Stríðshjálpin 1681

Síðast breytt: 2025.03.18
Slóð:
Áætlaður lestími: 1 mín

stríðshjálp, skattur sem Kristján 5. Danakonungur (1670–99) lagði á Íslendinga með konungsbréfi 1679, birtu á Alþingi 1680. Stríðshjálp var tilkomin vegna styrjaldar Dana og Svía, Skánarstyrjaldar 1675–79; þá gerðu Danir tilraun til að vinna aftur héruð í Suður-Svíþjóð sem þeir höfðu misst til Svía við friðargerðina í Hróarskeldu 1658, að undangenginni styrjöld. Til að styrkja ríkisheildina í þessum þrengingum áttu Íslendingar að greiða stríðhjálp í eitt skipti á grundvelli allsherjar jarðamats sem þá skyldi gert. Í meginatriðum var landskuld notuð sem skattstuðull fyrir stríðshjálp. …

Á Íslandi hafði þá verið harðæri, m.a. vegna fiskleysis, og mæltist stríðshjálp mjög illa fyrir. Á Alþingi 1680 sömdu leikmenn og prestar bænarskrá til konungs um uppgjöf, linun eða frestun á þessum þunga skatti. Árangur þess varð nýtt konungsbréf um stríðshjálp 1681 þar sem konungur þyrmdi landsmönnum við helmingi skattsins.

Stríðshjálp galst illa og var ekkert greitt af biskupsstólum, klaustrajörðum, kirkjustöðum og kirkjulénum.1Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A-Ö. Reykjavík 2015, bls. 488–489.

(Heimildir: Alþingisbækur Íslands VII, bls. 484–496, 587; Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A-Ö. Reykjavík 2015, bls. 488–489; Helgi Þorláksson, „Undir einveldi“, Saga Íslands VII, bls. 143; Lýður Björnsson, „Dalir í kistuhandraða“, Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum 18. september 1979.Reykjavík 1979, bls. 297–307; Páll Eggert Ólason, Saga Íslendinga V, bls. 150–151.)

Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt ýmis skjöl um stríðshjálparskattinn, sem send voru rentukammeri á sínum tíma. Þau hafa venjulega kallast „Stríðshjálpin 1681“. Meginhluti skjalanna er frá sýslumönnum, allt frá norðurhluta Múlasýslu til Norður-Ísafjarðarsýslu, ætluð til grundvallar skattheimtunni. Engin skjöl eru úr Strandasýslu og af Norðurlandi: Jarðir eru yfirleitt taldar upp með nöfnum. Oft er eignarhalds og ábúenda getið, sem og jarðardýrleika, landskulda og kúgilda. Flestir sýslumenn brugðust við árið 1681 en fáeinir skiluðu á árunum 1682 og 1683. 2ÞÍ. Skjalasafn rentukammers 1928-011/D2/1.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A-Ö. Reykjavík 2015, bls. 488–489.
2 ÞÍ. Skjalasafn rentukammers 1928-011/D2/1.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 7