Ýttu á Ctrl/Cmd + P til að prenta
eða vista sem PDF skjal

Eftirlaun úr opinberum sjóðum, ríkissjóði og landssjóði / Styrkir. Prestar og prestsekkjur

Loftur Guttormsson segir þetta um eftirlaun presta og prestsekkna eins og þau voru eftir siðaskipti og langt fram á 18. öld:

Smám saman var reynt að stofna vísi að lífeyrissjóði handa uppgjafaprestum og prestsekkjum. Snemma voru hin bestu kirkjulén skylduð til að leggja til framfærslueyri handa fátækum uppgjafaprestum sem höfðu staðið sig vel í embætti.1Ísl. fornbréfasafn XIV, bls. 117–121. Sá galli var þó m.a. á að prestum var sjálfum ætlað að innheimta framlagið í landaurum. Á fyrri helmingi 18. aldar var þeirri reglu komið á að framlagið skyldi greiða í peningum í hendur prófasta er sæju um að jafna því niður í samráði við biskup og prestastefnu.2Lovsamling I, bls. 607–611; Lovsamling II, bls. 191–193, 715–716. Þá var einnig tekið að framfylgja því eftirlaunaákvæði Norsku laga að fráfarandi uppgjafaprestur nyti að jafnaði þriðjungs af föstum tekjum embættisins.3Jón Pjeétursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 218–219; Hannes Þorsteinsson, „Minning séra Björns prófasts Halldórssonar á Setbergi“. Skírnir 98. ár, bls. 119–120.

Um eiginlegan lífeyri var ekki að ræða fyrst í stað handa prestsekkjum en þeim var frá miðri 17. öld veitt svokallað náðarár, þ.e. réttur til þess að hafa gögn og gæði af kirkjustaðnum sér til framfæris í eitt fardagaár eftir lát eiginmannsins gegn þeim skilmála að sjá hinum nýja presti fyrir framfæri.4Lovsamling I, bls. 234–235; Bréfabók Þorláks biskups Skúlasonar. Reykjavík 1979, bls. 207; Norske lov af 15de april 1687. Osló 1904: 2–13–1. Að náðarárinu liðnu gat svo oltið á ýmsu um afkomu ekkjunnar og fjölskyldu hennar.5Lovsamling III, bls. 53. Loftur vitnar til II. bindis, sem getur ekki staðist. Einni öld síðar var ákveðið að prestsekkja mætti, að náðarárinu liðnu, fá til ábúðar einhverja hentuga jörð í sama prestakalli eða öðru í grennd. Um leið var ákveðið að prestsekkjur skyldu njóta ákveðins tillags frá stöndugum brauðum. Þar að auki átti að renna til þeirra sektarfé sem prestum var gert að gjalda fyrir embættisglöp eða lauslæti.6Lovsamling III, bls. 48–52. Með þessu móti varð með tímanum til lífeyrissjóður prestsekkna.7Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 234–235.

Alþingi veitti prestsekkjum skattfrelsi 30. júní 1640 en tíund skyldu þær gjalda.8Lovsamling I, bls. 228.. Ekki hefur verið kannað, hvort farið hafi verið eftir þessum lögum.

Árið 1777 sótti Hannes Finnsson, sem þá var aðstoðarbiskup í Skálholti, um það, að árlega yrðu veittir 200 ríkisdalir úr póstsjóðnum (Postkassen/Postpensionsfonden) til þess að styrkja siðsömustu og fátækustu prestsekkjur í Skálholtsbiskupsdæmi. Póststjórnin ákvað 21. janúar 1778, að árlega skyldi veita 300 ríkisdali úr sjóðnum til þess að styrkja prestsekkjur á Íslandi og börn þeirra á ómagaaldri.9Lovsamling IV, bls. 419–420. Ekkert varð af framkvæmdum þá, en árið 1785 var þetta staðfest með konungsúrskurði.10Lovsamling V, bls. 5–6, 205–206. Svo er að sjá, sem prestsekkjur í Skálholtsbiskupsdæmi hafi fengið 200 ríkisdali en ekkjur í Hólabiskupsdæmi 100 ríkisdali.

Heimilda um úthlutanir til prestsekkna er helst að leita í bréfabókum biskupa. Má þar styðjast við nafnaskrár bókanna, en prestsekkjur eru þar uppsláttarorð.

Tollkammerið gaf árið 1777 út fyrirmæli um lífsvottorð (þ.e. vottorð um, að viðkomandi væri á lífi) þeirra, sem þægju eftirlaun úr konunglegum sjóðum.11Lovsamling IV, bls. 377.

Tilskipun um fardaga presta á Íslandi og um réttindi þau, er prestur sá, er frá brauði færi, eða erfingjar hans og einkum ekkjan ættu heimting á, var gefin út 1845. Þar var tekið fram um rétt prestsekkju til prestssetursins og fastra tekna á yfirstandandi fardagaári og jafnvel því næsta.12Lovsamling XIII, bls. 569–573.

Samkvæmt eftirlaunalögum frá 1855 átti að setja sérstök lög um eftirlaun presta og prestsekkna, en þangað til máttu þau vænta sömu eftirlauna og áður. 13Lovsamling XVI, bls. 203–220, íslenskur texti bls. 209–214 og 218–220. Sú lagasetning beið áranna 1880 og 1884.
Tilkynnt var árið 1860, að þeir 300 dalir, sem veittir væru preststekkjum og hefðu verið færðir í eftirlaunareikningum ríkisins yrðu í fjárlögum taldir með útgjöldum Íslands.14Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 343. Styrkurinn var hækkaður í 400 ríkisdali árið 1861.15Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 422.

Uppgjafaprestum og prestsekkjum var veittur styrkur, 200 ríkisdalir, úr styrktarsjóði kirkju- og kennslumálaráðuneytisins árið 1861, sem greiddist úr Jarðabókarsjóði.16Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 490, sbr. bls. 539. Þessi styrkur var hækkaður í 500 ríkisdali árið 1864.17Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 33–34. Styrkurinn var greiddur út árið 1872.18Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 442–443. Hann var ekki nefndur árið 1873. Líklega er þarna um að ræða sjóð þann, sem kallaðist „Understöttelsesfond for Island“ eða „Styrktarsjóður handa Íslandi“ og var leifar af Kollektusjóðnum. En Kollektusjóðurinn og Mjölbótasjóðurinn voru notaðir til þess að stofna Lærða skólann (Menntaskólann) í Reykjavík og afganginn átti að setja í þennan sjóð.19Lovsamling XIII, bls. 119–124. [Kollektusjóður var myndaður árin 1784–1785 af samskotum í Danmörku, Noregi og hertogadæmunum Slésvík og Holstein til hjálpar Íslendingum vegna móðuharðindanna. Mjölbótasjóðurinn var stofnaður árið 1773 af skaðabótum, sem Almenna verslunarfélagið var dæmt til þess að greiða Íslendingum vegna innflutnings á skemmdu mjöli árið 1768.] Styrktarsjóður þessi var að einhverju leyti nýttur til þess að afstýra hungursneyð á Snæfellsnesi, Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslum á árunum 1861 og 1862 svo dæmi séu nefnd.20Lovsamling XVIII, bls. 70 –72, 313–316. Þjóðeignir, opinberar stofnanir og sjóðir urðu sérmál Íslands með stöðulögunum árið 1871.21Lovsamling XXI, bls. 1–3, sjá 3. grein, 9. lið. Í áætlun yfir tekjur og útgjöld Íslands á árinu 1875 eru „tekjur, er snerta hjálparsjóðinn“ taldar þar á meðal.22Stjórnartíðindi 1874 A, bls. 10, 2. grein, 15. liður. Og í fjárlögum fyrir árin 1876 og 1877 segir, að tekjum af „hinum íslenska styrktarsjóði“ verði varið til þess að auka innstæðufé Viðlagasjóðsins.23Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 56, 4. grein, 5. liður. Með konungsúrskurði 24. október 1879 gekk þessi styrktarsjóður inn í Viðlagasjóð.24Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 165. Sjá Viðlagasjóður í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.

Undir árslok 1865 var gefin út tilskipun, sem tók gildi 1867, er nákvæmar ákvað ýmislegt viðvíkjandi prestaköllunum á Íslandi. Þar eru reglur um eftirlaun uppgjafapresta og prestsekkna af brauðum þeim, sem þau höfðu verið í. Jafnframt var afnumið árgjald, sem hvílt hafði á nokkrum prestaköllum til styrktar uppgjafaprestum og prestsekkjum. Í staðinn kom gjald af prestaköllum, mismunandi eftir tekjum þeirra, sem ákveðin höfðu verið í brauðamati. Ekkert var goldið af prestaköllum með minna en 150 ríkisdala tekjur. Fénu skyldi skipt á prestastefnu og uppgjafaprestar fengju helminginn en prestekkjur hinn hlutann.25Lovsamling XIX, bls. 352–368.

Árið 1880 tóku gildi lög um eftirlaun presta, þegar þeim væri veitt lausn frá embætti vegna aldurs, heilsubrests eða fyrir aðrar sakir, sem þeim væri ósjálfrátt um. Eftirlaunin skyldu talin eftir þjónustualdri, væru 10 krónur fyrir hvert þjónustuár. Yrðu prestar að hætta vegna slysa eða vanheilsu, fengju þeir 250 krónur á ári.26Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 24–27.

Lög um eftirlaun prestsekkna voru sett árið 1884. Þær áttu rétt á að fá í eftirlaun 1/10 af tekjum brauðanna samkvæmt því brauðamati, sem væri í gildi á hverjum tíma, þó aldrei minna en 100 krónur. Ef tekjur brauðsins væru 1200 krónur eða meira, greiddust eftirlaunin af brauðinu, annars af landssjóði. Prestsekkjur, sem engin eftirlaun hefðu, þegar lögin öðluðust gildi, af því að eiginmaðurinn var í fátæku brauði, fengju 100 krónur úr landssjóði árlega. Ekkjurnar hefðu áfram rétt til þess að fá eina af kirkjujörðum brauðsins til ábúðar fyrir venjulegt eftirgjald.27Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 60–63.

Lög um ellistyrk presta og eftirlaun tóku gildi árið 1908. Skyldi hver, sem hefði fengið veitingu fyrir prestsembætti á Íslandi, safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymdan lífeyri og verja til þess árlega 2% af föstum byrjunarlaunum. Ellistyrk, sem safnaðist, skyldi geyma og ávaxta í einhverjum sjóði, sem landsstjórnin tæki gildan, en tryggingu fyrir lífeyri skyldi kaupa í lífsábyrgðarstofnun ríkisins. (Sú mun hafa verið dönsk. Íslensk lög um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn voru sett árið 1919.)28Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–228. Landssjóður ábyrgðist greiðslu árgjaldanna. Auk þessa ellistyrks eða lífeyris áttu prestar rétt til árlegra eftirlauna, 15 króna fyrir hvert þjónustuár, talið frá veitingu embættis. Þau greiddust úr Prestslaunasjóði. (Prestslaunasjóður, sjá Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.) Prestar, sem yrðu að hætta prestsskap vegna slysa eða vanheilsu, áttu að fá 360 krónur árlega í eftirlaun. Ákvæðin náðu ekki til presta, sem þá sátu í embætti, meðan þeir héldu sama embætti og óbreyttum launakjörum.29Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 304–307. Um leið gengu í gildi lög um skyldu presta til þess að kaupa ekkjum sínum lífeyri. Hver prestur í þjóðkirkjunni, sem hefði rétt til eftirlauna og hefði kvænst innan 60 ára aldurs, var skyldur að tryggja ekkju sinni árlegan lífeyri, ekki minni en 300 krónur. Lífeyrinn skyldi kaupa hjá lífsábyrgðarstofnun ríkisins. Skyldan náði til presta, sem fengu embættisveitingu frá fyrsta fardegi 1908. Ekkjur, sem hefðu fengið eftirlaun af embættum manna sinna (prestaköllum), skyldu fá eftirlaunin greidd úr landssjóði jafnóðum og eftirlaunaskyldu prestaköllin losnuðu.30Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 308–311.

Árið 1919 voru sett lög um laun embættismanna, sem tóku gildi í ársbyrjun 1920.31Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226. Sóknarprestar fóru undir þau lög (sjá 22. og 34. grein). Jafnframt voru sett lög um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn og um skyldur þeirra til þess að kaupa sér geymdan lífeyri og önnur lög um ekkjutryggingu embættismanna. Þar með féllu úr gildi lög um ellistyrk presta.32Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–230.

Biskupsekkjur hafa notið náðarárs, en engin ákvæði voru um slíkt í íslenskum lögum eins og sagt er í fyrirmælum konungs 8. maí 1686 vegna ágreinings um slíkt.33Lovsamling I, bls. 463–464. Þær virðast hafa notið afgjalds af einhverjum stólsjörðum eins og ráða má af fyrirmælum til stiftamtmanns um tillögu að reglum um náðarár biskups- og prestsekkna 11. júní 1712.34Lovsamling I, bls. 683–685. Þrúður Þorsteinsdóttir (1666–1738), ekkja Björns Þorleifssonar Hólabiskups, naut afgjalds af stólsjörðunum Bjargarstöðum, Aðalbóli, Skárastöðum, Haugi, Litlaósi, Hörgshóli, Kistu og Galtarnesi í Vestur-Húnavatnssýslu og Hraunum, Neðraási, Vöglum og Flatatungu í Skagafirði og Steinn Jónsson biskup fékk árið 1721 leyfi til þess, að ekkja hans mundi njóta hins sama.35Lovsamling II, bls. 29–30. Sigríður Jónsdóttir (1677–1730), ekkja Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups, fékk 84 ríkisdali og 5 mörk í eftirlaun eða afgjald af 11 jörðum, aðallega í Borgarfirði. Guðrúnu Einarsdóttur (1665–1753/, ekkju Jóns Árnasonar biskups, voru veitt eftirlaun, sem svöruðu til 84 ríkisdala og 4 marka, en það var ekki bundið við sömu jarðir.36Lovsamling II, bls. 503–504.

Í fyrirmælum um flutning Skálholtsstóls og skóla árið 1785 var biskupi leyft að velja einhverja Skálholtsjörð sem ekkjusetur.37Lovsamling V, bls. 185, sjá 3. lið d, niðurlag. Gert var ráð fyrir 80 ríkisdölum sem árlegum eftirlaunum biskupsekkju í áætlun um útgjöld vegna stólsins og skólans í Reykjavík.38Lovsamling V, bls. 193, sjá 6. lið. Hannes Finnsson biskup þótti harður í kröfum fyrir sig og væntanlega ekkju. Því var ákvæði um ekkjusetur afnumið og eftirlaun biskupsekkna hækkuð um 20 ríkisdali með konunglegum fyrirmælum árið 1789.39Lovsamling V, bls. 643–644. Árið 1798 voru gerðar breytingar á náðarári, biskupsekkjur í Skáholtsbiskupsdæmi skyldu á þeim tíma fá hálf biskupslaunin.40Lovsamling VI, bls. 316–317.

Hálfdan Einarsson, skólameistari á Hólum, fékk árið 1777 heimild til þess að ekkja hans fengi árlega 18 ríkisdali í reiðufé af ölmusufé Hólaskóla eða jafnmikið og nemanda var ætlað í ölmusu.41Lovsamling IV, bls. 416. Að öðru leyti hefur ekki verið kannað, hvað gilti um ekkjur skólamanna.

Ekknasjóður / Hinn almenni ekknasjóður / Enkekassen (ekkjukassi)

Hinn almenni ekknasjóður, Enkekassen, spratt upp úr „Land-Militair-Etatens Pensionskasse“, sem upphaflega varð til árið 1707, en formlega stofnaður 1739 og ætlaður til þess að styrkja ekkjur og föðurlaus börn manna úr landhernum. Árið 1740 var sjóðurinn einnig látinn ná til borgaralegra embættismanna og 1741 til sjóhersins. Sá sjóður lenti í fjárhagsvandræðum vegna takmarkaðra tekna. Því varð Ekknasjóðurinn til og honum sett stofnskrá 30. ágúst 1775. Þannig varð til skyldutrygging allra giftra embættismanna, hvort sem þeir voru almennir/borgaralegir eða í hernum. Sjóðurinn var einnig opinn fyrir alla aðra, sem vildu fá ekknaeftirlaun. 42Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 516–518; Lovsamling IV, bls. 161–179. Árleg eftirlaun áttu að vera í hlutfalli við laun hvers þess, sem í sjóðinn greiddi eða frá 10 ríkisdölum upp í 400. Tekjur sjóðsins voru ætlaðar: 1) Allir konunglegir starfsmenn skyldu, hvort sem þeir voru kvæntir eða ekki, greiða fyrstu mánaðarlaunin eða fyrstu launahækkun í sjóðinn. 2) Innborgun, sem í raun var stofninn að eftirlaununum. Þessi innborgun gat samsvarað eins eða fleiri ára launum og fór eftir aldri greiðanda og konu hans. Sérstök tafla sýndi, hvernig innborgunin skyldi vera. 3).Vextir af fé sjóðsins. Ákveðnar reglur giltu vegna nýrra hjónabanda, hvort sem um var að ræða ekkjur eða ekkla.

Ný innborgunartafla var gefin út 1785 og 4. ágúst 1788 var reglunum breytt þannig, að hver, sem naut launa úr konungssjóði og skipaður var af konungi, skyldi stofna til ekknaeftirlauna við hjónaband. Prestar máttu ekki, að viðlagri 100 ríkisdala sekt, gifta embættismenn nema tryggð væri greiðsla í Ekknasjóðinn. Embættismenn, sem ekki höfðu fallið undir þessa reglu og ekki höfðu tryggt konum sínum önnur eftirlaun, áttu að greiða afturvirkar innborganir.43Lovsamling V, bls. 129–136, 545–562. Sagt er, að í danska ríkinu hafi þetta náð til allra presta, dómara, málflutningsmanna, fógeta, starfsmanna við hirðina og í einokunarfélögum. Ákvæðið um, að prestar mættu ekki gifta embættismenn nema þeir hefðu greitt í Ekknasjóðinn, var ítrekað árið 1820.44Lovsamling VIII, bls. 169–170. Þá var árið 1823 skýrt tekið fram, að íslenskir embættismenn væru skyldugir til þess að greiða í sjóðinn, þótt þeir hefðu haldið annað.45Lovsamling VIII, bls. 479–480.

Embættismenn, a.m.k. þeir íslensku, gátu fengið undanþágu frá greiðslu í Ekknasjóðinn, ef þeir sýndu með áreiðanlegum vottorðum, að konur þeirra myndu ekki lifa þá, samkvæmt rentukammerbréfi 1792.46Lovsamling VI, bls. 49–50.

Árið 1826 birtist auglýsing um skyldu ákveðinna embættismanna til þess að greiða í ekknasjóðinn, þar á meðal presta. Þessi auglýsing var birt á Íslandi árið 1830, en tekið fram, að þetta næði aðeins til þeirra, sem vildu tryggja ekkjum sínum eftirlaun ekki minni en 20 ríkisdali silfurs árlega. Þetta átti einnig að ná til málflutningsmanna, landlæknis og héraðslækna.47Lovsamling IX, bls. 15–16, 91–92, 597–598. Reglur um ekknasjóðsgreiðslur nokkurra embættismanna á Íslandi birtust einnig árið 1826.48Lovsamling IX, bls. 88–89.

Skipulagi rentukammersins var breytt eftir konungsboði 30. desember 1840 og skrifstofur urðu málefnatengdar. Í framhaldi af því var stjórn ekknasjóðsins lögð niður 26. febrúar 1842 og sjóðurinn fór undir „ríkisfjárnefnd“ („den kongelige finantsdeputation“).49Lovsamling XI, bls. 714–719, Lovsamling XII, bls. 258–259. Breyting á stofnskrá sjóðsins var gerð árið 1842 vegna innborgunarskyldu.50Lovsamling XII, bls. 356–359.

Ekknasjóðurinn hætti að taka við nýjum innborgunum árið 1845, sennilega vegna þess að lífaldur var rangt reiknaður í töflum, sem stuðst var við. Þess vegna urðu útborganir meiri en sjóðurinn stóð undir. Eftirlaunagreiðslur héldu þó áfram. Síðasta eftirlaunaekkjan í Danmörku dó árið 1921. Í staðinn átti að greiða til Lífsábyrgðar- og framfærslustofnunarinnar. Gilti það fyrir íslenska embættismenn frá árinu 1855.51Lovsamling XIII, bls. 313–314; Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 517–518.

Eftirlaunareikningar Ekknasjóðs fyrir árin 1842–1902 eru í skjalasafni landfógeta í Þjóðskjalasafni Íslands (ÞÍ. Landf. XIX) en voru áður hluti af Jarðabókarsjóðsreikningum. Þótt sjóðurinn fengi skipulagsskrá árið 1775, sjást greiðslur úr honum ekki fyrr en löngu síðar í Jarðabókarsjóðsreikningunum.

(Heimildir: http://www.fogsgaard.org/index.php/2013-11-01-14-49-57/enkekassehistoriet; sótt 8. mars 2023; https://da.wikipedia.org/wiki/Enkekasse, sótt 8. mars 2023.)

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Ísl. fornbréfasafn XIV, bls. 117–121.
2 Lovsamling I, bls. 607–611; Lovsamling II, bls. 191–193, 715–716.
3 Jón Pjeétursson, Íslenzkur kirkjurjettur. Reykjavík 1863, bls. 218–219; Hannes Þorsteinsson, „Minning séra Björns prófasts Halldórssonar á Setbergi“. Skírnir 98. ár, bls. 119–120.
4 Lovsamling I, bls. 234–235; Bréfabók Þorláks biskups Skúlasonar. Reykjavík 1979, bls. 207; Norske lov af 15de april 1687. Osló 1904: 2–13–1.
5 Lovsamling III, bls. 53. Loftur vitnar til II. bindis, sem getur ekki staðist.
6 Lovsamling III, bls. 48–52.
7 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 234–235.
8 Lovsamling I, bls. 228.
9 Lovsamling IV, bls. 419–420.
10 Lovsamling V, bls. 5–6, 205–206.
11 Lovsamling IV, bls. 377.
12 Lovsamling XIII, bls. 569–573.
13 Lovsamling XVI, bls. 203–220, íslenskur texti bls. 209–214 og 218–220.
14 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 343.
15 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 422.
16 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands I, bls. 490, sbr. bls. 539.
17 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, bls. 33–34.
18 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands III, bls. 442–443.
19 Lovsamling XIII, bls. 119–124.
20 Lovsamling XVIII, bls. 70 –72, 313–316.
21 Lovsamling XXI, bls. 1–3, sjá 3. grein, 9. lið.
22 Stjórnartíðindi 1874 A, bls. 10, 2. grein, 15. liður.
23 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 56, 4. grein, 5. liður.
24 Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 165.
25 Lovsamling XIX, bls. 352–368.
26 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 24–27.
27 Stjórnartíðindi 1884 A, bls. 60–63.
28 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–228.
29 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 304–307.
30 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 308–311.
31 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 217–226.
32 Stjórnartíðindi 1919 A, bls. 227–230.
33 Lovsamling I, bls. 463–464.
34 Lovsamling I, bls. 683–685.
35 Lovsamling II, bls. 29–30.
36 Lovsamling II, bls. 503–504.
37 Lovsamling V, bls. 185, sjá 3. lið d, niðurlag.
38 Lovsamling V, bls. 193, sjá 6. lið.
39 Lovsamling V, bls. 643–644.
40 Lovsamling VI, bls. 316–317.
41 Lovsamling IV, bls. 416.
42 Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 516–518; Lovsamling IV, bls. 161–179.
43 Lovsamling V, bls. 129–136, 545–562.
44 Lovsamling VIII, bls. 169–170.
45 Lovsamling VIII, bls. 479–480.
46 Lovsamling VI, bls. 49–50.
47 Lovsamling IX, bls. 15–16, 91–92, 597–598.
48 Lovsamling IX, bls. 88–89.
49 Lovsamling XI, bls. 714–719, Lovsamling XII, bls. 258–259.
50 Lovsamling XII, bls. 356–359.
51 Lovsamling XIII, bls. 313–314; Rigsarkivet og hjælpemidlerne til dets benyttelse I, 1., bls. 517–518.