Ljóstollur

Síðast breytt: 2020.05.12
Áætlaður lestími: 1 mín

Allir tíundarskyldir menn greiddu ljóstoll til kirkju sinnar. Fyrir hann skyldi kaupa ljósmeti (vax og tólg í kerti, lýsi), vín og brauð (oblátur) eða hveiti til brauðgerðar. Komst tollurinn á fyrir árið 1265.1Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Björn Þorsteinsson, „Tollr“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454.

Framan af öldum voru það bændur einir, sem greiddu ljóstoll, en síðar einnig húsmenn, vinnuhjú og aðrir tíundargjaldendur. Prestar í Hólabiskupsdæmi skyldu njóta ljóstolls eins og þeir hefðu gert frá fornu fari samkvæmt konungsboði frá 21. mars 1575.2Lovsamling for Island I, bls. 101–104 (sjá einkum bls. 101–102). Tilskipun 17. júlí 1782, sem birt var á alþingi árið eftir, segir heilan ljóstoll vera 4 pund af tólg eða 26 skildinga (13. grein). Heilan toll greiði bændur með vinnuhjú, hvort heldur giftir eða ógiftir karlar og ekkjur. Húsmenn gjaldi hálfan toll.3Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 241. Stiftamtanni og biskupi yfir Íslandi voru send konungleg fyrirmæli 21. maí 1817 um, að vinnuhjú og húsfólk, sem ekki hefðu vinnuhjú, skyldu gjalda hálfan ljóstoll, ef þau tíunduðu 60 álnir eða meira.4Lovsamling for Island VII, bls. 680–681. Raunar skilgreinir Jón Pétursson háyfirdómari heilan ljóstoll sem þá tvo ljóstolla, sem hjón greiði, og vísar til tilskipunarinnar frá árinu 1782.5Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 236. Sjá að öðru leyti umfjöllun Jóns í riti hans, bls. 235–242. Í lögum nr. 16/1900, 3. apríl (5. grein) var kveðið svo á um ljóstoll:

Heilan ljóstoll til kirkju gjaldi búandi hver eða húsráðandi, sem heldur hjú, hvort sem hann er karl, kvæntur eða ókvæntur, eða kona, gift eða ógift. Hálfan ljóstoll til kirkju gjaldi húsráðendur og húsmenn hjúalausir og ennfremur einhleypir menn og vinnuhjú, sem tíunda 60 ál. eða meira. Hjú teljast börn yfir 16 ára aldur, sem vinna hjá foreldrum sínum.6Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 88–89.

Ljóstollur var afnuminn með lögum um sóknargjöld nr. 40/1909, 30. júlí.7Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 204–205 (5. grein).

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Magnús Már Lárusson, „Fabrica, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IV, dálkar 120–122; Björn Þorsteinsson, „Tollr“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVIII, dálkar 452–454.
2 Lovsamling for Island I, bls. 101–104 (sjá einkum bls. 101–102).
3 Alþingisbækur Íslands XVI, bls. 140; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 241.
4 Lovsamling for Island VII, bls. 680–681.
5 Jón Pjetursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 236. Sjá að öðru leyti umfjöllun Jóns í riti hans, bls. 235–242.
6 Stjórnartíðindi 1900 A, bls. 88–89.
7 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 204–205 (5. grein).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 135