Um safnið

Grunnur að þessum vef varð til við yfirferð Bjarkar Ingimundardóttur, sagnfræðings og fyrrverandi skjalavarðar, á skrám yfir skjalasöfn presta og prófasta í Þjóðskjalasafni Íslands. Rannsókn hennar laut að því að kanna mörk prestakalla, sókna og prófastsdæma og er afraksturinn bækurnar: Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi sem voru gefnar út árið 2019. Samhliða voru gerð kort yfir mörk prestakalla og er kortið frá 1801 notað til miðlunar sóknarmanntala og prestsþjónustubóka í landfræðilegri vefsjá.

Samhliða rannsókninni vöknuðu spurningar um hvað einstök orð þýddu í raun – hverjar væru rætur ýmissa hugtaka og hvaða lög, reglur og ákvarðanir lægju að baki skjalaflokkum í skjalaskrám kirkjunnar en þaðan eru orðin tekin og úr skjölum að baki þeim. Þaðan er sprottinn þessi vefur sem skiptist í þrjá flokka: Hugtakaskýringar, orðskýringar og skammstafanir og eru nú (maí 2020) 2421 skýring í safninu öllu. Hugtakaskýringarnar eru yfirleitt nokkuð langar og er vísað í þeim til heimilda og ítarefnis. Orðskýringarnar eru styttri og sjaldnast vísað beinlínis til heimilda hvað þær varðar. Þriðji flokkurinn, skammstafanir, nær yfir styttingar orða og þar er einnig að finna skýringar á nokkrum táknum, sem fyrirfinnast í heimildunum. Eins og áður sagði er verkið byggt á kirkjulegum heimildum. Því miðast skýringarnar við hlutverk kirkjunnar og í ýmsum tilfellum geta merkingar orða og hugtaka verið allt aðrar þegar þau birtast í öðru samhengi og merkingar því miklu fjölbreyttari en hér kemur fram. Orðasöfnun þessari lauk að langmestu leyti síðla árs 2017 og því miðast margar heimildatilvitnanir við það ár.

Björk fór yfir elstu prestsþjónustubækur, sóknarmannatöl og kirkjustóla frá Eydölum í Breiðdal, Kálfafelli í Fljótshverfi, Breiðabólsstað í Fljótshlíð, Odda á Rangárvöllum, Útskálum (þar með Hvalsnesi), Seltjarnarnesþingum, Eyri í Skutulsfirði, Hrafnagili í Eyjafirði (þar með Kaupangi) og Múla í Aðaldal. Í þessum prestaköllum hófst bókahald snemma og var samfellt. Jafnframt var litið til þess að dæmi fengjust úr hverjum landsfjórðungi. Sum prestaköllin voru valin vegna þess, að á þeim var konungsveiting og líklegt, að prestarnir hefðu háskólanám að baki og orðfæri þeirra mótað af því. Í öðrum voru verslunarstaðir, sem hafði áhrif á orðanotkun, og í Útskálakalli voru verstöðvar með mörgum aðkomumönnum. — Einnig voru tekin með latnesk orð úr bókinni Den glemte skriften eftir Knut Johannessen, en þar er listi yfir slík orð, sem oftast koma fyrir í norskum kirkjubókum frá 17. og 18. öld.

Hafa þarf í huga, að orðaleitin var fyrst og fremst bundin við skjalaskrár kirkjunnar, ákveðna skjalaflokka og áðurtalin prestaköll. Í öðrum skjölum og bókum geta verið torskilin orð eða með óvenjulegri merkingu. Orð geta verið margræð. Í því sambandi má nefna orð eins og brauð, sem getur þýtt altarisbrauð (obláta) eða prestakall auk hinnar hefðbundnu merkingar: vort daglega brauð. Orðskýringarnar ná eins og áður sagði fyrst og fremst til kirkna og kristnihalds.

Þegar koma fyrir lítt kunn orð, ekki síst úr öðrum málum, er oft vitnað til heimildar. Það er einnig gert við mörg dánarmein. Sum orðin treysti Björk Ingimundardóttir sér ekki til þess að skýra og því eru sett spurningarmerki við þau. Þá eru orð, sem þyrftu allmikillar rannsóknar við, svo að þau væru örugglega rétt skýrð. Ekki hefur verið ráðist í slík verk.

Orðalistinn er alls ekki tæmandi og má bæta miklu við. Ekki eru tekin upp orð, sem talin eru svo ljós, að þau þurfi ekki skýringar við eða skýrast best með athugun á skjölunum sjálfum, þar sem um sérstök tilvik getur verið að ræða. Nánari skýringar á ákveðum orðum, skjalaflokkum og hugtökum og öðru, sem því tengist, má finna undir flokknum Orðskýringar. Lítt var sinnt orðum, sem lúta að húsbyggingum, nema tekin voru með ýmis orð um innviði kirkna og orð, sem þóttu mjög sérleg. Orðaskrár, sem fylgja ritinu Kirkjur Íslands, geta komið þar að góðu gagni sem og rit Harðar Ágústssonar Íslensk byggingararfleifð. — Ekki voru tekin með guðsorðabókaheiti nema í algerum undantekningum.