Dagsverk

Síðast breytt: 2020.05.25
Áætlaður lestími: 2 mín

Í svonefndum Ríparartikúlum, sem gefnir voru út 4. maí 1542, segir meðal annars í 14. grein:

Item þeir hjáleigumenn og húsmenn, sem litla eða öngva heybjörg hafa og öngva tíund gjöra, þeir skulu vinna hjá þingaprestinum einn dag um árið, annað hvort í slætti eður annarri þarfligri þjónustu. En allir aðrir menn, hvort sem þeir eru heldur vinnumenn eður sveinar og eigi þeir nokkrar álnir það peningum sé vert, þá skulu þeir ætíð tíunda og rétta tíund gjalda undir það laga brot, sem fyrr skrifað stendur.1Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 735. Til er önnur gerð Ríparartikúla. Þar er þessi grein með öðru orðalagi en efnislega samhljóða, Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 746.

Mönnum ber ekki saman um, hvort Ríparartikúlarnir hafi verið lögteknir á Íslandi en eftir þeim var stundum farið.2Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 720–721. Má sjá ýmis dæmi þess, að ákvæðin um dagsverk skyldu gilda hér á landi. Árið 1604 var samþykkt á alþingi, að húsfólk og hjáleigumenn, sem ekki tíunduðu, skyldu vinna hjá sóknarpresti sínum eitt dagsverk á ári, annað hvort um sumar eða í haustyrkju eða með annarri þjónustu í stað þess, sem þeir skyldu tíunda.3Alþingisbækur Íslands III, bls. 334–335; IV, bls. 21–25. Eru til nokkur bréf og samþykktir um hið sama.4Alþingisbækur Íslands IV, bls. 21–25; Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 208. Annars hefur verið talið, að dagsverkakvöðin hafi verið á þeim sem ekki komust í skiptitíund vegna fátæktar. Þeir guldu aðeins fátækratíund.5Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III, bls. 229.

Samþykkt var á prestastefnu 22. júlí 1726 og staðfest af Niels Fuhrmann amtmanni og Jóni Árnasyni Skálholtsbiskupi, að þeir, sem ekki væru í skiptitíund (sjá Skiptitíund undir Orðskýringar), skyldu greiða dagsverk.6Lovsamling for Island II, bls. 61–62. Í Norsku lögum segir, að prestar skuli njóta eins haustdagsverks af húsmönnum og húskonum, sem gefi þeim enga tíund.7Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 225–226 (7. liður).

Tilskipun 17. júlí 1782, birt á alþingi árið 1783, kveður svo á í 13. grein, að lausamenn skuli auk dagsverks greiða 24 skildinga árlega til prests og sömu upphæð til kirkju.8Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140. (Sjá Lausamannstollur og Lausamannsgjald). Stiftamtmanni og biskupi yfir Íslandi voru 21. maí 1817 send konungleg fyrirmæli um, að vinnuhjú og húsfólk, sem ekki hefði vinnuhjú, skyldu vinna presti dagsverk, ef þau tíunduðu 60 álnir eða meir.9Lovsamling for Island VII, bls. 680–681.

Í lögum nr. 16/1900, 3. apríl, 1. grein, segir um dagsverk:

Þeir menn allir, karlar og konur, skulu vinna presti sínum dagsverk, er tíunda lausafé, sem eigi nemur 5 hundruðum gjaldskyldum, ennfremur húsmenn, þurrabúðarmenn, kaupstaðarborgarar og allir þeir, sem eiga heimili forstöðu að veita, jafnt karlar sem konur, svo og lausamenn og lausakonur, þó að þessir menn tíundi ekkert.10Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–87.

Í þessum lögum sagði einnig, að dagsverkin skyldi vinna um heyannir og gjaldandinn fæða sig sjálfur. Ef dagsverkið var ekki unnið, skyldi greiða presti það eftir verðlagsskrá, sem gilti á gjalddaga. Kona skyldi þó aðeins greiða helming þess gjalds, ef hún hefði ekki jarðnæði til umráða, ekki heldur vinnumenn.

Dagsverk voru lögð niður með lögum um sóknargjöld nr. 40/1909, 30. júlí.11Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 735. Til er önnur gerð Ríparartikúla. Þar er þessi grein með öðru orðalagi en efnislega samhljóða, Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 746.
2 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 720–721.
3 Alþingisbækur Íslands III, bls. 334–335; IV, bls. 21–25.
4 Alþingisbækur Íslands IV, bls. 21–25; Eftir skyldu míns embættis. Prestastefnudómar Þórðar biskups Þorlákssonar árin 1675–1697. Már Jónsson og Gunnar Örn Hannesson tóku saman. Reykjavík 2008, bls. 208.
5 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III, bls. 229.
6 Lovsamling for Island II, bls. 61–62.
7 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 225–226 (7. liður).
8 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140.
9 Lovsamling for Island VII, bls. 680–681.
10 Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–87.
11 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 87