Bréfabækur eru bækur, þar sem færð voru inn afrit sendra bréfa, stundum afrit kominna bréfa. Latneskt heiti slíkra bóka var registrum.1Erik Kroman, Bjarne Berulfsen, Jan Liedgren, „Brevbog“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder II, dálkar 229-233. Bréfabækur voru haldnar af embættismönnum en stundum einstaklingum og síðar fyrirtækjum. Flestir eða allir lútersku biskuparnir á Íslandi voru með bréfabækur, en bók Jóns Vilhjálmssonar Hólabiskups (árin 1429-1434) er sú eina varðveitta frá kaþólskum biskupi.
Fremur lítið er til af bréfabókum frá sóknarprestum, því að engin boð voru gefin út um skyldur þeirra í þeim efnum. Prófastar héldu hins vegar slíkar bækur, enda embættisstörf þeirra með þeim hætti, að bréfabóka var þörf. Hins vegar er varðveislan ekki góð. Bækur, sem hefjast fyrir 1800, eru til úr átta prófastsdæmum. Elstu bækurnar eru úr Mýraprófastsdæmi (upphafsár 1683) og Þingeyjarprófastsdæmi (upphafsár 1633) en í hvorugu prófastsdæminu er um samfellu að ræða.
Orðið „kopíubók“ er komið af danska orðinu copiebog, sem táknar hið sama og bréfabók. Íslenskir prestar notuðu raunar kopíubókarheitið einkanlega um það, sem hér er nefnt endurritabók, þótt aðrir embættismenn ættu við bréfabók. Í orðinu konseptabók liggur til grundvallar latneska orðið conceptus, sem táknar uppkast. Bréfauppköst voru gjarnan skrifuð á grófan pappír, sem þá var kallaður konseptapappír.
Með tímanum jukust skýrsluhaldskvaðir á prestum og eftir árið 1880 fara að koma fyrir svonefndar skýrslubækur, þar sem prestar færðu inn skýrslur þær, sem þeir sendu frá sér, en önnur embættisbréfagerð var lítil að vöxtum.
Sumar bréfabækur/skýrslubækur mega öllu frekar kallast minnisbækur vegna skýrslusendinga en bréfabækur, þar eð í bókunum er aðeins getið dagsetningar bréfs, hvaða skýrslur hafi verið sendar og hver viðtakandi sé, og ættu því fremur að teljast með bréfadagbókum. Eitt dæmi er um, að bréfa- og skýrslubók sé kölluð minnisbók. Sú er frá Gaulverjabæ.2ÞÍ. Kirknasafn. Gaulverjabær L/1. Minnisbók 1841-1856. Bréfabók 1849-1856.
Þá er í skjalasöfnum sumra prestakalla nokkuð af uppköstum embættisbréfa á lausum blöðum; og í skjalasöfnum prófasta má finna laus afrit bréfa, sem þeir sendu frá sér, einkum vélritaðra, sem eru flokkuð með bréfabókum.
Misskilningur á orðinu bréfabók kemur fram í ýmsum starfsreglum, sem Kirkjuþing setti 10. desember 1998, þar er á nokkrum stöðum talað um bréfabækur, en berlega átt er við bréfadagbækur, t.d. í síðari málsgrein 23. greinar starfsreglna úrskurðar- og áfrýjunarnefnda þjóðkirkjunnar:
Nefndin (þ.e. úrskurðarnefnd) skráir innkomin bréf og erindi í sérstaka bréfabók og varðveitir í möppu. Útsend bréf skulu skráð og varðveitt með sama hætti.3Stjórnartíðindi 1998 B, bls. 2153.