Saga sóknarmannatala
Til er nokkurs konar sóknarmannatal frá Þykkvabæjarklaustri frá 1744. Er það sambærilegt við svokölluð sóknarmannatöl ungdómsins, sem kunn eru frá 18. öld og fjallað verður um hér á eftir. Á fyrstu síðu Þykkvabæjarklaustursmanntalsins segir:
Hussvitian. Þad er registur yfer ungdom og ingessfolk sem ej hefur gefed sig i hionaband og sier uppehelldur i Þychvabæjar closturs kirkiusokn, giort og samanteked in visitiatione domestica sacerdotalj Anno salutis 1744 af Jone Jonssyne dag 17 decembris, 18, 28, 29 og 30 decembris.1ÞÍ. Kirknasafn. Þykkvabæjarklaustur BC/1. Sóknarmannatal 1744.
Þetta einstaka sóknarmannatal getur verið byggt á ákvæði í 3. grein tilskipunar um fermingu frá árinu 1736, sem lögleidd var með konungsbréfi 9. júní 1741, þar sem segir, að kennarinn í söfnuðinum verði í tíma að gera skrá yfir þau börn, sem ætli að ganga til guðsborðs, ef mögulegt sé.2Lovsamling for Island II, bls. 228–229. Í 21. grein tilskipunar um húsvitjanir, 27. maí 1746, segir svo:
Og uppá það presturinn því heldur kynni að vita og minnast fundins ásigkomulags síns safnaðar og gjöra skil fyrir því, nær þess af biskupinum eður voru kirkju inspections-collegio kann að verða óskað, þá skal það hér með öllum prestum á Íslandi allranáðugast verða befalað, að einn og sérhvör af þeim samantaki yfir hans tiltrúaðan söfnuð eitt manntals registur uppá gamla og unga, gifta og ógifta og í því sama í vissum dálkum innfæra eins og sérhvers tilstand og ásigkomulag, hvaða grundvöll þeir hafa í sínum kristindómi, hvört þeir kunni að lesa á bók eður ei, hvað mörg börn og hjú þeir hafi, þeirra þekking og framferði, hvörninn þeim er stjórnað, hvaða bók þar brúkast til daglegs hús-lesturs og guðhræðslunnar iðkunar, hvörninn að þeir öldruðu veita forstöðu þeirra húsi, hvört þeir eru allir ástundunarsamir og samhuga með öðru fleira.3Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 537–538; Lovsamling for Island II, bls. 575–576.
Einnig segir í 31. grein erindisbréf biskupa, 1. júlí s.á., að biskup skuli bjóða prestum sínum að halda sálnaregistur, einkanlega yfir æskulýðinn. Sú grein er enn (2017) í gildi.4Lovsamling for Island II, bls. 657–658; Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1746017.html, sótt 23. nóvember 2017.
Viðbrögð presta við þessum boðum urðu mismunandi, bæði hvort sóknarmannatöl voru gerð og hvernig þau voru færð. Mikill munur er milli biskupsdæmanna varðandi síðara atriðið. Úr Hólabiskupsdæmi eru aðeins til sóknarmannatöl úr örfáum sóknum fyrir 1784. Í þeim öllum kemur fram svonefnt sálnaregistur ungdómsins, þ.e. skráðir eru einstaklingar á aldrinum 7–20 ára. Eru til 5 sóknarmannatöl úr Hólabiskupsdæmi með þessu formi eingöngu og 2 blönduð. Mun fleiri sóknarmannatöl eru varðveitt úr Skálholtsbiskupsdæmi og meiri vitneskja um færslu sóknarmannatala þar, en þar eru almenn sóknarmannatöl yfirgnæfandi.5Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, Saga XXV, bls. 53–54, 58–63, 78–80.
Ýmsar ástæður munu fyrir því, að sóknarmannatölin voru færð svo mismunandi. Í erindisbréfi biskupa 1746 segir, eins og áður hefur verið nefnt, að prestar skuli halda:
d. skipulegt sálnaregistur, einkum yfir nöfn æskulýðsins, aldur, lestur og framfarir.
Halldór Brynjólfsson, biskup á Hólum, sendi árið 1748 próföstum í biskupsdæminu umburðarbréf með eyðublaðsformi, þar sem m.a. er „Formulair uppä Salna Registur yfir Ungdomenn“.6ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1. Endurritabók 1748–1810, bls. 3–5, 7–8; ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/6. Innkomin bréf og önnur skjöl 1748 (bréf dagsett 26. september 1748, sjá 4. lið í meðfylgjandi prestastefnugerð). Einnig hefur Ludvig Harboe e.t.v. haft hér einhver áhrif, en hann lét presta í Hólabiskupsdæmi yfirheyra æskulýðinn í sinni áheyrn og skráði niðurstöðurnar.7ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/3. Innkomin bréf og önnur skjöl 1741–1743 (bréf dagsett 9. september 1742 (skýrsla 8. s.m.) og 17. september 1743). Þetta hefur án efa haft sín áhrif innan þess biskupsdæmis, en í Skálholtsbiskupsdæmi krafði Harboe prestana óbeinna upplýsinga um allan söfnuðinn og hve margir teldust læsir. Yfirvöld gengu einnig eftir því, að skilað væri skýrslum um fjölda æskufólks og kunnáttu þess í lestri og kristindómi m.a. Þetta hefur ýtt undir Hólabiskupa, sem ekki voru eins nákvæmir í embættisfærslu og Skálholtsbiskupar, að láta sóknarmannatöl ungdómsins nægja.8Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 53–55, 57.
Heimildaskortur kemur í veg fyrir ályktanir um almenna færslu sóknarmannatala ungdómsins í Hólabiskupsdæmi, en eftirfarandi orð Jóns Teitssonar, Hólabiskups, í umburðarbréfi til prófasta 15. febrúar 1781 um sóknarskýrslur gætu bent til þess, að þau hafi verið mun almennari en talið hefur verið:
2°, um confirmatos að þeirra general listi setjist útaf öllum hinum í eitt og að engir listar eða sálnaregistur upp á catechumenos eða ungdóminn setjist þar inni eða sendist til biskupsins. Því þeir eiga að vera: a) sálusorgaranum til eftirréttingar í ungdómsins þekkingu, og b) til að framvísa biskupi og prófasti í þeirra visitatium.9ÞÍ. Bps. B. V, 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar 1779–1784 og Jóns biskups Teitssonar 1780–1781, bls. 104–105.
Þetta staðfestir þær ályktanir, sem dregnar voru af visitasíuskýrslum Hólabiskupa í greininni um Prestsþjónustubækur, ministerialbækur, kirkjubækur. Í Skálholtsbiskupsdæmi var á hinn bóginn lögð mikil áhersla á færslu almennra sóknarmannatala þegar frá upphafi eins og fram kemur í visitasíuskýrslum biskupanna Ólafs Gíslasonar og Finns Jónssonar.10Sjá t.d. ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/7. Innkomin bréf og önnur skjöl 1749 (bréf dagsett 10. apríl 1749) og KI/12. Innkomin bréf og önnur skjöl 1756 (bréf dagsett 2. ágúst 1756); Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 58–64, 70.
Samvisku- og reglusemi presta við sóknarmannatalagerðina hefur hins vegar verið mjög mismunandi. Í bréfi Finns Jónssonar 15. desember 1756 til presta í Árnessýslu eru prestarnir áminntir um að færa lögboðnar bækur og krafðir sérstaklega um að senda afrit eða útdrátt úr sálnaregistrum, sem biskup hafði boðið þeim að gera. Urðu allir prestarnir nema tveir við þessum tilmælum.11ÞÍ. Bps. A. IV, 15. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1754–1759, bls. 348–365 (sérstaklega bls. 360–361), 425; ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/12 (skýrslan er dagsett 25. júlí 1757, en liggur með bréfi Hólabiskups dagsettu 23. september 1756). En nú eru aðeins til sóknarmannatöl úr þremur prestaköllum í Árnessýslu, sem byrja 1757 eða fyrr. Til þess að koma góðri reglu á færslu sóknarmannatala sendi Finnur biskup prestum sínum fyrirmynd að gerð þeirra. Byrjaði hann á prestum í Kjalarnesþingi með bréfi 25. nóvember 1758, og síðan barst hún um biskupsdæmið í kjölfar yfirreiða biskups.12ÞÍ. Bps. A. IV, 33. Biskupsbréf (umburðarbréf) 1724–1800 (bréf dagsett 25. nóvember 1758); ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sérstaklega bls. 26–28) o.s.frv. Til þessa forms mun Hannes Finnsson, biskup, væntanlega vísa í bréfi sínu 2. janúar 1784, þar sem segir:
E. Sálnaregistrin eiga árlega að haldast eftir því formi, sem áður hefur prestunum sent verið.13ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 783.
Allsherjar breyting á færslu sóknarmannatala verður í báðum biskupsdæmunum á árunum 1784 og 1785. Þá fara prestar yfirleitt að taka slík manntöl. Hvatanna að því er að leita í dreifibréfi Hannesar Finnssonar til prófasta frá 2. janúar 1784 og dreifibréfi Árna Þórarinssonar, Hólabiskups, 24. nóvember 1784.14ÞÍ. Bps. A. IV, 22, bls. 779–788; ÞÍ. Bps. B. V, 11. Bréfabók Árna biskups Þórarinssonar 1783–1787, bls. 26–28, sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Melstaður CD/1. Endurritabók 1753–1807, bls. 191–208. (Leiðbeiningar um sóknarmannatöl eru á bls. 207–208).
Það form, sem þeir biskupar, Hannes Finnsson og Árni Þórarinsson, lögðu fyrir presta sína, var alllengi við lýði í aðalatriðum, og sum atriðin, þ.e. nafn, aldur og staða, voru fastir liðir, meðan sóknarmannatöl voru færð.15Árni Þórarinsson var prestur í Skálholtsbiskupsdæmi, áður en hann varð biskup, og hefur því þekkt til þess forms, sem komið var frá Finni Jónssyni.
Ef menn vilja athuga, hvaða upplýsingar koma fram í sóknarmannatölum, má taka bækur frá Kálfafelli í Fljótshverfi sem dæmi. Þær ná yfir árin 1748–1880, þó ekki alveg samfellt. Efnisatriði fyrstu áranna eru: Nöfnin (bæjarnafn, mannanöfn), aldur, til sakramentis, lesandi, kann katekismus, hvort meira en Fræðin (kunnátta meiri en það allra nauðsynlegasta í kristindómi, þ.e. hafa lært meira en Fræði Lúthers hin minni), stand og háttalag. Nýtt form kom árið 1775: Bæjanöfn, mannanöfn, stand, aldur, læs, til guðsborðs, konfirmeraður, kann, hegðun og breytni, bækur, sem brúkast í húsinu. Þessi atriði héldust til 1880 a.m.k., en hvort þau voru skráð öll eða færri, fór eftir prestum. Þá bættu prestar jafnvel við atriðum eins og prestur til Hvanneyrar í Siglufirði um miðja 19. öld, sem hafði sérstakan dálk fyrir skilning.
Oft eru umsagnir um lestrar- og kristindómskunnáttu eingöngu hjá ófermdum börnum eða nýfermdum unglingum, stundum einnig hjá vinnufólki eða einstökum heimilismönnum.
Ummæli presta um hegðun og breytni sóknarbarnanna verður oft að taka með miklum fyrirvara. Þau bregða ljósi á samkomulag prests og sóknarfólks, á stundum a.m.k. Nútímamanni þykir t.d. skoplegt að lesa umsagnir séra Guðmundar Erlendssonar á Klyppsstað í Loðmundarfirði um hjörð þá, sem hann átti að annast árin 1800–1826. En prestur var hreint ekki með öllum mjalla, og kom það fram í samskiptum hans við sóknarbörnin.16Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár II. Reykjavík 1942, bls. 142 (Guðmundur Erlendsson).
Húsvitjanir og sóknarmannatalsskráningar virðast lengi framan af nokkuð lausar í reipum. Víða eru eyður í sóknarmannatöl, lengri eða skemmri, hvort sem um er að kenna trassaskap við innfærslur, bókaglötun eða pappírsleysi. Stundum létu prestar sér nægja að geta eingöngu um breytingar milli ára. Þá getur tíðum orðið býsna erfitt að ætla á, hvenær ársins sóknarmannatal er tekið. Það er ekki fyrr en mjög er liðið á 19. öld, að prestar virðast almennt miða við síðustu mánuði árs eða árslok í sóknarmannatölum. Hafa þarf í huga, að sóknarmannatöl eru oft mynduð úr kverum, ekki heilum bókum. Kverin munu síðar hafa bundin í bækur, þegar þau komu í Þjóðskjalasafn Íslands.17Allstór hluti eldri sóknarmannatala ber þess vitni, að þau hafa verið bundin inn í samstætt band og gyllt á kjöl. Það hefur væntanlega verið gert á bókbandsstofu Landsbókasafns.
Upp úr 1880 fóru að komast í notkun sóknarmannatöl með prentuðu formi. Margir prestar notuðu lengi eftir það óprentaðar bækur en tóku upp atriði prentuðu bókanna: Heimili, mannanöfn, stétt, aldur, fermdur (fermd), álit um, hvernig börnin væru að sér (í lestri, kristindómi, skrift og reikningi), athugasemdir.
Frá 20. öld eru til 2 gerðir sóknarmannatala. Í eldri gerðinni koma fram þessi atriði: Bæjanöfn, mannanöfn, atvinna, fæðingarár og dagur, fæðingarstaður, kunnátta barna (kristindómur, lestur, skrift, reikningur), heimili næsta ár áður, athugasemdir. Sú yngri hefur hins vegar: Býli, tala, nöfn, staða, aldur, fæðingardagur og ár, fæðingarstaður, kirkjufélag, fermdir, heimili árið áður, athugasemdir.
Miklar breytingar urðu á íbúaskráningu á 20. öld og færsla sóknarmannatala lagðist niður. Um þær breytingar er fjallað í Heimilisfang, aðsetur og skráningarskylda presta.
Árið 1945 voru sett lög um tvöfalda færslu prestsþjónustubóka og sóknarmannatala (manntalsbóka/sálnaregistra) nr. 3/1945, 12. janúar. Prestur skyldi færa bók fyrir allt prestakallið, en sóknarnefndarformenn í hverri sókn fyrir sínar sóknir. Síðarnefndu sóknarmannatölin skyldu borin saman við sóknarmannatöl prests a.m.k. árlega. Ákvæðið um manntalsbækur náði þó ekki til kaupstaða, þar sem öðrum en prestum var falið að skrá manntal lögum samkvæmt.18Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2 (1. grein). Ekki verður séð, að fyrirmælin hafi verið virt.
Sóknarmannatöl eru góð heimild um íslenska menningarsögu. Þó ber að taka þau með varúð eins og minnst hefur verið á hér á undan í sambandi við samkomulag prests og safnaðar. Aldursskráning í sóknarmannatölum er mjög á reiki og verður að taka með fyrirvara. Annars hefur heimildagildi sóknarmannatala í einstökum atriðum ekki verið kannað.19Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 49–50.
Með lögum nr. 36/2002, 16. apríl, var gerð breyting á lögum nr. 3/1945 um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), þannig að framvegis skyldi þjóðkirkjan og önnur skráð trúfélög greiða fyrir kirkju- og manntalsbækur, sem þau færðu. Tók breytingin strax gildi.20Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77. Raunar má segja, að breytingin sé marklaus, hvað manntalsbækur snertir, þar sem manntalsbækur eru ekki færðar.
Í dansk-norska ríkinu, sem Ísland var hluti af, þekkjast sóknarmannatöl á Íslandi, Grænlandi og í Noregi.21Nordatlanten og Troperne. Forvaltningshistoriske kilder fra Færøerne, Grønland, Island og Tropekoloniern. København 2007, bls. 166–170. Grænlensku sóknamannatölin ná aðeins til Grænlendinga í trúboðssöfnuðum. Annarra, svo sem óskírðra og Dana, er yfirleitt ekki getið. Elsta grænlenska sóknarmannatalið er frá árinu 1797. Þau voru tekin fram yfir 1960, en varðveislan er mjög brotakennd. — Ætlað er, að í Noregi hafi verið samin „sjeleregister“ með fárra ára millibili í flestum prestaköllum á tímabilinu 1730–1830, en aðeins fá hafa varðveist. Mjög er mismunandi, hvað kemur fram í norsku sálnaregistrunum, og tæpast hægt að skilgreina þau með nákvæmni. Johannes Helgheim, „Sjeleregister som kjeldemateriale“, Heimen. Landslaget for bygde og byhistorie. Bind XVII. Universitetsforlaget Oslo–Bergen–Tromsø, bls. 269–275, 560. Í Svíþjóð og Finnlandi, sem var hluti af sænska ríkinu til ársins 1809, voru svokallaðar „husförhörslängder“ sambærilegar.22Vef. Skatteverket. http://www.skatteverket.se/privat/folkbokforing/omfolkbokforing/folkbokforingigaridag/densvenskafolkbokforingenshistoriaundertresekler.4.18e1b10334ebe8bc80004141.html, 5. september 2012.
Varðveisla sóknarmannatala
Hér verða talin sálnaregistur, sem til eru frá árunum 1744-1783.23Enginn greinarmunur er hér gerður á sálnaregistrum ungdómsins og öðrum sóknarmannatölum. Nái bækurnar ekki fram til 1784, en framhald hefur orðið á skráningunni, er þess getið innan sviga. Ekki hefur enn verið gerð nein heildarkönnun á því, hvar sóknarmannatöl hafi verið til með vissu og yfir hvaða ár þau hafi náð. Röðun er samkvæmt aldri:
Sálnaregistur 1744–1783
1744 | Þykkvabæjarklaustur 1744 |
1748 | Hrafnseyri 1748-1780 (slitrótt) |
Kálfafell í Fljótshverfi 1748-1782 | |
Svalbarð í Þistilfirði 1748-1759, 1762-1784 | |
Þóroddsstaður 1748-1762 | |
1751 | Eyvindarhólar 1751-1782 |
Hallormsstaður 1751-1793 (slitrótt) 24Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 80. Loftur telur, að sóknarmannatal Hallormsstaðar byrji árið 1748. Skrifað hefur verið ofan í ártalið, og ekki verður greint með neinni vissu, hvað sé hið rétta. | |
1752 | Hruni 1752-1766, 1768-1795 |
1753 | Hrafnagil 1753-1767, 1769-1783 |
1754 | Mosfell í Grímsnesi 1754-1799 |
Reykholt 1754-1783 | |
1756 | Landþing 1756-1777 |
1757 | Myrká 1757-1765, 1755-1784 |
Torfastaðir 1757-1758, 1758-1836 | |
1758 | Hvalsnes 1758-1790 |
Kjalarnesþing 1758 | |
Seltjarnarnesþing 1758, 1769-1771 | |
1759 | Ríp 1759-1766 |
Tröllatunga 1759-1784 | |
1760 | Staður á Reykjanesi 1760-1783 (slitrótt) |
1761 | Holt í Önundarfirði 1761 |
Mælifell 1761-1784 | |
1762 | Eydalir 1762-1768, 1771-1793 |
Reynivellir 176225Í skrám Þjóðskjalasafns hefur þetta manntal verið talið frá árinu 1763. En sé það borið saman við manntal 1762 kemur í ljós, að aldri bænda og húsfreyja ber saman. En sóknarmannatalið, sem e.t.v. hefur verið gert vegna manntalsins, telur alla heimilismenn. , 1766-1796 | |
Þönglabakki 176226Hannes Þorsteinsson taldi manntal þetta frá því um 1759, en Jón Þorkelsson frá árinu 1762. Nöfn ábúenda og aldur eru samhljóða manntali 1762. Er þetta sambærilegt manntalinu frá Reynivöllum. | |
1764 | Húsafell 1764-1774 (slitrótt) |
1766 | Ólafsvellir 1766-1783 |
1769 | Skarðsþing 1769-1784 (mjög slitrótt) |
1770 | Hólar í Hjaltadal 1770(?), 1776-1782 |
Hraungerði 1770-1789 | |
Melar 1770-1798 | |
Þingmúli 1770-1784 | |
1772 | Berufjörður 1772-1785 |
1773 | Hvammur í Hvammssveit 1773-1783 (Staðarfellssókn) |
1775 | Holt undir Eyjafjöllum 1775-1794 |
1776 | Hítardalur 1776-1850 (skert) |
1777 | Hólmar 1777-1779, 1784-1795 |
1779 | Kálfholt 1779 |
1780 | Prestsbakki í Hrútafirði 1780-1797 |
Sauðlauksdalur 1780, 1782 | |
1781 | Fljótshlíðarþing 1781-1806 |
Vatnsfjörður 1781-1802 | |
1782 | Árnes 1782-1795 |
Kvennabrekka 1782-1810 | |
Miðdalaþing 1782, 1788 | |
Reykjadalur 1782-1799 | |
Setberg 1782-1854 (mjög slitrótt framan af) | |
1783 | Keldnaþing 1783-1816 |
Kirkjubæjarklaustur 1783 (Sjá Lbs. 1552 4to). | |
Stafholt 1783-1800 | |
Valþjófsstaður 1783-1805 |
Tilvísanir
↑1 | ÞÍ. Kirknasafn. Þykkvabæjarklaustur BC/1. Sóknarmannatal 1744. |
---|---|
↑2 | Lovsamling for Island II, bls. 228–229. |
↑3 | Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 537–538; Lovsamling for Island II, bls. 575–576. |
↑4 | Lovsamling for Island II, bls. 657–658; Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1746017.html, sótt 23. nóvember 2017. |
↑5 | Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, Saga XXV, bls. 53–54, 58–63, 78–80. |
↑6 | ÞÍ. Kirknasafn. Grundarþing CD/1. Endurritabók 1748–1810, bls. 3–5, 7–8; ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/6. Innkomin bréf og önnur skjöl 1748 (bréf dagsett 26. september 1748, sjá 4. lið í meðfylgjandi prestastefnugerð). |
↑7 | ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/3. Innkomin bréf og önnur skjöl 1741–1743 (bréf dagsett 9. september 1742 (skýrsla 8. s.m.) og 17. september 1743). |
↑8 | Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 53–55, 57. |
↑9 | ÞÍ. Bps. B. V, 10. Bréfabók Hálfdanar officialis Einarssonar 1779–1784 og Jóns biskups Teitssonar 1780–1781, bls. 104–105. |
↑10 | Sjá t.d. ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/7. Innkomin bréf og önnur skjöl 1749 (bréf dagsett 10. apríl 1749) og KI/12. Innkomin bréf og önnur skjöl 1756 (bréf dagsett 2. ágúst 1756); Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 58–64, 70. |
↑11 | ÞÍ. Bps. A. IV, 15. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1754–1759, bls. 348–365 (sérstaklega bls. 360–361), 425; ÞÍ. Skjalasafn kirkjustjórnarráðs KI/12 (skýrslan er dagsett 25. júlí 1757, en liggur með bréfi Hólabiskups dagsettu 23. september 1756). |
↑12 | ÞÍ. Bps. A. IV, 33. Biskupsbréf (umburðarbréf) 1724–1800 (bréf dagsett 25. nóvember 1758); ÞÍ. Bps. A. IV, 16. Bréfabók Finns biskups Jónssonar 1760–1764, bls. 3–34 (sérstaklega bls. 26–28) o.s.frv. |
↑13 | ÞÍ. Bps. A. IV, 22. Bréfabók Hannesar biskups Finnssonar 1781–1784, bls. 783. |
↑14 | ÞÍ. Bps. A. IV, 22, bls. 779–788; ÞÍ. Bps. B. V, 11. Bréfabók Árna biskups Þórarinssonar 1783–1787, bls. 26–28, sbr. ÞÍ. Kirknasafn. Melstaður CD/1. Endurritabók 1753–1807, bls. 191–208. (Leiðbeiningar um sóknarmannatöl eru á bls. 207–208). |
↑15 | Árni Þórarinsson var prestur í Skálholtsbiskupsdæmi, áður en hann varð biskup, og hefur því þekkt til þess forms, sem komið var frá Finni Jónssyni. |
↑16 | Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár II. Reykjavík 1942, bls. 142 (Guðmundur Erlendsson). |
↑17 | Allstór hluti eldri sóknarmannatala ber þess vitni, að þau hafa verið bundin inn í samstætt band og gyllt á kjöl. Það hefur væntanlega verið gert á bókbandsstofu Landsbókasafns. |
↑18 | Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2 (1. grein). |
↑19 | Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 49–50. |
↑20 | Stjórnartíðindi 2002 A, bls. 77. |
↑21 | Nordatlanten og Troperne. Forvaltningshistoriske kilder fra Færøerne, Grønland, Island og Tropekoloniern. København 2007, bls. 166–170. Grænlensku sóknamannatölin ná aðeins til Grænlendinga í trúboðssöfnuðum. Annarra, svo sem óskírðra og Dana, er yfirleitt ekki getið. Elsta grænlenska sóknarmannatalið er frá árinu 1797. Þau voru tekin fram yfir 1960, en varðveislan er mjög brotakennd. — Ætlað er, að í Noregi hafi verið samin „sjeleregister“ með fárra ára millibili í flestum prestaköllum á tímabilinu 1730–1830, en aðeins fá hafa varðveist. Mjög er mismunandi, hvað kemur fram í norsku sálnaregistrunum, og tæpast hægt að skilgreina þau með nákvæmni. Johannes Helgheim, „Sjeleregister som kjeldemateriale“, Heimen. Landslaget for bygde og byhistorie. Bind XVII. Universitetsforlaget Oslo–Bergen–Tromsø, bls. 269–275, 560. |
↑22 | Vef. Skatteverket. http://www.skatteverket.se/privat/folkbokforing/omfolkbokforing/folkbokforingigaridag/densvenskafolkbokforingenshistoriaundertresekler.4.18e1b10334ebe8bc80004141.html, 5. september 2012. |
↑23 | Enginn greinarmunur er hér gerður á sálnaregistrum ungdómsins og öðrum sóknarmannatölum. |
↑24 | Loftur Guttormsson, „Við rætur kirkjulegs regluveldis á Íslandi“, bls. 80. Loftur telur, að sóknarmannatal Hallormsstaðar byrji árið 1748. Skrifað hefur verið ofan í ártalið, og ekki verður greint með neinni vissu, hvað sé hið rétta. |
↑25 | Í skrám Þjóðskjalasafns hefur þetta manntal verið talið frá árinu 1763. En sé það borið saman við manntal 1762 kemur í ljós, að aldri bænda og húsfreyja ber saman. En sóknarmannatalið, sem e.t.v. hefur verið gert vegna manntalsins, telur alla heimilismenn. |
↑26 | Hannes Þorsteinsson taldi manntal þetta frá því um 1759, en Jón Þorkelsson frá árinu 1762. Nöfn ábúenda og aldur eru samhljóða manntali 1762. Er þetta sambærilegt manntalinu frá Reynivöllum. |