Upphaflega mun orðið hafa táknað gjöf til æðri máttarvalda, síðar fær það merkinguna gjöf eða greiðsla til prests eða kirkju. Offur virðist ekki hafa verið fastákveðið gjald, nema konur skyldu offra kerti, þegar þær voru leiddar í kirkju eftir barnsburð. Offur eða tíðaoffur mun einnig hafa verið notað í sömu merkingu og tíðakaup, sem var greiðsla til prests fyrir messusöng, þ.e. utan þeirra messa, sem prestur var skyldugur að syngja.1Magnús Már Lárusson, „Kyrktagning, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkur 25; Odd Nordland, Carl-Martin Edsman, Einar Molland, Magnús Már Lárusson, „Offer“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XII, dálkar 514–528 (sjá einkum Magnús Már Lárusson, „Island“, dálkar 527–528); Einar Laxness, Íslands saga i-r, bls. 177.
Kirkjuskipanir Kristjáns III og IV (1537 og 1607) mæla fyrir um offur til presta á landsbyggðinni á þeim þremur stórhátíðum Krists (þ.e. jólum, páskum og hvítasunnu).2Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 222; Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 37r. Ekki er nefnt, hverjir skyldu offra, væntanlega allir sóknarmenn. Norsku lög segja presta eiga að njóta offurs á þeim þremur stórhátíðum af öllum, sem þeir taka til altaris, svo og fyrir hjónavígslu, barnsskírn og leiðslu sængurkonu í kirkju, en megi ekki gefa fyrirmæli um upphæðina.3Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 225–226. Í tilskipun 17. júlí 1782 (birt á alþingi árið eftir) var æðstu andlegum yfirvöldum, þar með biskupum, veraldlegum embættismönnum (þar með umboðsmönnum og klausturhöldurum), efnuðum jarðeigendum, svo og kaupmönnum og mönnum þeirra, sem tóku full laun, boðið að greiða prestum offur á jólum, páskum og hvítasunnu. Ekki var það ákveðin upphæð heldur skyldi hún vera það há, að viðkomandi yrði til sóma.4Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 136–141 (sjá einkum 12. lið á bls. 139).
Reglur um offurupphæð þessara manna voru settar með konunglegum fyrirmælum 4. júní 1790.5Lovsamling for Island V, bls. 685–686. Offurskyldan var gerð mun almennari með tilskipun 27. janúar 1847. Skyldi hver húsfaðir og hver, sem ætti með sig sjálfur og ætti 20 hundruð í fasteign eða lausafé eða í föstu og lausu saman, gjalda presti árlega offur, sem ekki væri minna en 8 álnir.6Lovsamling for Island XIII, bls. 582–587 (sjá einkum 3. lið á bls. 586). Þetta var endurskoðað í lögum nr. 16/1900, 3. apríl.7Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–87 (2. grein). Sem áður náði gjaldskyldan til 20 hundraða eignar, eða húseigna í kaupstöðum og verslunarstöðum virtra á a.m.k. 3.000 krónur og til embættismanna, kaupmanna, lyfsala, bakara, verslunarstjóra og verslunarmanna, er hefðu eigi minna en 600 krónur að árslaunum. Offur var afnumið með lögum um sóknargjöld nr. 40/1909, 30. júlí.8Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203 (1. grein).
Tilvísanir
↑1 | Magnús Már Lárusson, „Kyrktagning, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder X, dálkur 25; Odd Nordland, Carl-Martin Edsman, Einar Molland, Magnús Már Lárusson, „Offer“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XII, dálkar 514–528 (sjá einkum Magnús Már Lárusson, „Island“, dálkar 527–528); Einar Laxness, Íslands saga i-r, bls. 177. |
---|---|
↑2 | Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 222; Kirkeordinansen av 1607 og forordning om ekteskabssaker gitt 1582. Ljósprentun. Oslo 1985, bl. 37r. |
↑3 | Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkar 225–226. |
↑4 | Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 136–141 (sjá einkum 12. lið á bls. 139). |
↑5 | Lovsamling for Island V, bls. 685–686. |
↑6 | Lovsamling for Island XIII, bls. 582–587 (sjá einkum 3. lið á bls. 586). |
↑7 | Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 86–87 (2. grein). |
↑8 | Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 202–203 (1. grein). |