Afsals- og veðmálabækur

Síðast breytt: 2021.05.26
Slóð:
Áætlaður lestími: 9 mín

Þegar kemur fram á 19. öld, verða afsals- og veðmálabækur grundvallarheimild um eignarhald á fasteignum á Íslandi (jörðum, lóðum og húsum) og síðar skipum. Þó komst það víða ekki í verulega gott horf fyrr en alllangt var liðið á 20. öldina, og þá væntanlega vegna þess að farið var fylgja betur eftir kröfum um eignarheimildir við kaup og sölu fasteigna og skipa og við veðsetningu. Hér á eftir verður drepið á ýmis atriði vegna kaup- og veðlýsinga og hvernig þau mál virðast hafa þróast á Íslandi.

Í Jónsbók segir um kaupbréf / afsalsbréf.

Öll þau skilorð sem menn gjöra í kvennagiftingum og svo ef menn kaupa jarðir, og fyrir hvert sex hundraða kaup eður meira, þá skal hvor tveggi gjöra bréf eftir kaupi sínu og skildaga, og nefna votta sína þá er við voru, stund og stað, og hafi fyrir lögmanns innsigli eður sýslumanns, eður nökkurra skilríkra manna er voru við kaup þeirra. En ef eigi fær innsigli, gjöri cirographum, [cirographum = oddaskurðarbréf eða bréf skrifað í tvíriti út frá miðju sama blaðs sem svo var skorið í sundur. Þegar bréfshlutarnir voru settir saman. mátti lesa textann] og beri það vitni kaupi þeirra ef eigi eru vottar til, hvort sem það dæmist fyrir lögmanni eður öðrum réttum dómara þess máls.“1Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 217.

Í eldri Alþingisbókum Íslands, eða fram undir lok 17. aldar, eru fá dæmi þess, að menn lýsi jarðakaupum eða sölum. Hins vegar lýsa menn alloft forkaupsrétti, veðum eða lögmálum á jörðum, en orðið „lögmáli“ merkir löglegur samningur og er stundum stytt í „máli“. Í atriðisorðaskrá tveggja fyrstu binda Alþingisbóka Íslands er orðið „lögmáli“ notað um forkaupsréttaryfirlýsingar, loforð um sölu eða veð, þó að orðið komi ekki endilega fyrir í texta bókanna, en þegar það kemur fyrir, mun það oftast merkja „forkaupsréttur“. Hér má sjá dæmi um slíkan lögmála:

Anno Domini 1578 lýsti Torfi Jónsson lögmála á alþingi í lögréttu lögmönnunum áheyrandi, að Björn Bjarnarson og sín kvinna Hólmfríður Snæbjarnardóttir lofuðu fyrrnefndum Torfa Jónssyni fyrstum að selja allar sínar jarðir, er hvort um sig átti, hvörja helst sem þau vildi selja, nær sem þau þyrftu eður vildu selja, fyrir svoddan verðaura, sem aðrir góðir menn við byði eður þeim sjálfum um semdi ellegar svo sem góðum mönnum þætti verðar vera.2Alþingisbækur Íslands I, bls. 353.

Þegar kemur fram undir miðjan tíunda tug 17. aldar, fjölgar mjög kaupbréfalestri á alþingi. Árið 1694 létu lögmennirnir Magnús Jónsson og Laurits Gottrup lesa upp kaup- og veðbréf í lögréttu.3Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 448-449, 450-451. Árið eftir birti amtmaður þingfararbálk (þingsköp) á alþingi. Í 6. grein var þeim mönnum boðið að gefa sig fram að enduðum dómum, sem hefðu eitthvað að birta í lögréttunni, svo sem um vogrek, kaupbréf og annað, sem í lögréttu bæri að lesa upp eða árita.4Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 495.

Sennilega er kveikjuna að slíkum skjalalestri að finna í lögbókarundirbúningi lögmannanna Sigurðar Björnssonar og Magnúsar Jónssonar á síðustu áratugum 17. aldar. Í afriti af uppkasti þeirra, dagsettu 15. ágúst 1689, er svohljóðandi 13. grein í 3. kafla, sem sögð er tekin orðrétt eftir Norsku lögum Kristjáns V:5Norsku lög eru norsk lögbók frá árinu 1687, byggð á Dönsku lögum frá 1683. Beita átti réttarfarsreglum Norsku laga á Íslandi samkvæmt konungsskipun frá 1718, en lögbókin var aldrei formlega lögtekin hér.

Á þingum skulu fyrst lesast þær konglegar skikkanir og befalningar sem boðaðar verða að lesast skuli, þar næst kaupakontraktir og heimildarbréf, makaskipti, gjafagjörningar, pantabréf, arfaskiptakvitteringar og annað þvílíkt, og skulu þeir, sem til þings koma með svoddan bréf til að láta þau lesa og uppáskrifa yfirvaldið6Ofan línu er bætt við: rettens betiente. þar um aðvara áður þingið er sett7Neðanmáls kemur: advare rettens betiente förend retten settis. eður strax eftir það sett er, að þeir séu með svoddan bréf þar komnir svo þau þar verði á þessum degi lesin skýrt og skiljanlega og uppáskrifuð, þar eftir skulu kongsins sakir fyrst fyrir takast og síðan aðrar sem fyrir koma, án forsómunar.8ÞÍ. Skjalasafn kansellísins DK/4, örk 1, bls. 20-22.

Í 3. grein 8. kafla uppkastsins (“Um landsþingsskrifara”) segir:

Hvör helst önnur bréf, héraðsdómar, skilríki eða annað, hvörju nafni, sem heita kann, er í lögréttu fram kemur, þar auglýst og uppáskrifað og ei verður orðrétt í þá forsigluðu þingbók innfært, þá skal sérhvör, sem með svoddan bréf eða dokumenta fram kemur, strax skyldugur landsþingsskrifaranum rigtuga útskrift undir þeirra hendi, ef skrifandi eru, afhenda, sem hann skal í einnri vissri bók hjá sér forvara og eftir hann sérhvörjum landþingsskrifara fylgja, þeim til leiðréttingar og eftirréttingar sem slíkt viðkoma kann.9ÞÍ. Skjalasafn kansellísins DK/4, örk 1, bls. 61-62.

Í Norsku lögum Kristjáns V. er hins vegar talað um skrifara við réttinn og þá bæði við undir- og yfirréttinn.10Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 65.-66. dálkur, 8. kafli, 1. grein. Samkvæmt 4. grein, 8. kafla þeirra laga skyldu skrifarar við undir- og yfirréttina hafa bók:

hvar í öll panta-, afhendingar-, makaskipta-, gáfu- og maningsbréf [þ.e. veð-, afsals-, makaskipta- og gjafabréf og staðfesting á að sitja í skuldafangelsi á heimili sínu] og þess háttar skrifast, eftir að þau fyrir réttinum lesin eru, og bæði af dómaranum og skrifaranum uppáskrifuð orð fyrir orð skulu innfærast og sérhvörjum til eftirréttingar skrifleg útgefast.11Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 67.-68. dálkur.

Aldrei var lokið við endurskoðun íslenskra laga með hliðsjón af Norsku lögum Kristjáns V. en oft dæmt eftir þeim lögum.

Yfirlit yfir þinglýsingar má finna í listum aftan við þingmál hvers einstaks árs í Alþingisbókum Íslands. Þar birtist aðeins efnisútdráttur, en skjölin, ef þau hfa varðveist, er að finna í hinum varðveittu veðmálabókum alþingis.

Árið 1759 fékk stiftamtmaður konungleg fyrirmæli um innheimtu lögmannstolls. Um leið var ákveðið, að lögmenn skyldu fá greiddan hálfan ríkisdal fyrir hvert kaup-, veð- og gjafabréf, sem og annað (t.d. erfðaskrár og skuldaviðurkenningar), sem lesið væri og birt á alþingi.12Lovsamling for Island III, bls. 352-353.

Í kansellíbréfi til stiftamtmanns frá 13. desember 1766 segir, og mun haft eftir Sigurði Sigurðssyni (1718-1780) alþingisskrifara, að í 30 ár hafi það verið venja, að menn létu lesa veð-, makaskipta-, afsals- og gjafabréf sín á alþingi, samkvæmt ákvæðum Norsku laga um afsals- og veðmálabækur, en fallið að mestu leyti niður síðustu 5-6 ár. Var stiftamtmanni boðið að láta kynna alls staðar á Íslandi, að eignar- og veðbréf frá fyrri árum, sem ekki hefði verið þinglýst, svo og þau, sem síðan yrðu gerð, skyldi láta lesa, árita og færa til bókar í viðkomandi rétti.13Lovsamling for Island III, bls. 551-552. Þetta var kynnt á alþingi árið 1767 en miðað við þá, sem síðan 1760 hefðu eignast bréf, sem ekki hefðu verið lesin á alþingi. Þar skyldu þeir láta lesa, árita og bóka bréf sín.14Alþingisbækur Íslands XV, bls. 58.

Skilmálar um sölu Skálholtsjarða frá árinu 1785 kváðu á um lestur afsalsbréfanna á næsta manntalsþingi og á alþingi.15Lovsamling for Island V, bls. 161. Hins vegar voru engin slík ákvæði sett vegna sölu Hólastólsjarða árið 1802.16Lovsamling for Island VI, bls. 547-550.

Magnús Stephensen, þá lögmaður, auglýsti á alþingi árið 1793 ítrekun boðsins frá árinu 1766 um þinglestur skjala á alþingi. Sagði hann suma sýslumenn vanrækja að benda mönnum á þann þinglestur eða þeir teldu mönnum trú um, að þeir þyrftu þess ekki, þegar þeir hefðu greitt fyrir skjalalestur á manntalsþingum. Ágirntust lögmennirnir mjög þinglýsingagreiðslurnar og hótuðu að kæra trassaskapinn til yfirvalda og fara fram á, að skjöl, sem ekki væru send til alþingis innan tveggja ára frá útgáfu þeirra, yrðu álitin ógild. Var í auglýsingunni vitnað til úrskurðar frá 22. apríl 1790, sem útgefendur Lovsamling for Island segja engan úrskurð vera heldur tilkynningu, án gildis, og birta því ekki.17Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 131-132; Lovsamling for Island V, bls. 677-678.

Veðmálabækur alþingis eru til frá árunum 1739-1745, 1768-1800 og varðveittar í skjalasafni Öxarárþings / Alþingis í Þjóðskjalasafni Íslands.

Í tilskipun um Landsyfirréttinn á Íslandi 11. júlí 1800 segir í 12. grein, að auk dómsvalds skyldi rétturinn annast störf, sem lögmönnum hefðu verið falin, svo sem þinglýsingar afsals- og veðbréfa.18Lovsamling for Island VI, bls. 170.

Þinglýsingar afsals-, veð- og skuldabréfa fóru fram í Landsyfirrétti á árunum 1801-1833 en voru afnumdar með tilskipun 24. apríl 1833. Slíkt skyldi gert í hlutaðeigandi undirrétti.19Lovsamling for Island X, bls. 304-307, íslenskur texti. Skjalalestur hélt þó áfram í yfirrétti allt til ársins 1904, því að þar voru lesnar ýmsar auglýsingar og tilkynningar, m.a. um fyrirhugaðar stofnanir nýbýla og skuldainnkallanir. Veðmála- og auglýsingabækur Landsyfirréttar 1801-1904 eru varðveittar í skjalasafni réttarins í Þjóðskjalasafni Íslands.

Í skjalasöfnum nokkurra sýslumanna eru afrit af þinglýsingum úr Landsyfirrétti, stundum í sérstökum bókum en annars hlutar af veðmálabókum.

Ormur Daðason, sýslumaður í Dalasýslu 1727-1744, skráði skjöl, lesin á þingum, í sérstaka bók, sem nær yfir árin 1729-1736, en í hana vantar bæði framan og aftan af.20ÞÍ. Sýslumaðurinn í Dalasýslu GA/2, örk 3. Þarna eru m.a. kaupbréf og lögfestur en mikið ber á skjölum vegna skipta á dánarbúum. Magnús Ketilsson, sem var sýslumaður í Dalasýslu 1754-1803, las einnig upp skjöl á manntalsþingum eins og sjá má af þingbókum hans. Ekki hefur verið könnuð frammistaða annarra sýslumanna í þessu efni.

Í Þjóðskjalasafni eru ekki til eiginlegar afsals- og veðmálabækur sýslumanna, sem flokkaðar hafa verið sem slíkar, eldri en frá síðasta tug 18. aldar. Úr Árnessýslu er t.d. bók, sem hefst árið 1790 21ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu DB/1. og úr Dalasýslu bók, sem sögð er byrja árið 1792.22ÞÍ. Sýslumaðurinn í Dalasýslu DB/1. Vantar allnokkuð framan á Dalasýslubókina og auk þess eru þar eldri skjöl. Mætti ætla eftir rithöndum og útliti bókarinnar, að fyrsti hluti hennar, allt til 1800, sé uppskrift á samtíningi skjala, sem sum hafi verið lesin á manntalsþingum, önnur jafnvel lesin við kirkjur og önnur séu réttarheimildir, svo sem lögfestur, sem ekki verður séð, að hafi verið lesnar á þingum.

Ólafur Stefánsson, amtmaður í Vesturamti, fékk Oddi Vídalín, sýslumanni í Barðastrandarsýslu, erindisbréf 12. júní 1789, sem síðar var látið ná til allra sýslumanna. Skyldi hann halda afsals- og veðmálabók, þar sem einnig væru skráð makaskipti, skuldbindingar og gjafabréf, sem lögð væru fyrir réttinn samkvæmt lögum. Útskrifaðar bækur skyldi afhenda amtinu til varðveislu.23Lovsamling for Island V, bls. 628-629. Amtmaður gaf einnig fyrirmæli um meðferð embættiskjala.24Lovsamling for Island V, bls. 626.

Stefán Þórarinsson amtmaður í Norður- og Austuramti fór fram á það við rentukammer árið 1793, að tilskipun frá 7. febrúar 1738 um fyrirkomulag veðmálabóka yrði látin gilda á Íslandi.25Lovsamling for Island VI, bls. 146-147. Kansellíið tilkynnti stiftamtmanni og amtmönnum 10. janúar 1795, að engar breytingar yrðu gerðar. Stiftamtmaður hefði sagt, að tilskipunin frá 1738 hentaði ekki að öllu leyti og auk þess væri hennar ekki þörf, þar sem öllum sýslumönnum væri í erindisbréfi (fyrrnefnt erindisbréf Odds Vídalín) boðið að halda veðmálabækur.26Lovsamling for Island VI, bls. 199-200.

Varðveisla afsals- og veðmálabóka sýslumanna frá fyrri hluta 19. aldar verður að teljast heldur slæm.

Árið 1810 var gefin út tilskipun um greiðslu hálfs prósents skatts af fasteignum, þegar þær gengju kaupum og sölum, við gjafir eða erfðir. Sömuleiðis við makaskipti, þegar annar aðilinn greiddi einhverja upphæð vegna skiptanna eða tæki á sig eitthvert árlegt gjald. Sama gat gilt um festubréf og erfðafestu, svo og um höfuðstól, skip og lausafé, þegar það gekk að erfðum eða við gjöf.27Lovsamling for Island VII, bls. 349-357.

Aukatekjureglugerð fyrir réttarins þjóna á Íslandi var birt árið 1830.28Lovsamling for Island X, bls. 571-592, íslenskur texti. Áður höfðu ekki verið til fastar og almennar reglur um greiðslu fyrir réttaraðgerðir. III. kafli nefnist: „Um borgun fyrir þær embættisaðgjörðir sem viðvíkja sýslunum við pantabækur [þ.e. veðmálabækur] og þinglýsingar“29Lovsamling for Island X, bls. 576-578, íslenskur texti. Þar er ákvæði um, að réttarins þjónn skuli líta eftir því, hvort sá, sem gefur út heimildarskjal (afsal) eða veðbréf, hafi heimild fyrir fasteign, sem hann ráðstafar.

Árið 1833, 24. apríl, var gefin út tilskipun um afsalsbréf og pantsetningar á Íslandi og afnumin ákvæði um lestur slíkra skjala í Landsyfirrétti eins og áður hefur verið nefnt. Þinglýsingar vegna fasteigna áttu að vera í því þingi, þar sem eignin lá. (Þ.e. fara fram á þeim þingstað, sem ábúandi var skyldugur að sækja). Veðbréf vegna lausafjár átti að lesa á varnarþingi þess, sem veðsetti. Í Reykjavík skyldu slík skjöl lesin á vikulegu bæjarþingi en annars staðar á árlegu manntalsþingi í þingsókninni, sem eignin tilheyrði.30Lovsamling for Island X, bls. 304-307, íslenskur texti. Nánari reglur voru birtar í opnu bréfi 28. apríl 1841.31Lovsamling for Island XII, bls. 93-94, íslenskur texti.

Kansellíið sendi amtmönnum dreifibréf 19. nóvember 1839 og bauð þeim að brýna fyrir embættismönnum í ömtunum að varðveita sem best veðbækurnar sem og önnur embættisskjöl, og væri forgangsatriði að bjarga þeim í eldsvoðum. Með tilliti til þess ættu embættismennirnir að vera byrgir af hæfilegum mörgum, sterkum pokum.32Lovsamling for Island XI, bls. 410-411.

Lög um veð í skipum voru staðfest 16. nóvember 1907.33Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 128-131.

Í afsals- og veðmálabækur voru færð skjöl, sem lesin voru á manntalsþingum (bæjarþingum í kaupstöðum) á 19. og 20. öld, þ.e. þau þinglesin eða þeim þinglýst. Í þingbækurnar voru færðar stuttar upplýsingar um hvert skjal og greint frá þinglestrinum. Skjalið var síðan fært inn í afsals- og veðmálabók (afritað). En eigandi skjalsins hélt frumritinu.

Skjölin voru: Afsöl (og kaupa-, skipta- og gjafagerningar), kaupmálar, erfðaskrár og erfðasamningar og samningar um arf, sem vörðuðu fasteign, skip o.s.frv., umboð, veðskuldabréf, tryggingabréf með víxli o.s.frv. með veði í fasteign o.fl. (þar með talin bifreið), veðleyfi, byggingavottorð, skipasmíðaskírteini (bílbréf) og hvers konar skjöl um eignarheimildir, veðbönd, ítök og önnur höft á fasteign o.s.frv., þar með talin skjöl varðandi lausafé, svonefnd allsherjarveð í afurðum landbúnaðar, sjávarútvegs, fiskvinnslu o.fl. Aflýsing fór þannig fram, að strikað var í kross (gjarnan með litblýanti) yfir skjal í afsals- og veðmálabók gegn framvísun greiðsluvottorðs á frumskjali eða gegn framvísun nýs afsals o.s.frv. og skráning í registrið með viðkomandi þinglýsingarbók (fasteigna-, skipa-, bifreiða- eða lausafjárbók) afmáð með striki yfir viðkomandi línu og ný bókun sett í staðinn (t.d. nýtt afsal eða veð). Síðar var strikað lóðrétt yfir skjalið.34Pétur Gautur Kristjánsson: Sýslumannaspeki. Handrit í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands.

Í lögum um þinglýsingu skjala og aflýsing nr. 30/1928, 7. maí, eru ákvæði um að afhenda skyldi skjöl til þinglýsingar í tvíriti, frumriti og eftirriti, og a.m.k annað skjalið skyldi vera á pappír löggiltum af dómsmálaráðuneyti. Gert var ráð fyrir, að frumriti væri skilað aftur, en tekið fram, hvernig varðveita skyldi samrit þinglýsingarskjala, sem ekki væru afhent þeim, sem þinglýsingar beiddist, og eftirritin meðal embættisskjala dómarans, sem annaðist þinglýsinguna. Einnig skyldi halda viðeigandi skrár, þar sem hverri fasteign í lögsagnarumdæminu og hverju skipi, 5 smálestir eða stærra, væri ætlað a.m.k. eitt blað. Jafnóðum og skjöl væru afhent til þinglýsingar, skyldi geta þess skjals á blaði fasteignar eða skips, í réttri röð eftir afhendingu. Ennfremur skyldi halda skrár eftir stafrófsröð og geta þar skjala, sem ekki snertu fasteign eða skip. Fyrsti stafur í nafni útgefanda skjalsins segði til um skráninguna. [Þessar skrár hafa gengið undir nafninu veðmálaregistur og eru lykill að afsals- og veðmálabókum].35Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 82-85. Sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu 20. öld hélt stundum á sérstakar skrár yfir skjöl, sem lesin voru á manntalsþingum í hverjum hreppi fyrir sig.36ÞÍ. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu DA/26-28. Ekki hefur verið kannað, hvort aðrir sýslumenn hafi gert slíkt hið sama.

Nú (2021) eru í gildi þinglýsingalög nr. 39/1978.37https://www.althingi.is/lagas/150b/1978039.html

Menn voru löngum tómlátir um þinglýsingar, létu nægja að hafa bréfin í höndum. Sést það greinilega af veðmálaregistrum fasteigna. Þar geta verið miklar eyður í eignarhaldssögur. Ekki er ósennilegt, menn hafi horft í kostnaðinn. Má nefna sem dæmi, að ekki var þinglesið afsal fyrir Geitafelli í Reykjahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, þegar Kirkjujarðasjóður seldi jörðina árið 1916, en þinglýst skuldabréfi.38Kirkjueignir á Íslandi 1597-1984 I, bls. 48. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004, bls. 217.
2 Alþingisbækur Íslands I, bls. 353.
3 Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 448-449, 450-451.
4 Alþingisbækur Íslands VIII, bls. 495.
5 Norsku lög eru norsk lögbók frá árinu 1687, byggð á Dönsku lögum frá 1683. Beita átti réttarfarsreglum Norsku laga á Íslandi samkvæmt konungsskipun frá 1718, en lögbókin var aldrei formlega lögtekin hér.
6 Ofan línu er bætt við: rettens betiente.
7 Neðanmáls kemur: advare rettens betiente förend retten settis.
8 ÞÍ. Skjalasafn kansellísins DK/4, örk 1, bls. 20-22.
9 ÞÍ. Skjalasafn kansellísins DK/4, örk 1, bls. 61-62.
10 Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 65.-66. dálkur, 8. kafli, 1. grein.
11 Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð. Hrappsey 1779, 67.-68. dálkur.
12 Lovsamling for Island III, bls. 352-353.
13 Lovsamling for Island III, bls. 551-552.
14 Alþingisbækur Íslands XV, bls. 58.
15 Lovsamling for Island V, bls. 161.
16 Lovsamling for Island VI, bls. 547-550.
17 Alþingisbækur Íslands XVII, bls. 131-132; Lovsamling for Island V, bls. 677-678.
18 Lovsamling for Island VI, bls. 170.
19 Lovsamling for Island X, bls. 304-307, íslenskur texti.
20 ÞÍ. Sýslumaðurinn í Dalasýslu GA/2, örk 3.
21 ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu DB/1.
22 ÞÍ. Sýslumaðurinn í Dalasýslu DB/1.
23 Lovsamling for Island V, bls. 628-629.
24 Lovsamling for Island V, bls. 626.
25 Lovsamling for Island VI, bls. 146-147.
26 Lovsamling for Island VI, bls. 199-200.
27 Lovsamling for Island VII, bls. 349-357.
28 Lovsamling for Island X, bls. 571-592, íslenskur texti.
29 Lovsamling for Island X, bls. 576-578, íslenskur texti.
30 Lovsamling for Island X, bls. 304-307, íslenskur texti.
31 Lovsamling for Island XII, bls. 93-94, íslenskur texti.
32 Lovsamling for Island XI, bls. 410-411.
33 Stjórnartíðindi 1907 A, bls. 128-131.
34 Pétur Gautur Kristjánsson: Sýslumannaspeki. Handrit í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands.
35 Stjórnartíðindi 1928 A, bls. 82-85.
36 ÞÍ. Sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu DA/26-28.
37 https://www.althingi.is/lagas/150b/1978039.html
38 Kirkjueignir á Íslandi 1597-1984 I, bls. 48. Handrit í Þjóðskjalasafni Íslands.
Var efnið gagnlegt?
Nei | 0 2 af 2 mátu greinina gagnlega.
Skoðað: 267