Þessi orð voru höfð um fólk, sem átti heimili hjá öðrum, oft án beinna tengsla, svo sem fjölskyldubanda eða ráðningar (vinnufólk). Skylt var að eiga fast heimili. Karlar, sem stunduðu launavinnu, svo sem við smíðar og sjóróðra eða önnur tilfallandi verk, en réðu sig ekki í vinnu hjá öðrum, urðu að eiga eitthvert heimili, voru til húsa. Þegar slíkir möguleikar sköpuðust fyrir konur, svo sem við saumaskap, prjónaskap eða fiskvinnu, urðu þær að vera til húsa hjá einhverjum.
Þetta gat einnig átt við fólk, sem átti einhverjar eignir og lifði á tekjum af þeim, lifði á efnum sínum. Slíkt fólk hafði jafnvel matarvist og þjónustu hjá húsráðendum, sem það greiddi fyrir. Embættismenn, sem voru að hefja feril sinn á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar og höfðu engan afmarkaðan samastað, voru því til húsa eða töldust jafnvel húsmenn. Þar má nefna presta, sem komust ekki á prestssetrið vegna þess, að prestsekkja hafði enn ábúðarréttinn, voru einhleypir eða hugðu ekki á framtíðardvöl. Einnig héraðslæknar, jafnvel sýslumenn, sem höfðu engan embættisbústað.