Heimilisfang, aðsetur og skráningarskylda presta

Síðast breytt: 2020.05.25
Slóð:
Áætlaður lestími: 4 mín

Bændasamfélagið gamla gerði ráð fyrir fastri búsetu manna. Í svonefndum Píningsdómi árið 1490 var kveðið á um, að engir búðsetumenn skyldu vera í landinu, þeir sem eigi hefðu búfé til þess að fæða sig við. Allir karlar og konur, sem áttu þrjú hundruð eða minna, voru skyldug til þess að vinna hjá bændum.1Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 704–705; Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Reykjavík 1987, bls. 32–38. Leitast var við af fremsta megni að halda ástandinu óbreyttu og dæmi um það má sjá í lögum nr. 60/1907, 22. nóvember, um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn. Þar segir m.a.:

1. gr. Þeir menn eru eigi skyldir til að vera í vist, er hafa 200 kr. eða meira í árságóða af fasteignum eða öðru fé.

2. gr. Hverjum þeim manni, sem er 20 ára að aldri, eða að fullu fjár síns ráðandi, þótt yngri sé, er heimilt að leysa sig undan vistarskyldunni með því að taka leyfisbréf hjá lögreglustjóra.

4. gr. Skylt er hverjum manni, er þannig verður laus, að hafa fast ársheimili, og skal hann tilkynna hlutaðeigandi hreppstjóra eða bæjarfógeta á vori hverju, eigi síðar en 20. júní, hjá hverjum húsráðanda heimili hans er, og sanna það með skírteini frá húsráðanda, ef hreppstjóri eða bæjarfógeti krefst þess.2Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 398–399.

Þjóðfélagsbreytingar á 20. öld kollvörpuðu öllum fyrri venjum, og kom það fram í löggjöfinni, svo sem sjá má af greinargerð með frumvarpi til laga um heimilisfang árið 1936. Þar segir, að í ýmsum lögum sé gert ráð fyrir, að sami maður geti átt lögheimili á fleiri stöðum en einum, svo og að maður eigi ekkert heimilisfang eða lögheimili.3Alþingistíðindi 1936 A, bls. 746–749.

Eftir sem áður sáu prestar um skráningu fólks samkvæmt fyrirmælum um færslu prestsþjónustubóka og sóknarmannatala og um húsvitjanir.4Lovsamling for Island II, bls. 567, 657–658. Raunar hafði orðið sú breyting með lögum um manntal í Reykjavík nr. 18/1901, 18. september, að lögreglustjóri gerði árlega í lok októbermánaðar skrá yfir alla íbúa kaupstaðarins. Þar skyldu skráðir allir, sem ættu fast aðsetur í lögsagnarumdæminu eða hefðu þar dvöl. Með þessu væri létt öllum störfum við manntal og manntalsskráningu í kaupstaðnum af dómkirkjuprestinum, sem var áfram skyldur að halda þess háttar sálnaregistur, að hann gæti samið fólkstalsskýrslu, er prestum bæri að senda prófasti.5Stjórnartíðindi 1901 A, bls. 66–69; Alþingistíðindi 1901 C, bls. 174–177. Manntalsskráning í Reykjavík fluttist frá embætti lögreglustjóra til borgarstjóra með lögum nr. 49/1933, 19. júní.6Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 88.

Bent skal á, að í lögum nr. 3/1945, 12. janúar, um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), 1. grein, um skyldu presta að færa manntalsbók fyrir prestakallið, hljóðar niðurlagið svo:

Ákvæði þessarar greinar um manntalsbækur taka þó ekki til þeirra kaupstaða, þar sem öðrum en prestum er með lögum falið að skrá manntal.7Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2.

Slík ákvæði munu ekki hafa verið til um aðra kaupstaði en Reykjavík, en bæjarstjórnir tekið við skráningu, eftir því sem prestar gáfust upp á henni.8Munnlegar upplýsingar frá Klemensi Tryggvasyni, fyrrverandi hagstofustjóra, árið 1987.

Árið 1952 urðu mikil umskipti varðandi alla aðsetursskráningu, og í kjölfarið féllu sóknarmannatalafærslur nær alveg niður, þótt enn (2017) standi í lögum ákvæði erindisbréfs biskupa 1. júlí 1746 um færslu sóknarmannatala.9Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 27. september 2017 (31. grein, d-liður). Það ár, 10. september 1952, voru gefin út bráðabirgðalög nr. 58/1952 um manntal 16. október og staðfest sem lög nr. 67/1952, 11. nóvember s.á.10Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 120–122, 155–157.. Manntalið skyldi tekið vegna stofnunar spjaldskrár yfir alla landsmenn. Sama ár, 25. nóvember 1952, voru gefin út lög nr. 73/1952 um tilkynningu aðsetursskipta.11Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 160–163. Í athugasemdum með frumvarpinu segir m.a.:

Mun hvergi á landinu vera gengið eftir því, að menn tilkynni bústaðaskipti, nema í Reykjavík, en í lögum nr. 18/1901, um manntal í Reykjavík, eru sérstök ákvæði um tilkynningar bústaðaskipta þar, en þau eru mjög fáorð og ófullkomin.

Einnig er í athugasemdum gerð grein fyrir gerð almennu spjaldskrárinnar og markmiðum.12Alþingistíðindi 1952 A, bls. 424 (í næstsíðustu málsgrein).

Ný lög um almannaskráningu, nr. 31/1956, voru sett 27. mars 1956.13Stjórnartíðindi 1956 A, bls. 152–158. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram, að hin árlegu manntöl hafi verið felld niður að mestu leyti eftir tilkomu árlegrar íbúaskrár, sem allsherjarspjaldskráin hafi látið sveitarstjórnum og skattanefndum í té. Þá segir og:

Með stofnun þjóðskrárinnar er einum opinberum aðila falin yfirstjórn almannaskráningar á öllu landinu. Hún hefur eftirlit með því, að þeir aðilar, sem um almannaskráningu fjalla, þ.e. sveitarstjórnir og sóknarprestar utan kaupstaða, fylgi settum reglum þar um og leysi störf sín vel af hendi.

Enn segir:

Sá meginmunur er á eldri tilhögun þessara mála og hinni nýju, að í stað þess að taka manntal árlega og skrá alla með fullum upplýsingum, hvort sem breytingar hafa orðið frá fyrra ári eða ekki, er nú gert ráð fyrir niðurfellingu árlegra manntala, en breytingar á skrám frá ári til árs eru framkvæmdar eftir sérstökum gögnum: tilkynningum um aðsetursskipti manna, skýrslum presta um fæðingar, skírnir, hjónavígslur, mannslát o.fl.14Alþingistíðindi 1955 A, bls. 1224–1234. (Það, sem vísað er til, er á bls. 1225 og 1228).

Núgildandi lög (2017) um þjóðskrá og almannaskráningu eru nr. 54/1962, 27. apríl, með allmiklum breytingum.15Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 65–70; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1962054.html, sótt 27. september 2017. Í þeim segir:

4. gr. Almannaskráning byggist á þeim gögnum, sem hér eru talin:

1. Tilkynningar um aðsetursskipti, samkvæmt lögum nr. 73/1952 með síðari breytingum.

2. [Tilkynningar ljósmæðra til [Þjóðskrár Íslands] um fæðingar. Skýrslur presta þjóðkirkjunnar, forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga, [forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga eða einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu [sýslumanns] til [Þjóðskrár Íslands] um nafngjafir við skírnir eða nafngjafir án skírna, hjónavígslur og mannslát.]

3. [Skýrslur héraðsdómara til [Þjóðskrár Íslands] um úrskurði þar sem heimilað er að fara með bú horfinna manna sem látinna og dóma um að horfnir menn skuli taldir látnir.]

4. [Skýrslur og gögn sýslumanna til [Þjóðskrár Íslands] um hjónavígslur, leyfi til skilnaðar að borði og sæng, leyfi til lögskilnaðar og ættleiðingarleyfi.]

5. [Gögn [Útlendingastofnunar] um breytingar á ríkisfangi o.fl. í því sambandi.]

6. [Sérstakar upplýsingar sveitarstjórna, presta þjóðkirkjunnar, forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga, [forstöðumanna skráðra lífsskoðunarfélaga, einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags], Útlendingastofnunar og annarra opinberra aðila um menn.]

7. Upplýsingar, sem [Þjóðskrá Íslands] aflar sér sjálf með eftirgrennslan eða henni berast á einn eða annan hátt, eftir því sem þörf krefur og heimildir leyfa.

[Þjóðskrá Íslands] lætur gera eyðublöð undir skýrslur þær, sem um ræðir í fyrri málsgrein þessarar greinar, og kveður á um skil þeirra.

Samkvæmt lögum nr. 54/1962 tók Þjóðskrá við útgáfu fæðingarvottorða og annarra hliðstæðra vottorða til opinberra nota, annarra en þeirra, sem sóknarprestar létu í té eftir kirkjubókum, meðan þær væru lögum samkvæmt í vörslum þeirra (19. grein).16Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 69. Raunar kveða lög nr. 3/1945 svo á, að forstöðumanni héraðs- og kaupstaðarbókasafns sé heimilt að gefa fæðingarvottorð og önnur vottorð samkvæmt kirkjubókum safnsins þeim, er þess óska, og gegn sama gjaldi og greitt sé til Þjóðskjalasafnsins fyrir slíkt vottorð.17Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2 (3. grein). Eru þau enn í gildi (2017).18Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1945003.html, sótt 27. september 2017. Prestar og safnaðarstjórar voru því áfram milligöngumenn um almannaskráningu. En nú er hún að öllu leyti í höndum Þjóðskrár (árið 2017).19Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1962054.html, sótt 27. september 2017 (1. grein).

Ekki er mikið að finna í skjalasöfnum presta og safnaðarstjóra um almannaskráningu. Helst er þar að finna leifar fæðingartilkynninga ljósmæðra, sem þær voru skyldugar að senda presti eða safnaðarstjóra í fæðingarsókn barnsins, sbr. auglýsingu um staðfestingu Stjórnarráðsins á yfirsetukvennareglugerð árið 1914.20Stjórnartíðindi 1914 B, bls. 14 (6. gr.). Sjá einnig Prestsseðlar, passar, vottorð og tilkynningar.

Um lögheimili gilda nú (2017) lög nr. 21/1990, 5. maí, með áorðnum breytingum.21Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 26–28; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1990021.html, sótt 27. september 2017.

Önnur eldri dæmi, sem tengja má heimilisfangi og skráningarskyldu presta, er að finna undir Lögreglueftirlit presta.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslenzkt fornbréfasafn VI, bls. 704–705; Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland. Reykjavík 1987, bls. 32–38.
2 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 398–399.
3 Alþingistíðindi 1936 A, bls. 746–749.
4 Lovsamling for Island II, bls. 567, 657–658.
5 Stjórnartíðindi 1901 A, bls. 66–69; Alþingistíðindi 1901 C, bls. 174–177.
6 Stjórnartíðindi 1933 A, bls. 88.
7 Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2.
8 Munnlegar upplýsingar frá Klemensi Tryggvasyni, fyrrverandi hagstofustjóra, árið 1987.
9 Vef. http://www.althingi.is/lagas/144b/1746017.html, sótt 27. september 2017 (31. grein, d-liður).
10 Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 120–122, 155–157.
11 Stjórnartíðindi 1952 A, bls. 160–163.
12 Alþingistíðindi 1952 A, bls. 424 (í næstsíðustu málsgrein).
13 Stjórnartíðindi 1956 A, bls. 152–158.
14 Alþingistíðindi 1955 A, bls. 1224–1234. (Það, sem vísað er til, er á bls. 1225 og 1228).
15 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 65–70; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1962054.html, sótt 27. september 2017.
16 Stjórnartíðindi 1962 A, bls. 69.
17 Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 2 (3. grein).
18 Vef. http://www.althingi.is/lagas/147/1945003.html, sótt 27. september 2017.
19 Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1962054.html, sótt 27. september 2017 (1. grein).
20 Stjórnartíðindi 1914 B, bls. 14 (6. gr.).
21 Stjórnartíðindi 1990 A, bls. 26–28; Vef. https://www.althingi.is/lagas/nuna/1990021.html, sótt 27. september 2017.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 96