Aflausn

Síðast breytt: 2022.07.06
Áætlaður lestími: 2 mín

Aflausn var í raun syndafyrirgefning. Skriftir voru nauðsynlegur undirbúningur aflausnar og altarisgöngu. Um skriftir í kaþólskum sið segir meðal annars:

Skriftir var sú athöfn kölluð þegar maður játaði syndir sínar, opinberlega eða í einrúmi með presti og tók út refsingu sem var fólgin í yfirbótarverki. … En refsingar gátu verið harðar, föstur, ölmusugjafir, ævilangt skírlífi svo að nokkuð sé nefnt, og annað tækifæri gafst ekki. 1Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 31–32.
Skriftagangur tíðkaðist einnig í lútherskum sið. Líkt og kaþólskir álitu lútherskir skriftir vera nauðsynlegan undirbúning að altarisgöngunni. Þær voru náðarmeðal þar sem iðrandi syndara var predikað orðið einslega og hann veitti viðtöku aflausn eða syndafyrirgefningu af skriftaföðurnum. En við hlið syndajátningarinnar gerðu lútherskir próf í kristnum fræðum að meginatriði athafnarinnar. 2Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 172.
Lútherskir prestar áttu að prófa kristindómskunnáttu og taka við syndajátningu hvers skriftagöngumanns fyrir sig og veita honum síðan aflausn (uppgjöf synda). Á Íslandi munu hins vegar yfirleitt hafa fylgst að fjölskylda eða fólk af sameiginlegu heimili við skriftagöngur. 3Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 172. Aflausn að loknum slíkum einkaskriftum kallaðist heimulleg aflausn.
Opinberri aflausn er þannig lýst í kirkjuskipan Kristjáns III., að sá, sem fengi opinbera aflausn, skyldi hafa með sér nokkra af kunningjum sínum og vinum og koma á sunnudegi til sóknarprestsins og strax eftir prédikun fyrir háaltari opinbera iðrun sína fyrir almenningi. Þegar prestur hefði heyrt það, skyldi hann áminna söfnuðinn um að biðja fyrir syndaranum, hugga hann með helgu guðspjalli og afleysa síðan. Slíka aflausn skyldu fá manndráparar, sem sæst hefðu við aðstandendur hins látna (þá, sem mæla áttu eftir hann) og gert skil við þá og valdstjórnina. Sama átti við þá, sem mök hefðu átt við sér of skyldar eða venslaðar konur, og þá, sem með opinberum glæp hefðu hneykslað heilaga kirkju. 4Íslenskt fornbréfasafn X, bls. 140–141, 196.Loftur Guttormsson segir um opinbera aflausn, að hún gegndi sérstaklega mikilvægu hlutverki í siðferðislegu og pólitísku eftirliti, sem fólgið var í kirkjuaganum. Hver sá, sem varð uppvís að broti á lögum og reglum samfélagsins, átti að ganga undir opinberar skriftir. Honum skyldi vísað frá altarissakramenti, þ.e. settur út af sakramenti. Síðan lagði valdstjórnin á hann refsingar og fjársektir. Þá skyldi sóknarprestur gefa þeim synduga áminningar um yfirbót og betrun þrisvar í röð, síðast við messu. Bætti hinn seki ráð sitt, skyldi hann leita til fulltrúa valdstjórnarinnar og fá bréf um, að hann væri laus mála. Þá loks, að því tilskyldu, að hann sýndi einlæga iðrun, mátti brotamaðurinn taka opinbera aflausn og hljóta altarissakramenti. 5Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 173.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II. Reykjavík 2000, bls. 31–32.
2 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, Kristni á Íslandi III. Reykjavík 2000, bls. 172.
3 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 172.
4 Íslenskt fornbréfasafn X, bls. 140–141, 196.
5 Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, bls. 173.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 0 af 0 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 93