Ærulaun iðni og hygginda / Styrktarsjóður Christians konungs hins níunda í minningu þúsund ára hátíðar Íslands

Síðast breytt: 2023.06.20
Slóð:
  • Orðabelgur
  • Stjórnsýsla
  • Ærulaun iðni og hygginda / Styrktarsjóður Christians konungs hins níunda í minningu þúsund ára hátíðar Íslands
Áætlaður lestími: 2 mín

Konungsúrskurður um sláttu á heiðurspeningi fyrir verðuga íslenska karla („fortjente islandske mænd“) var gefinn út 28. febrúar 1829. Peningurinn var ætlaður til örvunar og umbununar Íslendingum, sem sköruðu fram úr í umbótum í sjávarútvegi, jarðrækt eða öðrum verklegum framförum. Hugmyndin var sögð komin frá stjórnvöldum á Íslandi og amtmenn nefndir sérstaklega. Þar sem slíkir verðlaunahafar töldust hugsa fyrst og fremst um eigin hag en aðeins óbeint um almannahag, þóttu venjuleg heiðursmerki (dannebrogsorða) ekki við hæfi. Kostnað við peninginn átti að greiða úr Jarðabókarsjóði.1Lovsamling IX, bls. 380–381. Úrskurður um áletrun á peninginn kom 25. desember 1832.2Lovsamling X, bls. 233–234. Árið eftir, 1833, fengu fjórir menn þennan pening (Kristján Guðmundsson í Vigur, Jón Halldórsson á Sellátrum í Tálknafirði, Sveinn Þorsteinsson á Öxnakeldu við Hellna og Þorsteinn Þorsteinsson á Ketilsstöðum í Mýrdal) en fimm æðri viðurkenningar (Friðrik Svendsen á Flateyri og Guðmundur Scheving í Flatey agentar,3Orðið agent táknaði m.a. verslunarstjóri en var í áðurnefndu sambandi notað sem titill: Konráð Gíslason, Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Kaupmannahöfn 1851, bls. 14. Jón Daníelsson í Stóruvogum, Ólafur Pétursson í Kalastaðakoti og Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti dannebrogsmenn) eftir tillögum rentukammers, sem hafði fengið ábendingar frá amtmönnum.4Lovsamling X, bls. 309–311. Nefna má, að árið 1840 fékk Guðni Guðmundsson, prestur á Ólafsvöllum, peninginn fyrir að hafa kostað brú á Brúará, komið á kálgörðum á öllum bæjum í sókninni og hvatt til notkunar á vefstólum og vinnslu vaðmáls sem söluvöru.5Lovsamling XI, bls. 669–670.

Búnaðarfélag Suðuramtsins mun stundum hafa stutt að því, að menn fengju þennan heiðurspening.6Þorkell Jóhannesson, Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Reykjavík 1937, bls. 131–132.

Kristján konungur IX. stofnaði í Íslandsför sinni árið 1874 heiðursgjafasjóð þann 10. ágúst. Upphæðin var 4.000 ríkisdalir og skyldi vöxtunum varið til tveggja árlegra heiðursgjafa handa þeim Íslendingum er í jarðyrkju, hestarækt, iðnaði, fiskiveiðum, sjóferðum eður verslun hafa sýnt hina mestu og merkilegustu framtakssemi til að auka og bæta atvinnuvegi þessa, sem eru svo áríðandi fyrir landið. Var landshöfðingja afhent féð og falið að gera tillögu að reglugerð fyrir sjóðinn.7Stjórnartíðindi 1874 B, bls. 2.

Skipulagsskrá „Styrktarsjóðs Christians konungs hins níunda í minningu þúsund ára hátíðar Íslands“ var staðfest 7. nóvember 1874. Landshöfðingi átti að veita heiðursgjafirnar samkvæmt bónarbréfum umsækjenda. Þeim áttu að fylgja vottorð tveggja manna með staðfestingu þess, sem fram kom í umsókninni, ásamt áliti sýslunefndar, sem sendi landshöfðingja umsóknina. Við veitingu átti að taka tillit þess, hvort aðgerðir umsækjenda hefðu stuðlað verulega að því að auka og bæta tiltekna atvinnuvegi landsins. Jafnframt átti að líta til þess, hvort hlutaðeigandi hefði bætt eigin hag, en slíkt hefði minni þýðingu. Talin eru upp dæmi um, hvað teldust verðugar athafnir samkvæmt áðurnefndum fyrirmælum konungs. Heiðursgjafirnar mátti ekki aðeins veita einstaklingum heldur einnig félögum. Skýrslu um úthlutanirnar og reikninga sjóðsins átti að birta í Stjórnartíðindum.8Stjórnartíðindi 1875 B, bls. 21–22. Sjóður þessi var enn til í árslok 2017.9https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2016-utdrattur-Yfirlit-sjalfseignarstofnana-og-sjoda.pdf, sótt 10. maí 2023.

Gera má ráð fyrir, að „ærulaun iðni og hygginda“ hafi lagst niður með tilurð þessa styrktarsjóðs, þótt bein fyrirmæli hafi ekki fundist enn.

Finna má fáein dæmi um veitingu „ærulauna iðni og hygginda“ í Lovsamling for Island og í Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands. Sennilega er helst að leita upplýsinga í skjalasöfnum rentukammers og Íslensku stjórnardeildarinnar, þá helst eftir uppflettiorðunum „Medallier“ eða „Præmier“ í bréfadagbókum, sem er þó ekki öruggt.

Gögn um „Styrktarsjóð Christians konungs hins níunda“ má t.d. finna í skjalasöfnum landshöfðingja (t.d. séröskjum sem Sjóður Kristjáns IX.) og II. skrifstofu Stjórnarráðsins og væntanlega í endurskoðunarskjölum og raunar víðar.

Í ritinu Búnaðarsamtök á Íslandi 150 ára, Reykjavík 1988, bls. 43, segir, að menn hafi fengið Ærulaunaheiðurspeninginn frá Landbúnaðarfélaginu danska (Det Kongelige Danske Landhusholdningsselskab) eftir konungsúrskurði og tillögur komið frá Búnaðarfélagi Suðuramtsins. Þetta mun byggt á flýtislestri á því, sem sagt er í áður tilvitnuðu riti Þorkels Jóhannessonar.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Lovsamling IX, bls. 380–381.
2 Lovsamling X, bls. 233–234.
3 Orðið agent táknaði m.a. verslunarstjóri en var í áðurnefndu sambandi notað sem titill: Konráð Gíslason, Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Kaupmannahöfn 1851, bls. 14.
4 Lovsamling X, bls. 309–311.
5 Lovsamling XI, bls. 669–670.
6 Þorkell Jóhannesson, Búnaðarsamtök á Íslandi 1837–1937. Reykjavík 1937, bls. 131–132.
7 Stjórnartíðindi 1874 B, bls. 2.
8 Stjórnartíðindi 1875 B, bls. 21–22.
9 https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2016-utdrattur-Yfirlit-sjalfseignarstofnana-og-sjoda.pdf, sótt 10. maí 2023.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 22