Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Prósentuskattur / hundraðsskattur

Extra-paabud, procentoskat

Aukaskattur til tveggja ára var lagður á embættismenn í Noregi með tilskipun 14. maí 1768. Hún var birt á alþingi árið eftir. Allir úr andlegri stétt skyldu greiða 10 prósent skatt af tekjum, aukatekjum, ívilnunum og öðrum vissum og óvissum tekjum. Allir í veraldlegri stétt, sem fengju laun eða eftirlaun frá konungi, skyldu greiða skatt eftir ákveðnum reglum:

  1. 500 ríkisdala laun og meira, 10 prósenta skattur,
  2. 450–500 ríkisdala laun, 9 prósenta skattur,
  3. 400–450 ríkisdala laun, 8 prósenta skattur,
  4. 350–400 ríkisdala laun, 7 prósenta skattur,
  5. 300–350 ríkisdala laun, 6 prósenta skattur,
  6. 250–300 ríkisdala laun, 5 prósenta skattur,
  7. 200–250 ríkisdala laun, 4 prósenta skattur,
  8. 150–200 ríkisdala laun, 3 prósenta skattur,
  9. 150–100 ríkisdala laun, 2 prósenta skattur. Þetta náði einnig til aukatekna, vissra og óvissra. Skattlausir voru þeir, sem höfðu minna en 100 ríkisdali í laun eða eftirlaun árlega.

Skattgjaldið náði líka til embættismanna, sem ekki fengu laun en nutu tekna af jarðeignum, tíundum eða öðru, sem þeim var lagt til vegna embættisskyldu eða af náð, ef tekjurnar náðu 100 ríkisdölum eða meira.

Samfara þessu skyldi aukaskattur lækkaður á þeim, sem greiddu þennan prósentuskatt.1Alþingisbækur Íslands XV, bls. 147–149; Lovsamling for Island III, bls. 618–621.

Tilskipun um framlengingu prósentuskattsins í Noregi var gefin út 12. júní 1770 og tilkynnt Skúla Magnússyni landfógeta með bréfi 21. mars 1772 og birt á alþingi sama ár.2Lovsamling for Island III, bls. 682–684, 743–744; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 280–281.

Tollkammerið sendi stiftamtmanni reglur um, hvernig embættismenn skyldu telja fram til prósentuskatts, 24. maí 1775, og var útdráttur úr þeim birtur á alþingi sama ár.3Lovsamling for Island IV, bls. 154–159; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 433–435.

Prósentuskattur var liður í Jarðabókarsjóðsreikningum landfógeta, en ekki færðar um hann sérstakar bækur.

Þessi embættismannaskattur (extra paabud) var afnuminn í Danmörku með tilskipun 8. janúar 1845 og álitinn eiga að falla niður á Íslandi samkvæmt bréfi kansellís til rentukammers 15. apríl 1847, en konungsúrskurður um slíkt var ekki gefinn út fyrr en 31. október 1848.4Lovsamling for Island XIII, bls. 184–185, 670–671; Lovsamling for Island XIV, bls. 200–203.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Alþingisbækur Íslands XV, bls. 147–149; Lovsamling for Island III, bls. 618–621.
2 Lovsamling for Island III, bls. 682–684, 743–744; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 280–281.
3 Lovsamling for Island IV, bls. 154–159; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 433–435.
4 Lovsamling for Island XIII, bls. 184–185, 670–671; Lovsamling for Island XIV, bls. 200–203.