Viðeyjarspítali — Gufunesspítali

Síðast breytt: 2023.10.10
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

Kirkjuskipan Kristjáns III. frá 1537 kveður á um, að eignum og öðru, sem fátækum hafi verið gefið til uppheldis en frá þeim tekið með órétti, skuli skila, hinum fátæku til gagns og nytsemdar. Er þar gert ráð fyrir spítölum, þ.e. vistarstofnunum eða umsjónarstofnunum með fátækrafé.1Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 227–229; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 101–102 Í erindisbréfi Knúts Steinssonar lénsmanns á Íslandi, 16. apríl 1556, segir, að spítalar verði ekki stofnaðir á Íslandi heldur skuli fátækir flakka um landið og leita sér bjargar sem best þeir geti. Ættu sýslumenn að hafa eftirlit með flutningi þeirra milli staða innan sýslu eftir landslögum og fornri venju.2Lovsamling for Island I, bls. 73–75.

Einhvers konar fátækraspítali virðist hafa verið í Viðey eftir siðaskipti, leif frá því, að munkunum var heimilað að dvelja þar áfram. Í útdráttum úr íslenskum lénsreikningum frá árunum 1566–1573 eru talin útgjöld vegna fátækra í Viðey.3Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 147. Samkvæmt lénsreikningi 1647–1648 voru tíu fátæklingar eða gamlir menn í Viðey og ein próventukona að auki.4Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld, bls. 80, 111.

Um Viðeyjarklaustur segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns:

Ábúanda er hér ekki að greina, því að þetta klaustur hefur um langa tíma verið bú frá Bessastöðum og hospítal til að forsorga þá tólf hospítalslimi, sem kóngl. Majestat veitir uppheldi. Og hefur á þessu búi venjulegt verið að framfæra þann kvikan pening, sem klaustrinu og hospítalinu tilheyrði, og það meira, er Bessastaða fyrirráðamenn hafa hingað viljað setja.5Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, bls. 303.

Skúla Magnússyni landfógeta var fengin Viðey til ábúðar með konungsúrskurði 24. maí 1751 og skyldi flytja fátæklingana 12 til Þerneyjar. Því var breytt með konungsúrskurði 17. apríl 1752 og fátækraspítalinn færður til Gufuness og jörðinni Eiði bætt við, fátæklingunum og fálkafénaðinum til framfærslu.6Lovsamling for Island III, bls. 94–95, 121–122. Á fálkafénaði, nautum og sauðfé, voru fálkar aldir, þegar þeir biðu flutnings til Danmerkur og meðan á flutningnum stóð.

Gufunesspítali var lagður niður frá og með fardögum árið 1795 eftir konungsúrskurði 18. september 1793. Í staðinn skyldu sex leiguliðar á konungsjörðum í Gullbringusýslu og Mosfellssveit fá árlega 10 ríkisdali í eftirlaun, þeir verðugustu, gamlir og fátækir. Þá skyldu sex ekkjur úr sömu sýslu og sveit fá 6 ríkisdali árlega, meðan þær lifðu.7Lovsamling for Island VI, bls. 143–144.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 227–229; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 101–102
2 Lovsamling for Island I, bls. 73–75.
3 Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 147.
4 Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld, bls. 80, 111.
5 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, bls. 303.
6 Lovsamling for Island III, bls. 94–95, 121–122.
7 Lovsamling for Island VI, bls. 143–144.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 18