(Staðgenglar biskupa eða aðstoðarmenn)
Officialis (latína officium, „starf“), embætti sérstaks umboðsmanns biskups innan kirkjulegrar stjórnsýslu.1Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, Reykjavík 2015, bls. 379–380.
Ef til vill er meir við hæfi að segja officialesa (officialis et., officiales ft.) hafa verið aðstoðarmenn biskupa eða staðgengla.
Kaþólskur siður
Biskup hafði engin tök á að stjórna einn hinni miklu stofnun sem biskupsstólarnir voru og varð þess vegna að reiða sig á aðstoðarmenn bæði heima á staðnum og út um sveitir. …
Æðsti fulltrúi biskups og hægri hönd hans í flestum málum nefndist officialis. Þetta embætti kemur ekki við sögu hér á landi fyrr en snemma á 14. öld, … Hann hafði eftirlit með kirkjum og kirknafé og lifnaði presta, prófasta og allrar alþýðu og skar úr deilumálum eða nefndi menn í dóma í umboði biskups. …
Eftir því sem umsvif biskupsstólanna jukust þurfti fleiri en einn officialis. Í Skálholtsbiskupsdæmi urðu þeir þrír, og bjó hver í sínum þriðjungi umdæmisins, en tveir voru fyrir norðan. Einn þessara manna gerði biskup yfirleitt að staðgengli sínum, t.d. þegar hann þurfti að fara utan eða lá banaleguna, og skyldi officialis þá stýra biskupsdæminu þangað til nýr maður tæki við. Ef biskup hafði ekki gert neinar slíkar ráðstafanir var það hlutverk ábóta og príora klaustranna ásamt helstu klerkum að skipa „forstjóra“ dómkirkjunnar. …
Í heimildum eru dæmi um að officialis hafi einvörðungu séð um veraldleg mál (officialis in temporalibus), einkum rekstur biskupsstólanna, en þá var verið að nota annað heiti um þann sem annars var kallaður ráðsmaður. …
Þegar biskup gerðist aldraður gat komið til þess að hann fengi sér aðstoðarmann, svonefndan kóadjutor. Munur á kóadjutor og officialis var ekki mikill. Venja var þó sú að erkibiskup skipaði í embætti kóadjutors og hefur þá fengið honum biskupsvald án þess þó að vígja hann til biskups enda mátti ekki raska hinu nána sambandi sem var á milli dómkirkjunnar og brúðguma hennar, biskupsins. …2Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 140–141.
Officiales, sem höfðu einkum umsjón með kennimönnum (andlegum málum), kölluðust officiales in spiritualibus en officialis in temporalibus voru veraldlegir og hafa því væntanlega getað verið óvígðir.
Heimildir um officiales fyrir siðaskipti eru brotakenndar og er einkum að leita í Íslenzku fornbréfasafni, en rannsóknir á þeim munu hafa verið harla litlar og má þar vísa til orða Magnúsar Stefánssonar prófessors í Björgvin árið 1978.3Magnús Stefánsson, Frá goðakirkju til biskupskirkju, Saga Íslands III. Reykjavík 1978, bls. 163–164.
Lútherskur siður
Næstir biskupum í valdastiga kirkjunnar voru svonefndir officiales (et. officialis) og prófastar; hvor tveggja embættin tíðkuðust í kaþólskum sið en breyttu nú nokkuð um eðli. Um officiales eru ekki nein ákvæði í kirkjuordinansíu Kristjáns 3. og embætti þeirra og prófasta voru ekki skýrt aðgreind í opinberum fyrirmælum fyrst eftir siðaskiptin. Biskupar fólu þannig prófasti að annast fyrir sína hönd tiltekin verkefni í hverjum landshluta í ætt við þau sem officialis voru síðar falin. Fastari skipan komst síðar á embætti officialis; hann varð nokkurs konar fulltrúi biskups í þeim landshluta eða landshlutum þar sem biskup sat ekki eða þá staðgengill hans í forföllum. Officiales voru fyrirrennarar stiftsprófasta sem lög voru sett um árið 1746.4Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 82.
Í erindisbréfi Páls Stígssonar hirðstjóra 13. apríl 1565 segir, að superintendentar (biskupar) á Íslandi komist ekki yfir að vísitera allar kirkjur í stiftum sínum á hverju ári, í sumum fjórðungum verði það þriðja eða fjórða hvert ár. Til þess að hreint guðsorð sé prédikað og kennt sé superintendentunum leyft, með lénsmanni konungs, að skipa prófast eða officialis í hverjum fjórðungi. Í fjarveru biskups hafi þeir eftirlit með kirkjunum í sínum fjórðungum og að allt fari eftir kirkjuskipuninni (ordinansíunni). Jafnframt var Jón Loftsson skipaður officialis á Vestfjörðum með aðsetur í Vatnsfirði.5Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 352–354. Raunar hafði Páll Stígsson, með ráði Gísla Jónssonar biskups, veitt Jóni Loftssyni Vatnsfjörð og officialisdæmi yfir Vestfjörðum þegar árið 1564, því að stór brestur væri upp á guðsorðaþénara þar, meiri en annars staðar.6Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 285–288. Eldra dæmi er til um officialis á Vesturlandi frá 11. nóvember 1551.7Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 333–335.
Heimildir um officiales eru brotakenndar, einkum þá, sem voru umboðsmenn biskupa úti um land. Óvíst er, hversu mikið biskupar gerðu að því að skipa officialis heldur hafi þeir stuðst við prófastana.
Algengt var, að officialis væri skipaður í forföllum biskups svo sem vegna veikinda, utanfarar eða dauða og þar af leiðandi vegna vígslufarar nýs biskups. Höfuðsmenn og síðar amtmenn komu yfirleitt að þeirri skipan. Hér á eftir fer yfirlit yfir slíka officiala, fyrst og fremst unnið upp úr Biskupasögum Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal, sem Sögufélag gaf út, en einnig stuðst við aðrar heimildir. Konungleg tilskipun um stiftsprófasta var gefin út 10. júní 1746. Þar segir í upphafi, að núverandi amtmaður hafi áður fengið fyrirmæli um að setja án tafar hæfan prest sem officialis eða stiftsprófast til þess að gegna biskupsembætti, ef superintendent (biskup) í Skálholts- eða Hólastifti dæi eða léti af embætti.8Lovsamling for Island II, bls. 633–636; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 578–581 (íslensk þýðing). (Sjá stiftsprófastur í Orðabelg Þjóðskjalasafns Íslands.) Titillinn officialis var þó notaður áfram frekar en stiftsprófastur, a.m.k. fyrst um sinn, en hvarf síðan úr sögunni. Mun hafa farið eftir því, hver hélt á penna.
Skálholtsbiskupsdæmi
Eftir lát Gissurar Einarssonar árið 1548 var Marteinn Einarsson kjörinn biskup og setti séra Árna Arnórsson í Hítardal sem officialis Skálholtskirkju.9Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti I. Reykjavík 1903–1910, bls. 84–85. Marteinn sigldi utan á árunum 1554–1555, en ekki sést hver var officialis í fjarveru hans.10Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 106–107.
Marteinn Einarsson sagði af sér biskupsembætti 1556 og í staðinn var kjörinn Gísli Jónsson, prestur í Vatnsfirði, sem tók við Skálholtsstað um haustið en sigldi árið 1557 og setti Snorra Hjálmsson í Holti undir Eyjafjöllum sem officialis.11Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 110–112, 119–120.
Gísli Jónsson lést 1587. Þá varð Erasmus Villaðsson, prestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð, officialis og afhenti Skálholtsstað Oddi Einarssyni biskupi árið 1589.12Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 156.
Oddur Einarsson lést 28. desember 1630 og var Gísli sonur hans kjörinn biskup sumarið 1631 og Oddur Stefánsson, prestur í Gaulverjabæ, settur officialis meðan á utanför Gísla stóð.13Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 201–202.
Gísli Oddsson lést sumarið 1638 og varð Sigurður Oddsson, bróðir hans og prestur í Stafholti, officialis.14Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 220–221. Brynjólfur Sveinsson var kjörinn biskup árið 1638 við greftrun Gísla Oddssonar. Þórður Þorláksson kom til landsins 1672 sem varabiskup og með vonarbréf fyrir Skálholtsstifti. Afhenti Brynjólfur Þórði stað og biskupsembætti árið 1674.15Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 299–301.
Þórður Þorláksson fékk vonarbréf fyrir Skálholtsbiskupsdæmi árið 1669, staðfest árið eftir og var vígður árið 1671, en tók við embættinu 1674. Árið 1694 lagðist Þórður veikur og Björn Þorleifsson, prestur í Odda, sem hafði verið vígður varabiskup, hélt prestastefnur og vígði presta. Björn hafði einnig haldið prestastefnu árið 1691. Jón Vídalín, prestur í Görðum á Álftanesi, var settur officialis stuttu fyrir lát Þórðar árið 1697 16Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 310–311, 331, 339–340, 350.
Jón Vídalín sigldi til Kaupmannahafnar um alþing 1697 með fyrsta skipi, fékk embættisbréf í árslok og var vígður vorið 1698. Á meðan var Árni Þorvarðsson, prófastur í Árnesþingi, officialis og vísiteraði Austfirði um sumarið.17Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 350–352.
Eftir lát Jóns Vídalíns árið 1720 skipaði Niels Fuhrmann amtmaður Jón Halldórsson, prest í Hítardal, officialis Skálholtsbiskupsdæmis og stóð svo í tvö ár.18Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 372–373, 379–380.
Jón Árnason varð biskup í Skálholti 1722 en lést árið 1743. Finnur Jónsson, prestur í Reykholti, var settur officialis 18. febrúar 1743 og gegndi því embætti löngum til ársins 1747, þegar Ólafur Gíslason biskup kom úr vígsluför.19ÞÍ. Amtm. I. A/8, bls. 31–33. Bréfabók amtmanns 1742–1748; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II, bls. 10–11. Ludvig Harboe var með biskupsvald í Skálholtsbiskupsdæmi árin 1743–1745, sat þar 1744–1745. Hefur Finnur væntanlega jafnan sinnt officialisembættinu á þessum tíma, nema frá sumri 1744 og fram á sumar 1745. Því má bæta við, að Johan Christian Pingel amtmaður skipaði Finn Jónsson officialis forseta konsistoríalréttarins (synodal-/prestastefnuréttarins), og þá með amtmanni, í fjarveru Harboes 12. júlí 1745.20 ÞÍ. Amtm. I. A/8, bls. 124.
Hólabiskupar
Sigurður Jónsson, prestur á Grenjaðarstað og sonur Jóns Arasonar biskups, gegndi biskupsstörfum í Hólabiskupsdæmi eftir lát föður síns, 7. nóvember 1549, og til ársins 1552, þegar Ólafur Hjaltason biskup tók við staðnum.21Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinna á Íslandi I–IV. Reykjavík 1919–1926. I, bls. 123; II, bls. 488–490.
Ólafur Hjaltason var skipaður biskup á Hólum 1552 en lést snemma árs 1569. Sigurður Jónsson, prestur á Grenjaðarstað, var um vorið tekinn til officialis af lærðum og leikum.22Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 25–26.
Guðbrandur Þorláksson tók við Hólabiskupsdæmi árið 1571, dó 1627. Missti heilsuna árið 1624 og 2. júlí sama ár gerði Holger Rosenkrantz höfuðsmaður Arngrím Jónsson, prest á Melstað, að officialis. Arngrímur hafði þá verið aðstoðarmaður Guðbrands í biskupsstarfi. Þorlákur Skúlason biskup kom frá vígslu árið 1628.23Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 33, 60–61, 75–77, 82.
Þorlákur Skúlason biskup andaðist í ársbyrjun 1656 og Gísli Þorláksson, sonur hans, var kosinn til biskups sama ár. Kom frá vígslu árið eftir. Að sögn Seyluannáls var Hallgrímur Jónsson, prófastur í Hegranesþingi, kosinn officialis við biskupskjör Gísla.24Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 103, 109; Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 309.
Gísli Þorláksson lést sumarið 1684. Jón Vigfússon (Bauka-Jón), fyrr sýslumaður, hafði árið 1674 fengið konungsbréf fyrir því að vera varabiskup á Hólum og biskup eftir lát Gísla. Tók Jón við Hólastað árið 1685.25Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 121, 128–130.
Jón Vigfússon dó árið 1690. Enginn varð officialis í Hólabiskupsdæmi, en Christian Müller amtmaður setti nokkur mál úr Hólastifti fyrir aðalprestastefnu í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1691.26Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 139–140. Í Mælifellsannál segir við árið 1690: „Var enginn officialis þetta ár, þó óskað væri; átti hver prófastur að skipa í sýslu sinni.“27Annálar 1400–1800 I, bls. 573.
Einar Þorsteinsson, prestur í Múla í Aðaldal, kom frá biskupsvígslu árið 1692. Hann lést síðla árs 1696. Björn Þorleifsson, prestur í Odda, hafði verið vígður sem varabiskup í Hólastifti árið 1692 en skyldi verða fullkominn biskup í því biskupsdæmi, sem fyrr yrði laust. Björn tók við Hólastað vorið 1697.28Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 150–151, 156–157.
Björn Þorleifsson biskup lést vorið 1710 og var þá enginn settur officialis.29Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 164–165. Raunar er Þorleifur Skaftason, þá kirkjuprestur á Hólum og prófastur í Húnaþingi, sagður hafa verið officialis eftir Björn.30Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V, bls. 186–187.
Steinn Jónsson, prestur á Staðarstað, kom frá biskupsvígslu árið 1711. Tók við Hólastað árið eftir.31Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 167–168. Þorleifur Skaftason var honum til aðstoðar á síðari árum.32Þjóðskjalasafn Íslands:Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 65-1, bls. 46. Eftir lát Steins biskups árið 1740 gerði Joachim Lafrentz amtmaður Þorleif Skaftason, prest í Múla í Aðaldal, að officialis 26. júlí 1740.33ÞÍ. Amtm. I. A/7, bls. 444–445. Bréfabók amtmanns 1736–1742. Ludvig Harboe var biskup á Hólum 1741–1745. Johan Christian Pingel amtmaður skipaði Þorleif stiftsprófast 19. júlí 1745.34Þjóðskjalasafn Íslands: Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 65-1, bls. 48–49. Finnst ekki í bréfabók amtmanns, ÞÍ. Amtm. I. A/8. Var Þorleifur officialis fram á sumar 1746, þegar Halldór Brynjólfsson biskup kom að Hólastól.
Skjöl, frá hendi þessara officialesa, eru fá í Biskupsskjalasafni í Þjóðskjalasafni. Bréf til þeirra geta leynst þar, en fyrst og fremst er að nefna bréfabók Finns Jónssonar officialis í Skálholtsbiskupsdæmi frá árunum 1743–1747. Eitthvað er af skjölum frá stiftspróföstum, sem í skrám eru nefndir officiales, í skjalasöfnum biskupa.
(Heimildir: Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, Reykjavík 2015, bls. 379–380, officialis. Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 140–14. Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti I–II. Reykjavík 1903–1915. Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 82.)
Þess eru dæmi, að prófastar vísiteruðu í biskupsdæmum í forföllum biskupa, enginn þeirra kallaðist officialis nema Árni Þorvarðarson, sem vísiteraði Austfirði árið 1697, meðan Jón Vídalín var í vígsluför, eins og áður hefur verið nefnt. Þorsteinn Gunnarsson, prófastur í Árnesþingi, vísiteraði í Skálholtsbiskupsdæmi á árunum 1688–1690 í umboði Þórðar Þorlákssonar biskups. Umboðs- og erindisbréf Þorsteins frá 2. september 1688 eru til. Biskup hafði lagt af stað í visitasíuferð og skoðað fáeinar kirkjur en veiktist alvarlega.35ÞÍ. Bps. A. IV. 3. Bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar 1684–1688, bls. 559–562.. Jón Vídalín, þá kirkjuprestur í Skálholti, vísiteraði Þórsnesþing árið 1695 í umboði Þórðar Þorlákssonar.36Skrár Þjóðskjalasafns — III Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 91–92. Björn Magnússon, prófastur í Húnaþingi, vísiteraði prófastsdæmi sitt árið 1737 eftir umboði Steins Jónssonar Hólabiskups frá 19. ágúst sama ár.37 Biskupsskjalasafn, bls. 109; .ÞÍ. Bps. B. V. Bréfabók Steins biskups Jónssonar 1731–1739, bl. 36r–v.
Tilvísanir
↑1 | Einar Laxness og Pétur Hrafn Árnason, Íslandssaga A–Ö, Reykjavík 2015, bls. 379–380. |
---|---|
↑2 | Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja. Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 140–141. |
↑3 | Magnús Stefánsson, Frá goðakirkju til biskupskirkju, Saga Íslands III. Reykjavík 1978, bls. 163–164. |
↑4 | Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar. Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 82. |
↑5 | Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 352–354. |
↑6 | Íslenzkt fornbréfasafn XIV, bls. 285–288. |
↑7 | Íslenzkt fornbréfasafn XII, bls. 333–335. |
↑8 | Lovsamling for Island II, bls. 633–636; Alþingisbækur Íslands XIII, bls. 578–581 (íslensk þýðing). |
↑9 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. Með viðbæti I. Reykjavík 1903–1910, bls. 84–85. |
↑10 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 106–107. |
↑11 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 110–112, 119–120. |
↑12 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 156. |
↑13 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 201–202. |
↑14 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 220–221. |
↑15 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 299–301. |
↑16 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 310–311, 331, 339–340, 350. |
↑17 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 350–352. |
↑18 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I, bls. 372–373, 379–380. |
↑19 | ÞÍ. Amtm. I. A/8, bls. 31–33. Bréfabók amtmanns 1742–1748; Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár II, bls. 10–11. |
↑20 | ÞÍ. Amtm. I. A/8, bls. 124 |
↑21 | Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinna á Íslandi I–IV. Reykjavík 1919–1926. I, bls. 123; II, bls. 488–490. |
↑22 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 25–26. |
↑23 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 33, 60–61, 75–77, 82. |
↑24 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 103, 109; Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 309. |
↑25 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 121, 128–130. |
↑26 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 139–140. |
↑27 | Annálar 1400–1800 I, bls. 573. |
↑28 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 150–151, 156–157. |
↑29 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 164–165. |
↑30 | Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V, bls. 186–187. |
↑31 | Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal II, bls. 167–168. |
↑32 | Þjóðskjalasafn Íslands:Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 65-1, bls. 46. |
↑33 | ÞÍ. Amtm. I. A/7, bls. 444–445. Bréfabók amtmanns 1736–1742. |
↑34 | Þjóðskjalasafn Íslands: Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna 65-1, bls. 48–49. Finnst ekki í bréfabók amtmanns, ÞÍ. Amtm. I. A/8. |
↑35 | ÞÍ. Bps. A. IV. 3. Bréfabók Þórðar biskups Þorlákssonar 1684–1688, bls. 559–562. |
↑36 | Skrár Þjóðskjalasafns — III Biskupsskjalasafn. Reykjavík 1956, bls. 91–92. |
↑37 | Biskupsskjalasafn, bls. 109; .ÞÍ. Bps. B. V. Bréfabók Steins biskups Jónssonar 1731–1739, bl. 36r–v. |