Verkfæranefnd ríkisins

Síðast breytt: 2023.11.23
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Verkfæranefnd var skipuð samkvæmt 18. grein laga nr. 64/1940 um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins.1Stjórnartíðindi 1940 A, bls. 157. Átti hún að sjá um að reyna ný verkfæri eða breytingar á eldri verkfærum, hvort sem væru jarðyrkjuverkfæri, heyvinnuáhöld eða önnur heimilisáhöld. Verfæratilraunir skyldu fara fram við búnaðarskólann á Hvanneyri. Einnig átti að koma þar upp safni landbúnaðarverkfæra undir stjórn verkfæranefndar. Nefndarmenn voru þrír, einn þeirra tilnefndur af kennurum Hvanneyrarskólans og skyldi sá vera formaður.

Verkfæranefnd átti að annast stjórn, reikningshald og alla starfsemi Vélasjóðs (sjá Vélasjóður í Orðabelg Þjóðskjalasafns) undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands samkvæmt 2. grein laga nr. 38/1943 um breyting á jarðræktarlögum nr. 54/1942.2Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 109–111. Með 11. grein laga nr. 7/1945 um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum var verkfæranefnd falið að hafa eftirlit með vélum og verkfærum, sem keypt væru og notuð samkvæmt þeim lögum, og annast viðgerðir og viðhald þeirra.3Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 11. Vélanefnd tók við stjórn Vélasjóðs í stað verkfæranefndar með jarðræktarlögum nr. 45/1950.4Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 132–133.

Starfsemi Verkfæranefndar virðist hafa verið slitrótt framan af, en í fjárlögum fyrir árið 1954 voru lagðar 75.000 kr. til Verkfæranefndar ríkisins, sem árlega skyldi skila skýrslu  um starfsemina.5Stjórnartíðindi 1953 A, bls. 247. Í framhaldi af því var ráðinn framkvæmdastjóri, sem hafði aðsetur á Hvanneyri.

Reglugerð um starfsemi Verkfæranefndar ríkisins var staðfest árið 1962, sem nr. 33/1962.6Stjórnartíðindi 1962 B, bls. 76–77.

Lögin frá 1940 voru numin úr gildi með lögum nr. 64/1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.7Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 131–142. Þar er sérstakur kafli um Rannsóknastofnun landbúnaðarins (bls. 136–137), sem skyldi vera sjálfstæð ríkisstofnun og heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Meðal verksviða voru vinnu- og verktæknirannsóknir og tilraunir með búvélar.

Segja má, að starfsemi verkfæranefndar hafi haldið áfram á Hvanneyri undir heitinu Bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Upp úr aldamótunum 2000 dró mjög úr starfsemi deildarinnar og rekstur mun nú lítill eða enginn.8Sjá Vef. https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165438, sótt 4. nóvember 2023.

Skjöl og aðrar heimildir um verkfæranefnd og síðar Bútæknideild er helst að finna í skjalasöfnum Stjórnarráðs Íslands II. skrifstofu, Landbúnaðarráðuneytisins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Stjórnartíðindi 1940 A, bls. 157.
2 Stjórnartíðindi 1943 A, bls. 109–111.
3 Stjórnartíðindi 1945 A, bls. 11.
4 Stjórnartíðindi 1950 A, bls. 132–133.
5 Stjórnartíðindi 1953 A, bls. 247.
6 Stjórnartíðindi 1962 B, bls. 76–77.
7 Stjórnartíðindi 1965 A, bls. 131–142.
8 Sjá Vef. https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165438, sótt 4. nóvember 2023.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 13