Lénsreikningur var reikningur lénsmanns yfir tekjur og útgjöld lénsins sem hann hélt.
Lénsreikningar eru þannig uppbyggðir að fyrst eru allir tekjuliðir konungs færðir bæði í peningum og fríðu. Síðan koma allir útgjaldaliðir eða það sem dróst frá tekjunum. Með öllum tekjuliðum er átt við að í reikningi fyrir afgjaldslén er afgjaldið, sakeyrir og festugjald fært til tekna en í útgjaldaliðnum eru greiðslurnar síðan færðar upp í afgjaldið. Í reikningsléni eru tekjurnar m.a. landskuld og leiga samkvæmt jarðabókinni af jörðum í Gullbringu- og Kjósarsýslu sem lágu undir Bessastaði og voru ekki burtfestar með lífsbréfi. Afgjaldið af klaustrum, sýslum og umboðsjörðum, skattar, tollar, tíundir, mannslán og húsmannstollur af bæjum í Gullbringusýslu, sakeyrir og festugjald, innistæða Bessastaða og Viðeyjar, peningar fyrir selda vöru, skipshlutir, skipsleigur auk sýslugjaldshlutir af skipum konungs á vertíðinni. Einnig listi yfir mannslán sem bændur í sveitinni urðu að inna af hendi, listi yfir lausamenn sem réru á bátum konungs og sýslugjaldsmenn. Í útgjaldaliðinn eru færð laun til fógetans og annars starfsfólks í léninu auk uppihalds þeirra, vörur og peningar til konungs eða lánadrottna hans, breyting á innistæðu Bessastaða, Viðeyjar og Arnarstapa og goldnir peningar vegna vörukaupa. Rétt er að undirstrika að reikningarnir voru reikningar konungs, tekjurnar voru hans og einnig útgjöldin.
Heimild
Kristjana Kristinsdóttir, Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Reykjavík 2021, bls. 85–87.
