Kirkjustóll, kirkjureikningabók, kirkjubók, máldagabók

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 4 mín

Í Kristinrétti hinum forna eru ákvæði um, að hver maður, sem kirkju varðveitir, skuli láta gera máldaga hennar allan á skrá og láta lýsa að Lögbergi, í lögréttu eða á vorþingi. Máldaganum skyldi og lýsa við kirkjuna einu sinni á ári, þá flestir kirkjugestir væru.1Grágás. Elsta lögbók Íslendinga, gefin út af Vilhjálmi Finsen. Fyrri deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 15; Björn K. Þórólfsson, „Íslenzk skjalasöfn“, Skírnir 1953, bls. 113–114; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 196–199. En máldagi táknaði m.a. ritaða skrá yfir gjafir til kirkna og kirknaeignir. Þessar skrár og önnur skjöl voru lengi framan af aðeins til á lausum blöðum eða skráðar í bækur kirknanna, t.d. messubækur.2Magnús Már Lárusson, „Máldagi“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XI, dálkur 264–266. Hér varð einna fyrst breyting á í skjalafærslu presta, hvað varðar lagaboð. Eitt atriði samþykktar konungsfógeta, presta beggja og alls almúga í Vestmannaeyjum 11. október 1606 var svohljóðandi:

Item skulu kirkjuverjararnir af sínum eigin peningum láta kaupa og gjöra eina kirkjubók, hvar inni að árliga skal skrifast, hvað kirkjan verður kirkjuverjurunum skyldug eður þeir og henni skyldugir, svo að allir hlutir verði hvert ár réttiliga af konglig maystatis fóvita í kirkjubókina innskrifað, hvað kirkjunni með réttu viðkemur.3Alþingisbækur Íslands IV, bls. 29.

Í kirkjuskipun Kristjáns IV, 2. júlí 1607, sem löggilt var fyrir Ísland 29. nóvember 1622, var boðið að halda bækur yfir kirkjujarðir, árlegar tekjur, svo og gripi þeirra og gera reikning hvert ár. Þessar bækur kirknanna voru nefndar kirkjustólar.4Lovsamling for Island I, bls. 160–161. Einnig má benda á tilskipun 6. maí 1684 um kirknareikninga, biskupsbréf um sama efni árið 1684, Norsku lög Kristjáns V, konungsbréf um bændakirknareikninga 6. maí 1740 og 15. grein erindisbréfs biskupa 1. júlí 1746.5Lovsamling for Island I, bls. 425–426; Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 43–44; Lovsamling for Island II, bls. 315–318, 652–653. (Sjá umfjöllun um Kirknareikninga). Í Norsku lögum Kristjáns V segir um þetta efni:

Hvör kirkja skal hafa eina númeraða, gegnumdregna og af kirkjunnar forsvarsmönnum innsiglaða reikningsskapsbók, sem skal vera í prestsins og kirkjuverjarans geymslu. Í sömu bók skal fyrst innfærast kirkjustóllinn, undirskrifaður af kirkjunnar forsvarsmönnum, prófastinum og prestinum, hvar í innfærð er kirkjunnar viss inntekt, eigindómur og ítök, hvört sem eru garðar, hús, jarðir, engi, skógar, samt þar af fallandi landskuld eður afgift. Þar næst allslags tíundir, höfuðstóll og renta. Item fé og allt annað, sem kirkjan hefur inntekt af eður henni tilheyrir, hvörju nafni sem heitir. Einninn kirkjunnar inventarium, kaleikur og patína, klæði, bækur og þvílíkt. Þar eftir skulu þar innfærast þeir enduðu, yfirheyrðu og undirskrifuðu reikningar.
Í reikningana skal fyrst innfærast kirkjunnar inventarium, að það sé til ófargað, og þar hjá hvar með það annað hvort er forbetrað eður lasnað. Þar næst það sem kirkjan átti árið áður í peningum, vörum og ótilbúnum verkefnum. Þar eftir öll kirkjunnar viss og óviss inntekt, hvörju nafni sem heitir, síðan útgiftirnar, hvör fyrir sig með degi og árstali og bevísingar fyrir þeim, og loksins öll kirkjunnar eign, rentur og skuldir, allt hvað fyrir sig, hvörsu mikið og hjá hvörjum það er, so og hvör geymir bréfin upp á kirkjunnar peninga, sem eru settir út á rentu.6Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 283–285 (14. og 15. liður).

Þegar reikningsbók kirkjunnar var útskrifuð, átti að leggja hana í stiftskistuna (skjalasafn biskups).7Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkur 305 (71. liður). Ekki verður séð, að eftir því hafi verið farið á Íslandi.

Meðal fjölmargra lagaboða vegna kristnihalds og kirkju, sem fylgdu í kjölfar sendiferðar Ludvigs Harboe árin 1741–1746, var tilskipun um gegnumdregnar kirkjubækur (þ.e. löggiltar) 19. maí 1747. Þar segir, að Ólafur Gíslason, biskup, hafi sagt, að kirkjur, sem hann þekkti til á Íslandi, hefðu engar kirkjubækur, svo að biskupar og prófastar yrðu við visitasíur að giska á árlegar tekjur kirknanna, þótt slíkar bækur væru lögboðnar. Hefði því verið ákveðið eftir ábendingum Ólafs biskups og Ocksen stiftamtmanns, að umráðamaður hverrar kirkju skyldi láta gera númeraða og gegnumdregna bók, sem prófastur setti innsigli sitt á ókeypis. Í bókina átti að færast:

1. Öll kirkjunnar eign, hvört heldur eru bæir, hús, jarðir, eng, skógar, rekar eður hvað annað þess kyns, sem hún nú á og heldur, item allar visitatiur, sem eftir þenna dag gjörðar verða.

2. Kirknanna inventarium, instrumenta, kaleikar, patinur, klæði, bækur og annað slíkt eftir þörfum og skýrlega uppskrifað.

Allar tekjur og gjöld viðkomandi kirkju átti einnig að færa í bókina og sóknarprestur að undirrita. Bækurnar skyldi varðveita vel við kirkjurnar, til leiðbeiningar biskupi og prófasti við visitasíur.8Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 589–591; Lovsamling for Island II, bls. 693–694; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 237–238. Þessi tilskipun féll úr gildi með lögum um skipan prestakalla nr. 62/1990, 17. maí.9Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 128 (49. grein).

Ákvæðin um kirkjustóla má draga saman með orðum Björns K. Þórólfssonar, að í þá:

skráð skyldi vera allt, er snerti efnahag kirkjunnar, ítök hennar og réttindi, skrúða og skrautgripi.10Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 49.

Árið 1789, 24. júlí, var gefin út tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir. Þar var próföstum boðið að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir, þegar prestar dæju eða færu frá brauðunum eða þess gerðist þörf eins og ævagömul venja væri til á Íslandi. Úttektargerðirnar skyldu ritaðar í kirkjubókina (þ.e. kirkjustólinn) og lýst nákvæmlega ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga frá síðustu úttekt svo og álags. Þessi tilskipun gildir enn (2017) í flestum atriðum. Ákvæðið um kirkjubækur er t.d. þar með.11Lovsamling for Island V, bls. 649–651; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1789247.html, sótt 26. september 2017.

Þegar kemur fram yfir 1900, fór mjög að draga úr færslu kirkjustóla. Virðast menn oft láta sér nægja að færa visitasíur og skoðunargerðir kirkna inn í visitasíubækur biskupa og prófasta, og hvað varðar kirknareikninga, hafa lögin um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, líklega haft þau áhrif, að margir hættu að skrá reikningana í kirkjustóla en í staðinn á laus blöð eða eyðublöð, því að lögin gera ráð fyrir endurskoðun reikninganna af hlutaðeigandi presti eða safnaðarfulltrúa og síðan prófasti.12Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87. (Sjá Kirknareikningar).

Kirkjureikningabók er annað heiti á kirkjustólum, því að í þá voru kirkjureikningarnir (portionsreikningar) færðir, en latneska orðið portion var notað yfir kirkjutíund, sem kirkjuhaldari átti að gera reikningsskil fyrir.13Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669. Lengi voru reikningar þessir miðaðir við fardagaár, en eftir 1890 áttu þeir að ná yfir almanaksárið eins og áðurnefnd lög nr. 20/1890 mæltu fyrir um.14Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87 (3. grein.)

Í starfsreglum um kirkjur og safnaðarheimili, sem auglýstar voru 8. nóvember 2000 og tóku gildi 1. janúar 2001, segir í 14. grein, að biskup setji hverri kirkju máldaga, kirkjuskrá, þar sem greina skuli eignir kirkju, tekjustofna og réttindi, kvaðir, er á kirkju kynnu að hvíla, sóknarmörk og þjónusturétt, sem sóknin ætti tilkall til. Máldagann og breytingar á honum skyldi skrá í sérstaka bók, máldagbók, löggilta af biskupi. Öðrum guðshúsum skyldi einnig setja máldaga. Sóknarnefnd varðveiti máldagabók og beri ábyrgð á, að máldagi greini jafnan frá eignum og réttindum kirkju. Í máldagabók skyldi einnig skrá eins haldgóðar upplýsingar og völ væri á um kirkjuna, byggingarsögu, endurbætur, viðhald, búnað og kirkjumuni, er kirkjan ætti. Biskup og prófastar eiga að kanna máldaga, þegar þeir vísitera, árita bækurnar og gera athugasemdir, ef efni þykja standa til þess. Máldagar, sem nefndir væru í erindisbréfi biskupa 1. júlí 1746 (16. grein), sbr. konungsbréf 5. apríl 1749, giltu svo sem tíðkast hefði. Eldri máldaga skyldi eftir föngum skrá í máldagabók.15Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2307. Má segja, að þarna séu tekin upp ákvæði tilskipunarinnar frá 24. júlí 1789, og um leið endurvakin tilskipunin frá 1747 um gegnumdregnar kirkjubækur/kirkjustóla.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Grágás. Elsta lögbók Íslendinga, gefin út af Vilhjálmi Finsen. Fyrri deild. Kaupmannahöfn 1852, bls. 15; Björn K. Þórólfsson, „Íslenzk skjalasöfn“, Skírnir 1953, bls. 113–114; Hjalti Hugason, Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi I. Reykjavík 2000, bls. 196–199.
2 Magnús Már Lárusson, „Máldagi“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XI, dálkur 264–266.
3 Alþingisbækur Íslands IV, bls. 29.
4 Lovsamling for Island I, bls. 160–161.
5 Lovsamling for Island I, bls. 425–426; Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 43–44; Lovsamling for Island II, bls. 315–318, 652–653.
6 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkar 283–285 (14. og 15. liður).
7 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð, dálkur 305 (71. liður).
8 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 589–591; Lovsamling for Island II, bls. 693–694; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 237–238.
9 Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 128 (49. grein).
10 Björn K. Þórólfsson, „Inngangur“, Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 49.
11 Lovsamling for Island V, bls. 649–651; Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1789247.html, sótt 26. september 2017.
12 Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87.
13 Magnús Már Lárusson, „Kyrkans finanser, Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, dálkar 667–669.
14 Stjórnartíðindi 1890 A, bls. 84–87 (3. grein.
15 Stjórnartíðindi 2000 B, bls. 2307.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 228