Aukaskattur

Síðast breytt: 2021.05.26
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín
(Extrapaabud)

Aukaskatti var komið á í Noregi með tilskipun 23. september 1762. Skyldi hann nýttur til þess að efla herinn og áttu allir að greiða skattinn, karlar og konur, sem náð hefðu 12 ára aldri. Tilskipunin var ekki birt á Íslandi.1Lovsamling for Island III, bls. 450–455. Tilskipun um breytingar á aukaskattinum var gefin út 7. febrúar 1764 og var almúgi undanþeginn skattheimtu. Hún birtist ekki heldur á Íslandi.2Lovsamling for Island III, bls. 496–500. Með konungsúrskurði 12. júlí 1765 var ákveðið, að skattinn skyldu einungis greiða embættismenn, klaustur- og umboðshaldarar og jarðeigendur sem hefðu yfir 100 ríkisdali í tekjur árlega. Þar með voru talin laun, aukatekjur og tekjur af jarðeignum. Gilti það fyrir þá sjálfa, konur þeirra og börn 16 ára og eldri svo og þjónustufók þeirra, en þau síðastnefndu skyldu endurgreiða húsbændunum. Skattheimtan var miðuð við upphaf ársins 1765.3Lovsamling for Island III, bls. 529–530; sbr. Alþingisbækur Íslands XV, bls. 17, 57. Fyrr hafði rentukammer skrifað amtmanni um þetta mál, 22. júní 1765, og má þar sjá, að þar var leitað fyrirmyndar í skattheimtu vegna heimanfylgju prinsessu, sem Íslendingar voru krafðir um árið 1752.4Lovsamling for Island III, bls. 527–529; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 21, 96, 119-121; Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 78 (6. liður). Vegna fjárkláðans voru prestar, sýslumenn og álíka embættismenn, sem og klaustur- og umboðshaldar og jarðeigendur, sem hefðu aðaltekjur sínar af sauðfé eða réttindum því tengdum, undanþegnir því að greiða aukaskatt vegna þjónustufólks síns með konungsúrskurði 17. mars 1767.5Lovsamling for Island III, bls. 561–562; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 57 (3. liður). Þegar prósentuskattur, sem gilda átti í tvö ár, var lögboðinn (í Noregi 1768, á Íslandi 1769), lækkaði aukaskattur á prósentuskattsgjaldendunum.6Alþingisbækur Íslands XV, bls. 148–149 (7. liður); Lovsamling for Island I, bls. 620 (7. liður) . Aukaskatturinn var afnuminn með konungsúrskurði 20. mars 1775 og skuldir gefnar eftir.7Lovsamling for Island IV, bls. 122–123; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 425 (3. liður).

Landfógeti annaðist reikningshald vegna aukaskattsins og liggja reikningarnir í skjalasafni hans, oft tengdir nafnbótarskattsreikningum. Sjá Nafnbótarskattur.8Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904. Þjóðskjalasafn Íslands. Reykjavík 1986, bls. 86..

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island III, bls. 450–455.
2 Lovsamling for Island III, bls. 496–500.
3 Lovsamling for Island III, bls. 529–530; sbr. Alþingisbækur Íslands XV, bls. 17, 57.
4 Lovsamling for Island III, bls. 527–529; sbr. Lovsamling for Island III, bls. 21, 96, 119-121; Alþingisbækur Íslands XIV, bls. 78 (6. liður).
5 Lovsamling for Island III, bls. 561–562; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 57 (3. liður).
6 Alþingisbækur Íslands XV, bls. 148–149 (7. liður); Lovsamling for Island I, bls. 620 (7. liður) .
7 Lovsamling for Island IV, bls. 122–123; Alþingisbækur Íslands XV, bls. 425 (3. liður).
8 Björk Ingimundardóttir: Skjalasafn landfógeta 1695–1904. Þjóðskjalasafn Íslands. Reykjavík 1986, bls. 86.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 32