Bæjarfógetaembættinu í Reykjavík var skipt í tvennt, bæjarfógeta- og lögreglustjóraembætti, 1. apríl 1918 samkvæmt lögum nr. 26/1917, 26. október. Jafnframt skyldi stofna sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavíkurkaupstað, svo fljótt sem því yrði við komið, og forstjórn falin lögreglustjóra. 1Stjórnartíðindi Íslands 1917 A, bls. 34–35.
Bæjarfógeta- og lögreglustjóraembættunum í Reykjavík var síðan skipt í þrennt 1. janúar 1929 eftir lögum nr. 67/1928, 7. maí. Urðu þá til: Lögmannsembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 2Stjórnartíðindi Íslands 1928 A, bls. 219–220.
Í hlut lögmanns komu: Dómsmál, önnur en sakamál og almenn lögreglumál, skiptamál, fógetagerðir, uppboð, þinglýsingar, nótaríalgerðir, yfirfjárráð ólögráða, borgaraleg hjónavígsla, hjónaskilnaðarmál, dómkvaðning manna og skipun þeirra opinberra starfsmanna, sem hingað til hefðu verið skipaðir af bæjarfógeta, afgreiðsla leyfisbréfa til að sitja í óskiptu búi, kosningar til Alþingis.
Aftur voru gerðar breytingar með lögum nr. 67/1939, 31. desember, sem tóku gildi 1. janúar 1940. Skyldu í Reykjavík vera: Lögmannsembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 3Stjórnartíðindi Íslands 1939 A, bls. 214–215.
Lögmaður færi með dómsmál, önnur en barnsfaðernismál og opinber mál, skiptamál, fógetagerðir, uppboð, þinglýsingar, skráning firma, samvinnufélaga og hlutafélaga, notarialgerðir, yfirfjárráð, borgaralega hjónavígslu, hjónaskilnaðarmál, kvaðning matmanna og skoðunar í dómi og utan dóms, skipun opinberra starfsmanna, sem hingað til hefðu verið skipaðir af lögmanni, afgreiðslu leyfisbréfa til setu í óskiptu búi, mælingu og skrásetningu skipa, úrskurðun fátækramála og alþingiskosningar.
Lögmannsembættið var lagt niður með lögum nr. 65/1943, 16. desember, sem tóku gildi 1. janúar 1944. Í Reykjavík skyldu vera: Borgardómaraembætti, borgarfógetaembætti, sakadómaraembætti, lögreglustjóraembætti og tollstjóraembætti. 4Stjórnartíðindi Íslands 1943 A, bls. 136–137. Störf lögmanns skiptust milli borgardómara og borgarfógeta.
Örlítið er varðveitt af skjölum lögmannsins í Reykjavík sem sérstakt skjalasafn í Þjóðskjalasafni. Að öðru leyti eru þau í skjalasöfnum borgardómara og borgarfógeta í Reykjavík, sem einnig eru í Þjóðskjalasafni.
(Heimild: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A-Ö. Reykjavík 2015, bls. 345 (undir lögmaður).)