Maríu- og Péturslömb

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 2 mín

Fóðrun Maríu- og Péturslamba var annað en hið hefðbundna lambseldi.1Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 197–198. (Sjá Heytollur). Þessi fóðurskylda var afnumin frá fardögum árið 1911 með lögum nr. 50/1911, 11. júlí, en í staðinn kom greiðsla til viðkomandi prestakalla úr Prestslaunasjóði.2Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 274–275.

Við umræður á Alþingi árið 1911 kom fram, að þá þekktist þetta í aðeins fimm sóknum á landinu: Sauðanessókn með 16 Péturslömb, Svalbarðssókn (í Þistilfirði) með 12 Péturslömb, Hjaltastaðarsókn með 18 Maríulömb, Desjamýrarsókn með 14 Maríulömb og Klyppsstaðarsókn með sjö Maríulömb, alls 67 lömb. Sagði annar flutningsmaður frumvarpsins, Jóhannes Jóhannesson, þingmaður Norðmýlinga, að fóðurskyldan hefði áður verið töluvert almenn. Sagðist hann einhvers staðar hafa lesið það eftir Jón háyfirdómara Pétursson, að hún mundi þannig upp komin, að í kaþólskum sið hafi sú venja komist á víða á Íslandi, að á hverju prestssetri hafi nytinni úr einni kú verið varið til þess að gæða sóknarfólkinu á; var kýr sú ýmist eignuð Maríu mey eða Pétri postula.3Alþingistíðindi 1911 B II, dálkar 1210–1211. Sennilega var Jóhannes frekar að vitna í Benedikt Kristjánsson, prest í Múla í Aðaldal og þingmann Norður-Þingeyinga, sem árið 1877 lagði fram frumvarp um að afnema lambseldi, sem auk hins venjulega heytolls, hvíldu á jörðum, en það fékk ekki framgang. Sagði Benedikt á þingi, að slík kvöð hefði verið á bændum í Hálssókn í Fnjóskadal, en í tíð þriggja síðustu Hálspresta hefði það fallið niður af sjálfu sér. Nefndi Benedikt, að á útkirkjunum Draflastöðum og Illugastöðum væri partur af túninu á hvorum stað kallaður Pétursvöllur. Sögusagnir væru um, að taðan af Pétursvelli hefði verið höfð til fóðurs handa Péturskú, en mjólkin úr kúnni verið til þess að veita sóknarmönnum, er þeir komu til kirkjunnar.4Alþingistíðindi 1877 II, bls. 414–415.

Árni Óla blaðamaður birti árið 1956 grein um Maríu- og Péturslömb og hugsanlega tilurð fóðraskyldunnar og sagði frá málaferlum og allnokkrum afnámstillögum alþingismanna allt frá árinu 1877 til 1911.5Árni Óla, „Um 600 ár fóðruðu íslenzkir bændur lömb fyrir Maríu mey og sankti Pétur“, Lesbók Morgunblaðsins XXXI. árg., 34. tbl., bls. 533–539.

Það er athugandi, að í Auðunarmáldögum (1318) er Hálskirkja sögð eiga lambseldi um Fnjóskadal. Ekki er þar minnst á heytolla, en Illugastaða- og Draflastaðakirkjur (báðar í Fnjóskadal) fengu heytolla af sömu bæjum og þær fengu ljóstolla.6Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 439–441. Sauðaneskirkja átti samkvæmt sama máldaga lambseldi um öll þing og prestur á Svalbarði í Þistilfirði fiskatoll um öll þing.7Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 425–426. Máldagarnir eru báðir skertir. Pétursmáldagar (1394) segja Sauðaneskirkju eiga lambseldi um öll Sauðanesþing og ljós- og heytolla af níu bæjum.8Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 554–555. Svalbarðskirkja átti þá lambseldi af hverjum bæ í þingunum, ekki minnst á fiskatoll, og ljós- og heytolla af 12 bæjum.9Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 588–589. Lambseldi er nefnt við þrjár aðrar kirkjur í máldögum Auðunar og Péturs: Húsavík, Ás í Kelduhverfi og Velli í Svarfaðardal.10Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 428–429, 455–456; III, bls. 512–513, 582–583, 585–586. — Á Völlum var t.d. lambseldi um allan Svarfaðardal og inn til Haga á Árskógsströnd, þar var Ólafskirkja, á Húsavík var Magnúsarkirkja Eyjajarls og í Ási Tómasarkirkja erkibiskups. Í Vilkinsmáldaga (1397) er hvergi getið um heytolla kirkna á Austurlandi, en lambseldi var af öllum bæjum í Hjaltastaðar-, Desjarmýrar- og Klyppsstaðarsóknum.11Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 221–224. Refsstaðarkirkju í Vopnafirði fylgdi þá lambseldi af öllum bæjum á mun stærra svæði en sókninni nam.12Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 217–219. Sama kemur fram í Gíslamáldögum (1570), en þá hafði Kolfreyjustaðarkirkja bæst við með lambseldi af hverjum bæ til ábyrgðar.13Íslenzkt fornbréfasafn XV, bls. 677–678, 686–689, 692.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 197–198.
2 Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 274–275.
3 Alþingistíðindi 1911 B II, dálkar 1210–1211.
4 Alþingistíðindi 1877 II, bls. 414–415.
5 Árni Óla, „Um 600 ár fóðruðu íslenzkir bændur lömb fyrir Maríu mey og sankti Pétur“, Lesbók Morgunblaðsins XXXI. árg., 34. tbl., bls. 533–539.
6 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 439–441.
7 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 425–426. Máldagarnir eru báðir skertir.
8 Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 554–555.
9 Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 588–589.
10 Íslenzkt fornbréfasafn II, bls. 428–429, 455–456; III, bls. 512–513, 582–583, 585–586. — Á Völlum var t.d. lambseldi um allan Svarfaðardal og inn til Haga á Árskógsströnd, þar var Ólafskirkja, á Húsavík var Magnúsarkirkja Eyjajarls og í Ási Tómasarkirkja erkibiskups.
11 Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 221–224.
12 Íslenzkt fornbréfasafn IV, bls. 217–219.
13 Íslenzkt fornbréfasafn XV, bls. 677–678, 686–689, 692.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 84