Í jarðræktarlögum nr. 43/1923 er sérstakur kafli, sem nefnist „Um vjelayrkju o.fl.“.1Stjórnartíðindi 1923 A, bls. 181–182. Árlega mátti veita fé úr ríkissjóði til þess að starfrækja og gera tilraunir með jarðræktarvélar, svo sem þúfnabana, skurðgröfur og aðrar stærri nýtískuvélar. Búnaðarfélag Íslands átti að sjá um rekstur véla, sem keyptar væru. Vextir og afborganir lána skyldu renna í sérstakan sjóð, Vélasjóð. Markmið hans væri að útvega og gera tilraunir með landbúnaðarvélar og starfrækja þær, ef þörf krefði. Í niðurlagi kaflans segir, að fyrsti vísir Vélasjóðs sé það, sem útistandandi væri fyrir vinnu tveggja þúfnabana, sem Búnaðarfélag Íslands hefði keypt.
Sjóðurinn efldist mjög með jarðræktarlögum nr. 101/1936, en þar er sérstakur kafli um Vélasjóð.2Stjórnartíðindi 1936 A, bls. 384–385. Þar segir m.a.:
Ríkið kaupi, starfræki og geri tilraunir með vélknúnar jarðræktarvélar og skurðgröfur, sem ætla má, að hæfi hérlendum staðháttum.
Nokkru af stofnfé sjóðsins skyldi verja til útlána vegna vélakaupa í þágu landbúnaðarins. Stofnfé, sem ekki væri varið til útlána, skyldi einungis varið samkvæmt áðurnefndu ákvæði. Búnaðarfélag Íslands átti að hafa reikningshald Vélasjóðs. Nánari ákvæði um Vélasjóð eru í lögum nr. 38/1943 um breytingar á jarðræktarlögum nr. 54/1942.3Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 109–111. Þá urðu skurðgröfur og ræktunarvélar, sem ríkið átti og starfækti, eign Vélasjóðs og sjóðurinn efldur mjög fjárhagslega. Verkfæranefnd, sem stofnuð var með lögum nr. 64/1940, átti þá að hafa stjórn sjóðsins á hendi og annast alla starfsemi hans undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands. (Sjá Verkfæranefnd ríkisins í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands).
Vélasjóður fékk einnig sérstakan kafla í jarðræktarlögum nr. 45/1950.4Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 132–133. Sjóðurinn væri eign ríkisins og skyldi kaupa vélknúnar skurðgröfur og, ef nauðsyn þætti, jarðræktarvélar og annast rekstur þeirra. Einnig leigja ræktunarfélögum skurðgröfur, taka að sér vélavinnu við stærri ræktunarframkvæmdir og aðstoða við val, útvegun og kaup á skurðgröfum og öðrum ræktunarvélum. Skipa skyldi þriggja manna nefnd til fjögurra ára í senn, vélanefnd, sem færi með stjórn Vélasjóðs og annaðist starfsemi hans. Hlutverk og stjórn Vélasjóðs breyttist ekki með jarðræktarlögum nr. 22/1965 en útfærsla var gerð á ýmsum rekstrarþáttum.5Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 70–72.
Vélasjóður og vélanefnd voru lögð niður með jarðræktarlögum nr. 79/1972. Skyldi Búnaðarfélag Íslands hafa umsjón með framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem ríkisframlag væri veitt til samkvæmt þeim lögum.6Stjórnartíðindi 1972 A, bls. 133–140.
Heimilda um Vélasjóð og vélanefnd mun vera að leita í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands / Búnaðarsamtaka Íslands. (Heimild: Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára. Reykjavík 1988, bls. 258–268.)