Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Prestsþjónustubækur

Saga prestsþjónustubóka

Prestsþjónustubók er ætluð til þess, að prestur færi í hana upplýsingar um prestsverk þau, sem hann framkvæmir, ásamt öðrum atriðum, sem presti er boðið að skrá á hverjum tíma. Aðalatriði þeirrar skráningar eru fæðingar og skírnir, ásamt nöfnum foreldra og guðfeðgina, fermingar, hjónavígslur og dauðsföll. Önnur skráningaratriði fara eftir fyrirmælum yfirvalda á hverjum tíma eða venjum, sem skapast.

Ministerialbók er annað heiti á prestsþjónustubók. Latneska orðið minister merkti upphaflega þjónn eða aðstoðarmaður, en síðar prestur, og orðið ministerium var haft um verkahring presta eða prestsþjónustu.

Orðið kirkjubók var í fyrstu haft um þær bækur, sem síðar var venja að kalla kirkjustóla en í grannlöndum okkar, t.d. Danmörku, var orðið „kirkebog“ jafnframt haft um prestsþjónustubók. Bækur þessar áttu að fylgja kirkjunum, en voru ekki eign prestanna, og öruggasti geymslustaðurinn var kirkjan.

Saga kirkjubóka, eins og við þekkjum þær nú, verður ekki rakin lengra aftur en til 13. aldar. Í Frakklandi og á Ítalíu eru til einstakar kirkjubækur frá 14. öld. Prestsþjónustubókagerð hófst í Sviss og Þýskalandi með siðaskiptum, en elstu dönsku prestsþjónustubækurnar, sem nú eru varðveittar, koma frá Norður-Slésvík. Hefjast þær á áttunda tug sextándu aldar. Er talið, að danskir prestar, sem verið höfðu við nám í Þýskalandi, hafi flutt þennan sið með sér heim. Í Danmörku skiptu sköpum fyrir kirkjubókafærslu konungsboð um, að framvegis skyldi færa reglulega kirkjubók, sem send voru biskupi á Sjálandi árið 1645 og á Jótlandi, Skáni og Fjóni árið 1646. Átti að skrá fædda og skírnarvotta, gifta og dána Er talið, að flestir danskir prestar hafi þá komið sér upp kirkjubókum, þ.e.a.s. þeir, sem ekki voru þegar búnir að því.1Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660. Udgivne ved V.A. Secher af Selskabet for udgivelse af kilder til dansk historie 5. bind. København 1903, bls. 458, 500–501; Albert Fabritius og Harald Hatt, Håndbog i slægtsforskning 3. udgave. København 1973, bls. 177–179.

Engin bein áhrif þessara fyrirmæla verða séð á Íslandi. Vera má, að þau hafi ýtt undir Halldór Jónsson, sem fæddur var árið 1626 og stundaði nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla árin 1648–1651, en var prestur í Reykholti á árunum 1657–1704, til þess að skrá í bók mikilvægustu prestsverk sín.2Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II. Reykjavík 1949., bls. 259–260 (Halldór Jónsson eldri). Þar eru vandlega skráðir kaupmálar hjónaefna, svo og fæðingar og dauðsföll, en það var ónákvæmara og ekki allt til talið. Má frekar tengja þær færslur meiri háttar fólki í sókn séra Halldórs.3ÞÍ. Kirknasafn. Reykholt BA/1. Prestsþjónustu- og kaupmálabók 1664–1788. Prestsþjónustubók Halldórs Jónssonar er í raun minnisbók. En prestsþjónustubækur í einhverri mynd eru til samfelldar frá Reykholti frá 1664 til þessa dags, en þar hefur glatast bók með skráningu fæddra og dauðra, sem hófst árið 1693. Þeirrar bókar er getið á saurblaði elstu bókarinnar.

Bók Halldórs Jónssonar hefur væntanlega verið fyrirmynd kaupmálabréfabóka frá Stafholti árin 1708–1709 (brots) og 1710–1765 og tvímælalaust að kaupmálabréfabók Jóns Halldórssonar í Hítardal 1693–1704 (sem er brot af stærri bók).

Vitað er, að í fimm prestaköllum öðrum voru haldnar prestsþjónustubækur á 17. öld. Í Æfum lærðra manna segir Hannes Þorsteinsson, að Stefán Hallkelsson, prestur í Seltjarnarnesþingum 1630–1659, hafi haldið prestsþjónustubók, og hefur það eftir séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal, sem segir „catalogo baptizatorum“ Stefáns hafa verið til hjá syni hans (Jóni Stefánssyni, d. 1718).4ÞÍ. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 56: Stefán Hallkelsson, bls. 6. Æfir lærðra manna 65: Þormóður Torfason, bls. 41. Frá Möðruvallaklaustri er til altarisbók (þ.e. minnisbók um prestsverk), sem hefst árið 1694 og nær til 1784. Ágrip prestsþjónustubókar frá Reynivöllum í Kjós 1699–1723 er einnig til. Þá voru við lýði fram á síðari hluta 19. aldar prestsþjónustubækur frá Hrafnseyri í Arnarfirði árin 1676–1784 og Völlum í Svarfaðardal 1699–1773 eða lengur. Ógerlegt er að segja til um, hvers vegna prestar þessir færðu bækur öðrum fremur, en benda má á, að Reynivallaprestur, Torfi Halldórsson, var sonur séra Halldórs í Reykholti, sem og Jón Halldórsson í Hítardal, og Vallaprestar 1698–1745 voru allir Hafnarstúdentar.

Eiríkur Sölvason, lengst prestur í Þingmúla í Skriðdal, færði prestsverk sín á árunum 1699–1728 í annál sinn, Þingmúlaannál.5Annálar 1400–1800, V. bindi. Reykjavík 1955–1988, bls. 255–269. Voru það fyrst og fremst skírnir og giftingar en einnig fáeinar greftranir. Eiríkur bjó í Meðalnesi í Fellum á árunum 1696–1702 og þjónaði Mjóafjarðarþingum 1698–1702 og Eiðakalli veturinn 1699–1700. Að Þingmúla fór hann árið 1702 og lést þar árið 1731.6Annálar 1400–1800 V, bls. 249–250. Árið 1699 vann Eiríkur líka prestsverk í Ásprestakalli í Fellum og Kirkjubæjarkalli í Hróarstungu.7Annálar 1400–1800 V, bls. 255–256.

Eins og sjá má af upptalningu þekktra prestsþjónustubóka fram til ársins 1783, sem fylgir hér síðast, bætast nokkrar við fram eftir 18. öld. Athugandi er, að prestar munu oft hafa talið bækurnar eign sína og flutt þær með sér, ef þeir skiptu um prestaköll. Bækur, sem eiga slíka sögu, eru:

  1. Prestsverkabók Högna Sigurðssonar árin 1713–1786 (Einholt 1713–1717, Kálfafellsstaður 1717–1726, Stafafell 1726–1750, Breiðabólsstaður í Fljótshlíð 1750–1786. Séra Högni hætti prestsskap að mestu um 1763, en Stefán, sonur hans og eftirmaður, notaði bókina áfram).
  2. Altariskver Þorsteins Ketilssonar árin 1713–1754 (Skálholt 1713–1716, Hrafnagil 1716–1754).
  3. Prestsverkabók Þorsteins Jónssonar árin 1724–1787 (Hólar í Hjaltadal 1724–1739, Saurbær í Eyjafirði 1740–1787. Séra Þorsteinn dó 1748, en eftirmenn hans héldu áfram að færa í bókina).
  4. Prestsverkabók Jóns Þorleifssonar árin 1741–1785 (Hólar í Hjaltadal 1741–1747, Múli í Aðaldal 1747–1785. Jón lést árið 1776, en aðstoðarprestur hans og eftirmaður tók við skráningunni).

Aðrar varðveittar bækur frá lokum 17. aldar og upphafi þeirrar átjándu urðu staðbundnar, að líkindum vegna þess, að upphafsmennirnir dóu í kalli sínu og eftirmenn þeirra notuðu bækurnar áfram, og þá komu einnig til ákvæði um færslur prestsþjónustubóka, sem fjallað verður um síðar í þessari greinargerð.

Heiti bókanna, prestsverkabók, altarisbók, minnisbók, sýna, að þær hafa ekki verið álitnar embættisbækur samkvæmt nútímaskilningi.

Rétt er að benda á, að dæmi eru um sérstakar prestsverkabækur yngri, sem sumar voru fluttar milli brauða, en jafnframt voru haldnar reglulegar prestsþjónustubækur fyrir kallið. Slíkar eru:

  • Prestsverkabók Hilaríusar Illugasonar á Mosfelli í Grímsnesi 1768-1800 (skert).
  • Prestsverkabók Gunnlaugs Gunnlaugssonar á Hálsi í Fnjóskadal 1773-1794.
  • Prestsverkabók Gunnlaugs Gunnlaugssonar yngra 1807-1845 (Melstaður 1807-1815, Garpsdalur 1815-1816, Kvennabrekka 1816-1830, Staður í Hrútafirði 1830-1845).
  • Prestsverkabók Ísleifs Einarssonar 1865-1892 (Reynistaðarklaustur 1865-1867, Nesþing 1867-1868, Staður í Grindavík 1868-1871, Bergsstaðir 1873-1875, Hvammur í Laxárdal 1875-1883, Staður í Steingrímsfirði 1883-1892).
  • Prestsverkabók Bjarna Símonarsonar á Brjánslæk 1897-1930.

Dönsk stjórnvöld fóru sér hægt með framgang þessa máls á Íslandi. Í kirkjuskipun (ritúali) fyrir Danmörku, sem birt var með tilskipun í Danmörku árið 1685, voru ákvæði um, að hver prestur skyldi halda bók, þar sem hann skráði nöfn þeirra, sem hann trúlofaði og gifti, ásamt degi og stund og nöfnum votta.8Lovsamling for Island I, bls. 449. Sjá má af skrifi biskupanna Jóns Vídalín og Steins Jónssonar til stiftamtmanns 11. september 1717, að kirkjuskipunin hefur ekki verið talin gilda á Íslandi, en þess dæmi eru dæmi, að menn hafi talið hana gildandi lög.9ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, 221. Lagaverkið V (sjá 7. 0g 12 lið bréfsins); Lovsamling for Island I, bls. 442–443; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 9. En í Norsku lögum Kristjáns V, sem gefin voru út fyrir Noreg árið 1688 og kirkjuskipunin þar með og tekið er að vitna til í alþingisdómum árið 1704, eru þessi ákvæði í annarri bók laganna, VIII. kafla, 7. grein:

Hvör prestur skal hafa bók að teikna í við dag og tíð, þeirra nöfn sem hann trúlofar og vígir saman, sem og þeirra barna sem hann skírir í sinni sókn, með guðfeðginanna nöfnum.10Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 193 (7. liður).

Gerðar voru nokkrar tilraunir af hálfu kansellísins og íslenskra biskupa til þess að koma á þýðingu og staðfæringu annarrar bókar Norsku laga um andlegu stéttina og dansk-norsku kirkjuskipunarinnar, en án árangurs.11Lovsamling for Island I, bls. 751–752; II, bls. 30–32, 66–68, 84–87. Einstakir kaflar kirkjuskipunarinnar komust þó inn í Dominicale [Handbók presta] og kirkjusöngur og -siðir skyldu vera eftir henni.12Dominicale. Það er guðspjöll og pistlar með almennilegum kollektum, sem í kirkjusöfnuðinum lesast árið um kring á sunnudögum og öðrum helgum og hátíðisdögum. Hér með fylgir stutt handbók um barnaskírn, hjónavígslu, sjúkra vitjan, framliðinna jarðan og nokkuð fleira sem kennimannlegu embætti viðvíkur. Hólar 1706, bls. 406 og áfram; Graduale. Ein almennileg messusöngsbók, um þann söng og seremóníur, sem í kirkjunni eiga að syngjast og haldast hér í landi, eftir góðri og kristilegri siðvenju sem og vors allra náðugasta arfakóngs og herra, Christians þess fimmta kirkjuritúal. Skálholt 1691. Einnig voru staðfest nokkur lagaboð, sem gerðu ráð fyrir gildi kirkjuskipunarinnar margnefndu.13Lovsamling for Island I, bls. 442–443.

Fyrstu raunhæfu framkvæmdir yfirvalda í skráningarmálum voru að gefa út tilskipun 30. desember 1735 um, að biskupar skyldu í árslok safna upplýsingum um fædda og dána á árinu, hvor í sínu biskupsdæmi, og senda kommercekollegíi og gera slíkt árlega síðan.14Lovsamling for Island II, bls. 226–227. Jón Árnason, Skálholtsbiskup, brást vel við, og 6. júlí 1736 skrifaði hann próföstum sínum og skipaði þeim að skrá nöfn allra, sem fæddust og dóu á árinu 1736, og láta presta í prófastsdæmunum gera hið sama og afhenda sér listana eigi síðar en á alþingi 1737. Þetta skyldu þeir framkvæma árlega.15ÞÍ. Bps. A. IV, 10. Bréfabók Jóns biskups Árnasonar 1734–1736, bls. 1000. Steinn Jónsson, Hólabiskup, skrifaði próföstum sínum 3. ágúst 1736 og bauð þeim að fá hjá prestum sínum skrár yfir fædda og dána árið 1735 og síðan árlega. Ekki nefndi Steinn mannanöfn sérstaklega í bréfi sínu eins og Jón Árnason.16ÞÍ. Bps. B. V, 4. Bréfabók Steins biskups Jónssonar 1731–1739, bl. 43v–44r. Þessi tilskipun og bréf biskupanna urðu að líkindum til þess, að eftir 1735 fjölgaði prestsþjónustubókum nokkuð.

Öllu skilmerkari og áhrifaríkari urðu þó fyrirmæli um bókahald, sem fylgdu heittrúarstefnunni og sendiför Ludvigs Harboe til Íslands á árunum 1741–1746. Í fyrirmælum til Skálholtsbiskups um fermingu 29. maí 1744 segir í 6. grein, að prestum í Skálholtsbiskupsdæmi beri strax að útvega sér bækur til þess að skrá í fermda. Þeirri skráningu eigi þeir og eftirmenn þeirra að halda áfram. Tilskipunin átti einnig við Hólabiskupsdæmi.17Lovsamling for Island II, bls. 507; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 510. Aðalbreytingarnar urðu þó á árinu 1746. Niðurlag 2. greinar tilskipunar um húsagann á Íslandi, 3. júní 1746, sem fjallar um barnsskírn, er svohljóðandi:

So skal og hér eftir af sérhvörjum presti tilbúast og haldast ein skírnarbók, hvar í foreldranna, barnsins og guðfeðginanna nöfn með degi og ári, nær það hefur skírt verið, innfærast; og skal sú bók alltíð til eftirréttingar vera við kirkjuna og varðveitast á meðal annarra hennar bréfa.18Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 563–564; Lovsamling for Island II, bls. 606.

Og í erindisbréfi handa biskupum, 1. júlí 1746, eru mikilvægustu ákvæðin og þau, sem enn eru að miklu leyti í gildi:

31) Biskup skal sjá um, að prestar haldi réttilega skrá yfir:
a. konungleg fyrirmæli, acta synodalia, umburðarbréf biskupa, er öll skulu í heild sinni skráð,
b. fædda, dána, gifta,
c. fermda; þessar þrjár bækur skulu ávallt vera eign kirkjunnar, og skal biskup, hvenær sem hann vísiterar þar, rita í hverja þessara bóka, að hann hafi séð þær,
d. skipulegt sálnaregistur, einkum yfir nöfn æskulýðsins, aldur, lestur og framfarir, og skal biskupi sýnd bókin á yfirreiðum, svo að hann sjái, að hún sé haldin, svo og, ef nauðsyn krefur, til þess að hann megi áminna um að koma betri skipun á hana.19Lovsamling for Island II, bls. 657–658.

Ákvæðið um konungleg fyrirmæli í a-lið var fellt niður á tuttugustu öld, en önnur ákvæði standa enn (2017).20Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 27. september 2017.

Margir prestar hafa greinilega hafist handa við gerð prestsþjónustubóka, eftir að erindisbréfið var birt. Í skýrslum um biskupsvisitasíur í Árness-, Dala- og Barðastrandarsýslum árið 1750 og Gullbringu- og Kjósar-, Mýra-, Hnappadals- og Snæfellsnessýslum auk einnar kirkjusóknar í Árnessýslu og tveggja í Borgarfjarðarsýslu árið 1751, sem Ólafur Gíslason, Skálholtsbiskup, sendi kirkjustjórnarráðinu árin 1751 og 1752, nefnir hann ministerialbækur í öllum prestaköllum, nema Sauðlauksdal. Með ministerialbókum virðist átt við bækurnar, sem boðið er að halda í erindisbréfinu, því sums staðar er tekið fram, að viðkomandi bækur séu færðar nema sálnaregistrið.21ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/9. Innkomin bréf og önnur skjöl 1751–1752 (bréf dagsett 27. júlí 1751 og 27. júlí 1752). Eitthvað hefur þetta orðið brestasamt, ef ráða má af áminningum í bréfum Finns biskups Jónssonar til presta í Árnessýslu árið 1756 og presta í Snæfellsness-, Mýra- og Borgarfjarðarsýslum árið 1760.22ÞÍ. Bps. A. IV, 15. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1754–1759, bls. 348–365 (sérstaklega bls. 360–361); ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sérstaklega bls. 26–28).

Í Ein almenneleg handbook fyrer prestana, sem prentuð var á Hólum árið 1750, eru þessi fyrirmæli um skírnarskráningu:

Þeir, sem vilja láta börn sín skíra, skulu gefa það áður prestinum til vitundar og láta bæði sitt eigið nafn, barnsins og guðfeðginanna, innskrifa í kirkjubókina, hvört presturinn sjálfur gjörir.23Dominicale. Það er guðspjöll og pistlar með almennilegum kollektum, sem í kirkjusöfnuðinum lesast árið um kring á sunnudögum og öðrum hátíðis- og helgidögum, píningarhistoríu vors herra Jesú Kristi, bæn eftir hana, eftir prédikun á sunnudögum, við konfirmationina og á bænadaginn. Hér með fylgir stutt handbók fyrir prestana, eftir kirkjunnar ritúal innréttuð, um barnaskírn og annað, sem prestlegu embætti viðvíkur. Hvört hennar titulus ratvísar. Hólar 1750, bls. 349.

Þessi ákvæði voru ekki í handbókum presta, sem gefnar voru út árin 1706 og 1725.24Dominicale [Handbók presta.] Hólar 1706, bls. 354–356, Hólar 1725, bls. 354–356.

Það mun hafa borið við, að erfingjar presta slægju eign sinni á kirkjubækur, eins og dæmi er um frá Holti í Önundarfirði árið 1761.25ÞÍ. Bps. A. IV. 16, bls. 431–432. Enda skrifar Skálholtsbiskup í bréfi til kansellísins 13. ágúst 1786 um töflur yfir fædda, fermda, gifta og dauða, sem prestar áttu að gera fyrir hvert ár allt aftur til ársins 1768, að margir prestar hafi skoðað kirkjubækurnar sem sína eign.26ÞÍ. Bps. A, IV, 26. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1785–1787, bls. 668–670. En ljóst er, að kirkjubækur hafa verið haldnar miklu víðar í Skálholtsbiskupsdæmi en hingað til hefur verið talið.27Sjá Jón Guðnason, „Inngangur“, Skrár Þjóðskjalasafns II. Prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl. Reykjavík 1953, bls. 8–10. —Loftur Guttormsson hefur fjallað um íslenska kirkjubókafærslu í ýmsum ritum sínum, sjá t.d. Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, Saga XXV, bls. 47–87. Í þeirri grein eru niðurstöður athugana á kirkjubókahaldi, sem fram koma í visitasíuskýrslum biskupanna Halldórs Brynjólfssonar og Gísla Magnússonar á Hólum og Ólafs Gíslasonar og Finns Jónssonar í Skálholti.

Um Hólabiskupsdæmi er það að segja, að Hólabiskupar gerðu ekki í skýrslum sínum eða visitasíubókum grein fyrir, hvort eða hvernig kirkjubókahaldi var háttað í einstökum sóknum. Af skýrslu Halldórs Brynjólfssonar til kirkjustjórnarráðsins árið 1748 má ráða, að um það leyti hafi flestir prestar í stiftinu verið farnir að halda prestsþjónustubækur.28ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/6. Innkomin bréf og önnur skjöl 1748 (bréf dagsett 19. september 1748). Og frá árunum kringum 1750 eru til prestsþjónustubækur úr 18 af 64 prestaköllum í Hólabiskupsdæmi. Hins vegar má glögglega ráða af árlegum skýrslum til kirkjustjórnarráðsins um fermda og þá, sem gengu til barnaspurninga, að prestar færðu hin svokölluðu sóknarmannatöl ungdómsins.29ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs, t.d. KI/25. Innkomin bréf og önnur skjöl 1772–1774. Þar er skýrsla ársins 1773 með bréfi dagsettu 10. október 1774.

Þá er rétt í sambandi við kirkjubókahald og skýrslufærslu að benda á umburðarbréf Jóns Teitssonar, biskups á Hólum, til prófasta í biskupsdæminu, dagsett 15. febrúar 1781, þar sem hann sendir með form fyrir skýrslur um fædda, dauða og gifta, svo og fermda.30ÞÍ. Bps. B. V, 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar 1779–1784 og Jóns biskups Teitssonar 1780–1781, bls. 104–105. Svo er að sjá sem Norðlendingar hafi verið heldur tómlátir um þetta bréf. Erlendur Jónsson, prófastur í Eyjafirði, sendi það frá sér 13. júní 1781, og fáir prestar sáu ástæðu til að færa formið inn í endurritabækur sínar.31ÞÍ. Kirknasafn. Eyjafjarðarprófastsdæmi BD/1. Prestastefnugerningar 1749–1759, 1761. Umburðarbréf 1753–1766, 1768–1776, 1778–1796 (örk 5). Sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1. Endurritabók 1748–1810, bls. 178–182. Jón Teitsson hafði lítil tök á að fylgja boðskap sínum eftir, en hann lést í vetrarbyrjun árið 1781.

Hannes Finnsson, Skálholtsbiskup, tók þetta mál upp á prestastefnu á Þingvelli árið 1783, þar sem prestar voru áminntir með bréfi 11. júlí („Monita Synodalia“) um, að hafa prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl í góðu lagi. Er augljóst, að víða hafa þær bækur verið í bágu standi.32Sjá t.d. ÞÍ. Kirknasafn. Eiðar CD/1. Endurritabók 1781–1799; ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Norðurárdal CD/1. Endurritabók 1705–1824 og 1839. Í byrjun næsta árs, eða 2. janúar 1784, sendi Hannes próföstum Skálholtsbiskupsdæmis umburðarbréf með nákvæmum leiðbeiningum og dæmum um færslu prestsþjónustubóka. Jafnframt því gaf hann fyrirmæli um efnisflokkahlutföll bókarinnar.33ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788.

Árni Þórarinsson, Hólabiskup, skrifaði próföstum sínum til 24. nóvember sama ár og gaf þeim upp bókarform, leiðbeiningar og færsludæmi. Ekki skyldi bókunum skipt niður eftir efni, heldur áttu efnislegar færslur að vera á opnu fyrir sig, fæddir á einni, dauðir á annarri, giftir á þeirri þriðju og fermdir á þeirri fjórðu. Virðist Árni hafa ætlað það sem aðalreglu, að hvert ár kæmi þannig út af fyrir sig.34ÞÍ. Bps. B. V, 11. Bréfabók Árna biskups Þórarinssonar 1783–1787, bls. 26–28. Þar kemur fram, að Árni Þórarinsson hefur sjálfur notað þetta form að nokkru leyti í prestskap sínum. Engar leiðbeiningar finnast í bréfabók Árna biskups, en dæmi má finna í endurritabókum presta, t.d. frá Melstað í Miðfirði.35ÞÍ. Kirknasafn. Melstaður CD/1. Endurritabók 1753–1807, bls. 198–206. Sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1, bls. 243–261.

Prestar virðast víðast hafa brugðist vel við þessum bréfum og hafið prestsþjónustubókagerð. Það er aðeins úr um 30 prestaköllum, sem Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörður, hefur ekki upplýsingar um prestsþjónustubækur á árunum 1784–1800. Ýmislegt bendir til þess, að í sumum þeim prestaköllum a.m.k. hafi bækur verið haldnar. Til eru sóknarmannatöl þaðan frá þessum tíma og eldri prestsþjónustubækur.36Hér er stuðst við Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Á það skal bent, að stundum nefnir Jón Þorkelsson engar heimildir fyrir ummælum sínum um tilvist bóka, sem þá voru glataðar, en væntanlega hefur hann haft upplýsingar úr visitasíum eða staðarúttektum. Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Skjalasöfn klerkdómsins. Reykjavík 1905–1906, bls. 50, 89, 126, 127. Auk þess hafa síðar komið fram upplýsingar um tilvist nokkurra prestsþjónustubóka.

Næst bar til tíðinda í þessu efni, að 11. desember 1812 kom tilskipun til biskupa í Danmörku og Noregi, sem og á Íslandi, um uppsetningu kirkjubóka. Þar voru gefin ákveðin fyrirmæli um formið, svo að prestsþjónustubækur yrðu með sama sniði í konungsdæminu öllu. Þær skyldu vera í prentuðu formi, innsiglaðar og áritaðar og færðar í tveimur eintökum, af presti og meðhjálpara eða forsöngvara.37Lovsamling for Island VII, bls. 446–449.

Biskup hefur færst undan gildistöku tilskipunarinnar vegna pappírsleysis og fékk það svar með kansellíbréfi 4. desember 1813, að þess væri vænst, að bækurnar kæmust í gagnið óðara og aðstæður leyfðu.38Lovsamling for Island VII, bls. 485–486. Tilskipunin var birt á prestastefnu árið 1814, og á næsta ári sendi Geir biskup Vídalín próföstum sínum tvö dreifibréf um færslu prestsþjónustubóka.39ÞÍ. Bps. C. II, 1. Prestastefnubók Geirs biskups Vídalín, Steingríms biskups Jónssonar og Helga biskups Thordersen 1811–1858, bls. 14 (33. liður); ÞÍ. Bps. C. III, 8. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1814–1816, bls. 112–133, 429–430.

Í fyrra bréfinu, 23. mars 1815, eru nákvæmar reglur um gerð og uppsetningu bókanna, og því lýkur með sýnishornum af færslum einstakra efnisatriða. Bækurnar skyldu vera af „folio“ stærð og arkafjöldi fara eftir fjölda sóknarbarna.

Hér eru þau nýmæli, að prestsþjónustubækur skuli vera tvenns konar: a) fyrir prestakallið, þ.e. prestakallsministerialbók, og b) fyrir sóknina, þ.e. kirkjuministerialbók (djáknabók, því að djákni eða meðhjálpari átti að halda hana). Þær fyrri átti prestur að varðveita og afhenda eftirmanni. Hinar síðari skyldu varðveitast við kirkjurnar sjálfar.

Annað nýmæli var, að í djáknabókina skyldi skrá manntal úr sókninni fyrsta sunnudag í aðventu 1816 (við upphaf kirkjuársins).

Þriðja nýmælið var að skrásetja skyldi alla innkomna í sóknina á hverju ári, svo og hina burtviknu.

Hið fjórða nýmæli var svonefnt aðalsamanburðarregistur.

Í síðara bréfinu, 5. desember 1815, voru fyrirmæli um, að allir skyldu taka til bókagerðarinnar við upphaf kirkjuársins 1816.

Prestar brugðust vel við þessum tilmælum. Nýjar prestsþjónustubækur úr langflestum sóknum landsins hefjast í ársbyrjun 1817, nokkrar í desember 1816. Í stöku prestaköllum gat þetta dregist um nokkur ár. Sumir prestar héldu áfram að skrá í þær bækur, sem fyrir voru, stundum samhliða hinum nýju. Dæmi um slíkt eru víða að af landinu, en nefna má Desjarmýri og Dvergastein.40ÞÍ. Kirknasafn. Desjarmýri BA/1 og 2. Prestsþjónustubækur 1773–1823 og 1817–1849; ÞÍ. Kirknasafn. Dvergasteinn/Seyðisfjörður BA/1 og 2. Prestsþjónustubækur 1786–1829 og 1816–1854.

Eitthvað gat manntalsskráning orðið reikul, því prestar bundu sig ekki endilega við fyrsta sunnudag í jólaföstu 1816, heldur dróst manntalstakan um eitt ár eða lengur hjá sumum.41Manntal 1816. Reykjavík 1947–1974.

Síðan árið 1816 hafa ekki verið gerðar neinar stórvægilegar breytingar á færslu prestsþjónustubóka, lögum samkvæmt. Ýmis fyrirmæli hafa þó verið gefin út, einkanlega vegna upplýsingaskráningar. Eru þau þessi: Kansellíbréf 27. ágúst 1833 varðandi ýmsar breytingar á færslu prestsþjónustubóka. Er þar vikið að ýmsum upplýsingum, sem skrá átti. Kansellíbréf 9. júní 1835 fjallar um sama efni. Þá gaf kirkju- og kennslumálaráðuneytið út dreifibréf um upplýsingaskráningu 23. apríl 1852.42Lovsamling for Island X, bls. 334–337, 633–634; XV, 236.

Árið 1998 var skipuð nefnd á vegum kirkjumálaráðuneytisins til þess að endurskoða prestsþjónustubækur, gerð þeirra og uppsetningu. Lauk hún störfum síðla vetrar árið 2000. Áformað var að taka nýjar bækur í notkun 1. júlí það ár, en ekki gat af því orðið fyrr en 1. september sama ár vegna tafa í prentun. Fylgdu bókunum leiðbeiningar um notkun þeirra, gefnar út af biskupi 28. júní árið 2000, meðal annars um færsluskyldur presta: Sóknarprestar/prestar eiga að færa prestsverk sín í prestsþjónustubækur prestakallsins, sem þeir þjóna, sérþjónustu- og héraðsprestar færa prestsverk sín í prestsþjónustubækur, sem eru í vörslu viðkomandi prófasts. Prestur, sem látið hefur af embætti, en vinnur prestsverk, skal tilkynna verkið sóknarpresti í prestakallinu, þar sem athöfnin fór fram, en sóknarpresturinn færa prestsverkið í prestsþjónustubók og senda Hagstofu Íslands skýrslu.43Þessi fyrirmæli hafa ekki verið prentuð en heimildir eru í skjalasöfnum biskupsstofu og dóms– og kirkjumálaráðuneytisins. Er hér stuðst við afrit af bréfum biskups til presta, 28. júlí 2000, og til presta, sem hafa látið af embætti, 25. október 2000, og leiðbeiningar, sem prentaðar eru inn á kápur nýju prestsþjónustubókanna. Þjóðskrá Íslands tók við þessu hlutverki Hagstofunnar með lögum nr. 51/2006.44Vef. https://www.althingi.is/altext/stjt/2006.051.html, sótt 27. september 2017.

Meðal síðustu lagaákvæða, sem gefin hafa verið út um prestsþjónustubækur, eru lög um kirkju- og manntalsbækur nr. 3/1945, 12. janúar. Þar eru tekin upp fyrirmæli frá 1812 um tvöfalda prestsþjónustubókafærslu, en einnig skyldi gera sóknarmannatölum sömu skil. Sóknarnefndarformaður eða maður ráðinn af sóknarnefnd átti að halda sóknarbækurnar, sem væru bornar saman við bækur prests árlega. Kirkjubækur sóknarpresta skyldi senda Þjóðskjalasafni, áður en 50 ár væru liðin frá löggildingu þeirra, og mætti aldrei halda þeim lengur en 15 ár frá því, að þær væru fullritaðar. Fullritaðar sóknarbækur skyldi varðveita innan héraðs, í bókasafni, sem fengi þær til eignar og geymslu, eða í öruggri geymslu, væri bókasafn ekki til.45Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2–3. Í greinargerð Jóns Sigurðssonar á Reynistað í Skagafirði, sem var flutningsmaður tillögunnar, kemur fram, að honum var í huga bókamissir, sem orðið hafði vegna bruna á prestssetrum, og ættfræði- og héraðssögurannsóknir heima í héraði.46Alþingistíðindi 1944 A, bls. 372–373. Ekki verður séð, að lög þessi um tvöfalda kirkjubókafærslu hafi nokkru sinni komið til framkvæmda, þó að þau séu enn í gildi í meginatriðum (2017).47Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1945003.html, sótt 27. september 2017. — Lítils háttar breytingar voru gerðar með lögum nr. 10/1983, nr. 36/2002 og nr. 88/2008, Stjórnartíðindi 1983 A, bls. 13 (14. grein) og Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008088.html, sótt 27. september 2017. Stangast þau á við lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985, 27. júní og síðan lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, sem kveða á um, að skjölum skuli skilað að jafnaði eigi síðar en þegar þau hafa náð þrjátíu ára aldri.48Stjórnartíðindi 1985 A, 207 (6. grein); Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2014077.html, (15. grein), sótt 27. september 2017.

Færsla djáknabóka hefur verið harla misjöfn eftir prestaköllum. Þá er ekki ósennilegt, að ýmsar slíkar bækur hafi glatast, en álykta má, að djáknabókahaldi hafi að mestu verið hætt fyrir aldamótin 1900. Þó er til djáknabók frá Úlfljótsvatni, sem nær til ársins 1952.49ÞÍ. Kirknasafn. Þingvellir BA/6. Prestsþjónustubók Úlfljótsvatns 1883–1952.

Þá hafa orðið miklar breytingar á færslu upplýsinga um kunnáttu og hegðun fermingarbarna. Í bókum frá 18. öld og fram á þá tuttugustu getur að líta nákvæma greiningu á kunnáttu, bæði í kristindómi og lestri, sem og hegðun, síðar bættist við skriftar- og reikningskunnátta. Nú stendur aðeins eftir kristindómskunnátta og hegðun, og ekki alltaf hvort tveggja fært.

Skráning innkominna og burtvikinna er einnig ærið breytileg. Í sumum stórum prestaköllum, svo sem Seltjarnarnesþingum (Reykjavík) og Görðum á Álftanesi og Görðum á Akranesi, svo dæmi séu tekin, voru prestar mjög tómlátir um slíkar færslur þegar frá upphafi árið 1816. Sums staðar eru miklar eyður í slíkar færslur, en ýmsir prestar héldu skráningu áfram til ársins 1952, er Hagstofa Íslands tók við íbúaskráningu og jafnvel lengur.

Prestsþjónustubækur voru góðar heimildir um heilsufar manna, því að dauðamein voru oftast greind eftir bestu getu og vitneskju. Héldu margir prestar þeim sið lengi fram eftir þessari öld að geta dánarorsaka, þótt aðrir vísi aðeins til dánarvottorða, sem nú er orðinn fastur siður, nema um minningarathafnir sé að ræða. En dánarvottorð voru lögboðin í kauptúnum, þar sem var læknissetur, með lögum nr. 30/1911, 11. júlí.50Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 192–195. Þó ber oft að taka dánarorsakir með nokkrum fyrirvara. Sjálfsvíga er stundum ekki getið, en reynt að breiða yfir slíkt eftir bestu getu. Um dánarvottorð er fjallað í liðnum Prestsseðlar, vottorð og tilkynningar.

Þá má til gamans geta þess, að sumir prestar brugðu fyrir sig tungumálakunnáttu sinni við prestsþjónustubókafærslur, ef þeim þótti við hæfi, að einstök atvik væru látin liggja í láginni, svo sem hórdómsbrot, þegar um sifjaspell var að ræða.

Embættisbækur sambærilegar við prestsþjónustubækur frá öðrum trúfélögum og embættismönnum

Fyrstu lög um utanþjóðkirkjumenn eru nr. 4/1886, 19. febrúar. Fyrsti kafli þeirra er um borgaralegt hjónaband utanþjóðkirkjumanna og trúfræðslu barna þeirra. Er þar heimilað, að veraldlegir valdsmenn gefi saman hjón. Skyldi bæjarfógeti eða sýslumaður rita í tilætlaða bók allt, sem nokkru varðaði, að því er til hjónabandsins kæmi, og fá hjónunum eftirrit þess og senda annað eftirrit presti sóknarinnar, þar sem brúðurin átti heima fyrir hjónabandið. Átti presturinn að skrá það í prestsþjónustubókina. Annar kafli laganna fjallar um konunglega staðfestingu utanþjóðkirkjupresta eða forstöðumanna safnaða og gildi embættisverka þeirra. Segir þar m.a., að kirkjuleg embættisverk framkvæmd af presti, sem hefði hlotið konunglega staðfestingu, hefðu alla sömu borgaralega þýðingu og þau væru framin af þjóðkirkjupresti. Sama væri að segja um vottorð, er slíkur prestur gæfi. Þá var prestur eða forstöðumaður skyldur að gefa skýrslur og vottorð, sem yfirvöld krefðust og að söfnuði hans litu, og aðrar upplýsingar í líkingu við það, sem þjóðkirkjuprestar væru skyldir að gefa.51Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23 (sjá 1., 5. 13. og 14. grein). Ekki er minnst á, hvaða embættisbækur prestar eða forstöðumenn utanþjóðkirkjusafnaða ættu að halda, en gengið virðist út frá, að þær væru þær sömu og sóknarprestar áttu að færa.

Þessi lög féllu úr gildi með lögum um trúfélög nr. 18/1975, 30. apríl. Samkvæmt þeim skyldi prestur eða forstöðumaður skráðs trúfélags færa þær embættisbækur, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið fyrirskipaði, gefa út fullgild embættisvottorð um það efni, sem í bækurnar væri skráð, og um embættisverk, sem hann hefði unnið. Einnig skyldi hann láta í té tilkynningar, upplýsingar og vottorð, sem lög og reglur mæltu fyrir um, og vera háður því eftirliti með framkvæmd embættisstarfa, sem ráðuneytið ákvæði.52Stjórnartíðindi 1975 A, bls. 60 ( 17. grein). Nú (2017) eru í gildi lög nr. 108/1999, 28. desember, með áorðnum breytingum. Eru ákvæði þeirra hin sömu og laganna frá 1975, hvað færslu embættisbóka og útgáfu embættisvottorða snertir, en sú breyting hefur verið gerð, að forstöðumaður skráðs trúfélags (lífsskoðunarfélags) er háður ábyrgð opinbers starfsmanns í framkvæmd þeirra starfa, sem honum eru falin samkvæmt ákvæðum laga.53Stjórnartíðindi 1999 A, bls. 236–239 (sjá 7. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html, sótt 27. september 2017. Fer það eftir eðli og uppbyggingu hvers safnaðar, hvaða embættisverk eru unnin og færð í tilskildar embættisbækur.

Með lögum nr. 36/2002, 16. apríl, var gerð breyting á lögum nr. 3/1945 um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), þannig að framvegis skyldi þjóðkirkjan og önnur skráð trúfélög greiða fyrir kirkju- og manntalsbækur, sem þau færðu. Tók breytingin strax gildi og stendur enn árið 2017.54Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77; Vef. https://www.althingi.is/altext/stjt/2002.036.html, sótt 27. september 2017.

Notkun prestsþjónustubóka

Forsendur notkunar á prestsþjónustubókum hefur breytst mikið á 20. öld. Fyrrum voru börn skírð af sóknarpresti í sókninni, þar sem þau fæddust. Voru þá fæðingar og skírnir skráðar á sama stað og í sömu bók. Þeir, sem létust, voru yfirleitt grafnir við kirkju í sókninni, sem þeir létust í, en sóknarprestar í heimasóknum þeirra færðu sjaldnast dauðsfallið í bækur sínar. Á þessu varð mikil breyting á 20. öld, einkum þegar fram í sótti. Grundvöllur þessa mun einkum vera í lögum um leysingu sóknarbands nr. 9/1882.55Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 66–69. (Sjá umfjöllun um Prestsseðla, vottorð og tilkynningar). Síðan urðu bættar samgöngur og fjölgun presta í þéttbýli til þess, að fólk gat leitað til annarra presta en sóknarpresta sinna með prestsverk. Tilurð fæðingarstofnana, svo sem Fæðingardeildar Landspítalans, varð til þess, að konur fæddu börn utan heimasóknar, en létu sóknarpresta sína eða aðra presta en presta í fæðingarsóknunum skíra börnin. Skrá átti börn þar, sem þau voru fædd, og raunar mun það hafa verið svo, að prestarnir, sem skírðu, áttu að tilkynna presti í fæðingarsókninni um skírnina, en það virðist hafa verið misbrestasamt. Flestir prestar færðu til bókar öll börn, sem áttu heimili í prestakalli þeirra, þótt þau fæddust þar ekki og væru jafnvel skírð af öðrum prestum. Í Reykjavík var fram til ársloka 1940 aðeins eitt prestakall og sókn innan þjóðkirkjunar, en árið 1935 var farið að færa sérstaka prestsþjónustubók yfir þá, sem fæddust í Reykjavík en áttu lögheimili annars staðar.56ÞÍ. Kirknasafn. Seltjarnarnesþing/Dómkirkjan í Reykjavík BA/23. Prestsþjónustubók 1935–1945, fæddir í Reykjavík en lögheimili utanbæjar. Á fimmta áratugnum eða við upphaf þess sjötta fara Reykjavíkurprestar að vera með tvær bækur, aðra fyrir fædda, hina fyrir skírða. Ekki virðast þeir hafa samræmt vinnureglur sínar, t.d. voru í Langholtsprestakalli, sem varð til árið 1952, haldnar sérstakar bækur fyrir skírða utansóknar frá árinu 1954, en fæddir og skírðir innansóknar skráðir sameiginlega í aðrar bækur.57ÞÍ. Kirknasafn. Langholtsprestakall A BA/5–7. Prestsþjónustubækur 1954–1959, 1959–1965, 1966–1979, skírðir utansóknar.

Fæðingardeild Landspítalans var innan marka Hallgrímsprestakalls, því er það svo, að Hallgrímsprestakall sker sig úr með fjölda fæðinga, af því að lengi voru fæðingar á Fæðingardeildinni tilkynntar þangað og skráðar þar, en hins vegar undir hælinn lagt, hvort skírnir voru tilkynntar prestum í Hallgrímsprestakalli til innfærslu. Þessi skráningaraðferð getur valdið erfiðleikum, af því að Hagstofan/Þjóðskrá skráði fædd börn samkvæmt tilkynningu úr fæðingarsókn, en gat ekki um, hvaðan upplýsingar um skírn eða nafngjöf komu.

Svo virðist sem ýmsir prestar hafi dregið úr því að halda utan um fæðingar barna, sem áttu lögheimili í sóknum þeirra, þegar á leið. Árið 1988 var ákveðið, að prestar miðuðu innfærslur sínar við prestsverk, sem þeir unnu. Var það gert með bréfi biskups 15. janúar 1988 að tilmælum Hagstofu Íslands í bréfi 11. janúar s.á.58ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994–D/61. Ýmislegt II, IV, VIII (örk 8). Því urðu sérstakar fæðingabækur úr sögunni.

Prestsþjónustubækur, prestsverkabækur, minnisbækur,
altarisbækur og altariskver á Íslandi, sem kunnugt er um,
frá árunum 1664–1783

Stuðst er athugun Jóns Þorkelssonar, sem kemur fram í Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II og kom út árin 1905–1906, auk annarra upplýsinga. Raðað er eftir árum og getið staða og færslumanna, ef bók hefur færst milli staða. Hornklofar eru um þær bækur, sem vitað er að hafa verið til, en eru nú glataðar. Ekki hefur verið gerð heildstæð athugun á visitasíu- og bréfabókum biskupa og í bréfasöfnum þeirra eða í visitasíubókum prófasta til þess að kanna, hvar getið er um prestsþjónustubækur eða sóknarmannatöl, en tekin dæmi úr áðurnefndum visitasíuskýrslum Ólafs Gíslasonar fyrir árin 1751 og 1752 og visitasíubók úr Suður-Múlaprófastsdæmi (1751–1785) fyrir árin 1752–1757.59ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðsins KI/9. Innkomin bréf og önnur skjöl 1751–1752; ÞÍ. Kirknasafn. Suður–Múlaprófastsdæmi AA/2. Visitasíubók 1751–1785.

Önnur heiti yfir prestsþjónustubækur eru ministerialbækur og kirkjubækur.
1664Reykholt 1664–1788, [1693–1731], 1732–1754, 1755–1783.
1676Hrafnseyri [1676–1784].
1694Möðruvallaklaustur 1694–1784.
1699Reynivellir 1699–1723, 1766, 1767.
Vellir [1699–1773?].
1704Hítardalur 1704.
1713Högni Sigurðsson 1713–1786 (Einholt 1713–1717, Kálfafellsstaður 1717–1726, Stafafell 1726–1750, Breiðabólsstaður í Fljótshlíð 1750–1786. Notuð af eftirmanni 1763–1786).
Þorsteinn Ketilsson 1713–1754 (Skálholt 1713–1716, Hrafnagil 1715–1754). Hrafnagilsbækur halda áfram eftir daga Þorsteins 1754–1784.
1717Sauðanes 1717–1784 + dánarskrá árið 1708 (bóluár).
1718Kálfholt 1718–1739.
1720Kirkjubæjarklaustur [1720–1753].
1722Miklaholt 1722–1778.
1724Þorsteinn Jónsson 1724–1787 (Hólar í Hjaltadal 1724–1739, Saurbær í Eyjafirði 1740–1787. Notuð af eftirmönnum 1748–1787).
1725Eydalir 1725–1786.
1728Svalbarð í Þistilfirði 1728–1761, 1761–1784.
1732Klyppsstaður [1732–?].
1735Miðdalaþing 1735–1766, 1778–1781.
Selárdalur 1735–1784.
1736Þykkvabæjarklaustur 1736–1784.
1737Keldnaþing 1737–1774.
1740Laufás 1740–1794.
1741Jón Þorleifsson 1741–1785 (Hólar í Hjaltadal 1741–1747, Múli í Aðaldal 1747–1785. Notuð af eftirmanni 1776–1785).
1742Grenjaðarstaður 1742–1785.
1743Blöndudalshólar 1743–1811 (brot eitt eftir).
Hrepphólar 1743–1781.
Mikligarður 1743–1784.
Skarðsþing 1743–1768.
Staður á Reykjanesi 1743–1774, 1779–1784.
1746Kálfafell í Fljótshverfi 1746–1820.
Mosfell í Mosfellssveit 1746–1752, 1752–1783.
Seltjarnarnesþing 1746–1762, 1763–1784, 1769–1797.
Stafholt 1746, 1747
1747Eyvindarhólar 1747–1784.
Garðar á Álftanesi 1747–1782.
Holtaþing [1747–1785].
Miklibær í Blönduhlíð 1747–1784.
Oddi 1747–1784.
1748Hraungerði 1748–1785.
Höskuldsstaðir 1748–1765, 1775–1783. Hvort tveggja brot úr sömu bók.
Tröllatunga 1748–1767, 1767–1784.
Þóroddsstaður 1748–1762.
1749Hvammur í Hvammssveit 1749–1784.
1750Sauðlauksdalur 1750–1786.
Arnarbæli [ministerialbækur60Þegar talað er um ministerialbækur í þessum skýrslum, virðist átt við bæði prestsþjónustubækur og sálnaregistur (sálnaregistur ungdómsins). sýndar við biskupsvisitasíu 1750, óskipulegar].
Brjánslækur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Flatey [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Garpsdalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Gaulverjabær [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750, ekki rétt færðar].
Gufudalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Hjarðarholt [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Hrepphólar [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Hruni [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Hvammur í Dölum [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Kaldaðarnes [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Kvennabrekka [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750, óreglulega færðar].
Laugardælir/Hraungerði [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Miðdalaþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Miðdalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Mosfell í Grímsnesi [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Otradalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Ólafsvellir [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Reykjadalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Sauðlauksdalur [ministerialbækur ekki nefndar við biskupsvisitasíu 1750, en sálnaregistur].
Saurbæjarþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Selárdalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Skarðsþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Snæfuglsstaðir [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Staður á Reykjanesi [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Steinsholt/Stórinúpur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Torfastaðir [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Villingaholt [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
Þingvellir [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1750].
1751Bægisá 1751–1785.
Grundarþing 1751–1784.
Myrká 1751–1775, 1776–1784. Sú síðari varðveitt í afriti.
Skálholt 1751–1775, 1778–1815.
Borgarþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Breiðabólsstaður á Skógarströnd [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Breiðavíkurþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Garðar á Álftanesi [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Gilsbakki [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Helgafell [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, að mestu réttar].
Hítardalur [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Hítarnesþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Húsafell [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Hvalsnes [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, sálnaregistur ekkert].
Hvammur í Norðurárdal [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, sálnaregistur ekkert].
Kálfatjörn [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Kjalarnesþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Laugarnes/Seltjarnarnesþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, ekkert sálnaregistur].
Meðalfell/Reynivellir [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Miklaholt [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Mosfell í Mosfellssveit [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Nesþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Reykholt [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, fundið að fermingarbókum].
Selvogsþing [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, sálnaregistur ekkert].
Setberg [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Staðarhraun [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Staðarstaður [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Stafholt [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Staður í Grindavík [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751].
Útskálar [ministerialbækur sýndar við biskupsvisitasíu 1751, sálnaregistur ekkert].
1752Kjalarnesþing 1752–1816.
Berufjörður [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1752].
Dvergasteinn [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1752].
Hallormsstaður [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1752].
Háls í Hamarsfirði [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1752].
Þvottá [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1752].
1753Staður í Hrútafirði 1753–1786.
Fjörður í Mjóafirði [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1753].
Skorrastaður [ministerialbækur „ei enn þá orðulega innréttaðar“ við prófastsvisitasíu 1753].
1754Hrafnagil 1754–1784
Mosfell í Grímsnesi 1754–1816, 1768–1800.
1755Staður á Ölduhrygg (Staðarstaður) 1755–1786.
Upsir 1755–1816.
Þingeyraklaustur [1755–1784].
Eydalir [ministerialbækur sýndar við prófastsvisitasíu 1755].
1756Ríp 1756–1784.
1757Fjörður í Mjóafirði [bækur voru eyðilagðar í nóttina milli þess 6. og 7. janúar 1757 af einum umhleypingsþjóf].61ÞÍ. Kirknasafn. Suður–Múlaprófastsdæmi AA/2. Visitasíubók 1751–1785.
Húsafell 1757–1808.
Landþing 1757–1765.
1759Kvíabekkur 1759–1769 (brot)
1761Holt í Önundarfirði [prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl voru til, en erfingjar prests neituðu að afhenda árið 1761. Eftirmaður gerði ráð fyrir að halda skráningu áfram.62ÞÍ. Bps. A. IV, 16, bls. 431–432.].
Mælifell 1761–1784.
Prestsbakki í Hrútafirði 1761–1795.
1764Árnes 1764–1816.
1766Hvalsnesþing 1766–1811.
1768Holt undir Eyjafjöllum 1768–1827.
Nes í Aðaldal 1768–1784.
1769Dalsþing [1769–1783].
1770Breiðabólsstaður í Vesturhópi 1770–1784.
Þingmúli 1770–1779.
1771Melar 1771–1784.
1773Desjarmýri 1773–1823.
Garpsdalur 1773–1817.
Háls í Fnjóskadal 1773–1794.
1774Hjarðarholt í Laxárdal 1774–1822.
1777Stórólfshvoll 1777–1816.
1778Ólafsvellir [1778–1815].
1780Nesþing 1780–1785.
1781Fljótshlíðarþing 1781–1816.
Vatnsfjörður 1781–1813.
1782Garðar á Akranesi 1782–1816.
Reykjadalur 1782–1816.
Setberg 1782–1826.
Torfastaðir 1782–1816.
1783Kvennabrekka 1783–1817.
Meðallandsþing 1783–1783.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Forordninger, recesser og andre kongelige breve, Danmarks lovgivning vedkommende, 1558–1660. Udgivne ved V.A. Secher af Selskabet for udgivelse af kilder til dansk historie 5. bind. København 1903, bls. 458, 500–501; Albert Fabritius og Harald Hatt, Håndbog i slægtsforskning 3. udgave. København 1973, bls. 177–179.
2 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II. Reykjavík 1949., bls. 259–260 (Halldór Jónsson eldri).
3 ÞÍ. Kirknasafn. Reykholt BA/1. Prestsþjónustu- og kaupmálabók 1664–1788.
4 ÞÍ. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 56: Stefán Hallkelsson, bls. 6. Æfir lærðra manna 65: Þormóður Torfason, bls. 41.
5 Annálar 1400–1800, V. bindi. Reykjavík 1955–1988, bls. 255–269.
6 Annálar 1400–1800 V, bls. 249–250.
7 Annálar 1400–1800 V, bls. 255–256.
8 Lovsamling for Island I, bls. 449.
9 ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, 221. Lagaverkið V (sjá 7. 0g 12 lið bréfsins); Lovsamling for Island I, bls. 442–443; Einar Arnórsson, Íslenzkur kirkjuréttur. Reykjavík 1912, bls. 9.
10 Kongs Christians þess fimmta norsku lög á íslensku útlögð. Hrappsey 1779, dálkur 193 (7. liður).
11 Lovsamling for Island I, bls. 751–752; II, bls. 30–32, 66–68, 84–87.
12 Dominicale. Það er guðspjöll og pistlar með almennilegum kollektum, sem í kirkjusöfnuðinum lesast árið um kring á sunnudögum og öðrum helgum og hátíðisdögum. Hér með fylgir stutt handbók um barnaskírn, hjónavígslu, sjúkra vitjan, framliðinna jarðan og nokkuð fleira sem kennimannlegu embætti viðvíkur. Hólar 1706, bls. 406 og áfram; Graduale. Ein almennileg messusöngsbók, um þann söng og seremóníur, sem í kirkjunni eiga að syngjast og haldast hér í landi, eftir góðri og kristilegri siðvenju sem og vors allra náðugasta arfakóngs og herra, Christians þess fimmta kirkjuritúal. Skálholt 1691.
13 Lovsamling for Island I, bls. 442–443.
14 Lovsamling for Island II, bls. 226–227.
15 ÞÍ. Bps. A. IV, 10. Bréfabók Jóns biskups Árnasonar 1734–1736, bls. 1000.
16 ÞÍ. Bps. B. V, 4. Bréfabók Steins biskups Jónssonar 1731–1739, bl. 43v–44r.
17 Lovsamling for Island II, bls. 507; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 510.
18 Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 563–564; Lovsamling for Island II, bls. 606.
19 Lovsamling for Island II, bls. 657–658.
20 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 27. september 2017.
21 ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/9. Innkomin bréf og önnur skjöl 1751–1752 (bréf dagsett 27. júlí 1751 og 27. júlí 1752).
22 ÞÍ. Bps. A. IV, 15. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1754–1759, bls. 348–365 (sérstaklega bls. 360–361); ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sérstaklega bls. 26–28).
23 Dominicale. Það er guðspjöll og pistlar með almennilegum kollektum, sem í kirkjusöfnuðinum lesast árið um kring á sunnudögum og öðrum hátíðis- og helgidögum, píningarhistoríu vors herra Jesú Kristi, bæn eftir hana, eftir prédikun á sunnudögum, við konfirmationina og á bænadaginn. Hér með fylgir stutt handbók fyrir prestana, eftir kirkjunnar ritúal innréttuð, um barnaskírn og annað, sem prestlegu embætti viðvíkur. Hvört hennar titulus ratvísar. Hólar 1750, bls. 349.
24 Dominicale [Handbók presta.] Hólar 1706, bls. 354–356, Hólar 1725, bls. 354–356.
25 ÞÍ. Bps. A. IV. 16, bls. 431–432.
26 ÞÍ. Bps. A, IV, 26. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1785–1787, bls. 668–670.
27 Sjá Jón Guðnason, „Inngangur“, Skrár Þjóðskjalasafns II. Prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl. Reykjavík 1953, bls. 8–10. —Loftur Guttormsson hefur fjallað um íslenska kirkjubókafærslu í ýmsum ritum sínum, sjá t.d. Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, Saga XXV, bls. 47–87. Í þeirri grein eru niðurstöður athugana á kirkjubókahaldi, sem fram koma í visitasíuskýrslum biskupanna Halldórs Brynjólfssonar og Gísla Magnússonar á Hólum og Ólafs Gíslasonar og Finns Jónssonar í Skálholti.
28 ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/6. Innkomin bréf og önnur skjöl 1748 (bréf dagsett 19. september 1748).
29 ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs, t.d. KI/25. Innkomin bréf og önnur skjöl 1772–1774. Þar er skýrsla ársins 1773 með bréfi dagsettu 10. október 1774.
30 ÞÍ. Bps. B. V, 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar 1779–1784 og Jóns biskups Teitssonar 1780–1781, bls. 104–105.
31 ÞÍ. Kirknasafn. Eyjafjarðarprófastsdæmi BD/1. Prestastefnugerningar 1749–1759, 1761. Umburðarbréf 1753–1766, 1768–1776, 1778–1796 (örk 5). Sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1. Endurritabók 1748–1810, bls. 178–182.
32 Sjá t.d. ÞÍ. Kirknasafn. Eiðar CD/1. Endurritabók 1781–1799; ÞÍ. Kirknasafn. Hvammur í Norðurárdal CD/1. Endurritabók 1705–1824 og 1839.
33 ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 779–788.
34 ÞÍ. Bps. B. V, 11. Bréfabók Árna biskups Þórarinssonar 1783–1787, bls. 26–28. Þar kemur fram, að Árni Þórarinsson hefur sjálfur notað þetta form að nokkru leyti í prestskap sínum.
35 ÞÍ. Kirknasafn. Melstaður CD/1. Endurritabók 1753–1807, bls. 198–206. Sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1, bls. 243–261.
36 Hér er stuðst við Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Á það skal bent, að stundum nefnir Jón Þorkelsson engar heimildir fyrir ummælum sínum um tilvist bóka, sem þá voru glataðar, en væntanlega hefur hann haft upplýsingar úr visitasíum eða staðarúttektum. Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík II. Skjalasöfn klerkdómsins. Reykjavík 1905–1906, bls. 50, 89, 126, 127.
37 Lovsamling for Island VII, bls. 446–449.
38 Lovsamling for Island VII, bls. 485–486.
39 ÞÍ. Bps. C. II, 1. Prestastefnubók Geirs biskups Vídalín, Steingríms biskups Jónssonar og Helga biskups Thordersen 1811–1858, bls. 14 (33. liður); ÞÍ. Bps. C. III, 8. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1814–1816, bls. 112–133, 429–430.
40 ÞÍ. Kirknasafn. Desjarmýri BA/1 og 2. Prestsþjónustubækur 1773–1823 og 1817–1849; ÞÍ. Kirknasafn. Dvergasteinn/Seyðisfjörður BA/1 og 2. Prestsþjónustubækur 1786–1829 og 1816–1854.
41 Manntal 1816. Reykjavík 1947–1974.
42 Lovsamling for Island X, bls. 334–337, 633–634; XV, 236.
43 Þessi fyrirmæli hafa ekki verið prentuð en heimildir eru í skjalasöfnum biskupsstofu og dóms– og kirkjumálaráðuneytisins. Er hér stuðst við afrit af bréfum biskups til presta, 28. júlí 2000, og til presta, sem hafa látið af embætti, 25. október 2000, og leiðbeiningar, sem prentaðar eru inn á kápur nýju prestsþjónustubókanna.
44 Vef. https://www.althingi.is/altext/stjt/2006.051.html, sótt 27. september 2017.
45 Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2–3.
46 Alþingistíðindi 1944 A, bls. 372–373.
47 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1945003.html, sótt 27. september 2017. — Lítils háttar breytingar voru gerðar með lögum nr. 10/1983, nr. 36/2002 og nr. 88/2008, Stjórnartíðindi 1983 A, bls. 13 (14. grein) og Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008088.html, sótt 27. september 2017.
48 Stjórnartíðindi 1985 A, 207 (6. grein); Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2014077.html, (15. grein), sótt 27. september 2017.
49 ÞÍ. Kirknasafn. Þingvellir BA/6. Prestsþjónustubók Úlfljótsvatns 1883–1952.
50 Stjórnartíðindi 1911 A, bls. 192–195.
51 Stjórnartíðindi 1886 A, bls. 16–23 (sjá 1., 5. 13. og 14. grein).
52 Stjórnartíðindi 1975 A, bls. 60 ( 17. grein).
53 Stjórnartíðindi 1999 A, bls. 236–239 (sjá 7. grein); Vef. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999108.html, sótt 27. september 2017.
54 Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77; Vef. https://www.althingi.is/altext/stjt/2002.036.html, sótt 27. september 2017.
55 Stjórnartíðindi 1882 A, bls. 66–69.
56 ÞÍ. Kirknasafn. Seltjarnarnesþing/Dómkirkjan í Reykjavík BA/23. Prestsþjónustubók 1935–1945, fæddir í Reykjavík en lögheimili utanbæjar.
57 ÞÍ. Kirknasafn. Langholtsprestakall A BA/5–7. Prestsþjónustubækur 1954–1959, 1959–1965, 1966–1979, skírðir utansóknar.
58 ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994–D/61. Ýmislegt II, IV, VIII (örk 8).
59 ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðsins KI/9. Innkomin bréf og önnur skjöl 1751–1752; ÞÍ. Kirknasafn. Suður–Múlaprófastsdæmi AA/2. Visitasíubók 1751–1785.
60 Þegar talað er um ministerialbækur í þessum skýrslum, virðist átt við bæði prestsþjónustubækur og sálnaregistur (sálnaregistur ungdómsins).
61 ÞÍ. Kirknasafn. Suður–Múlaprófastsdæmi AA/2. Visitasíubók 1751–1785.
62 ÞÍ. Bps. A. IV, 16, bls. 431–432.