Yfirstjórn fræðslumála var lögð undir Stjórnarráð Íslands með lögum um fræðslu barna nr. 59/1907, 22. nóvember, en því til aðstoðar var settur skólafróður maður, skipaður af ráðherra. Átti hann hann að hafa umsjón fræðslumála með höndum og undirbúa ráðstafanir og reglugerðir um fræðslumál, sem Stjórnarráð Íslands setti. 1Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 394–397, 33. grein. Lög þessi tóku gildi 1. júní 1908. Því varð til sérstök skrifstofa, Fræðslumálaskrifstofa.
Lög um fræðslumálastjórn nr. 35/1930, 19. maí, kváðu á um, að kennslumálaráðuneytið hefði yfirstjórn allra kennslu- og skólamála. Fræðslumálastjóri stýrði framkvæmdum í kennslu- og skólamálum, sá um að gildandi lögum og fyrirmælum um fræðslumál væri hlýtt og heimtaði allar nauðsynlegar skýrslur um skólamál. Álits fræðslumálastjóra skyldi leitað um öll skólamál, sem undir fræðslumálaráðuneytið féllu. Þó var Háskóli Íslands undanskilinn ákvæðum þessara laga. Kennslumálaráðuneytið gat falið fræðslumálstjóra fullnaðarafgreiðslu þeirra mála, sem ráðuneytið taldi sig ekki þurfa að hafa bein afskipti af. Átti að senda ráðuneytinu ársfjórðungslega skrá um þau mál, er þannig höfðu verið afgreidd. 2Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 66–68.
Fræðslumálaskrifstofan var sameinuð Menntamálaráðuneytinu sem deild samkvæmt lögum um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda nr. 5/1968, 10. apríl. 3Stjórnartíðindi 1968 A, bls. 17–20, 7. grein. Síðasti fræðslumálastjórinn, Helgi Elíasson, lét af störfum sem deildarstjóri í fræðslumáladeild menntamálaráðuneytisins 1. janúar 1973. 4Stjórnartíðindi 1973 B, bls. 978. Ýmislegt hélst þó áfram í skjalafærslu og skjalasafnsmyndun, sem átti rætur sínar í Fræðslumálaskrifstofunni.
Skjöl Fræðslumálaskrifstofunnar mynda sérstakt skjalasafn innan skjalasafns menntamálaráðuneytisins, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands. Í því eru heimildir um barnafræðslu og skólamál allt frá 1908. Meðal annars eru þar skólahaldsskýrslur með upplýsingum um barnapróf, þær elstu fyrir skólaárið 1908–1909.
Um barnafræðslu fyrir 1908 sjá Barnaskólar, sveitakennarar, Stiftsyfirvöld.
Ýmsir aðilar störfuðu innan Fræðslumálaskrifstofunnar, samkvæmt síðari löggjöf. Þannig urðu til skjalasöfn, sem tengjast skjalasafni menntamálaráðuneytis, en fóru ekki inn í aðalsafn ráðuneytisins, svo sem skjalasafn íþróttafulltrúa, bókafulltrúa ríkisins, skólarannsóknardeildar menntamálaráðuneytisins (síðar skólaþróunardeildar) og fjármálaeftirlitsmanns skóla.
(Heimild: Formáli að afhendingu skjalasafns menntamálaráðuneytis til Þjóðskjalasafns, Afhending 1989/35. Sjá og: Almenningsfræðsla á Íslandi 1880–2007, ritstjóri Loftur Guttormsson: Loftur Guttormsson, Ólafur Rastrick, Ólöf Garðarsdóttir, Skólahald í bæ og sveit 1880–1945. Reykjavík 2008, Helgi Skúli Kjartansson, Jón Torfi Jónasson, Hlynur Ómar Björnsson, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Rósa Eggertsdóttir, Rúnar Sigþórsson, Skóli fyrir alla 1946–2007. Reykjavík 2007.)