Viðlagasjóður

Síðast breytt: 2021.06.08
Slóð:
Áætlaður lestími: 3 mín

Kollektusjóður varð til með samskotum í Danmörku, Noregi, Slésvík og Holstein á árunum 1784–1785 til hjálpar Íslendingum vegna móðuharðindanna. Lítið sem ekkert var látið renna til bágstaddra, þar sem mesta hungursneyðin var þá liðin hjá, heldur stofnaður svonefndur Kollektusjóður. Í upphafi 19. aldar var fé úr sjóðnum lagt til ýmissa mála, svo sem strandmælinga á árunum 1801–1818 og til styrktar nauðstöddu fólki í harðindum árið 1803. Reikningar sjóðsins urðu mjög óglöggir og Danakonungur kvað upp úrskurð um innstæðu sjóðsins 25. júlí 1844. Af henni skyldu allt að 12.000 ríkisdalir í seðlum lagðir til byggingar latínuskólans í Reykjavík og afgangurinn lagður í styrktarsjóð handa Íslandi Understöttelsesfond for Island og þyrfti sérstakan konungsúrskurð til þess að nýta fé sjóðsins.1Lovsamling for Island XIII, bls. 119–124.

Virðist ýmist hafa verið talað um „Styrktarsjóð handa Íslandi“ 2Alþingistíðindi 1875, bls. 71. eða „Hinn íslenska hjálparsjóð“ en tekjur „Hjálparsjóðsins“ eru nefndar í 4. grein frumvarps til fjárlaga fyrir árin 1875 og 1876. Voru þær áætlaðar:

  1. leigur (þ.e. vextir) af innstæðufé „Hjálparsjóðsins“,
  2. leigur og afborganir af lánum og skyndilánum,
  3. leigur af andvirði seldra jarða,
  4. tekjur frá Læknasjóðnum,
  5. árlegar tekjur af „Hinum íslenska styrktarsjóði“.

Í fimmta lið athugasemda við þessa fjórðu grein segir, að hinn svonefndi „íslenski hjálparsjóður“ sé tekinn inn í þessa tekjugrein samkvæmt ósk Alþingis. Þó átti að leggja tekjurnar við innstæðuna þangað til ákveðið yrði með fjárlögum, að þeim yrði varið samkvæmt markmiði sjóðsins. Þá átti sjóðurinn inni lán hjá ýmsum sveitarfélögum á Íslandi, sem veitt höfðu verið til þess að afstýra hungursneyð. Þau lán voru frá síðari hluta sjöunda áratugs aldarinnar.3Alþingistíðindi 1875, bls. 8, 23–24. Í frumvarpi neðri deildar Alþingis var hins vegar talað um Viðlagasjóð og það heiti samþykkt í einu hljóði í neðri deild.4Alþingistíðindi 1875, bls. 60, 96. Fjárlaganefnd neðri deildar var annars ósátt við sjóðinn og kvartaði m.a. yfir því, að enginn reikningur væri gerður fyrir ástandi hans á árunum 1845–1875.5Alþingistíðindi 1875, bls. 55–58. Í athugasemdum með frumvarpi nefndarinnar var rakin saga Kollektusjóðsins og skorað á stjórnina að gera grein fyrir meðferð sjóðsins síðan árið 1844.6Alþingistíðindi 1875, bls. 63–64. Athugasemdum með frumvarpi nefndarinnar fylgdu greinargerðir Árna Thorsteinson landfógeta um Viðlagsjóð.7Alþingistíðindi 1875, bls. 76–79. Kemur þar fram, sem og víðar, að skuldabréf Dómsmálasjóðs gengu til Viðlagasjóðs. Konungur staðfesti fjárlögin 15. október 1875 og þar með var Viðlagasjóður orðinn til.8Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 52–69, sjá einkum bls. 54–57.

Árið 1875 óskaði landshöfðingi eftir því við konungsráðgjafa fyrir Ísland, að hann mætti lána út fé það, sem árlega væri borgað upp í það, sem Viðlagasjóðurinn ætti í lánum: 1) Það, sem fyrrverandi Dómsmálasjóður og Læknasjóður hafi átt hjá einstökum mönnum og 2) það, sem sveitarfélögum hafi verið lánað til þess að koma upp fangelsum og í aðrar þarfir. Þannig mundu afborganir ávaxtast aftur í landssjóði og einstaklingar gætu fengið lán til framkvæmda, einkum í landbúnaði, en slík lán væri örðugt að fá vegna peningaeklu á Íslandi. Ekki vildi ráðgjafinn nýta þannig afborganirnar frá sveitarstjórnunum, en eigur Dómsmálasjóðs og Læknasjóðs mætti fyrst um sinn nýta til þess að hjálpa um lán á Íslandi. Fékk landshöfðingi umboð til þess að veita einstökum mönnum lán með tilteknum skilyrðum.9Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 33–34 (23. liður).

Árið 1876, 14. júní, tilkynnti landshöfðingi stiftsyfirvöldum, að stjórn á eignum Hins íslenska læknasjóðs félli undir landshöfðingja. Tekjur af spítalagjöldum, sem sjóðnum bæru, og af jörðum hans yrðu greiddar í Jarðabókarsjóð. Gjöld, sem hvíldu á sjóðnum, yrðu greidd úr Jarðabókarsjóði. Skyldi breytingin taka gildi 1. júlí næstkomandi. Vonaðist landshöfðingi til þess, að skuldunautum Læknasjóðs yrði tilkynnt, að þeir ættu að greiða vexti og afborganir í Jarðabókarsjóð.10Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 61 (64. liður).

Fjárlaganefnd neðri deildar Alþingis árið 1879 vildi, að Styrktarsjóður Íslands yrði dreginn inn í landssjóð og afnuminn sem sérstakur sjóður. Þótti nefndinni þarflaust, og aðeins til þess að gera landsreikningana flóknari, að halda þessum sjóði sérskildum. Þegar sjóðurinn yrði sameinaður landssjóði, hættu reikningar hans að verða ágreiningsefni milli þingsins og stjórnarinnar.11Alþingistíðindi 1879 I. bindi, bls. 192. Lagði landshöfðingi tillögu um slíkt fyrir Íslandsráðgjafann, sem samþykkti það með bréfi 7. nóvember 1879. Skyldu eigur Styrktarsjóðsins lagðar í Viðlagasjóð hins íslenska landssjóðs.12Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 165 (190. liður); ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XVI. 6, Islands journal 16, nr. 153.

Eins og áður sagði tók Viðlagasjóðurinn við lánum, sem veitt höfðu verið úr Dómsmála- og Læknasjóðum gegn tryggingum í jörðum og húseignum. Styrktarsjóðurinn mun hafa veitt Reykjavíkurkaupstað afborgunarlán árið 1862 vegna sjúkrahúss og árið 1873 var farið að veita ýmis afborgunarlán vegna framkvæmda, þó ekki fyrir alvöru fyrr en árið 1876. Voru það m.a. lán til kaupstaða, kirkna og prestakalla, sýslna og hreppa og einstaklinga. Þar á meðal voru lán til barnaskóla og fangelsa. Árið 1882 var farið að veita lán vegna hallæra og árið 1885 til kaupa á þilskipum til fiskveiða. Stundum voru veitt sérstök lán, svo sem til byggingar brúar á Skjálfandafljóti.13Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 32–33. Á árunum 1885–1898 gekk andvirði seldra þjóðjarða í Viðlagasjóð.

Ekki hefur verið gerð ítarleg könnun á Viðlagasjóði, þróun hans og meðferð, en hann var í höndum landfógeta og eru gögn frá sjóðnum í skjalasafni landfógeta en árið 1904 mun Landsbanki Íslands hafa tekið við umsjón sjóðsins og síðan ríkisféhirðir 1918–1919.

Skuldabréf Viðlagasjóðs runnu síðar inn í veð- og bústofnslánadeildir Búnaðarbanka Íslands samkvæmt lögum frá 14. júní 1929.14Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 66 (13. grein) og 73 (41. grein).


Heimildir

  • Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 270.
  • Gylfi Þ. Gíslason. „Fjárhagur ríkisins“ í Klemens Tryggvason, Gylfi Þ. Gíslason, Ólafur Björnsson: Alþingi og fjárhagsmálin 1845–1944. Reykjavík 1953, bls. 54–56.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling for Island XIII, bls. 119–124.
2 Alþingistíðindi 1875, bls. 71.
3 Alþingistíðindi 1875, bls. 8, 23–24.
4 Alþingistíðindi 1875, bls. 60, 96.
5 Alþingistíðindi 1875, bls. 55–58.
6 Alþingistíðindi 1875, bls. 63–64.
7 Alþingistíðindi 1875, bls. 76–79.
8 Stjórnartíðindi 1875 A, bls. 52–69, sjá einkum bls. 54–57.
9 Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 33–34 (23. liður).
10 Stjórnartíðindi 1876 B, bls. 61 (64. liður).
11 Alþingistíðindi 1879 I. bindi, bls. 192.
12 Stjórnartíðindi 1879 B, bls. 165 (190. liður); ÞÍ. Íslenska stjórnardeildin XVI. 6, Islands journal 16, nr. 153.
13 Stjórnartíðindi 1880 A, bls. 32–33.
14 Stjórnartíðindi 1929 A, bls. 66 (13. grein) og 73 (41. grein).
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 1 af 1 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 128