphaflega voru íslenskar kirkjur eingöngu bændakirkjur, en síðar komu einnig til sögunnar staðir (lénskirkjur/beneficium).9Magnús Már Lárusson, „Beneficium, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 457–458; Magnús Már Lárusson, „Privatkirke, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkar 462–467; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 287–288; Magnús Stefánsson, „Kirkjuvald eflist“. Saga Íslands II. Reykjavík 1975, bls. 72–76; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 79–93. — Magnús Stefánsson, fyrrum prófessor í Björgvin, hefur skilgreint staði/lénskirkjur/beneficium og bændakirkjur í ritum sínum: Staðir og staðamál. Studier i islandske egenkirklige og beneficialrettslige forhold i middelalderen I. Bergen 2000, bls. 129–147; „Um staði og staðamál“, Saga XL:2 (2002), sjá einkum bls. 141–151; „Kirkjuvald eflist“, bls. 76–78, 86–90. Magnús segir orðið beneficium fyrst hafa fengið merkinguna prestssetur á 16. öld, en því aðeins, að prestssetrið hafi verið kjarni kirkjueignarinnar, Staðir og staðamál, bls. 48. Staðir voru þær kirkjur, sem biskup réði yfir samkvæmt sættargerðinni í Ögvaldsnesi árið 1297 og konungsbréfi til manna í Hólabiskupsdæmi 19. október 1354, þ.e. kirkjur á jörðum sem kirkjur áttu meir en hálfar.10Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 323–325; III, bls. 98–99. Bændakirkjur teljast venjulega kirkjur á jörðum, sem einstakir menn eiga a.m.k. hálfar eða meira, en sama gildir í raun um kirkjur, sem ríkissjóður á. Sama réttarstaða gilti fyrir kirkjur á konungsjörðum, s.s. klaustrakirkjur. Kirkjur á konungsjörðum féllu undir ríkissjóð, þegar Ísland fékk sérstakan fjárhag.11Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 160–167.

Með lögum nr. 13/1882, 12. maí, var leyft, að söfnuðir mættu taka að sér umsjón og fjárhald kirkna í stað eigenda eða umráðamanna. Einnig mátti svipta prest fjárhaldi lénskirkju, ef hann var talinn óhæfur til þess að sjá um fé kirkjunnar.12Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 76–79. Ný lög, nr. 22/1907, 16. nóvember, um umsjón og fjárhald kirkna ýttu mjög undir, að söfnuðir tækju við sóknarkirkjum sínum. Eru þau að mestu leyti í gildi árið 2017.13Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 134–137; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1907022.html, sótt 2. október 2017.

Lög nr. 20/1890, 22. maí, um innheimtu og meðferð á kirknafé gera ráð fyrir innheimtu sóknarnefndar á kirkjugjöldum og meðferð kirknafjár. Innstæður skyldi geyma í Hinum almenna kirkjusjóði til ávöxtunar, en sjóðurinn lána til kirkjubygginga og viðhalds. Eigendur bændakirkna voru þó ekki skyldugir til þess að leggja fé í sjóðinn. Reikningar kirkna skyldu endurskoðaðir af prófasti og lagðir fram á héraðsfundum. Ákvæði þessara laga gilda að miklu leyti enn (2017).14Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1890020.html, sótt 2. október 2017; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 167–172. — Sjá Kirknareikningar.

Biskupar og síðar prófastar með þeim áttu að fylgjast með fjármálum kirkna. Eigendur bændakirkna munu hafa þybbast við að gera reikninga kirkna sinna skilmerkilega, en hins vegar átti dánarbú kaþólsks prests, sem verið hafði staðarhaldari, að skila kirkju hans 1/10 af aflafé. Reikningsskil af kirkjum voru boðin í kirkjuskipun Kristjáns IV og ítrekuð síðar, en virðast fyrst komast í gott lag með konungsbréfi um gegnumdregnar kirkjubækur árið 1747. Í þær kirkjubækur skyldi skrá allar tekjur kirkna, vissar og óvissar, sem og útgjöld.15Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 11; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Lovsamling for Island I, bls. 52–53, 160–161; II, bls. 315–318, 693–694. Eignatekjur koma ekki fram í þessum reikningum, heldur aðeins tíundir, legkaup og ljóstollar. — Sjá Kirkjustóll. — Áður átti aðeins að gera reikningsskil fyrir tíund kirkjunnar, „portio“, en ekki tekið tillit til annarra tekna.16Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669.

Í skjalasöfnum presta og prófasta eru eftirtalin atriði varðandi kirknatekjur: portionsreikningur eða reikningur N-kirkju í kirkjustól, kirknareikningar (þ.e. reikningar kirkna, sem prófastur átti að fá til endurskoðunar og senda afrit af til biskups og sjóðbækur sóknarnefnda (sjá Kirknareikningar, Sóknarnefndir).

Ýmsar breytingar hafa orðið á meðferð kirkjueigna og tekna eftir árið 1909, þegar gömlu tekjustofnarnir voru lagðir niður, þótt ekki komi það mjög við bókhald presta og prófasta. Sérstakur Kirkjujarðasjóður varð til með lögum um sölu kirkjujarða nr. 50/1907, 16. nóvember. Andvirði seldra kirkjujarða og ítaka og peningaeign prestakalla skyldi renna í þann sjóð og mynda fastan höfuðstól, en meginhluti vaxtanna ganga til Prestslaunasjóðs. Kirkjujarðasjóður og andvirði kirkjujarða, annarra en prestssetursjarða, gekk til Kristnisjóðs samkvæmt II. kafla laga um skipun prestakalla og um Kristnisjóð nr. 35/1970, 7. maí, 19. grein.17Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 316–319 (15.–18. grein); 1970 A, bls. 294; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1970035.html, sótt 2. október 2017.

Afgjöld af þjóð- og kirkjujörðum féllu til Jarðakaupasjóðs ríkisins, eftir að sett voru lög um jarðakaup ríkisins nr. 92/1936, 23. júní. Þau lög gengu úr gildi með lögum um Jarðeignasjóð ríkisins nr. 54/1967, 27. apríl. Sjóðurinn nefnist nú Jarðasjóður ríkisins samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976, 31. maí, V. kafla, lögum um breytingu á jarðalögum nr. 90/1984, 30. maí, (þá féllu úr gildi 8.–11. grein laga nr. 46/1907 um laun sóknarpresta) og lögum um Jarðasjóð nr. 34/1992, 27. maí.18Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 288–289; 1967 A, bls. 79–81; 1976 A, bls. 167–168; 1984 A, bls. 184; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1992034.html, sótt 2. október 2017. Síðastnefndu lögin kveða á um forræði fjármála- og efnahagsráðuneytis á sjóðnum og í hann renna afgjöld af ríkisjörðum, sem eru í forsjá ráðuneytisins.

Hér hefur ekki verið tekið á útgjöldum kirkna. Einar Arnórsson fjallar nokkuð um það í Íslenzkum kirkjurétti.19Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 170–172. Hann nefnir 10 atriði, sem komið geti til útgjalda: Viðhald og bygging kirkjunnar, kostnaður við kirkjusöng, kostnað við kirkjugarð, kostnað við prestskosningu, borgun til safnaðarfulltrúa, kostnað við útvegun og viðhald áhalda og innanstokksmuna kirkju, innsetningu prests, visitasíulaun prófasts, yfirskoðun kirkjureikninga og vexti og afborganir af lánum. Öll þessi atriði miðast við breytingar, sem urðu á síðustu áratugum 19. aldar og á fyrstu árum 20. aldar, þegar söfnuðir tóku við kirkjunum.

Tekjur presta

Tekjur hinna fyrstu presta voru harla misjafnar. Kirkjueigendur, sem tóku prestsvígslu, höfðu tekjur af eignum sínum og ráðstöfunarrétt tekna kirkna og eigna þeirra. Leigu- eða þingaprestar réðu sig fyrir kaup og fæði hjá kirkjueigendum, og kirkjuprestar, sem kostaðir voru til náms af kirkjueigendum, voru þeim háðir til æviloka og því eins konar þrælar.20Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 232–243. Prestar áttu ekki að tíunda það, sem þeir áttu í bókum og messuklæðum, og annað það, sem þeir hefðu til guðsþjónustu, en allt annað fé.21Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 143 (2. liður). Ætlast var til þess, að leikmenn greiddu presti þóknun fyrir verk hans og í Kristinrétti Grágásar var lögfestur líksöngseyrir, sem var greiðsla fyrir að jarðsyngja látinn mann.22Grágás. Elsta lögbók Íslendinga, gefin út af Vilhjálmi Finsen. Fyrri deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 9. Í Kristinrétti Árna Þorlákssonar frá árinu 1275 er talað um preststíund, fjórða hluta tíundar en þar segir einnig:

En ef ólærðir menn taka lýsistoll og tíund, kirkjufjórðung og prestsfjórðung, þá skulu þeir ljúka presti tíðakaup fyrir hans fjórðung.23Norges gamle Love indtil 1387 V. Christiania 1895, bls. 36.

Tíðakaup er gjald fyrir messusöng. Samþykkt var á alþingi árið 1265, að öllum væri skylt að greiða presti fyrir síðustu smurningu (óleunarkaup) og líksöng.24Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 183–184. Preststíund, þ.e. 1/4 hluti tíundar, rann ekki endilega til presta eftir lögtöku tíundar. Prestar, sem sátu staði, nutu hennar, en annars hirtu kirkjueigendur hana lengi framan af og guldu prestum laun. Tekjur af preststíund réðust einnig af sóknarstærð og efnahag sóknarbarna. Tíundargreiðslum (bæði til prests og kirkju) tengjast ýmis skjöl í skjalasöfnum presta, s.s. tíundarlistar og tíundarskýrslur, þar sem fram kemur, af hvaða eignum sóknarbörn skyldu gjalda tíund. (Sjá umfjöllun um tíundarlista og tíundarskýrslur). Preststíund var meðal vissra (fastra) tekna presta, sem voru annars að mestu leyti lambsfóður, dagsverk, afgjöld af jörðum og gjald frá annexíubændum. Eins og áður sagði eignuðust margar kirkjur mikið jarðagóss ásamt ítökum og hlunnindum og sumar náðu ýmiss konar tollum. Væri kirkjan lénskirkja, fékk presturinn þessar eignatekjur í sinn hlut, en dánarbú prestsins skyldi afhenda kirkjunni 1/10 hluta þess fjár, sem prestur hafði þannig aflað.25Magnús Már Lárusson, „Beneficium, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 457–458; Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Magnús Már Lárusson, „Privatkirke“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkar 462–467. Þá skyldu hálfar leigur af kúgildum (þ.e. 10 álnir af kúgildi) á bændakirkjujörðum ganga til sóknarprests (prestsmata) samkvæmt alþingisdómi 1. júlí 1629.26Alþingisbækur Íslands V, bls. 182–183; Lovsamling for Island I, bls. 213–214; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 184–185. — Um smjörgjald og virði þess, sjá Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 139, 11. grein í tilskipun um tekjur presta 17. júlí 1782. Árið áður, 1628, hafði verið dæmt, að prestur í Mjóafjarðarþingum fengi 12 álnir af hverju kirkjukúgildi.27Alþingisbækur Íslands V, bls. 150–155. Afritum dómsins ber ekki saman, í sumum talað um 12 álnir, í hinum eru þær sagðar 10. (Sjá umfjöllun um prestsmötu). Í konungsboði um tekjur presta í Hólabiskupsdæmi 21. mars 1575 sagði meðal annars, að prestar skyldu njóta tolla og tíunda, eins og þeir hefðu gert frá fornu fari og boðið væri í kirkjuskipuninni. Voru þar nefndir hey- og ljóstollar og legkaup.28Í tilskipuninni er talað um það, sem gefa eigi kirkjunni fyrir greftrun. Vísar það frekar til legkaups en líksöngseyris, sem presturinn fékk. Þá áttu prestar að fá tíundir af öllum bændum og jörðum í sóknum þeirra, hver sem eigandi jarðanna væri. Þó voru klaustrin og búfé þeirra undanþegin tíundinni. Hins vegar skyldu klaustrin halda einn prest og djákna. Þá voru ýmsar stólsjarðir gerðar að prestssetrum eða lagðar prestum til ábúðar. Tvær klaustrajarðir voru gerðar að prestssetrum og allnokkrir sóknarprestar fengu árlegan styrk.29Lovsamling for Island I, bls. 101–104. Ekki hefur gengið of vel að koma að koma þessu á.30Alþingisbækur Íslands IV, bls. 331–332; V, bls. 37 (8. liður), 48 (á miðri síðu). Alþingi dæmdi árið 1604, að allir prestar í Skálholtsbiskupsdæmi skyldu undanþegnir kóngstíund.31Lovsamling for Island I, bls. 145.

Óvissar tekjur presta voru offur og aukatekjur, þ.e. gjöld fyrir embættisverk (aukaverk, þ.e. skírn, fermingu, hjónavígslu og greftrun. Af þeim voru lögbundin líksöngseyrir og oleunarkaup). Þá nutu margir prestar arðs af ábúðarjörðum sínum og af hlunnindum, sem fylgdu þeim og kirkjunum. Einnig gátu prestar fengið ýmsa tolla.32Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 164–165. Prestastefna í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1764 samþykkti reglur um greiðslur fyrir aukaverk (hin eiginlegu prestsverk, sjá aukaverk). Greiðsla skyldi koma fyrir barnsskírn, trúlofun og hjónavígslu, kirkjuleiðslu kvenna og altarisgönguvottorð og prestur fá fylgd, þegar hann vitjaði sjúkra. Greiðsla var bundin við efnaða og þá, sem greiddu nokkra tíund, en fátækir skyldu undanþegnir.33Lovsamling for Island III, bls. 516. Með konungsbréfi um skattleysi embættismanna, 7. mars 1774, voru andlegrar stéttar menn undanþegnir skatt- og tíundargjaldi svo og gjaftolli, en embættismenn (einnig andlegrar stéttar) urðu skatt- og tíundarskyldir samkvæmt konungsbréfi 7. nóvember 1767.34Lovsamling for Island III, bls. 598–600; IV, bls. 30–32. Reglur um tekjur presta og ákveðin réttindi kirkna voru settar með konunglegri tilskipun árið 1782, sem birt var á alþingi árið eftir.35Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 136–141. Skyldu bændur tíunda lausafé sitt á manntalsþingum, en prestar, kirkjur, skólar og spítalar þurftu ekki að tíunda kúgildi eða annað fylgifé. Æðstu embættismenn (stiftamtmaður, biskupar og amtmaður) voru undanþegnir tíund samkvæmt fornri venju. Prestar og prestslærðir í opinberum embættum þurftu að tíunda fé sitt, en skyldu aðeins greiða fátækratíund. Við fátækraframfærslu skyldu þeir taka að sér börn, sem þyrftu kennslu, frekar en aðra ómaga. Þá skyldu prestar og prestsekkjur vera undanþegin öðrum skyldum, svo sem skatti og gjaftolli. Tíund til prests og kirkju var þar verðlögð, svo og dagsverk og lambsfóður. Sömuleiðis var líksöngseyrir ákveðinn og greiðslur fyrir aukaverk (þ.e. trúlofanir, giftingu, barnsskírn, kirkjuleiðslu kvenna og fermingarundirbúning). Sömuleiðis voru þar ákvæði um offur, ljóstoll og gjöld lausamanna til prests og kirkju (lausamannsgjald og lausamannstoll), skyldu sóknarbænda til þess að gera kirkjugarðs- og kirkjuveggi og leggja þak á kirkju og hvað skyldi greiða presti fyrir endurskoðun kirkjureikninga og prófasti fyrir kirkjuskoðun (visitasíu). Lausamannstollurinn var síðasti tekjustofninn, sem prestum bættist sérstaklega. Skyldu lausamenn greiða presti 24 skildinga árlega og vinna honum dagsverk að auki.36Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140 (13. grein).

Prestar voru undanþegnir ýmsum vinnu- og framlegðarskyldum, sem lagðar voru á almenning, að mati Jóns Péturssonar háyfirdómara.37Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 211–213. Munu þeir hafa sloppið við þinghúsbyggingar samkvæmt helgidagatilskipuninni 29. maí 1744 (24. grein), vegagerð og ruðning eftir tilskipun um vegamál 29. apríl 1776 (8. grein) og sóknarbændur skyldu byggja kirkjugarða og kirkjuveggi og tyrfa kirkjuþak á eigin kostnað og flytja timbur og annað efni til kirkju, þegar meiriháttar viðgerð stæði fyrir dyrum eftir reglugerð um tekjur presta og kirkna 17. júlí 1782 (15. grein).38Lovsamling for Island II, bls. 517; IV, bls. 269, 669.

Breytingar á greiðslum fyrir aukaverk, eins og þær voru ákveðnar með reglugerð 17. júlí 1782,39Lovsamling for Island IV, bls. 668 (16. grein). voru gerðar í tilskipun 18. mars 1843. Tóku þær til líksöngseyris, pússunartolls, barnsskírnar, fermingarundirbúnings, kirkjuleiðslu kvenna, endurskoðun presta á kirkjureikningum, visitasíulauna prófasta og legkaups til kirkna.40Lovsamling for Island XII, bls. 527–529. Sú tilskipun var afnumin með annarri 27. janúar 1847, sem ákvað upphæð líksöngseyris og legkaups, lágmark pússunartolls, gjalds fyrir barnsskírn og fermingu og offurs. Tekið var fram um flutning prests til sjúkra og greiðslu fyrir endurskoðun kirkjureikninga og visitasíur.41Lovsamling for Island XIII, bls. 585–587. Síðar voru aukaverk greidd samkvæmt gjaldskrá, sbr. 3. grein laga nr. 46/1907, 16. nóvember, og lög nr. 36/1931, 8. september. Síðarnefndu lögin (um embættiskostnað presta og aukaverk þeirra) eru enn í gildi (2017) með áorðnum breytingum.42Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–293; 1931 A, bls. 76; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1931036.html" target="_blank">http://www.althingi.is/lagas/nuna/1931036.html, sótt 2. október 2017. Lítið mun af gögnum um aukatekjur presta í skjalasöfnum presta og prófasta. Helst væri slíkt að finna í einkaskjölum presta, sem geta fylgt skjalasöfnum prestakallanna.

Tekjur presta í litlum og/eða fátækum brauðum voru oft ærið knappar. Voru eftir siðaskipti ákveðin ýmis tillög til presta, þeim til styrktar, ýmist í peningum, jarðaafgjöldum eða í jörðum.43Lovsamling for Island I, bls. 57–58, 96–98, 101–104, 105–106, 107–108, 110–111, 241–242, 352–354; III, bls. 199–200, 221, 436–437; VII, bls. 392–394; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 85–87. Þá voru nokkur dæmi um, að einstaklingar gæfu jarðir eða jarðarhelminga, þar sem voru kirkjustaðir, til staðar (beneficium) eða uppihalds presta, svo sem Stað í Aðalvík, Ás í Fellum, Brjánslæk á Barðaströnd, Prestsbakka í Hrútafirði, Garpsdal í Gilsfirði, Berufjörð í Berufirði og Dvergastein í Seyðisfirði.44Lovsamling for Island I, bls. 143, 317–321, 787–788; II, bls. 716–720, 731–734; ÞÍ. Kirknasafn. Dvergasteinn AA/1. Gjafabréf fyrir kaupahluta Dvergasteins 1678.

Sums staðar gat verið um sérstakar tekjur presta að ræða. Dæmi um slíkt er sætisfiskur. Fjöldi vermanna sótti kirkjur í nánd við verstöðvar. Konungleg tilskipun var gefin út 1. desember 1752 um, að hver vermaður, sem aflaði eins hundraðs (120) fiska á vetrar- eða vorvertíð, skyldi gjalda einn fisk til prests. En á móti áttu prestarnir að byggja svo stórar kirkjur, að helmingur útróðrarmanna, að minnsta kosti, auk alls sóknarfólks kæmist þar fyrir. Giltu þessi fyrirmæli um Hvalsness- og Útskálakirkjur.45Lovsamling for Island III, bls. 141–143. Árið 1646 dæmdu níu prestar að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar, að hálfkirkjan í Þorlákshöfn skyldi vera sóknarkirkja vertíðarfólks þar um vertíðartímann og presturinn fá einn fisk af hvers manns hlut fyrir sitt ómak.46Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 108–109. — Sjá umfjöllun um fiskagjald.

Á 19. öld urðu ýmsar breytingar á tekjum presta. Reynt var að sameina lítil prestaköll og bæta þannig tekjur presta.47Sjá t.d. Lovsamling for Island XVIII, bls. 259–261. Þá skyldu hin auðugri prestaköll leggja fé til hinna fátækari samkvæmt brauðamati, sem tók gildi 6. júní 1867 og átti að endurskoða á 15 ára fresti.48Lovsamling for Island XIX, bls. 352–368; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 243–255. Sbr. Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 53–54, 107. Sjá og Ólafur Pálsson, „Brauðamat á Íslandi 1854“, Skýrslur um landshagi á Íslandi II. Kaupmannahöfn 1859–1861, bls. 430–436, og „Álitsskjal brauða- og kirknamála–nefndarinnar“, Kirkjutíðindi fyrir Ísland 1. hefti. Reykjavík 1878, bls. 4–102. Nýtt brauðamat var gefið út árið 1870, sem breyttist með lögum nr. 3/1880 um skipun prestakalla, auglýsingu um endurskoðað brauðamat nr. 14/1884 og aftur nr. 10/1900.49Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 62–73; Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 10–23; 1884 A, bls. 64–77; 1900 A, bls. 46–57; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 73–74. Auk þess urðu breytingar á einstökum prestaköllum, sem koma fram í lögum en eru ekki tíundaðar hér.

Lög nr. 46/1907, 16. nóvember, um laun sóknarpresta, ákváðu prestum föst laun, en í nokkrum prestaköllum fengu þeir erfiðleikauppbót. Þá skyldu prestar halda ábúðarrétti prestssetra. Afgjald eftir þau og lóðagjöld, arð af ítökum, sem þeir notuðu sjálfir, og prestsmötu (hálfar kúgildaleigur bændakirkna) tóku þeir undir sjálfum sér eins og það var kallað, þegar viðkomandi önnuðust sjálfir innheimtuna eða sáu um eignirnar, ef þessar tekjur fóru ekki fram úr mörkuðum launum þeirra. Aðrar kirkjueignir áttu að vera í umsjón hreppstjóra í hverjum hreppi, þeir höfðu byggingarráð eignanna og eftirlitsskyldu. Tíundir, offur og annað, sem áður skyldi gjalda sóknarpresti, átti sóknarnefnd að innheimta. Fastlaunaákvæðið náði fyrst og fremst til presta, sem voru skipaðir eftir 6. júní 1908, þegar lögin tóku gildi. Eldri prestar gátu margir valið um, hvort þeir tækju laun eftir nýju lögunum eða með óbreyttum hætti. Samkvæmt þessum lögum runnu til Prestslaunasjóðs eftirgjald af fasteignum prestakalla, arður af ítökum og prestsmata, sóknartekjur (þ.e. tíundir, offur o.s.frv.), vextir af innstæðufé prestakalla, framlög úr landssjóði og sektir (24. grein). (Sjá umfjöllun um Prestslaunasjóð). Prófastur skyldi senda landsstjórn skýrslu um tekjur, er prestar hans tækju undir sér sjálfum, og um sóknartekjur og sjá um greiðslu þess, er á vantaði, úr Prestslaunasjóði. Einnig skyldi prófastur gera ársreikning yfir tekjur og gjöld, sem hann hefði haft á hendi fyrir Prestslaunasjóð.50Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–301; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 105–113, 187–188. Fyrrnefnd ákvæði um föst laun presta og erfiðleikauppbót féllu niður 1. janúar 1920, þegar lög um laun embættismanna nr. 71/1919, 28. nóvember, tóku gildi.51Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226 (sjá einkum 22. grein, bls. 223). Preststíundir, offur, lausamannsgjald, lambsfóður og dagsverk voru afnumin með lögum um sóknargjöld nr. 40/1909, 30. júlí. Í staðinn kom sóknargjald (prestsgjald), lagt á hvern mann 15 ára og eldri. Skyldi það renna í Prestslaunasjóð.52Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–205 (I. kafli); Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 106.

Eins og fram kemur hér á undan átti að greiða úr Prestslaunasjóði það af launum presta, sem ekki náðist af þeim tekjum, sem þeir tóku undir sér sjálfum, eða af sóknargjaldi. Ef tekjur Prestslaunasjóðs hrukku ekki til, skyldi koma viðbótarfé úr landssjóði. Prestslaunasjóður varð að taka á sig greiðslur og tekjumissi eins og að líkum lætur, þegar ríkissjóður var ábyrgðaraðili.

Fóðrun á svonefndum Maríu- eða Péturslömbum var meðal tekna presta í nokkrum sóknum á landinu. Sú skylda var afnumin frá fardögum árið 1911 með lögum nr. 50/1911, 11. júlí. Hlutaðeigandi prestaköllum skyldi í staðinn greidd uppbót úr Prestslaunasjóði.53Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 274–275. Ekki er vitað, hvernig þessi fóðrunarskylda varð til. (Sjá umfjöllun um Maríu- og Péturslömb). Sala á prestsmötu var leyfð með lögum nr. 54/1921, 27. júní. Skyldi Prestslaunasjóður greiða presti vexti af andvirði prestsmötu. Þau lög gilda enn árið 2017 með nokkrum breytingum.54Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 177–178; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1921054.html, sótt 2. október 2017.

Sóknargjöld til Prestslaunasjóðs (prestsgjald) lögðust niður með lögum um sóknargjöld nr. 36/1948, 1. apríl, og nú (2017) standa eftir af tekjum sjóðsins lögum samkvæmt sóknartekjur, vextir af innstæðufé eða peningum prestakalla, framlög ríkissjóðs og sektarfé.55Stjórnartíðindi 1948 A, bls. 130–131; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1907046.html (24. grein), sótt 2. október 2017. Er Prestslaunasjóður því eiginlega úr sögunni sem slíkur.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Már Lárusson, „Donasjon, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder III, dálkur 233; Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Magnús Már Lárusson, „Kirkegård, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VIII, dálkar 399–402; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Magnús Stefánsson, „Tiend, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 287–291; Björn Þorsteinsson, „Tollr“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454; Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 143 (2. liður); Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 193–208; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 181–184; Lovsamling for Island I, bls. 90–92; IV, bls. 451–452, 664–670.
2 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140 (13. grein).
3 Stjórnartíðindi 1879 A, bls. 32–33.
4 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 410–411.
5 Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 152–155 (sjá einkum bls. 153).
6 Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639–1674. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2005, bls. 108–109.
7 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 204–207 (II. kafli).
8 Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 683–685; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html, sótt 2. október 2017.
9 Magnús Már Lárusson, „Beneficium, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 457–458; Magnús Már Lárusson, „Privatkirke, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkar 462–467; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 287–288; Magnús Stefánsson, „Kirkjuvald eflist“. Saga Íslands II. Reykjavík 1975, bls. 72–76; Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 79–93. — Magnús Stefánsson, fyrrum prófessor í Björgvin, hefur skilgreint staði/lénskirkjur/beneficium og bændakirkjur í ritum sínum: Staðir og staðamál. Studier i islandske egenkirklige og beneficialrettslige forhold i middelalderen I. Bergen 2000, bls. 129–147; „Um staði og staðamál“, Saga XL:2 (2002), sjá einkum bls. 141–151; „Kirkjuvald eflist“, bls. 76–78, 86–90. Magnús segir orðið beneficium fyrst hafa fengið merkinguna prestssetur á 16. öld, en því aðeins, að prestssetrið hafi verið kjarni kirkjueignarinnar, Staðir og staðamál, bls. 48.
10 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 323–325; III, bls. 98–99.
11 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 160–167.
12 Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 76–79.
13 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 134–137; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1907022.html, sótt 2. október 2017.
14 Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1890020.html, sótt 2. október 2017; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 167–172.
15 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 11; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Lovsamling for Island I, bls. 52–53, 160–161; II, bls. 315–318, 693–694.
16 Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669.
17 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 316–319 (15.–18. grein); 1970 A, bls. 294; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1970035.html, sótt 2. október 2017.
18 Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 288–289; 1967 A, bls. 79–81; 1976 A, bls. 167–168; 1984 A, bls. 184; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1992034.html, sótt 2. október 2017.
19 Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 170–172.
20 Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju, bls. 232–243.
21 Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 143 (2. liður).
22 Grágás. Elsta lögbók Íslendinga, gefin út af Vilhjálmi Finsen. Fyrri deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 9.
23 Norges gamle Love indtil 1387 V. Christiania 1895, bls. 36.
24 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 183–184.
25 Magnús Már Lárusson, „Beneficium, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder I, dálkar 457–458; Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669; Magnús Már Lárusson, „Privatkirke“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XIII, dálkar 462–467.
26 Alþingisbækur Íslands V, bls. 182–183; Lovsamling for Island I, bls. 213–214; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 184–185. — Um smjörgjald og virði þess, sjá Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 139, 11. grein í tilskipun um tekjur presta 17. júlí 1782.
27 Alþingisbækur Íslands V, bls. 150–155. Afritum dómsins ber ekki saman, í sumum talað um 12 álnir, í hinum eru þær sagðar 10.
28 Í tilskipuninni er talað um það, sem gefa eigi kirkjunni fyrir greftrun. Vísar það frekar til legkaups en líksöngseyris, sem presturinn fékk.
29 Lovsamling for Island I, bls. 101–104.
30 Alþingisbækur Íslands IV, bls. 331–332; V, bls. 37 (8. liður), 48 (á miðri síðu).
31 Lovsamling for Island I, bls. 145.
32 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 164–165.
33 Lovsamling for Island III, bls. 516.
34 Lovsamling for Island III, bls. 598–600; IV, bls. 30–32.
35 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 136–141.
36 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140 (13. grein).
37 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur, bls. 211–213.
38 Lovsamling for Island II, bls. 517; IV, bls. 269, 669.
39 Lovsamling for Island IV, bls. 668 (16. grein).
40 Lovsamling for Island XII, bls. 527–529.
41 Lovsamling for Island XIII, bls. 585–587.
42 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 292–293; 1931 A, bls. 76; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1931036.html" target="_blank">http://www.althingi.is/lagas/nuna/1931036.html, sótt 2. október 2017.
43 Lovsamling for Island I, bls. 57–58, 96–98, 101–104, 105–106, 107–108, 110–111, 241–242, 352–354; III, bls. 199–200, 221, 436–437; VII, bls. 392–394; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 85–87.
44 Lovsamling for Island I, bls. 143, 317–321, 787–788; II, bls. 716–720, 731–734; ÞÍ. Kirknasafn. Dvergasteinn AA/1. Gjafabréf fyrir kaupahluta Dvergasteins 1678.
45 Lovsamling for Island III, bls. 141–143.
46 Guðs dýrð og sálnanna velferð, bls. 108–109.
47 Sjá t.d. Lovsamling for Island XVIII, bls. 259–261.
48 Lovsamling for Island XIX, bls. 352–368; Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 243–255. Sbr. Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 53–54, 107. Sjá og Ólafur Pálsson, „Brauðamat á Íslandi 1854“, Skýrslur um landshagi á Íslandi II. Kaupmannahöfn 1859–1861, bls. 430–436, og „Álitsskjal brauða- og kirknamála–nefndarinnar“, Kirkjutíðindi fyrir Ísland 1. hefti. Reykjavík 1878, bls. 4–102.
49 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 62–73; Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 10–23; 1884 A, bls. 64–77; 1900 A, bls. 46–57; Þórunn Valdimarsdóttir, „Öld frelsis, lýðvalds og jafnaðar“, Til móts við nútímann. Kristni á Íslandi IV. Reykjavík 2000, bls. 73–74.
50 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 290–301; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 105–113, 187–188.
51 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226 (sjá einkum 22. grein, bls. 223).
52 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–205 (I. kafli); Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur, bls. 106.
53 Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 274–275.
54 Stjórnartíðindi 1921 A, bls. 177–178; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1921054.html, sótt 2. október 2017.
55 Stjórnartíðindi 1948 A, bls. 130–131; Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1907046.html (24. grein), sótt 2. október 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 2 af 2 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 330