Sóknarnefndir, safnaðarfundir, héraðsfundir, héraðssjóðir

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 8 mín

Miklar breytingar urðu á íslensku kirkjulífi á síðari hluta 19. aldar. Söfnuðir skyldu taka meiri þátt í málefnum kirkna sinna, og fjárhald kirkna færðist smátt og smátt úr höndum presta (staðarhaldara) og kirkjueigenda til safnaða.

Árið 1880 voru sett lög nr. 5/1880, 27. febrúar, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda. Samkvæmt þeim skyldi vera sóknarnefnd í hverri kirkjusókn og héraðsnefnd í hverju prófastsdæmi til þess að annast kirkjuleg málefni, sem þeim væru fengin í hendur með lögum þessum. Safnaðarfund skyldi halda í júnímánuði ár hvert og kjósa þá þrjá menn til þess að veita málefnum safnaðarins forstöðu ásamt sóknarpresti. Jafnframt skyldi kjósa einn safnaðarfulltrúa á héraðsfund, sem halda skyldi í september hvert ár. Sætu hann allir prestar prófastsdæmisins og safnaðarfulltrúi úr hverri sókn undir forsæti héraðsprófasts.1Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–31.

Ný og breytt lög, nr. 36/1907, um skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda voru staðfest 16. nóvember 1907. Þar segir, að nefndir þessar skuli annast kirkjuleg málefni, sem sóknina og prófastsdæmið varði. Þar eru nákvæmari skilgreiningar á hlutverki nefndanna, sérstaklega sóknarnefnda. Tímasetningar eru aðrar og kjörtími lengdur og ekki gert ráð fyrir þátttöku presta í sóknarnefnd. Þá fengu konur einnig fullan kosningarrétt.2Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 214–221. Lítilsháttar breytingar voru gerðar á síðastnefndu lögunum árin 1941 (lög nr. 71, 27. júní), 1961 (lög nr. 39, 29. mars) og í lögum nr. 35/1970, 9. maí, (11.–13. grein).3Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 101–102; 1961 A, bls. 97; 1970 A, bls. 292–293.

Lög um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir og héraðsfundi o.fl. nr. 25/1985 voru staðfest 3. júní 1985.4Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–47. Ákvæði um héraðsfundi, sóknir, prestaköll, safnaðarfundi og sóknarnefndir voru síðan felld inn í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 26. maí, sem tóku gildi 1. janúar 1998.5Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246–247 (30.–32 grein), 249–250 (48.–57. grein). Á grundvelli þeirra laga setti Kirkjuþing ýmsar starfsreglur 10. desember 1998 (gildistaka 1. janúar 1999), sem síðan hafa verið endurskoðaðar eða nýjar samdar.6Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2140–2183; Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir, sótt 2. október. 2017; Vef. timarit.is, Gerðir Kirkjuþings, sótt 2. október 2017.

Sóknarnefndir

Hlutverk sóknarnefndar er skilgreint í 6.–8. grein laganna frá árinu 1880: Skyldi sóknarnefndin vera prestinum til aðstoðar í því að viðhalda og efla góða reglu og siðsemi í söfnuðinum, einnig í uppfræðingu ungmenna og í því að sjá um, að samlyndi og friðsemi héldist á heimilum og meðal allra í söfnuðinum. Nefndarmenn skyldu vera meðhjálparar prests við guðsþjónustugerð og stuðla til þess, að hún færi sómasamlega fram. Sóknarnefnd hefði rétt til þess að mæla með einum umsækjanda, þegar prestakall væri veitt. Þá væri það hlutverk sóknarnefndar að hafa umsjón með kirkju og eigum hennar, ef fjármál kirkju væru fengin söfnuði í hendur, og standa fyrir byggingu hennar eða aðgerð.7Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29. Störfum sóknarnefndar er lýst frekar í 7.–14. grein laganna frá árinu 1907. Skyldi hún aðstoða prest við guðsþjónustur og í því að viðhalda og efla góða reglu og siðsemi í söfnuðinum, styðja með honum kristindómsfræðslu ungmenna og í því að halda uppi samlyndi og friðsemi á heimilum og meðal allra í söfnuði, sjá um kirkjusöng og hljóðfæraslátt, útvega meðhjálpara, annast kirkjugarð, fjárhald kirkju og niðurjöfnun skylduvinnu við kirkjubyggingu, innheimta kirkju- og sóknartekjur, gera kjörskrá vegna prestskosningar og taka þátt í kosningarundirbúningi. Þá var kveðið á um eftirtaldar bækur sóknarnefndar, sem prófastur ætti að löggilda:

  1. Gjörðabók, er rita skal í nákvæma skýrslu um það, er gjörist á fundum nefndarinnar og á safnaðarfundum, svo og bréf, er hún ritar, og
  2. Sjóðbók (kassabók), er rita skal í skýrslur um peninga, er nefndin tekur á móti og greiðir út, og alla reikninga.8Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 218–219.

Í lögum um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. nr. 25/1985, 3. júní, segir 13. grein hlutverk sóknarnefndar vera að annast framkvæmdir á vegum sóknarmanna og styðja kirkjulegt starf í sókninni. Nánari útfærsla á starfsháttum og verkefnum sóknarnefndar er í 18.–21. grein laganna: Sóknarnefnd sé í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum, einstökum mönnum og stofnunum, hafi umsjón með kirkju og safnaðarheimili, gæti að réttindum kirkju og sjái um, að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustu og að kirkju og búnaði hennar sé vel við haldið, annist vörslu og ávöxtun á lausafé kirkjunnar og beri ábyrgð á fjárreiðum sóknarinnar og sé sóknarpresti og starfsfólki sóknarinnar til stuðnings í hvívetna. Að fyrirmælum 23. greinar átti sóknarnefnd að halda eftirtaldar bækur:

  1. Gerðabók fyrir fundi sóknarnefndar og safnaðarfundi.
  2. Bréfabók, sem bæði ætti að vera endurritabók og bréfabók.
  3. Sjóðbók yfir öll útgjöld og tekjur og það, er fjármál varðaði, með tilvísun til fylgiskjala.
  4. Kirkjubók, sem í væru ritaðar kirkjuathafnir og greint frá öðrum safnaðarstörfum í meginatriðum.
  5. Kirkjuskrá um sóknarkirkju, byggingarsögu hennar, viðhald kirkju og réttindi hennar o.fl.9Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–47.

Fjallað er um sóknarnefndir í 53.–57. grein laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunar nr. 78/1997, 26. maí, sem tóku gildi 1. janúar 1998. Þar eru litlar efnislegar breytingar frá lögunum árið 1985.10Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 250. Á grundvelli laganna frá árinu 1997 voru árið 1998 settar starfsreglur, sem tóku gildi 1. janúar 1999.11Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2160–2163. Ábyrgð og verkefni sóknarnefnda eru talin í 1.–3. grein. Sóknarnefnd skyldi starfa á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og á evangelískum-lútherskum grunni, fara með fjárstjórn sóknarinnar og umráð eigna hennar, hafa með prestum forgöngu um kirkjulegt starf, sjá um að viðunandi húsnæði og búnaður væri til guðsþjónustuhalds, gæta að viðhaldi kirkju, búnaðar hennar og einnig að safnaðarheimili, gæta að réttindum kirkjunnar, sjá um verndun skráðra kirkjugripa og minningarmarka og ráða starfsfólk í samráði við sóknarprest. Í 14. grein starfsreglanna segir:

Allir fundir sóknarnefndar sem og safnaðarfunda skulu bókaðir og staðfestir af fundarmönnum. Þá skal sóknarnefnd gæta þess að varðveita bréf, bækur og skjöl er snerta kirkjuna og starfsemi hennar. Um vörslu þessara gagna skal fara í samræmi við lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985.12Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2162.

Nýjar starfsreglur voru settar árið 2011 og tóku gildi 1. janúar 2012. Inntak reglanna um starfssvið sóknarnefnda er að mestu óbreytt en með öðrum orðum (5.–6. grein). Sett var inn ákvæði um val fulltrúa í valnefnd prestakalls. Ákvæði um skjalavörslu héldust óbreytt (18. grein), nema hún skyldi vera í samræmi við gildandi lög hverju sinni.13Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/28, sótt 2. október 2017. Í starfsreglum prófasta frá 10. desember 1998 segir, að prófastar áriti gerðabók sóknarnefnda og safnaðarfunda.14Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169 (22. grein, b-liður). Það var tekið upp í starfsreglur prófasta árið 2006 (25. grein, b-liður).15Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 2. október 2017.

Safnaðarfundir

Lög nr. 5/1880, 27. febrúar, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda segja, að safnaðarfund skyldi halda í júnímánuði ár hvert og kjósa þá þrjá menn til þess að veita málefnum safnaðarins forstöðu ásamt sóknarpresti.16Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29 (3. grein). Í lögum nr. 30/1907, 16. nóvember, um skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda segir, að sóknarnefnd skuli halda að minnsta kosti einn almennan safnaðarfund ár hvert til þess að ræða kirkjuleg málefni safnaðarins. Um mál, sem að lögum lægju undir samþykki safnaðarfundar, skyldi sóknarnefndin leggja fram tillögur sínar, um leið og fundur væri boðaður. Sóknarnefnd bæri tillögurnar fram til samþykktar á fundinum. Þær einar breytingar mætti gera, sem sóknarnefnd aðhylltist. Aðalsafnaðarfund skyldi halda í maí eða fyrri hluta júnímánaðar.17Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 214–217 (2.–4. grein).

Hlutverk árlegra aðalsafnaðarfunda var skilgreint þannig í lögum um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., nr. 25/1985, 3. júní (4. og 11. grein), að þar skyldi ræða málefni sóknarinnar, mál, sem lögmælt væri, að undir hann bæri, og mál, sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur, biskup eða kirkjumálaráðherra skytu þangað. Á þeim fundi væri vettvangur starfsskila og reikningsskila sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknar. Aðalsafnaðarfundur færi með æðsta ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum, sem undir fundinn heyrðu, og gerði tillögur til héraðsfundar um skiptingu kirkjusóknar, sameiningu sókna og um sóknarmörk, um niðurlagningu kirkju eða tilfærslu. Tillögur héraðsnefndar um slíkar breytingar skyldi leggja fyrir aðalsafnaðarfund til samþykktar.18Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–42. Um aðalsafnaðafundi er fjallað í 52. grein laga nr. 78/1997, 26. maí. Fundina skyldi að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert, en efnislegar breytingar voru þær helstar, að ekki var minnst á breytingar á sókn eða kirkju.19Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 250. Ákvæði um aðalsafnaðarfundi eru í 11. grein starfsregla um sóknarnefndir nr. 732, 10. desember 1998. Á þeim fundum skyldi gera grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári, afgreiða endurskoðaða reikninga sóknar og kirkjugarðs, greina frá starfsemi héraðsnefndar og héraðsfundi, taka ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir, kjósa sóknarnefndarmenn og skoðunarmenn sóknar og kirkjugarðs og varamenn þeirra, kjósa í aðrar nefndir og ráð.20Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2161–2162. Þessi grein var tekin óbreytt sem 15. grein í starfsreglur um sóknarnefndir árið 2011.21Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/28, sótt 2. október 2017. Nokkrum atriðum í þeirri grein var breytt á framhaldskirkjuþingi vorið 2016.22Vef. https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=9f221989-e8a1-425c-b730-64607fdd3a2e, sótt 2. október 2017.

Héraðsfundir

Árið 1880 voru sett lög nr. 5/1880, 27. febrúar, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda. Safnaðarfundur, í júnímánuði ár hvert, skyldi kjósa einn safnaðarfulltrúa á héraðsfund, sem halda ætti í september hvert ár. Sætu hann allir prestar prófastsdæmisins og safnaðarfulltrúi úr hverri sókn, undir forsæti héraðsprófasts. Átti forseti að leita álita fundarins um, hvernig prestar og sóknarnefndir gegndu köllun sinni, einkum að því er lyti að menntun og uppfræðingu ungmenna. Þá skyldi forseti leggja fram endurskoðaða reikninga kirkna í héraðinu næstliðið fardagaár til umræðu og úrskurðar. Hverjum fundarmanni væri heimilt að bera upp á héraðsfundi tillögur um öll atriði, er litu að kirkjulegum málum og skipun þeirra í héraðinu, þar með uppfræðingu barna. Enga breytingu mátti gera á takmörkum sókna eða prestakalla og ekki leggja niður kirkju eða færa úr stað, nema meirihluti héraðsnefndarmanna samþykkti breytinguna á héraðsfundi. Í 11. grein þessara laga segir:

Forseti leitar álita fundarins um, hvernig prestar og sóknarnefndir gegni köllun sinni, einkum að því er lýtur að menntun og uppfræðingu ungmenna.23Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31 (9.–12. grein).

Það var eitt af hlutverkum presta og sóknarnefnda á árunum 1880–1907 að hafa umsjón með ungmennafræðslu.

Lög nr. 36/1907, 16. nóvember, um skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda segja héraðsfundi eiga að ræða og útkljá þau kirkjuleg málefni, er héraðið vörðuðu. Fundina átti að halda í júní eða september ár hvert. Prófastur átti að kanna þar, hvernig prestar og sóknarnefndir gegndu köllun sinni. Endurskoðaða reikninga síðasta reikningsárs átti prófastur sem áður að leggja fram, og fundarmönnum var sem áður heimilt að leggja fram tillögur sínar, m.a. um uppeldi og kristindómsfræðslu barna. (Menntun barna heyrði ekki lengur undir kirkjuna). Krafa um staðfestingu héraðsnefndar á prestakalla-, sókna- og kirknabreytingum var ekki nefnd.24Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 218–221 (16.–20. grein). Hins vegar var gert ráð fyrir samþykki héraðsfundar á slíkum breytingum í lögum um skipun prestakalla nr. 45/1907 (4. grein), nr. 31/1952 (8. grein) og lögum um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð nr. 35/1970 (11. grein), en eftir lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. nr. 62/1990 (4. og 6 grein) skyldu héraðsnefndir koma að stofnun prestakalls, breytingu á mörkum eða sameiningu þeirra.25Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 286–287; 1952 A, bls. 62; 1970 A, bls. 292; 1990 A, bls. 121.

Lög nr. 25/1987, 3. júní, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. segja (29.–36. grein), að héraðsfundi skuli halda í prófastsdæmi eigi síðar en 31. október ár hvert. Þeir séu vettvangur prófastsdæmisins til umræðna um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar í viðkomandi prófastsdæmi og þau málefni, sem lög leggi til héraðsfunda eða stjórnvöld kirkjumála vísi þangað til umfjöllunar, umsagnar eða úrlausnar eða safnaðarfundir, sóknarnefndir, sóknarprestar og starfsmenn sókna óski, að þar séu rædd. Prófastur leggi fram endurskoðaða reikninga og þar skuli gerð fyrir starfsemi og fjárreiðum héraðssjóðs, ef hann sé til. Héraðsnefnd prófastsdæmis, skipuð þremur mönnum, skuli starfa milli héraðsfunda og vera framkvæmdanefnd fundanna og fari með stjórn héraðssjóðs.26Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 46–47. Sjá umfjöllun um héraðssjóði hér á eftir.

Ákvæði um héraðsfundi og héraðsnefndir voru skorin mjög niður í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 30.–32. grein, en setja skyldi starfsreglur til nánari útfærslu.27Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246–247. Héraðsfundareglur komu svo 10. desember 1998, nr. 733.28Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2163–2166. Á héraðsfundum skyldi héraðsnefnd m.a. skýra frá starfsemi sinni á liðnu ári, starfsskýrslur sókna og nefnda frá síðasta ári kynntar svo og skýrslur frá prestastefnu, Kirkjuþingi og leikmannastefnu, reikningar sókna, kirkjugarða og héraðsnefndar lagðir fram til afgreiðslu og tillögur héraðsnefndar um starfsemi á vegum prófastsdæmis, sameiginleg mál sóknarnefnda, er vörðuðu rekstur og starfsmannahald (5. grein). Héraðsnefnd væri framkvæmdanefnd héraðsfundar og í fyrirsvari fyrir prófastsdæmi um sameiginleg málefni þess (7. grein). Verkefni hennar væri að fylgja eftir samþykktum héraðsfunda, fara með stjórn héraðssjóðs, ráða starfsmenn til þess að gegna einstökum verkefnum, sem héraðsfundur hefði samþykkt, og sjá til þess, að starfsemi og rekstur, færsla bókhalds, varsla gagna og önnur atriði í rekstri væru jafnan í góðu horfi (8. grein). Starfsreglurnar voru endurskoðaðar árið 2006. Fimmta grein um héraðsfund og verkefni hans var umorðuð og röðun önnur, en ekki gerðar verulegar efnisbreytingar. Hlutverk héraðsnefndar hélst óbreytt (nú 8. grein), svo og verkefnin (nú 9. grein) en skotið inn fjórða lið um, að héraðsnefnd leggði fram starfs- og fjárhagsáætlun á héraðsfundi og bæri ábyrgð á framkvæmd hennar.29Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/10, sótt 23. desember 2017.

Héraðssjóðir

Héraðssjóðir urðu til samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 80/1985, 2. júlí, 8. grein. Var héraðsfundi heimilt að ákveða, að allt að 5% af innheimtum sóknargjöldum rynni í sérstakan sjóð, héraðssjóð, í vörslu prófasts. Sjóðnum var ætlað að standa undir kostnaði af sameiginlegum, kirkjulegum verkefnum innan prófastsdæmisins eftir ákvörðun héraðsfundar og héraðsnefndar. Stjórn var í höndum héraðsnefndar, sem ákvað úthlutanir úr sjóðnum á grundvelli samþykkta héraðsfunda og sá um reikningshald hans og gerði grein fyrir starfseminni á héraðsfundi og lagði fram endurskoðaða reikninga.30Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 269. Samanber lög nr. 25/1985, 3. júní, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir og héraðsfundi o.fl. Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 46–47 (32. og 36. gr.). Ný lög voru sett 29. desember 1987, nr. 91, en engar verulegar efnisbreytingar gerðar á 8. grein um héraðssjóði, nema heimilað var að veita styrki úr sjóðnum til einstakra sókna.31Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 684. Þau ákvæði eru enn í gildi árið 2017.32Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html, sótt 23. nóvember 2017. Þau voru tekin upp í starfsreglur héraðsfunda og héraðsnefnda árið 1998 sem tóku gildi í ársbyrjun 1999 (10.–13. grein).33Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2165. Starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir frá árinu 2006 eru mun nákvæmari vegna héraðssjóðs en áður (10.–14. grein) en aðalatriði haldast.34Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/10, sótt 2. október 2017.

Bækur og skjöl, er varða sóknarnefndir, eru nefndar eftirtöldum nöfnum: Gerðabók sóknarnefndar, reikningar N-kirkju, safnaðarfundarbók, safnaðarfundargerðir, sjóðbók, sóknarnefndarbók. Auk þess getur verið um ýmsa aðra titla að ræða, bæði önnur nöfn á þeim skjalaflokkum, sem nefndir hafa verið, og aðra skjalaflokka, sem verða til vegna starfsemi innan safnaðanna.

Skjöl í skjalasöfnum prófasta, tengd héraðsfundum, eru t.d. héraðsfundarbók og héraðsfundargerðir. Þá hafa sumir prófastar fært héraðsfundargerðir inn í embættisbækur sínar svo sem visitasíubækur.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–31.
2 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 214–221.
3 Stjórnartíðindi 1941 A, bls. 101–102; 1961 A, bls. 97; 1970 A, bls. 292–293.
4 Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–47.
5 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246–247 (30.–32 grein), 249–250 (48.–57. grein).
6 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2140–2183; Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir, sótt 2. október. 2017; Vef. timarit.is, Gerðir Kirkjuþings, sótt 2. október 2017.
7 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29.
8 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 218–219.
9 Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–47.
10 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 250.
11 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2160–2163.
12 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2162.
13 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/28, sótt 2. október 2017.
14 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2169 (22. grein, b-liður).
15 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/7, sótt 2. október 2017.
16 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 28–29 (3. grein).
17 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 214–217 (2.–4. grein).
18 Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 40–42.
19 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 250.
20 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2161–2162.
21 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2011/28, sótt 2. október 2017.
22 Vef. https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=9f221989-e8a1-425c-b730-64607fdd3a2e, sótt 2. október 2017.
23 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 30–31 (9.–12. grein).
24 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 218–221 (16.–20. grein).
25 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 286–287; 1952 A, bls. 62; 1970 A, bls. 292; 1990 A, bls. 121.
26 Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 46–47. Sjá umfjöllun um héraðssjóði hér á eftir.
27 Stjórnartíðindi 1997 A, bls. 246–247.
28 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2163–2166.
29 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/10, sótt 23. desember 2017.
30 Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 269. Samanber lög nr. 25/1985, 3. júní, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir og héraðsfundi o.fl. Stjórnartíðindi 1985 A, bls. 46–47 (32. og 36. gr.).
31 Stjórnartíðindi 1987 A, bls. 684.
32 Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987091.html, sótt 23. nóvember 2017.
33 Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2165.
34 Vef. http://www2.kirkjuthing.is/gerdir/2006/10, sótt 2. október 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 404