Form fyrir aðalsamanburðarregistur í prestsþjónustubókum var eitt af því, sem sýnt var í fyrirmælum til biskups um færslu prestsþjónustubóka 11. desember 1812.1Lovsamling for Island VII, bls. 446-449 (sjá einkum bls 449). Biskup skýrði færslu aðalsamanburðarregisturs þannig í dreifibréfi til prófasta 23. mars 1815:
Í aðalsamburðar registrið innfærast nöfn allra fæddra, fermdra, samangefinna í hjónaband, innkominna, burtvikinna og dauðra, og gefur talan í dálkunum út frá nafninu ávísun um, hvar hvörn þeirra sér í lagi sé að finna.2ÞÍ. Bps. C. III, 8. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1814-1816, bls. 112-133 (sjá einkum bls. 119). Fyrirmynd að uppsetningu er á bls. 132-133.
Í upphafi var gert ráð fyrir, að aðalsamanburðarregistur væru færð í prestsþjónustubækurnar sjálfar og ætlaðir til þess 8/30 hlutar hverrar bókar (að frádregnu titilblaði, prestaævum og manntali). Er kom fram á fjórða áratug 19. aldar, fóru sumir prestar að nota sérstakar bækur fyrir samanburðarregistrin. Elst slíkra bóka er frá Melum í Melasveit, en hún hefst árið 1835.3ÞÍ. Kirknasafn. Melar í Melasveit BB/1. Aðalsamanburðarregistur 1835-1882.
Færsla aðalsamanburðarregistra gat verið með ýmsum hætti, t.d. a) aðalsamanburðarregistur fært fyrir hvert ár, og þá aa) eftir efnisflokkum (fæddir, fermdir o.s.frv.), bb) í þeirri tímaröð, sem skráð var í bókina, eða b) aðalsamanburðarregistur fært samkvæmt stafrófsröð. Þar var einnig um að ræða möguleika aa) eða bb).
Prestar voru mjög miseljusamir við færslu aðalsamanburðarregistra. Sumir færðu þau nákvæmlega, aðrir sum atriði (slepptu t.d. innkomnum – burtviknum), enn aðrir voru ónákvæmir í færslum og ýmsir slepptu þeim með öllu. Fór svo að lokum, að prestar gáfust upp við færslu aðalsamanburðarregistra. Síðasta sérstaka aðalsamanburðarregistrið endar árið 1905 (frá Skeggjastöðum á Langanesströnd),4ÞÍ. Kirknasafn. Skeggjastaðir á Langanesströnd BB/2. Aðalsamanburðarregistur 1840-1905. en sem liður í prestsþjónustubók finnst það síðast frá Brjánslæk á Barðaströnd árin 1897-1928, en þar tók séra Bjarni Símonarson upp færslu aðalsamanburðarregistra, þegar aðrir hættu.5ÞÍ. Kirknasafn. Brjánslækur á Barðaströnd BA/4. Prestsþjónustubók 1897-1936.
Lítið er um, að menn noti sér aðalsamanburðarregistur, t.d. í ættfræðiathugunum. Þó getur orðið styrkur að registrunum, þegar færslur í prestsþjónustubók eru torlesnar, bókin skemmd eða skert.
Tilvísanir
↑1 | Lovsamling for Island VII, bls. 446-449 (sjá einkum bls 449). |
---|---|
↑2 | ÞÍ. Bps. C. III, 8. Bréfabók biskups yfir Íslandi 1814-1816, bls. 112-133 (sjá einkum bls. 119). Fyrirmynd að uppsetningu er á bls. 132-133. |
↑3 | ÞÍ. Kirknasafn. Melar í Melasveit BB/1. Aðalsamanburðarregistur 1835-1882. |
↑4 | ÞÍ. Kirknasafn. Skeggjastaðir á Langanesströnd BB/2. Aðalsamanburðarregistur 1840-1905. |
↑5 | ÞÍ. Kirknasafn. Brjánslækur á Barðaströnd BA/4. Prestsþjónustubók 1897-1936. |